Mánudagur 22.11.2010 - 13:59 - 4 ummæli

Áhrif Óperunnar í Sydney

 

Þann 13. maí árið 1787 hélt Arthur Phillip með 11 skipa flota sinn áleiðis til Ástralíu með 800 dæmda menn auk 200 kaupmanna og 450 menn úr sjóhernum. Rúmum átta mánuðum síðar sigldi hann inn í Botany Bay á austurströnd Ástralíu þar sem honum hafði verið ráðlagt að taka land. Phillip leist ekki á staðinn og sigldi spöl norðar þar sem hann kom að næsta vari sem var kallað Port Jackson.

Þar tók hann land á stað þar sem var að finna ferskvatnsá og eyju sem gengt var út í um eiði. Eyjuna notaði Phillip til þess að geyma búfénað.  Seinna var eyjan fasttengd meginlandinu og úr varð nes sem kallað er Bennelong Point eftir innfæddum þjóni leiðangursstjórans.

Svæðið var nefnt Sydney eftir greifa nokkrum með sama nafni. Á Bennelong Point var í byrjun nítjándu aldar byggt virki sem hét Fort Macquarie. Landmegin við Bennnelong Point var garður sem heitir Royal Botanic Garden. Árið 1902 var virkið lagt niður og í þess stað byggt einfalt skýli fyrir sporvagna. Þarna var ekki mikið skipalag en einhver hafnarbakki.

Þegar umræða um byggingu óperuhúss fór af stað þótti upplagt að reisa hana á lóð sporvagnanna sem stóð til að leggja niður. Lóðin var nálægt miðbænum í góðum tengslum við gatnakerfið og í góðum tengslum við sjóinn og Royal Botanic Garden.

Þetta er í stórum dráttum sagan um lóðina sem varð fyrir valinu fyrir Sydney Opera House.

Efrtirmálann þekkja flestir. Danski arkitektinn Jörn Utzon vann alþjóðlega samkeppni um bygginguna.

Opera Utzons er yfirburðabygging af mörgum ástæðum og er orðin helsta kennileiti heillar heimsálfu. Allir sem eitthvað vita um byggingarlist þekkja húsið. Staðsetning hennar á lóð sporvagna Sydneyborgar hefur orðið til þess að viðhorf margra til hafnarsvæða hefur breyst.

Það má leiða líkur að því, að ef niðurstaða samkeppni um Óperuna í Sydney hefði skilað af sér byggingu af meðalgæðum væri Harpa ekki að rísa á Austurbakkanum í Reykjavík, Óperunni í Kaupmannahöfn hefði líklega verið valinn annar staður og ekki er víst að Menningarhúsið á Akureyri hefði risið þar sem það nú stendur.

Höfnin var ekki ástæða fyrir staðarvali Óperunnar í Sydney enda eiga hafnir og óperuhús fátt sameiginlegt og enginn augljós ávinningur fyrir höfnina að fá óperuhús eða öfugt. Hinsvegar fólust viss arkitektónisk tækifæri í staðsetningunni sem Utzon hafði skilning á og hæfileika til að framkvæma. Óperunni í Sydney var fyrst og fremst valin staður á lóð sporvagna borgarinnar af skipulagslegum ástæðum.

Bennelong Point skömmu áður en tekið var til við að rífa skýli fyrir sporvagna borgarinnar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • á yfirlitssýningu á verkum Utzon sem haldin var fyrir mörgum árum í Louisiana kom fram að mig minnir að þakka megi Sarinen fyrir að tillaga Utzon var valin. Sarinen seinkaði eitthvað þegar hann var á leið til Ástralíu og þegar hann mætti höfðu þeir aðrir dómnefnarmeðlimir samkeppninar þegar komið tillögu Utzon í staflan yfir tillögur sem var hafnað. Það er einungis vegna þess að Sarinen vildi byrja á því að fara yfir bunkan af þeim tillögum sem þegar hafði verið hafnað að þessi bygging var reist. Þannig var þetta allavega útskýrt á sýningunni einhvern vegin.
    Utzon yfirgaf samt Sydney áður en byggingin var kláruð minnir að það hafi eitthvað haft með að gera að yfirvöld vildu eitthvað skera niður og breyta efnisvali.

  • örnólfur hall

    Að margra mati er óperuhúsið í Sydney einn allra glæsilegasti og magnaðasti arkitektúr síðari tíma. Afstaðan er að ýmsu leyti hliðstæð og við TR-Hörpu-húsið, við innsiglingu í höfn borgar.
    Arkitektinn ákvað að fara algerlega nýjar leiðir með þöndum seglboga-formum (líka kenndar við bátaform) og þannig að setja skýrt kennimark á sérstakan stað.
    Í þeim anda (nýrra leiða) hefði verið ánægjuefni að sjá, djarfa og yfirvegaða íslenska tillögu í samkeppninni um tónlistarhúsið við Höfnina. Tillögu (undir -áhrifum- andans frá Sidney) sem myndaði skýrt kennileiti og við hefðum séð formfagra íslenska útfærslu sem félli vel að staðnum og kallaðist á við umhverfið. – En þetta mátti alls ekki verða og enn einn ganginn fengum við hjálp, frá frændum okkar við Sundið, við að hanna „íslenska“ opinbera byggingu á menningarsviði. Stjórnvöld (skeytingarlaus; óvilhöll?) létu sitt ekki eftir liggja.

  • Thordur B.

    Utzon talar um ad i thessu husi se fimmta hlidin mikilvaegari en í odrum husum. Thad vaeri vegna stadsetningarinnar. Husid hefur nanast enga framhlid eda bakhlid. Vegna stadsetningarinnar eru allar hlidar jafn mikilvaegar. Og fimmta hlidin, thakid, er mjog aberandi fra brunni sed og i raun fra ollum hlidum. thetta er tvimaelalaust merkilegasta bygging sidustu aldar. Bydur nokkur betur?

  • Þorsteinn

    Þetta er skemmtileg frásögn sem skýrir af hverju þessi lóð var í boði fyrir þetta frábæra hús. Síðan óperan í Sydney var vígð hafa æ fleiri horft þangað í leit að fyrirmynd og kennileiti fyrir sinn stað. Óperan í Osló, Kaupmannahöfn og Harpan í Reykjavík eru allt nánast eftirhermur hvað staðsetningu varðar en ekkert þessara húsa eru með tærnar þar sem Utzon er með hælana. Manni dettur í hug setningin “Varist eftirlíkingar”. Það voru miklar umræður um staðsetningu Operu Henning Larsen í KBH og þar réð meira staðsetning við höfnina og á ás milli Marmarakirkjunnar og Amalienborg en faglegar skipulagslegar forsendur enda er húsið ekki í starfrænum tengslum við umhverfið. Hinsvegar er það í einhverjum arkitektóniskum tengslum við borgina. Og svo er það Harpa!!!!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn