Fimmtudagur 26.09.2013 - 08:10 - 16 ummæli

AR-2010-2030 –140 ha golfvellir innan þéttbýlismarka!

 

Ljósmyndin að ofan er fengin frá lögreglunni í Reykjavík og er tekin morgun einn á virkum degi á Miklubrautinni.

Af myndinni getur maður dregið margar álygtanir af borgarskipulagi Reykjavíkur.

Það má t.d. lesa af henni að borgin hljóti að vera dreifð. Og að þjónusta og atvinnutækifæri eru ekki í góðum tengslum við íbúðasvæðin. Af myndinni má álygta að að borgin sé afspyrnuvitlaust skipulögð vegna þess að ekki virðist vera mögulegt að þjóna henni með almenningsumferð. Þarna er hvergi strætó eða almenningsflutningakerfi að sjá. Það má álygta að þetta sé jafnvel ekki borg heldur samansafn af úthverfum og atvinnuhverfum og þjónustuhverfum sem eru ekki tengd saman á rökrænan og starfrænan hátt.

Maður getur velt fyrir sér hvort öll grundvallaratriði í borgarskipulagi hafi setið á hakanum?

Það má margt fleira lesa af þessari ljósmynd. Til dæmis væri hægt að draga þá álygtun að þarna búi fólk sem ekki er félagslega meðvitað. Það vill ekki umgangast aðra. Það vill búa í sérbýlum og ferðast í einkabílum. Fólkið vill búa prívat og ekki í mjög nánum tengslum við aðra í fjölbýlum og borgarhúsum. Maður gæti haldið að fólkið vilji helst eiga tvo eða þrjá bíla og aka langar leiðir til þess að kaupa sér mjólk út í kaffið. Maður veltir fyrir sér hvort þetta fólk vilji yfirleitt búa í borg.

Þetta eru eðlilegar ályktanir vegna þess að fólkið hefur valið sér borgarskipulag þetta, í gegnum fulltrúalýðrðið, sem kallar á þetta lífsmunstur.

Kannanir sýna að flestar álygtanirnar að ofan eru rangar. Fólkið vill búa í borg og vera í góðum tengslum hvort við annað. Það vill hafa þjónustuna við hendina. Það vill búa þannig að einkabíll sé ekki f0rsenda búsetunnar.

Hvernig stendur þá á því að það býr við þessar aðstæður og er hægt að lagfæra þetta?

Ef áhugi er fyrir því að breyta þessu blasa tvær lausnir við. Annarsvegar að færa þungamiðju íbúðasvæðanna vestar í borgina t.a.m. í Vatnsmýrina eða hitt, að færa atvinnutækifærin austar í borgina og tengja fyrirhuguðum þróunar og samgönguás samkvæmt AR 2010-2030.

Á morgun er vika liðin frá því að athugasemdarfrestur vegna Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 rann út. Það liggur fyrir að miklar athugasemdir hafa verið gerðar vegna Reykjavíkurflugvallar og nánast einsýnt að hann verður ekki lagður niður á þessum áratug. Sennilega ekki fyrr en í lok næsta, ef nokkuð.

Nýtt aðalskipulag gengur í stórum dráttum út á að stöðva útþennslu borgarinnar, minnka einkabílaumferð, auka notkun almenningsfaratækja, gangandi og hjólandi. Færa þjónustuna og atvinnutækifæri nær íbúðahverfunum, minnka og jafna umferðaálagið. Gera hverfin meira „sjálfbær“ hvað þjónustu og atvinnu áhrærir.

Söðva á útþennsluna og stækka borgina innávið. Þetta er skynsamleg stefna og kannski óhjákvæmileg. Til þess að ná markmiðinu hafa borgaryfirvöld dregið línu umhverfis borgina og sagt, við byggjum einungis innan þessarrar línu. Þetta hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu.

Til þess að geta mætt íbúafjölgun um 30 þúsund á skipulagstímabilinu verður byggt á svokölluðum þróunarsvæðum innan núverandi byggðar. Stærsta og mesta fjölgunin á að eiga sér stað í Vatnsmýrinni þar sem nú er flugvöllur höfuðborgarsvæðisins. Lagt til að leggja niður flugsamgöngur við höfuðborgina og byggja á þeim 140 hekturum sem þá losna í Vatnsmýrinni.

Í mínum huga gengur þetta ekki og er óþarfi.  Ég sé ekki að sátt muni nást um þessa aðgerð. Íbúar landsins hafna henni og  fulltrúar eigenda landsins, stjórnvöld, vilja ekki leggja flugvöllinn niður að svo stöddu.

Það þarf að finna aðrar leiðir til þess að ná fram meginmarkmiðum aðalskipulagsins og minnka bifreiðaumferð. Maður spyr hvort ekki sé til nægjanlegt landrými þó Vatnsmýrin sé ekki talin með. Er svo mikil þörf fyrir landið undir flugvellinum að hann þurfi að víkja innan örfárra ára?

Megin þáttur til að ná markmiðum aðalskipulagsins AR2010-2030 er samgöngu- og þróunarás frá Vesturbugt að Keldum. Samfara honum þarf að leggja til hliðar hugmynd um samgöngumiðstöð (umferðamiðstöðin) við Hringbraut. Samgöngumiðstöð á að byggja í sterkum tengslum við samgönguásinn. T.d. við Elliðárósa þar sem koma fyritæki og stofnanir með miklum starfsmannafjölda svo sem landspítala og skrifstofur stórfyrirtækja í námd við þétta íbúðabyggð á þeim 70 hekturum þar sem nú er golfvöllur í Grafarholti.

Aðeins norðar er Korpúlfsstaðagolfvöllur sem er kjörið byggingaland sem tengist ágætlega byggðinni í Úlfarsárdal þar eru aðrir 70 hektarar byggingalands. Golfvellirnir tveir eru um 140 hektarar eða jafn stórt og landið undir Reykjavíkurflugvelli. Og svo má bæta við rúmlega 100 hekturum á Keldnasvæðinu og 220 hektara svæði á Geldinganesi. Alls er hér um að ræða hátt í 500 hektara góðs byggingalands sem er innan þeirra marka sem AR2010-2030 setur okkur.

Sjálfsagt er líka að ljúka við hafið verk í Úlfarsárdal, annað er ekki sanngjarnt gagnvart þeim sem þegar hafa fjárfest á þeim slóðum. Þar má sennilega þrefalda íbúafjöldann.

Ef borgarlandið er skoðað sést að gríðarlegt tækifæri liggur í hugmynd aðalskipulagsins um  þétta línulega borg sem er bundin saman með hinum bráðsnjalla þróunar og samgönguás. Það er sennilega hægt að fjölga íbúum innan borgarmarkanna um 40 þúsund án þess að gengið sé á Vatnsmýrina þannig að við getum hæglega beðið með að leggja Reykjavíkurflugvöll niður næstu áratugi eða þar til sátt er um það hjá borgarbúum og landsmönnum að hann verði lagður niður.

Er annars eitthvað vit í því að hafa golfvelli og flugvelli innan þéttbýlismarka byggðarinnar í borgarlandinu? Á golfvöllunum tveim má koma fyrir 5000-7000 nýjum íbúðum (35-50 íbúðum á hektara) á aldeilis frábæru byggingarlandi sem er nokkuð meira en rýmist í Vatnsmýrinni ef ég skil það rétt.

Efst er ljósmynd sem sýnir umferð á leið vestur í bæ að morgni. Tilefni er til þess að velta fyrir sér hvort ekki sé ástæða til þess að færa atvinnutækifæri á borð við Landspítala o.fl. austar í borgina og styrkja þannig hinn bráðsnjalla samgönguás.

Að neðan er mynd sem sýnir staðsetningu og stærð (sem fer stækkandi) golfvalla innan þéttbýlismarka borgarinnar.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Jón Ólafsson

    Er ekki til nóg land til undir golfvelli? Það er víðáttu vitlaust að hafa golfvelli innan skilgreinds þéttbýlis borgarlandsins.
    Burt með golfvellina úr borgarlandinu

    • Steinarr Kr.

      Hvað er að golfvöllum? Erum við ekki með íþróttahús út um allt í þéttbýli?

      Þétting byggðar virðist oft ganga út á að útrýma grænum svæðum. Er það það sem við viljum?

    • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

      Í þessu samhengi verður mér hugsað til Edinborgar. Golfið er jú upprunið í Skotlandi.

      Það má sjá, t.d. með Google Earth, að í þeirri borg er allt morandi í grænum svæðum. Þar með talið eru nokkrir flennistórir golfvellir en einnig það sem virðist vera fallegir almenningsgarðar svo ekki sé minnst á Arthur’s Seat sem er fjall inni í miðri borginni. Hægt er að hoppa út úr verslun, kaffihúsi eða bar í miðbænum, ganga nokkur hundruð metra og fara í fjallgöngu.

      Samt er Edinborg vafalaust mun þéttari en Reykjavík og eftir því sem ég best veit talin til fyrirmyndar hvað varðar borgarskipulag.

      Þétting byggðar gengur ekki út á að útrýma grænum svæðum. Ef til vill má segja að hún feli í sér a nýta þau betur. Reykjavík er full að grænum svæðum sem eru engum til gagns og jafnvel bara til vansa. Grænum fermetrum fækkar kannski, en eftir sem áður býst ég við að markmiðið sé að sérhver íbúi hafi aðgang að prýðilegu útivistarsvæði í nágrenni heimilis síns. Þá í Fossvogi, Laugardal, Öskjuhlíð o.s.frv. en ekki á helgunarsvæði hraðbrautar.

  • Þorgeir Jónsson

    Í fréttum um daginn var sagt að 200 athugasemdir hefðu borist vegna Aðalskipulagsins. Ætli það merki að 70.000 athugasemdir vegna flugvallar hafi verið teknar sem ein athugasemd?

    • Ingimundur

      Fjöldi inn sendra athugasemda virðist vera miklu meiri en 200, ég giska á um 1000 þess vegna.

      Ég og margir fleiri sem sáu ekki nöfn sín á lista yfir inn sendar athugsemdir sendu fyrirspurn á RVK. Ég fékk eftirfarandi svar:

      „Nafn þitt er á listanum en hann er víst ekki alveg í lagi á netinu þar sem einhver bilun kom upp í kerfinu sem við notum. Meðf. er afrit úr lista þar sem nafnið kemur fram ásamt nokkrum öðrum sem sendu ath.semdir þann 20. sept. sl..
      Ef þú hefur fengið staðfestingu á að athugasemd sé móttekin er hún komin inn á málið.“

  • Ingimundur

    Um afar margt í pistlinum er ég sammála þér um Hilmar Þór, og hef margviðrað við borgarfulltrúa án árangurs.

    Sjálfbærni og „vishæfni“ eru jákvæð markmið, og í þeim felast lífsgæði. Borgaryfirvöld hafa ákveðið að íbúar austurborgarinnar eigi að fá minna af lífsgæðum, hafa grafið undan sjálfbærni í því hverfi sem þó var skipulagt með það í huga með því t.d. að leyfa breytingar á neðstu hæð fjölbýlishúsa í Úlfarsárdal þannig að þar verði ekki leyfilegar verslanir, fækkað íbúðum og þar með íbúum og þannig skorið niður kaupendur þjónustu sem fá fyrir vikið ekki þá þjónustu sem eðlilegt var að búast við og stefnt var að.

    S.s. í stað sjálfbærrar byggðar í austurborg sem þegar er risin að hluta, þar sem greitt var fyrrifram fyrir þá þjónustu sem hingað til hefur fengist með borgun útsvars, þá skal stefnt að sjálfbæru úthverfi í Vatnsmýri, og það án þess að gera í tillögu að nýju aðalskipulagi grein fyrir hversu fjárhagslega fýsilegt það er að byggja í Vatnsmýri vegna jarðvegsdýptar, hugsanlegrar sjávarhækkunar o.sv.frv.

    Ég hef einnig bent borgarfullrúum á að ég telji íbúa austurborgarinar ekki munu láta það viðgangast átakalaust að mismuna þeim eins og raun ber vitni. Uppákomur í Grafarvogi benda enda til þess, það eru takmörk fyrir hversu lengi fólk lætur níðast á hagsmunum sínum

    • Spurningin er: Voru væntingar og loforð þau sem íbúum í Úlfarsárdal voru gefin, efnd eða uppylld. Svarið er NEI. Borgin verður að standa við sitt gagnvart okkur sem þarna búum.

  • Það liggur greinilega ekkert á að leggja flugvöllinn niður. Nægt byggingarými er til staðar innan byggðamarkanna þó golfvellirnir séu ekki teknir með.

    Flugvellinum á að gefa grið í 10-20 ár í viðbót.

    Það er augljóst og samgönguás með sterkri borgargötu eða búllevard með Metrói (5 mínútur milli vagna) léttir umtalsvert á Miklubrautinni.

    Þetta er mín skoðun.

  • Steinarr Kr.

    Held að tölur Þórs Saari um stærðina í Vatnsmýri séu ekki alveg réttar, það á eftir að taka tillit til tjarnarinnar og svæðisins sem hún þarf og grunnvatnsins sem þar þarf að vernda. Þegar búið er að klípa það í burtu minnkar Vatnsmýrin talsvert.

    Reykjavík hefur alltaf liðið fyrir slakar almenningssamgögngur. Það er Strætó hefur aldrei staðið undir sér eða getað veitt þá þjónustu að geta verið alvöru val sem samgöngumáti.

    Skipulagsleysi hefur líka hamlað því að fólk hafi litið á almenningssamgöngur sem kost. Þar er Reykjavíkurflugvöllur besta dæmið. Vestanmegin er flugstöð fyrir hluta af innanlandsflugi og alþjóðaflugi. Næsta strætóstoppustöð er ca. 200 metra frá úti í næstu götu. Strætó gengur ekki upp að flugstöðinni. Norðanmegin er BSÍ, miðstöð fyrir rútusamgöngur. Strætó er upp á (gömlu)Hringbraut. Þar þarf að fara upp brekku til að komast að strætóskýlinu. Austan megin er flugstöð fyrir innanlandsflug (Ernir) og var til skamms tíma einnig stoppistöð flugrútunnar. Strætó er úti í næstu götu ca. 150-200 metrum frá. Það er eins og hver einasti aðili sé að vnna í sínu horni og megi ekki að öðrum vita.

    BSÍ hentar ekki sem „Grand Central Station“. Hana ætti að byggja hinum megin við Hringbrautina og hafa flugstöð í sama húsinu. Þá fengist betri nýting á allt kerfið.

    Því miður erum við of fá fyrir lestarkerfi, sem væri að mörgu leiti besta almenningssamgöngulausnin fyrir höfuðborgarsvæðið.

    • Hilmar Þór

      Þessi dæmi sem þú Steinarr Kr. nefnir um Strætó eru sláandi og sennilega frekar venja en undantekning.

  • Er ekki hægt að fara einhverja millileið, eins og fækka flugbrautum?

    London City flugvöllurinn er með eina flugbraut sem er styttri en lengsta flugbrautin í Reykjavík og flytur yfir 3 milljónir farþega á ári. Hvað myndi fækkum flugbraut niður í eina þýða að flug lægi niðri marga daga á ári?

    • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

      Ég hef oft velt þessu fyrir mér. Það er ekki nóg með það ein braut nægi London City heldur er ótrúlega algengt tvær, fjórar og jafnvel sex flugbrautir liggi samsíða, og engin braut liggi í aðrar áttir.

      Stutt könnun á Google Earth getur rökstutt þetta. T.d. London Heathrow, Paris CDG, Ósló Gardenmoen, Hong Kong, Dubai, Doha, Seattle, Atlanta í Georgíu (annasamast flugvöllur í heimi) o.s.frv.

      Maður leiðir hugann að því hvort vindátt sé hreinlegra óstöðugri á Íslandi. Mig minnir að ég hafi heyrt það að það eitt að leggja niður þriðju braut flugvallarins, sem maður sér aldrei notaða, myndi draga úr nýtingu vallarins um nokkra daga á ári.

      Ég er þó ekki að draga úr innlegginu þínu. Þó ég sé almennt hlynntur því að völlurinn verði áfram í Vatnsmýri held ég að það sé mjög til bóta að menn ræði saman og hugsi í ólíkum lausnum, ólíkt því sem almennt er venjan í íslenskri umræðu.

  • Magnús Birgisson

    Maður „gæti“ dregið svona ÁLYKTANIR einsog þú að „þarna búi fólk sem ekki er félagslega meðvitað. Það vill ekki umgangast aðra. Það vill búa í sérbýlum og ferðast í einkabílum. Fólkið vill búa prívat og ekki í mjög nánum tengslum við aðra í fjölbýlum og borgarhúsum. Maður gæti haldið að fólkið vilji helst eiga tvo eða þrjá bíla og aka langar leiðir til þess að kaupa sér mjólk út í kaffið. Maður veltir fyrir sér hvort þetta fólk vilji yfirleitt búa í borg“ ef að maður er þannig innstilltur og gælir við svona mannhaturshugmyndir.

    En maður getur líka dregið þá ályktun…sem er byggð á staðreyndum…að borgaryfirvöld hafi sofið á verðinum síðustu 20 árin þegar kemur að uppbyggingu umferðarmannvirkja og að þær lausnir sem menn hafi veðjað á…almenningssamgöngur og reiðhjól…hafi einfaldlega aldrei verið raunsæjar. Í dag stöndum við t.d. frammi fyrir því að borgaryfirvöld eru búin að semja frá sér allar nýframkvæmdir í samgöngum í 10 ár og sá árafjöldi bætist við þau ár áður sem engar framkvæmdir áttu sér stað. Þetta verða 2 áratugir þegar upp er staðið og á þeim árum hefur íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um næstum 100.000 manns.

    Og aðeins lítill hluti þessa fólks kærir sig um að búa í 101 og labba til vinnu sinnar á hótelum og börum miðbæjarins.

    • Jóhann Sigurðsson

      Magnús!
      Reynslan er sú að auknar og „betri“ umferðamannvirki fyrir einkabílinn eykur bifreiðaumferð. Hver vill það?

      Líklega felst lausnin í því sem höfundur bendir á: Að færa búsetuna nær atvinnutækifærunum (Vatnsmýri) eða sem er auðvitað skynsamlegt til að byrja með að flytja atvinnutækifærin nær íbúabyggðinni (Landspítalann inn að Elliðaám) samfara því að auka almenningsflutningaþjónustu og gera alvöru samgönguás eins og aðalskipulagið stefnir að.

  • Þór Saari

    Landið undir flugvellinum er um 140 hektarar en það eru aðrir 150 hektarar til viðbótar umhverfis flugvöllinn sem ekki er hægt að byggja á vegna hans. Einhverra hluta vegna gleymist þetta í umræðunni en skiptir samt miklu máli. Þó einhverjar þúsundir hafi látið ginnast af einhverri stærstu og dýrustu áróðursherferð sögunnar á það ekki endilega að leiða málið. Flugvallarmálið er stærra og skiptir meira máli en sem smjörklípa auðmanns og tilraun Sjálfstæðisflokksins til að ná völdum í Reykjavík.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn