Miðvikudagur 20.03.2013 - 00:12 - 13 ummæli

Áhrif internetsins á byggingarlistina.

 

img_0495-768x1024

Fyrir um 50 árum voru það snjallir ljósmyndarar sem gerðu hús og arkitekta fræga og sígilda.

Nú er það internetið.

Ég sló upp einum af sterkustu arkitektum Evrópu  á árunum um 1970 á leitarvél Google. Ég stimplaði inn  arkitektinn og prófessorinn  á Konunglegu Akademíunni í Kaupmannahöfn inn á Google,: „Arkitekt Viggo Möller Jensen“ (1907-2003).

Hann kom upp aðeins 67 sinnum á leitarvélinni. Já aðeins 67 sinnum, enda starfaði hann fyrir netvæðinguna.

Viggo Möller Jensen var “trendmaker” varðandi skipulag og lága þétta byggð í Evrópu. Hann var tvímælalaust einnhöfunda hugmyndafræði „Vandkunsten” sem er vel þekkt á okkar dögum. Hann starfaði í hópum og vildi ekki vera stjarna. Hann nefndi stofu sína „Fællestegnestuen“ öfugt við samtímamenn hans sem nefdu stofurnar eftir sjálfum sér; Henning Larsen, Jörn Utzon, Jöregen Bo o.s.frv.

Margir framúrskarandi íslenskir arkitektar lærðu hjá Viggó. Ég nefni Knud Jeppesen, Guðrúnu Jónsdóttur, Stefán Jónsson, Stefán Örn Stefánsson, Halldór Guðmundsson og Finn Björgvinsson. Guðrún Ingvarsdóttir arkitekt nam undir handleiðslu sporgöngumanna Viggós, þeirra Vandkunstensmanna.

Þegar ég var á arkitektaskóla opnaði maður ekki tímarit öðruvísi en verka Viggós var getið. Skipti þá engu hvort um var að ræða Baumeister, Architektural Review, L´architecture d´au  jour d´hui, svo maður tali nú ekki um öll skandinavísku tímaritin.

Svo sló ég upp einhverjum minniháttar töppum í byggingarlistinni hér á landi sem starfað hafa um 5-6 ár  og þeirra var getið um 700 sinnum á leitarvél Google! Og það þrátt fyrir að áhrif þeirra séu nánast engin ef þau eru skoðuð í samhengi við Viggó. Þeir eru engir „trendmakers“ frekar virkir „trendfollowers“

Þetta sýnir hvernig kunnáttufólk um leitarvélar og markaðssetningar á netinu geta vakið á sér athygli. Kannski svipað og snillingar ljósmyndunar á fyrrihluta síðustu aldar. Og þrátt fyrir meðalmennsku í byggingarlistinni hef ég heyrt fólk mæra verk þessarra netverja. Jafnvel þannig að fólk trúir því að góður arkitektúr sé þarna á ferðinni.

Ég gerði það að gamni mínu að slá upp Carlos Scarpa (1906-1978) sem hafiði virkileg áhrif á sínum tíma. Hann er ekki sérlega áberandi á netinu þó svo að hann toppi íslensku ofurhugana.

Carlo Scarpa var fæddur í Feneyjum á Ítalíu og óst þar upp frá þrettán ára aldri þar sem hann stúderaði arkitektúr við Feneysku akademíuna fyrir hinar fögru listir. Hann hafði mikil áhrif á sínum tíma og sést þess glögg merki hjá Mario Botta og mörgum fleirum.

Hann bar sérstaka virðingu fyrir hinni sögulegu vídd eins og sjá má á einu helsta verki hans  Museo di Castelvecchio og víðar. ( sjá mynd efst í færslunni) En þar bætir hann hinu nýja við hið gamla án þess að láta handverk og hönnun gömlu mannanna hverfa. Hann lætur það sem fyrir er stjórna ferðinni eins og við ættum að gera í t.a.m. Vatnsmýrinni og miðborg Reykjavíkur.

Nálgun hans á erindi við nútímann þar sem menn hafa tilhneigingu til þess að rífa allt og byggja nýtt í stað þess að þyrma hinu gamla. Þ.e.a.s. að byggja við og endurnýja með nýbyggingum á forsendum þess gamla. Hinir svokölluðu uppbyggingarsinnar vilja rífa það gamla og byggja alveg nýtt í þess stað ef ég skil þá rétt.

Á síðari árum hefur landslagsarkitektúr Scarpa haft meiri áhrif en byggingalist hans. Garðar hans og útirými eru lofuð fyrir meðhöndlun hans á vatni, rýmum og gróðri. Hönnuðurinn Michael Sieger.(Siegerdesign) viðurkennir fúslega að hönnun hans á búnaði baðherbergja eigi rætur sínar að rekja til landslagslistar Carlo Scarpa.

Vonandi þarf maður ekki að óttast að helstu áhrifamenn byggingarlistarinnar gleymist þó þeir hafi ekki verið netvæddir á sínu blómaskeiði.

Myndin efst er af hluta Museo di Castelvecchio og næsta mynd fyrir neðan er fríhendistekning frá hendi Scarpa.

CARLO_SCARPA

Að neðan eru myndir af Brion kirkjugarðinum í San Vito dÁltivole

2835127232_b9b83524a6

36789033_a09fb6ecac

Að neðan eru tvær myndir af verkum hönnuðarins Michael Sieger.(Siegerdesign) sem viðurkennir fúslega að hönnun hans eigi rætur sínar að rekja til landslagslistar Carlo Scarpa.

dzn_Deque-by-Sieger-Design-for-Dornbracht_3

dzn_Deque-by-Sieger-Design-for-Dornbracht_1

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Samkvæmt könnunum hefur publicity á netinu sorglega lítil áhrif á commision arkitekta og hönnuða. Það hafa verið gerðar kannanir á meðal ungra arkitektastofa í evrópu sem sanna þetta. Þetta getið þið kynnt ykkur þessi málefni í bæklingum sem Wonderland gefur út:

    http://www.wonderland.cx/index.php?idcat=125.

    Að koma sér á framfæri er ekki auðvelt og sárafáum tekst það. Það er ekki heldur til nein trygging fyrir því að mestu talentarnir meiki það á endanum, heldur frekar þeir sem kunna communication og hafa réttu samböndin. Þetta hefur sjálfsagt alltaf verið svona. Gott dæmi um afburða stofu þegar kemur að því að miðla hönnun sinni rafrænt er danski arkitektinn Bjarke Ingels (BIG).

    Það er mikið umstang og vinna sem felst í því að koma sér á framfæri á netinu og í raun allt of mikil miðað við svörun (árangur). Þrátt fyrir þetta nota flestir arkitektar og hönnuðir gríðarlega mikinn tíma í að documenta verkefnin sín. Þetta er kannski vegna þess að það er það eina sem þú hefur í byrjun ferilsins.

    Zaha Hadid vakti athygli fyrir framúrskarandi grafík en fékk ekki fyrsta byggða verkefni fyrr en mörgum árum eftir að hún var orðin heimsfræg fyrir grafíkina sína. Það sem gleymist líka í þeirri sögu er að hún er komin af forríkum ættum sem hefur sjálfsagt ekki verið henni fjötur um fót.

    Það væri nær að líta á hversu erfitt það er fyrir óreynda hönnuði að fá raunveruleg verkefni. Allt of mikið af samkeppnum eru lokaðar (nær engin opin samk. í Noregi t.d.) og skilyrðin sem hönnuðir þurfa að uppfylla eru nánast ómögulegt að mæta nema að viðkomandi sé risastofa sem hefur byggt helling. Hvernig byggir þú helling án þess að byggja? Þetta eru veigamikil atriði og hefur meiri áhrif á byggingarlistina og fagið en við þorum að viðurkenna. Miklu meira en að birta flippaðar renderingar á feisbúkk, svo mikið er víst.

    Kannski mætti einbeita sér meira að því hvernig arkitektar gera frekar en hvað þeir gera. Arkitektar þurfa á svoleiðis umræðu á að halda. Sérstaklega ungir arkitektar. Stóru stofurnar ræða þetta sína á milli í félagsskap sem er þeim ekki opinn. Það er ekki næg eftirspurn eftir samstöðu í faginu vegna þess að við teljum okkur svo sérstök. Þetta er næstum því andlegt mein meðal arkitekta og hönnuða og oftast erum við sjálfum okkur verst.

    Ég vil meina að besta leiðin til að vekja á sér athygli er að byggja. Það er svoleiðis. Það fer engin stofa eða einstaklingur „að rúlla“ fyrr en fyrsta vel heppnaða verkefnið lítur dagsins ljós og til að byggja þarf að veita samkeppnisgrundvöll sem byggir á sanngirni.

    Takk fyrir pistilinn.

  • Bjarni Kristinsson

    gúgglaði Carlos Scarpa. Kemur alveg slatti af niðurstöðum. Hafðu engar áhyggjur Hilmar, þessir karlar eru geymdir en ekki (alveg) gleymdir.

  • Hildur Guðjónsdóttir

    Samkvæmt Steinarri og fl kunnáttumönnum eru þetta ekki áreiðanleg vísindi….. Þessi Google vinsældamæling.

    En Carlo Scarpa er fantagóður í sínum verkum. Gullkorn færslunnar er:

    „Hann bar sérstaka virðingu fyrir hinni sögulegu vídd eins og sjá má á einu helsta verki hans Museo di Castelvecchio og víðar. ( sjá mynd efst í færslunni) En þar bætir hann hinu nýja við hið gamla án þess að láta handverk og hönnun gömlu mannanna hverfa. Hann lætur það sem fyrir er stjórna ferðinni eins og við ættum að gera í t.a.m. Vatnsmýrinni og miðborg Reykjavíkur“.

    Þarna á hann mikið erindi til íslenskra arkitekta. Sjáið bara sjoppuþorpið í Borgarnesi. Það er skömm að því

  • Steinarr Kr.

    Google reynir að persónugera leitina út frá fyrri leitum. Prófið að leita sömu leitarorð í tölvum hjá kollega eða maka. Niðurstöðurnar verða aðrar.

  • Þorgeir Jónsson

    Andrea Palladio

    2,4 milljón vefsíður! og hann var uppi fyrir langa löngu. (1508-1580)
    Internetið hefur fækkað ferðum á bókasafnið og í bókabúðirnar. Tímaritin eru einnig að verða aðgengileg á netinu. Hins vegar er stærsta byltingin án efa leitin að byggingarefnum og lausnum á þeim, hins vegar tekur leitin ævinlega lengri tíma þegar internetið er notað vegna fjölda fyrirtækja sem eru með vefsíður. Arkitektastofunrnar íslensku eru flestar haldnar þeim leiða misskilningi að flott grafík og tæknilegir „fídusar“ eins og „animering“ selji stofurnar betur. Innihaldið er því oftast magurt. Annars er þessi vefur hjá Hilmari besta dæmið um vel heppnaða notkun á netinu. Fróðlegt og ómissandi…daglega helst.

  • Í ljósi síðustu færslu á undan þessari „Aukin landþörf í þéttbýli“ er gaman að gúggla „Sigurður Thoroddsen arkitekt“.

  • Hilmar Þór

    Þakka þér ábendingarnar og skýringarnar Halldór Berg.

    Ég prófaði aftur núna að slá upp „Arkitekt Viggo Möller Jensen“ og fékk þá 107 svör sem er mun meira en í gærkvöldi þó leitarorðin væru nákvæmlega þau sömu og innan ghæsalappa í bæði skiptin.

    Þannig að það eru líka ýmsir dutlungar í þessu öllu saman.

    En það er samt umhugsunarvert hvernig „cyperheimurinn“ flokkar og raðar fólki og hugmyndum. Sennilega þarf maður enn og aftur að minna sig á að magn er ekki það sama og gæði hér eins og víðast annarsstaðar.

  • Það getur verið villandi að skoða leitarniðurstöður úr Google, sérstaklega þegar leitað er eftir sérstökum frösum (innan gæsalappa) og á íslensku.

    Leitarmagnið eykst eftir því sem nær dregur í tíma. Google sýnir því alltaf mest af því sem hefur hvað mest verið í deilunni nýlega. Google gerir ekki heldur greinarmun á eðli efnisins. Hann finnur umfjallanir og greinar en líka athugasemdir og spjallþræði. Að líka því saman við tímaritsgreinar árið 1970 er ekki nema að hluta til rétt, mikið af því sem google fer í gegnum er miklu líkara kaffistofuspjalli en tímaritsgreinum.

    Veigamesti þátturinn er hins vegar líklega íslenskan. Árið 1970 höfðu menn mjög takmarkaðan aðgang að erlendum upplýsingum og reiddu sig mun meira á íslenska umfjöllun. Í dag er engin takmörk fyrir því hvað íslenskur almenningur les sér til um á öðrum tungumálum (og þá helstu ensku) og því ekki sama þörfin fyrir íslenska umfjöllun.

    Þannig að ef ég leita að “Arkitekt Viggo Möller Jensen” fæ ég 740 niðurstöður, án gæsalappa fæ ég 41900 niðurstöður, ef ég skrifa arkitekt á ensku fæ ég 215000 niðurstöður.

    Mest lýsandi niðurstöðurnar fást líklega með að leita að leitarstregnum: -„Viggo Möller Jensen“ AND (architect OR arkitekt)- en þá leitar hann bara að akkúrat þessu nafni og hunsar alla samnafna með því að taka bara greinar þar sem annaðhvort er minnst á að hann sé arkitekt eða architect. Þá eru niðurstöðurnar 14400 sem hlýtur að teljast býsna gott,

    Ef ég hins vegar leita bara á íslenska internetinu (nákvæmustu niðurstöðurnar fást með því að bæta við séríslensku smáorðum „og“ og „það“ sem koma fyrir í nánast öllum texta) fæ ég bara fjórar niðurstöður, tvær þeirrar eru úr þessari grein, ein þeirra er um Vandkunsten í Reykjavík og sú seinasta er af tímarit.is, grein frá 1963.

  • Einar Einarsson

    „Hannes Davíðsson arkitekt“ gaf 10 svör á Google!!

  • Pétur Örn Björnsson

    Hreint út sagt dásamlega hnyttin og jafnframt hittin setning:

    „Svo sló ég upp einhverjum minniháttar töppum í byggingarlistinni hér á landi sem starfað hafa um 5-6 ár og þeirra var getið um 700 sinnum á leitarvél Google! Og það þrátt fyrir að áhrif þeirra séu nánast engin ef þau eru skoðuð í samhengi við Viggó.“

    • Þessi setning sló mig líka. Enda vel við eigandi í nútímaþjóðfélagi þar sem umbúðir skipta meiru áli en innihald.

    • Örnólfur Hall

      Tek undir með kollega Pétri Erni og Hjörra.— Skoðum líka nöfnin hnausþykku og/eða ofurþungu arkitektúr’atlas’unum sem komu út á útrásartímum.— Einn af þeirra þarf reyndar tvo til að skoða (15 kg).

    • Örnólfur Hall

      Tek undir með kollega Pétri Erni og Hjörra.— Skoðum líka nöfnin í hnausþykku og/eða ofurþungu arkitektúr’atlas’unum sem komu út á útrásartíma.— Einn þeirra þarf reyndar tvo til að skoða (15 kg).

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn