Mánudagur 03.12.2012 - 16:42 - 28 ummæli

Ályktun arkitekta – Ný byggingarreglugerð

Arkitektafélagið hefur formlega skorað á stjórnvöld að fresta gildistöku nýrrar byggingarreglugerðar um óákveðinn tíma og sent ályktun þar að lútandi til stjórnvalda.

Arkitektafélagið telur margt í reglugerðinni þurfa á nánari skoðun að halda. Telur félagið að reglugerðin muni hafa í för með sér miklar kostnaðarhækkanir sem mun einkum bitna á ungu fólki og leiða til neikvæða áhrifa á lánastöðu almennings og m.fl.

Hér má lesa ályktunina í heild sinni.:

Að baki nýrri byggingareglugerð býr vilji til vistfræðilegra framfara og manneskjulegra samfélags. Arkitektafélag Íslands hefur ásamt Mannvirkjastofnun, Samtökum iðnaðarins og fleiri aðilum átt þátt í fundarherferð um landið þar sem ný byggingareglugerð hefur verið til umfjöllunar. Í ljós hefur komið að reglugerðin mun líklega hafa í för með sér miklar kostnaðarhækkanir. Það er áhyggjuefni, ekki síst þegar þjóðin er að rétta úr kútnum eftir fordæmalaust efnahagshrun. Allar hækkanir munu  óhjákvæmilegageraungu fólki og efnaminni erfitt um vik og auk þess leiða til neikvæðra áhrifa á lánastöðu almennings. Leiða má rök að því að þær miklu breytingar sem byggingareglugerðin hefur í för með sér muni jafnvel stuðla að minna jafnræði borgaranna í stað þess að auka það eins og stefnt er að.

Einsýnt er að margt í reglugerðinni þarfnast nánari skoðunar og undirbúnings. Arkitektafélag Íslands skorar á yfirvöld að fresta gildistöku reglugerðarinnar ótímabundið meðan heildarendurskoðun fer fram. Félagið lýsir sig reiðubúið til að koma með uppbyggilegum hætti að því verki.

Sjá einnig eftirfarandi tengla:

Tengill í grein Jóhanns Sigurðssonar arkitekts sem birstist í Fréttablaðinu nýlega. Neðst er teikning sem fylgdi grein Jóhanns sem sýnir áhryf reglugerðarinnar á grunnmynd lítillar íbúðar.:

http://www.visir.is/ny-byggingarreglugerd—ibudir-fyrir-alla-/article/2012712019981

Hér er tengill að nýlegri grein sem birt hefur verið á heimasíðu Arkitektafélagsins eftir Tryggva Tryggvason arkitekt og lögfræðing.:

http://ai.is/?p=4711

Og loks nýulegur pistil héðan af vefnum.:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/11/25/ny-byggingarreglugerd-i-kreppu/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (28)

 • Jóhann Sigurðsson

  Eitt atriði hefur verið of lítið rætt en það er að ný reglugerð mundi óhjákvæmilega hafa í för með sér hækkun á hönnunarkostnaði og hugsanlega ákveðinn forsendubrest á þeim samningum sem búið er að gera t.d. við Framkvæmdasýsluna. Skv. nýju reglugerðinni eru töluvert auknar skyldur lagðar á herðar okkar, sérstaklega hvað varðar ýmiskonar pappírsvinnu. Ég er búin að skoða þetta atriði nokkuð vel og niðurstaðan er að þetta verður töluverð vinna. Við getum ekki tekið þetta á okkur, líkt og skráningartöfluna á sínum tíma. Ég held að AÍ og FSSA verði að álykta varðandi þetta og tilkynna ríkisbákninu að reglugerðin hafi í för með hærri þóknun. Eins hefði ég viljað að AÍ og FSSA beindu því til sinna félagsmanna að kyngja ekki þessu aukaverki, án þess að senda reikning.

  Takk annars fyrir að halda úti þessari ágætu síðu og halda utan um umræðuna.

 • Hilmar Þór

  Hér eru líflegar umræður sem greinilega eru skrifaðar af fólki sem er vel að sér í þessum reglugerðarmálum. Þau Arna og Jóhann þekkja bæði vel til norsku byggingareglugerðarinnar og er fróðlegt að lesa um þeirra reynslu og þekkingu. En því er haldið fram að sú nýja íslenska sé að mestu byggð á norrænu regluverki.

  Mér finnst ástæða til þess að undirstrika það sjónarmið að arkitektúr má ekki komast upp í „vana“ eins og það er orðað. Hinsvegar er hætta á því að ef reglugerðir eru þröngar að þær leiði til einsleitní í byggingum, einkum í hýbýlum manna. Hér á Íslandi er þetta mjög áberandi og fer að líkindum vaxandi með nýrri reglugerð hygg ég.

  Annað er svo mjög bagalegt en það eru undirboð arkitekta hvað varðar þóknun vegna hönnunar íbúðahúsa. Undirboðin eru slík að nú taka arkitektar fyrir sína vinnu allt niður í einungis 1/3 af þeirri þóknun sem fasteignasalinn tekur svo fyrir einungis að selja íbúðina. Þessi þóknun verður til þess að arkitektar teikna blokkir eins og þeir eru vanir, af gömlum vana. Þessi undirboð eru mjög slæm fyrir alla, samfélagið, húsbyggendur og sérstaklega arkitektana.

  Það er nayðsynlegt að taka þessi undirboð föstum tökum á þeim vetvangi sem það á við.

 • Jóhann Sigurðsson

  Í teikningum mínum er allstaðar 90 cm umferðarleiðir, þar sem hjólastólar þurfa að komast a í svefnherbergi.. Herbergið er að mig minnir 13,3m2 en það er mjög algengt að þau svefnherbergi sem við teiknum í Noregi séu rétt rúmir 13m2 (fer aðallega eftir því hvar farið er inn í herbergið). Það er hægt að gera löglegt herbergi um 10,2m2 með hjónarúmi (norsk lausn sem er mikið notuð í litlar íbúðir). Hér er ekki gengið svo langt heldur farin skynsamlegur meðalvegur. Við höfum miklar reynslu af því að teikna litlar íbúðir á Noregsmarkaði og í þeim stikkprufum sem ég hef tekið munar um 10% í stærð. Ath að íslenska íbúðin skv. núverandi reglugerð er byggð á samþykktri íbúð, starfsmenn MVS staðfestu að íbúðin sem er byggð á nýju reglugerðinni sé rétt og kollegi minn með reynslu af TEK10 rýndi þá norsku.

  • ókei, þá gengur þetta ef þú ert með 90cm gang milli hjónarúmsins og klæðaskápsins eins og þú segir, og útveggi á þrjár hliðar, til að tryggja aðgengi að opnanlegum gluggum 😉 Það að teikna íbúðir í Noregi er (með öllum reglunum sem maður verður að framfylgja) orðið eins konar ‘finn fem feil’ – sport. Létt að yfirsjást eitthvað.

  • Tad er rétt Arna, tetta er mikill frumskógur fyrst, enda ekki bara hægt ad treysta å sjálfa reglugerdina heldur ýmiskonar leidbeiningarrit sem jafnvel stangast á eda eiga betur vid gömlu reglugerdina. En svo kemst tetta i vana og manni tykir tetta allt ofur edlilegt i dag. Ætli tad verdi ekki svipad med nyju reglugerdina okkar einhverntima….

  • Því er ég ósammála. Við vinnum stöðugt með þessar reglur (hönnuðum reyndar heilt hverfi sem var pilotprosjekt i universell utforming áður en TEK10 kom) þetta virðist þó aldrei ætla að komast upp í vana. Og ég lít eiginlega með hryllingi til þess dags sem mér fer að finnast þetta eðlilegur vegur til að hanna rými fyrir manneskjur. Mér finnst þetta eiginlega alveg sjúklegt…en þess þó áhugaverðara.

 • Rabb! ?

  Ef þetta er ‘rabb’ þá ætla ég að halda áfram að rabba ef einhver hefur áhuga á að rabba við mig…

  Ég leyfi mér að koma með athugasemd við teikningu Jóhanns þar sem hann túlkar norsku reglugerðina hér að ofan. Það verður að sýna fram á 90cm aðgengi að gluggum og skápum, frá hjólastólahringnum. Svo sá í hjólastólnum geti opnað og lokað osfrv. Það er hætt við að norska íbúðin taki meira pláss en hér er sýnt, verði tekið tillit til þessa.

 • Bergljót Jónsdóttir

  Skil ekkert í frændum okkar, þeir eru vanalega svo skynsamir. En nú er þetta orðið rabb og læt því duga.

 • Hilmar Þór

  Mig langar að setja fram hugsanlega framtíðarsýn varðandi aðgengi fatlaðra.

  Erum við ekki komin það langt í tæknikunnáttu að hugsanlegt sé á að hanna búnað fatlaðra þannig að hann virki í venjulegum húsum. Það er að segja að búnaðurinn, hjólastólar, lyftarar, göngugrindur og annað sé fyrirferðaminna og nothæft í venjulegum húsum?. Getur maður hugsað sér hjólastóla sem komast um dyr með venjulegri breidd, geta snúið við á 120 sentimetrum og gengið upp tröppur svo dæmi sé tekið?.

  Samfélagslega er það auðvitað mun hagkvæmara að gefa öllum sem á þurfa að halda slíkan búnað en að breyta öllum húsum heimsbyggðarinnar. Og skiptir þá nánast engu hvað búnaðurinn mun kosta ef hann væri til staðar.

  Þetta er kannski eitthvað úti í framtíðinni en það læðist að mér sá grunur að það sé styttra í þetta en marga grunar.

  Ég vil samt taka fram að ég styð fatlaða í öllum þeirra baráttumálum.

  • Aldrei leitt hugan að þessu.

   Af hverju lagar maður ekki búnaðinn að umhverfinu í stað þess að laga umhverfið að búnaðinum? Er þetta ekki eitthvað fyrir hið frábæra fyritæki Össur að skoða?

   Flott hugmynd.

  • Bergljót Jónsdóttir

   Þetta er býsna áhugavert!

  • Það er nú svo að hjólastólarnir hafa verið að stækka vegna aukins tæknibúnaðar, sumir allaveganna. Þar með hafa hjólastóla-‘hringirnir’ stækkað líka (voru 1400 í gömlu reglugerðinni, eru 1500 í Tek10 og maður verður að nota 1600 í pílotprósjektum fyrir ‘universell utforming’ í Norge!)
   Svo er fólk að stækka og fitna, sumir verða að vera í hjólastól vegna yfirþyngdar…

 • Guðmundur Guðmundsson

  Ég hneigi mig fyrir Arkitektafélaginu fyrir að benda á þessa tímaskekkju.

  Hvað þarf annars að gerast á Íslandi til að hægt sé að byggja íbúðir á viðráðanlegu verði ?

  Það vantar þúsundir af litlum leiguíbúðum á höfuðborgarsvæðið skv. Capacent könnun frá 2011.

  Stjórnmálaflokkarnir senda líka frá sé hverja ályktunina af annari þar sem talað er um nauðsyn þess að fjölga leiguíbúðum og öðrum búsetuformum.

  Enginn segir hins vegar hver á að byggja allt þetta húsnæði, sem allir vita að vantar svo sárlega.

  Þó fasteignabólan hafi sprungið framan í andlit þjóðarinnar, er eins og hugmyndafræðin á bak við bóluna lifi enn góði lífi.

  Fram að hruni má segja að Íslenskur byggingarmarkaður hafi snúist um að byggja dýrt og selja dýrara.

  Nú hlýtur að vera tími til að staldra við og spyrja : Hvað má íbúðin kosta, hversu stór, hvernig má ná niður kostnaði án þess að fara út í kumbaldavæðingu, osfrv.

  Síðan þarf að spyrja hver á að byggja þetta húsnæði, því að ljóst er að hinn hefðbundni byggingarmarkaður á Íslandi er varla í stakk búinn til að útvega efnalitlu fólki ódýrt húsnæði.

  Það þarf að finna eitthvað sem fyllir í skarðið sem myndaðist þegar verkamannabústaðir voru lagðir niður og sá málaflokkur markaðsvæddur.
  Afleiðingarnar þekkjum við.

  • Er þetta ekki upplagt verkefni fyrir arkitekta? Að finna út módel þar sem þeir vinna beint með íbúum um breytingar á húsnæðinu. Skilja út íbúð úr ofvöxnu einbýlinu og leggja þar með til íbúð á leigumarkaðinn, og leysa um leið smá skuldavanda. Hér geta atvinnulausir fengið verkefni. Allir hagnast á þessu, án aðkomu aðila sem ætla að græða stórt eða hafa taugar til verkefnisins.

   Hvernig regluverk myndi henta svona starfsemi?
   Hafa nefndirnar sem eru að pæla í húsnæðisstefnu og leigumarkaðinn kannað svona módel?

   Eru ekki arkitektar sjálfstæðir gagnvart byggingariðnaðinum, eða eru þeir vliljalaust verkfæri byggingariðnaðar sem er búinn að ganga sér til húðar?

  • Bergljót Jónsdóttir

   Þetta er góð hugmynd hjá þér Arna.

 • Hilmar Þór

  Hugtakið „holdning“ sem Arna nefnir var og er mikið notað í Danmörku. En ég finn ekki íslenskt hugtak sem dekkar það og þann skilning sem ég legg í hugtakið. Ég auglýsi hér með eftir því.

  En hvað arkitektafélagið varðar og holdningu þess til hinna ýmsu mála þá veit engin hver hún er ef ekki er fjallað um þau á vetvangi félagsins.

  Þessvegna er það sem ég kalla eftir vel undirbúnum fundum á vegum félagsins um málefnin.

  Annars ætti þessi umræða að eiga heima á heimasíðu AÍ. En það gengur ekki vegna þess að arkitektar tjá sig ekki mikið opinberlega. Halda sér í skurðunum og kaffistofunum.

  Sennilega vegna þess að þeir þora ekki að láta skoðanir sínar í ljós af þekktum ástæðum.

 • Já það er gott að félagið okkar hafi holdningu. En spurningin er hvort við erum öll sammála um þetta og hvort við getum komið upp hugmyndabanka um reglur sem gætu komið að góðum notum við núverandi ástand. Í Noregi eru allt aðrar aðstæður. Nóg olía engin kreppa. Þar í landi vilja margir arkitektarnir halda í þessar reglur til að sporna við gróðapungamennsku sem rýrir allt rými íbúða of mikið. Er þetta engin hætta á Íslandi? Eða er hætta á að kreppan geri að verkum að allar íbúðir sem verði byggðar verði píndar niðrí allt of litla fleti, með þeim rökum að allt annað verði of dýrt…Að regluleysi gæti stuðlað að slömmi framtíðarinnar? Íbúðum sem fólk eiginlega vill út úr því þær eru of litlar og ópraktískar?

  Það sem Bergljót segir hér að ofan væri talið ótrúlega “ó-kórrett’ (politically uncorrect) í Noregi. Maður gæti ekki sagt þetta svona, þótt manni fynndist þetta svo innilega, Maður væri á móti fatlafólum, aumingja þau! Maður skilur þau ekki útundan nei, nei, það er mannvondska. (Bara dáldið athyglisvert að sjá muninn, hjá þeirri þjóð sem verið er að erfa reglurnar frá).

  Málið er líka kannski dáldið flóknara á Íslandi því að það finnst svo mikið ónýtt húsnæði eftir bóluna. Af hverju er verið að plana nýtt húsnæði yfir höfuð þegar mikið meira er til af húsnæði á mann en nokkurs staðar annars staðar? Hafið þið félagar ekki áhuga á betri nýtingu á auðinum sem felst í vannýttu húsnæði. Ætti ekki allt að vera geggjað að gera í þeim efnum ef það er þörf fyirr húsnæði? Er þetta ekki spennandi verkefni? Og hvernig gæti regluverkið stuðlað að því að unnið væri í þessu, í sem flestum skapandi myndum með sem fjölbreyttustum hætti? Slíkar vangaveltur setja kostnað við flatarmál í allt annað samhengi.

  • Bergljót Jónsdóttir

   Má til að koma því að, að ég var eingöngu að benda á það augljósa; stækkun á grunnfleti íbúðar. Það er svo langt í frá að ég vilji að fötluðum. Hér er verið að lesa of djúpt í hlutina. En þeir eru til sem halda að það sé hægt að teikna góð híbýli sem henta fötluðum án þess að af því hljótist aukinn kostnaður, það tel ég vera rangt – þetta var það sem ég vildi undirstrika. Ein af ástæðunum fyrir þessum breytingum á reglugerinni í Noregi til að mynda er að tryggja það að fólk geti búið heima hjá sér sem lengst, s.s. að það létti á heilbrigðiskerfinu í framtíðinni. Þetta er margslungið mál.

  • Bergljót Jónsdóttir

   Má til að koma því að, að ég var eingöngu að benda á það augljósa; stækkun á grunnfleti íbúðar. Það er svo langt í frá að ég vilji vega að fötluðum á nokkurn hátt. Hér er verið að lesa of djúpt í textann hjá mér. En þeir eru til sem halda að það sé hægt að teikna góð híbýli sem henta fötluðum án þess að af því hljótist aukinn kostnaður, það tel ég vera rangt – þetta var það sem ég vildi undirstrika. Ein af ástæðunum fyrir þessum breytingum á reglugerinni í Noregi til að mynda er sú að menn vilja tryggja það betur að fólk geti búið heima hjá sér sem lengst, s.s. að það létti á heilbrigðiskerfinu í framtíðinni. Þetta er margslungið mál.

  • Bergljót, ég er sammála þér, það er ekki það. Ég var bara að segja þér hvernig þetta mál er þaggað í Noregi. Það er líka fáránlegt að sama týpa húsnæðis henti öllum. Fjallagarpi hentar eitt og föluðum annað. Það er hins vegar verulegt vandamál að það er eins og það eigi að steypa alla í sama mótið. Og það var allavega gert í bólunni. Eða í mestalagi tvö mót. ‘ríku’ og fátæku vísitölufjölskyldurnar.

 • Þarna eru arkitektar samstíga SI og mörgum fleirum sem tengjast byggingaiðnaði. En ég spyr hvort hagsmnasamtök heimilanna hafi ekkert um þetta að segja þar sem þetta mun hækka lánskjaravísitöluna og lánin á öllum byggingum sem fyrir eru í landinu um 3% er sagt. Allar byggingar landsins eru álitnar um 5000 milljarða virði ef af þessu fé er 3000 miljarðar á verðtryggðum lánum munu lánin hækka um 90 milljarða sem er 3%. Svo fólk átti sig á stærðinni þá er hækkunin á lánunum vegna reglugerðarinnar að þessum gefnu forsendum kr. 30.000.000.000.-

  Húrra fyrir arkitektafélaginu.

 • Hilmar Þór

  Mér sýnist við Pétur Örn vera báðir áhugamenn um að auka samfélagslega ábyrgð arkitektastéttarinnar. Ég hef lengi undrað mig á því, af hverju fyriferðamesta deiliskipulag íslandssögunnar, skipulag Landsspítalans, hafi aldrei verið rætt á vetvangi Arkitektafélags Íslands. Og af hverju skipulagið hafi ekki verið rýnt af fagmönnum með sérstöku tilliti til „Menningarstefnu í mannvirkjagerð“ frá árinu 2007? Mín skoðun er sú að deiliskipulagið standist ekki þá skoðun og því sé mannvirkjastefnan gerð að engu.

 • Pétur Örn Björnsson

  Nú er Arkitektafélag Íslands að standa sína samfélagslegu plikt. Sem óbreyttur félagi segi ég takk kærlega.

 • Bergljót Jónsdóttir

  Það má öllum vera ljóst sem e-n skilning hafa á flatarmálsfræði (þarf ekki arkitekt til!) að hjólastólavæn íbúð hlýtur að verða stærri að flatarmáli en aðrar íbúðir. Að þetta hækki byggingarkostnað kemur af sjálfu sér. Umhverfisráðuneytið ætti að taka þetta mál alvarlega svo ekki sé meira sagt.

 • Það sem gerist í reglu-bransanum á Íslandi kemur oft frá Noregi. Það er mikið rætt í Noregi hvort þessar kröfur sem verið er að innleiða á Íslandi nú nokkrum árum síðar séu góðar eða ekki. Hér er eitt það nýjasta úr þessu samtali:

  http://www.tu.no/bygg/2012/10/30/boligene-var-bedre-i-1970

  Byggingafélögin vilja náttúrulega ekki hafa neinar reglur (það er eins og fólk kaupi hvaða skítaíbúðir sem er og allt á uppsprengdu verði…ekkert annað í boði) og þeir vilja fá sem mestan gróða útúr dæminu. En margir arkitektar líta á þessar reglur sem síðasta hálmstráið til að halda inni einhverjum smá gæðum.

  Á Íslandi eru allt aðrar aðstæður. Hver er að búa til reglur fyrir íbúðabyggingar sem passar fyrir íslenskar aðstæður eftir hrun. Og hvernig geta arkitektarnir lagt sitt af mörkum til að sá ótrúlega mikli byggingamassi ( íslenska?) sem fyrir hendi er verði nýttur sem best fyrir íbúa?

 • Sveinbjörn

  Bæta hefði mátt við að byggingariðnaðurinn í heild sinni er svo illa staddur að hann þolir eki þessar breytninga núna. Magnús Sædal sagði á fjölmennum fundi fyrir um 10 dögum að hann teldi iðnaðinn ekki fara á almilega ferð fyrr en um eða eftir árið 2020.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn