Fimmtudagur 18.11.2010 - 09:53 - 5 ummæli

Reykjavíkurhöfn

 

Þegar ég var drengur var oft farið  niður á höfn. Höfnin var spennandi staður þar sem mikið var um að vera. Höfnin var helsta tenging við atvinnulífið og veröldina utan Íslands.

Á austurhöfninni var kolakraninn og hafskipahöfn með vörumóttöku. Vestar var bátabryggja, fiskiskipahöfn og slippurinn. Gengið var eftir eiði út í Örfirisey. Eimskipafélagshúsið var nánast á hafnarbakkanum og svo kom Hafnarstræti sem manni fannst ekki fínasta gata bæjarins með verkamannaskýli og litlum kaffistofum sem seldu verkamönnum og öðrum kaffi á brúsa.

Hafflöturinn var dökkur með smá olíubrák og mikið af fiski. Bæði kola og marhnút sem strákarnir veiddu í nokkru magni af bryggjunni.

Höfnin var full af lífi. Þarna voru skip af öllum stærðum og gerðum. Flutningaskip Eimskipa, Ríkisskipa og Sambandsins. Togarar og smábátar, varðskip og snekkjur. Vörur voru fluttar til landsins í lausu. Gámavæðingin var einhvers staðar í framtíðinni. Þarna voru verkamenn og sjómenn, vörubílar, leigubílar og dráttarvagnar.

Farþegaskipin voru þarna, Dronning Alexandrine og Gullfoss og ekki má gleyma stranferðaskipunum Esjunni, Heklu, Skjaldbreið og Herðubreið.  Farþegar að koma og fara út á land og til og frá útlöndum. Bæjarbúar gerðu sér erindi til þess að fylgjast með hverjir væru að fara í siglingu og hverjir væru að koma. Ekki man ég eftir portkonum eins og maður hafði heyrt að væru algengar á svona stöðum í útlöndum. En þarna voru samt bæði Hafnarfjarðar-Gullý og Vestmannaeyja-Anna.

Reykjavíkurhöfn var fiskiskipahöfn, farþegaskipahöfn, flutningahöfn, iðnaðarhöfn, höfn Landhelgisgæslunnar og skemmtiskipahöfn.

Það var líf við höfnina og þangað lögðu flestir leið sína til þess að upplifa það sem þar fór fram. Höfnin var nátengd miðborginni og var miðstöð og orkugjafi hennar. Höfnin var mikilvægt bakland og styrkti stöðu miðborgarinnar. Reykjavík naut einnig flugvallarins sem styrkti miðbæinn á sama hátt og járnbrautarstöðvar hafnarborga Evrópu.

Svona voru hafnir alls staðar um mest alla heimsbyggðina.

En svona er þetta ekki lengur. Með gámavæðingunni hentuðu gömlu hafnirnar ekki lengur til vöruflutninga og sú starfsemi var flutt annað.

Hafnarsvæðin tæmdust. Við það varð til landrými sem þurfti að finna nýtt hlutverk.

Reykjavíkurhöfn breyttist eins og aðrar hafnir. Eftir að Hafskip hætti rekstri dó Austurhöfnin. Hún varð lífvana geymslustaður fyrir óselda bíla. Við vissum ekki almennilega hvernig ætti að nota hana. Höfnin var í limbói milli lífs og dauða. Höfn er ekki höfn nema þar séu skip og bátar. Austurhöfn er að breytast úr höfn í “Waterfront”. Vildu borgarbúar það? Var þetta meðvituð ákvörðun eða tók atburðarásin völdin þarna í skipulagi Reykjavíkur eins og víða annars staðar?

Gullfoss býr sig til brottfarar

Smábátarnir í landlegu

Myndirnar eru fengnar af vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hafnarsprangari

    Depurð og sút fylla hugskot við
    ásjónu vábáknins ófríða – nú á náklæðum.

  • Hafnarlíf er ekki bara bátar og bryggjur! það þarf líka landrými fyrir starfsemina hvort sem það er atvinna, áhugamál eða íþrótt eins og t.d. skútusiglingar.

  • Þórður Benediktsson

    Falleg lýsing á höfn eins og við viljum hafa hana.
    Það er augljóst að leita þarf leiða til þess að Reykjavíkurhöfn tapi ekki sínum sjarma. Hér er stærsta fiskiskipahöfn landsins. Ræktum hana og styðjum skipaþjónustu á svæðinu. Ræktum fortíðina. Nostalgían er skemmtileg og nauðsynleg.

  • Kristján

    Fróðlegar og skemmtilegar hugleiðingar !

    Þegar ég skoða gamlar, yndislegar ljósmyndir af Kvosinni og höfninni, verð ég stundum dapur. Sérstaklega áberandi er hversu ljótt (bílastæða) svæðið er orðið, í grennd við Rammagerðina og Miðbakka.

  • Takk fyrir indæla nostalgíu. Ég sé fyrir mér lýsingar þínar og ég upplifi þær í huganum. Kannski er maður orðinn svona gamall, en lífið við höfnina um miðja síðustu öld var mikið og myndin af Gullfossi hér í pistli þínum og lífinu á bakkanum endurspeglar það sem ég er að segja.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn