Föstudagur 27.09.2013 - 12:10 - 29 ummæli

Háskólabíó – e.t.v. besta hús á Íslandi

 

 HBcrop

 

Háskólabíó sem var vígt á hálfrar aldar afmæli  Háskóla Íslands, árið 1961, var fyrst og fremst hugsað sem kvikmyndahús sem jafnfamt átti að nota til fyrirlestra og ráðstefnuhalds. Húsið var einnig notað til tónlistarflutnings  fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og fl. En það var aukahlutverk hússins.

Það er (var?) í eigu Sáttmálasjóðs en árið 1941 var ákveðið að sjóðurinn skyldi eiga og reka kvikmyndahús Háskóla Íslands sem upphaflega var opnað í Tjarnarbíói 1942.

Ég hef lengi verið mikill aðdáandi þessarrar byggingar enda hefur hún þjónað hlutverki sínu sem kvikmyndahús framúrskarandi vel. Manni líður hvergi betur í bíó en þarna.

Allt gengur upp.

Flæði kvikmydahússgesta er eins eðlilgt og hugsast getur . Maður kemur úr anddyrinu þar sem er lágt til lofts og gengur inn í kvikmyndahússsalinn í honum miðjum.  Gestir flæða um salinn óþvingað til sætis þar sem allstaðar er góð sýn til kvikmyndatjaldsins. Svo þegar sýningunni er lokið er gengið beint út í kvöldkyrrðinn í götuhæð. Oft er gengið úr kvikmyndahúsum um niðurgrafnar kjallaratröppur framhjá öskutunnum eða öðru slíku. Manni líður oft eins og manni sé hent út með sorpinu.

Spenna í innirýminu milli andyrisins sem er með lágri lofthæð og kvikmyndasalarins fer ekki framhá neinum. Það er upplifun að færa sig úr anddyrinu í stóra sal Háskólabíós og öfugt.

Þegar horft er til byggingarinnar utanfrá er hún auðlesin og staðsetning hennar við Hagatorgið og glæsibygginganna þar er sannfærandi. Maður áttar sig strax á hvað er þarna á ferðinni og nemur hvað funktionalisminn er tær og skýr. Þarna eru formin og efnisval einfalt, stál, steypa og gler. Hvergi er að sjá prjál eða óþarfa glingur eða sýndarmennsku af nokkru tagi. Léttleikinn er ábrandi þrátt fyrir mikla steypu og gluggaleysi í meginbyggingunni. Framsækin smíði hússins og tækni blasir við; skriðmót og stálgrind.

Arkitektarnir hafa tekið fáar og stórar ákvarðanir þannig að allt er eðlilegt og auðlesið.

Það hefur nokkuð hallað á Háskólabíó í umræðunni undanfarna áratugi. Það er senniega að ósekju. Tónlistarmenn og tónlistarunnendur hafa talað illa um kvikmydahúsið vegna þess að það þótti ekki þjóna tonlistargyðjunni nægilega vel. Það er ósanngjarnt vegna þess að þetta er fyrst og fremst bíóhús, enda heitir það „Háskólabíó“

Háskólabíó er ef til vill besta hús á Íslandi, framúrskarandi arkitektúr á allan hátt sem hefur ekki fengið þá athygli og  lof sem það verðskuldar. Svo heiðarlegar byggingar sér maður ekki mikið lengur. Engin óþarfi ekkert skraut engin tíska eða stælar. Fullkomin heiðarleiki og fullkomin fegurð og funktion.

Nútímahús þessarrar gerðar bera oft merki þess að þau eru teiknuð í tölvu. Möguleikar tölvunnar hafa oft áhrif á byggingalistina og þau áhrif eru ekki alltaf til góðs.

Háskólabíósbyggingin er hönnuð af arkitektunum Gunnlaugi Halldórssyni og Guðmundi Kr. Kristinssyni og reist á árunum 1956-1961. Arkitektarnir voru báðir heiðursfélagar Arkitektafélags Íslands.

Er þá ekki komið nóg og rétt að segja amen á eftir efninu og þakka fyrir sig?

Hér eru einnig tenglar sem tengjast efninu:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/02/gunnlaugur-halldorsson-arkitekt/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/03/18/felagsgardur-gunnlaugs-halldorssonar/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/02/26/form-follows-function/

 

HBint

2_3lett

1_113lett

h-biolett

1_114lett

 bilde

Flokkar: Óflokkað · Spaugilegt

«
»

Ummæli (29)

 • Hilmar Gunnarsson

  Nafni minn og greinarhöfundur benti einhvern tíma á að tímans tönn spilaði stóra rullu í arkitektónísku meltingarkerfi. Flest húsin sem okkur líkar best hafa „vaxið á okkur“ og eru orðin gróin inn í umhverfi sitt. Vonandi verður þannig með Hörpu eftir 20 ár eða svo.

  • Örnólfur Hall

   — Við eldri arkitektar, sem höfum fylgst með Hörpu-„smíðinni“ og fúskinu (frá 2010 og myndað) og fylgst með öllum hamaganginum til að standast Vígsludaginn í ágúst 2011, óttumst að hún vaxi (vegna ofurviðhalds) á baki eftirkomenda sem skattakryppa og verði svo til athlægis vegna 2007- heimskunnar eftir 20 ár ef ekki löngu fyrr.

   — NB: Það er stór misskilningur að allir túristar séu hrifnir af Hörpu. – Fjölmargir gera stópagrín af 2007-„glamournum“.

   — NB: Sjá t.d. steypuna, á austurhlið, sem er orðin herfilega ljót í dag. Fróðlegt er líka að skoða náið rúðurnar og sílíkonlistana.

 • Ábending Koolhaas er athyglisverð.
  „Fellingastruktur“ meginbyggingar í anda Utzons er tímalaus í léttleika sínum.
  Viðbyggingin sýnir hinsvegar,að ótruflað upphafið er alltaf sterkast!
  Lítum yfir torgið:Neskirkjan var sterkari ein og sér.

 • Örnólfur Hall

  — Það er umhugsunarefni þetta sem Gunnar og Sigurður segja um ‘skipulagða verðlaunastarfssemi’ og svo Hulda um ‘verðlaunaiðnaðinn’.

  — Það er óneitanlega eins og einhver Hörpu-verðlaunaskriða sé farin af stað sem endar svo e.t.v. í heimsmeti í verðlaunum. – Kemst Harpa kannski í Heimsmetabók Guinnes ?

 • Sigurlaug

  Það er reglulega gaman að lesa um Háskólabíó hér. Gaman væri að fá mat á Hotel Sögu, Neskirkju, Mela- og Hagaskóla.

 • Harpan er það góða hús á Íandi sem mest er oflofað og Háskólaníó það góða hús á Íslandi sem minnst er lofað þrátt fyrir að vera það besta. Menn sjá ekki Hörpu fyrir skrauti og glingri. Ef litið er framhjá hljómburðinum og skrauti Ólafs Eliassonar er Harpa í raun bygging sem ekki stenst væntingar, einkum í peningamálum.

 • Ingi Arason

  Skemmtileg grein. Algjörlega sammála Hilmari. Tilfinningin sem skapast inni í salnum er þannig að húsið þrengir aldrei að manni. Nánast eins og að vera utandyra. Lagið á húsinu er í eins og gömlu samanbrotnu myndavélarnar. Harmonikka með linsuna fremst tilbúin að fanga augnablikið.

 • Örnólfur Hall

  — Háskólabió er á allan hátt frábærlega hannað hús.- Allt flæði fólks innandyra er þar til fyrirmyndar og margir sakna t.d. anddyrisins í Háskólabíói.- Rými sem safnaði fólki saman, þar náði maður að hitta og heilsa flestum sem maður þekkti í hléum.— Það vantar t.d. í TR-húsið við Austurhöfn þrátt fyrir yfirdrifin anddyri og gangrými.- Allir eru að troðast eftir löngum og mjóum rýmum milli salar og glerhjúps, sem stíflast þar sem þrengst er.

 • Opnun Háskólabíós var viðburður. Að koma í bió í þessu húsi í upphafi er góð minning. Upplifun af byggingunni lýsir þú rétt. Frábært hús en skipulag umhverfisins er nakið. Þessi opnu svæði falla illa að þéttri borgarbyggð. Þetta er minnisvarði svona eins og Coloseum eða Stonehange.

 • Gunnar Gunnarsson

  Ég er að velta fyrir mér hvort Háskólabíó hafi fengið einhver verðlaun einhverntíma af einhverju tagi? Ég spyr af því að nú er Harpan að hlaða á sig verðlaunum fyrir hina ótrúlegustu hluti. Það er eins og þarna sé á ferðinni skipulögð verðlaunastarfssemi svipað og skipulögð glæpastarfssemi (!)

  Harpa er allt það sem Háskólabíó er ekki. Hún er hlaðin glingri, stendur ekki undir sér, er úr öllum hlutföllum við umhverfið og íslenskan efnahag, snýr öfugt og er minnismerki um oflæti og dramb lítillar þjóðar sem vildi vera stórveldi.

  Harpa skreytir sig með viðurkenndum stjörnum í alþjóðlegum listaheimi sem ætti ekki að skipta máli þegar byggingarlist er annarsvegar. Fátækur almenningur greiðir svo herlegheitin niður fyrir listaelítu embættismanna og hátekjufólks.

  Háskólabíó er þvert á móti í öllu þessu og stendur á Melunum engu öðru lík.

  Afsakið orðbragðið.

  Hér er umfjöllun sama höfundar um Hörpu

  http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/05/14/harpa-eins-ars/

  • Örnólfur Hall

   Gunnar rekur þarna margt sem ég er alveg sammála um:

   I —Á netinu má finna um fjölda aðila (ca. hátt í 100) sem veita arkitektúr-prísa. – Alls konar „Architecture Awards“(heimsins flottastar, fegurstar og glæsilegastar bygginga) og eftir hver þeirra gefur og fyrir hvern. —Hver skyldu ósköpin öll vera af nýbyggingum t.d. í Arabísku fustadæmunum og víðar í Austurlöndum með einhvern „Architecture“- heimsprísinn“.
   —Margir arkitektar í Evrópu segja að fjölmiðlafulltrúar stóru stofanna „Stórstirnanna“ séu duglegir við að afla þeim allskonar „Awards“ úr þeirri stóru „flóru“.-Ráð er að bjóða ‚réttum‘ umfjöllurum á ‚réttum‘ tíma með góðu „atlæti“ til að fá góða umfjöllun.

   —Frábærir ungir arkitektar, með litlar stofur, eiga alls enga möguleika þó þeir séu með stórkostleg verk. En þeir hafa ekki fjármagnið til að setja sig á stallana.
   — Hef heyrt í arkitektum í þýskalandi og Sviss sem tala um að mikinn og loðinn „money/business“ í kringum „Adwards“-úthlutanir.

  • Örnólfur Hall

   Enn v/umfjöllunar : Harpa/Háskólabíó.

   II — Antonio Borghi (spjall-félagi á netinu) form. ACE (Sambands evrópskra arkitekta) hélt utan um kosningu til MIES-verðlauna meðal arkitekta og áhugafólks um arkitektúr í Evrópu:
   — Harpan fékk 9.76% og var nr. 2.— En nr. 1 með 76% eða sjö sinnum fleiri atkvæði, en Harpan, var Market Hall, Ghent í Belgíu sem UNESCO (verndari) hafði sérstakt dálæti á. Snilldar torglausn (með byggingum) á viðkvæmum stað meðal miðalda-turnbygginganna þriggja í borginni.
   Margir arkitektar í Evrópu klóruðu sér í höfðinu yfir þessu. Hvað var í gangi?

   — PS: Nýr prís: LAEF–prísar finnast víðar t.d.: „LEAF is an award winning architectural firm based in West Hartford, CT“. Verðlaun fyrir viðhaldsfrí hús og „Green buildings“-

  • Sigurður

   Þetta er vissulega „skipulögð verðlaunastarfssemi“ sem er algeng í listum og tengist viðskiptum og peningum. Sjáið bara islensku bókmenntaverðlaunin. Þar eru nýútgefnar bækur tilnefndar fyrir jól og verðlaunin veitt eftir jól þegar fólk er búið að kaupa jólagjafirnar. Þetta er hallærislegt og ómenningaegt. Hús ætti alls ekki að verðlauna fyrr en svona 20 árum eftir að þau eru tekin í notkun. Fyrr er reynslan ekki komin. Ég er efins um að gjaldþrota ryðhrúga á austuhöfninni fengi verðlaun fyrir byggingalist árið 2033 ef leyfilegt er að vera svartsýnn. Menningarverðlaun DV eru ein verðlaun sem einkum eru notuð til að lyfta listamönnum upp og hefur viðskiptayfirbragð.

  • Því hefur lengi verið haldið fram að sáttmáli sem gerður var af fólki sem heimsótti „the Factory“ í NY hafi valdið miklu um velgengni Andy Warhile og félaga hans. Þeir ákváðu að hafna aldrei viðtali í fjölmiðlum og þeir lofuðu því að tala alltaf um hvern annan sem snillinga. Uppúr þessu urðu margir listamenn viðurkenndir snillingar og miljarðamæringar. Hér eru nöfn úr klíkunni:

   Edie Sedgwick, Gerard Malanga, Ondine, Ivy Nicholson, Ingrid Superstar, Anita Pallenberg, Nico, The Velvet Underground (Lou Reed, Sterling Morrison, Maureen Tucker, and John Cale), Johnny Conflict, Candy Darling, Jeremiah Newton, Jim Morrison, Jackie Curtis, Gage Henrich, Frank Holliday, Holly Woodlawn, Viva, Billy Name, Rotten Rita, David Bowie, Freddie Herko, Mario Montez, Brian Jones, Grace Jones, Mick Jagger, Noelle Wolf, Joe Dallesandro, Naomi Levine, Joe Dro, Paul Morrissey, Stephen Shore, Betsey Johnson, Truman Capote, Becky D, Fernando Arrabal, Taylor Mead, Mary Woronov, Ronnie Cutrone, Jane Forth, Lenny Dahl, Neke Carson, Baby Jane Holzer, Ultra Violet, Brigid Polk, Rickpat F, Paul America, Penny Arcade, Bobby Driscoll, Herbert Muschamp Peter Gramlique, and John Giorno, Brigid Berlin, Danny Williams, Chuck Wein, William Burroughs, Ulli Lommel og fl.

   Verðlauna iðnaðurinn og það ráð að klóra vinum sínum á bakið skila miklu.

   Ergó: Verðlaun eru ofmetin og Háskólabíó sem ekki er verðlaunað af nokkru tagi er eitt af bestu húsum á Óslandi

  • Þetta með „The Factory“ var á árunum uppúr 1960.

 • Háskólabíó er eitt af þeim húsum sem gerir Reykjavík að borg.

 • Dagur B. Eggertsson

  Skemmtileg skrif. Hef heyrt þessa skoðun áður. Þegar arkitektinn heimsþekkti, Rem Koohaas heimsótti okkur hjá borginni fyrir nokkrum árum og skoðaði allt sem fyrir augu bar (á einum degi) innan borgarmarkanna, spurði ég hann í ferðalok hvað honum hefði fundist best af því sem fyrir augu bar. Og svarið var stutt: Háskólabíó.

  • Hilmar Þór

   Gaman að fá þessa sögu sem nafni minn Gunnarsson nefnir staðfesta, og það frá fyrstu hendi. Þakka þér þetta Dagur B. Eggertsson.

 • Vel mælt Áslaug Ragnars

 • Pétur Örn Björnsson

  Ekki einungis samkvæmt efni, heldur ekki síður vegna forms sem hæfir function og hefur lengi glatt augað, innandyra sem utan, segi ég hér líka og hér með: Amen.

 • Áslaug Ragnars

  Aðkoman og hið eðlilega flæði er því miður ekki lengur eins og það var lengi vel. Álit tónlistarfólks á húsinu er ekki mikils virði þar sem helzt gallinn er í augum þess hljómburðurinn. Húsið er byggt sem kvikmyndahús og því ekki hægt að ætlast til þess að hljómburðurinn sé fyrsta flokks. En hann var nógu góður og margar af mínum beztu endurminningum eru frá tónleikum í þessu húsi. Nú eru þar kvikmyndsalir og kennslustofur. Notagildið er því fjölbreytt og ég held að fá hús hér á landi hafi skilað jafnmiklu og Háskólabíó.

 • Satt, þetta er mjög flott hús!

  Spurning hvort allir ungu háskólanemarnir af þeirri kynslóð sem aldrei hefur handfjatlað filmumyndavél skilji skýra útlitstilvísun hússins?!

  http://laughingsquid.com/wp-content/uploads/004-640×480.jpg

 • Hilmar Gunnarsson

  Besta kvikmyndahús á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Háskólabíó hefur alltaf verið val númer 1, þegar maður ætlar á bíó.

  Ég heyrði því fleygt að Rem Koolhas hafi litist best á þetta hús í Reykjavík. Sel það ekki dýrara en ég keypti það 🙂

 • Hef alltaf dáðst að þessari byggingu þrátt fyrir einfaldleikann.

 • Guðmundur Einarsson

  Þakka þessa góðu grein um hús sem fólk er farið að líta á sem sjálfsagðan hlut.

  Þetta er mikil kveðja og þakklæti: „Er þá ekki komið nóg og rétt að segja amen á eftir efninu og þakka fyrir sig?“

  Ertu að þakka Gunnlaugi og Guðmundi fyrir frábært bíóið eða ertu að kveðja bloggið?

 • Stefán Ólafsson

  Takk fyrir góða og áhugaverða umfjöllun um þetta stórmerkilega hús.

 • Er þetta glæsilega hús ekki hætt að vera kvikmyndahús?

 • Steinarr Kr.

  Sniðug hugmynd að baki byggingarinnar, en viðbyggingin tókst ekki eins vel.

  • Stefán Gíslason

   Þétta er snilldarbygging sem er lítið notuð sem kvikmyndahús. Það er rétt að viðbyggingin er ekki nándar nærri eins góð og sú gamla. Þar að auki er manni hent út í einhverjar kjallaratröppur þegar húsið er yfirgefið. Vonandi er búið að friða stóra salinn úti og inni. Anddyrið var skemmt með nýju lofti nýlega. Gamla loftið kallaðist á við þakgerðina. Svoleiðis er það ekki lengur. Það er eins og eigendur hússins viti ekki hvað þeir eru með í höndunum. Þessi skemmd á innrabyrði loftsins í anddyrinu þarf að lagfæra strax.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn