Þriðjudagur 04.01.2011 - 08:19 - 15 ummæli

Árbæjarsafn í Viðey-þétting byggðar

Allt frá því árið 1978 hefur mikið verið rætt um þéttingu byggðar í Reykjavík og hefur Reykjavíkurflugvöllur margsinnis verið dreginn inn í þá umræðu.  Eðlilega.

Vatsmýrin virðist í fljótu bragði vera augljós kostur enda blasa þar við á annað hundrað hektarar byggingalands í námunda við miðborgina.

Ég hef verið nokkuð flöktandi varðandi framtíð Vatnsmýrarinnar en er nú á þeirri skoðun að meðan ekki finnst annar staður fyrir Reykjavíkurflugvöll eigum við að gera ráð fyrir honum þar sem hann er um ókomna framtíð,  auðvitað  með einhverjum breytingum.

Land flugvallarins er talið um 140 hektarar.  Það er í fullri notkun og ekki er fyrirsjáanleg þörf fyrir það á næstu áratugum til annarra nota. Það má jafnvel segja að brotthvarf flugvallarins og uppbygging í Vatnsmýri sé árframhaldandi útþensla borgarinnar út yfir mýrar og móa.  Þetta segi ég með það í huga að þjónusta og almenningssamgöngur í úthverfum borgarinnar munu ekki batna eða aukast við uppbyggingu í Vatnsmýri. Sennilega þvert á móti.

Þétting byggðar getur farið fram þrátt fyrir flugvöllinn. Bent hefur verið á mikla þéttingarmöguleika víða innan núverandi byggðar fyrir utan að klára þarf þau lönd sem þegar hafa verið brotin undir byggð eins og blasir við víða, t.d. í Úlfarsárdal.

Samúel T. Pétursson hefur bent á möguleika á að breyta nokkrum götum í borgarstræti (Miklabraut og fl.), Gísli Marteinn Baldursson hefur  bent á mikla uppbyggingamöguleika í Skeifunni og svo mætti lengi telja.

Ég vil leyfa mér að dusta rykið af hugmynd um að flytja Árbæjarsafn út í Viðey. Við þá framkvæmd munu losna milli 15 og 25 hektarar lands sem nýta mætti til íbúðabyggðar. Þetta er kjörland fyrir íbúðabyggð í nánum tengslum við stofnbrautir, þjónustu og útivistarsvæði.  Ártúnsholtið hentar illa fyrir byggða- eða húsasafn. Viðey er hinsvegar kjörland fyrir slíkt sem væntanlega yrði kallað “Viðeyjarsafn”.  Í Viðey er meira og betra rými fyrir safnið og tengingin við Viðeyjarstofu er kostur.  Lagðar hafa verið fram raunhæfar hugmyndir um þetta og tillögur um brýr milli lands og eyjar.

Bara það land sem nú er frátekið fyrir Árbæjarsafn er milli 15 og 20% af byggingarlandi í Vatnsmýri.

Svo ég komi aftur að Vatsmýrinni þá væri ekki vitlaust að auglýsa skipulagssamkeppni um framtíð Vatnsmýrarinnar þar sem forsenda væri að flugvöllurinn yrði um kyrrt.  Slík samkeppni mun án vafa varpa nýju ljósi á þau tækifæri sem þar er að finna.

Hjálagðar eru teikningar af Árbæjarsafni eins og það gæti litið út á austurhluta Viðeyjar, þar sem þorpsbyggðin var á tímum Milljónafélagsins frá því skömmu eftir aldamótin 1900 og fram undir lok seinni heimstyrjaldarinnar. Teikningarnar fann ég á heimasíðu arkitektastofunnar ARGOS.  Þá koma tvær ljósmyndir teknar af Magnúsi Ólafssyni af sama svæði sem fengnar eru af ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Árni Ólafsson

    Árbæjarsafnið er nokkurs konar klípusaga. Sjávarpláss uppi í sveit. Pælingar um breytingar eru áhugaverðar – en þarna þarf einnig að stíga varlega til jarðar og taka ákvarðanir í samræmi við efni. Ýmsu var bjargað þangað sem átti að farga á uppbyggingarárunum. Kæmi til greina að skipta húsakostinum á nokkra staði? Safnið yrði ekki það sama – en óneitanlega er áhugavert að varðveita gömlu húsin í viðeigandi umhverfi og jafnvel nýta þau sem hluta hins daglega veruleika borgarbúa.

    En að öðru: Skoðun mín er sú að áður en menn hrapa að því að henda flugvellinum út í buskann til þess að byggja draumalandið eigi að þróa allt núverandi borgarland yfir í samfellda, blandaða og þétta byggð. Þá fyrst, þ.e. þegar Reykjavík er orðin að hagkvæmri og vistlegri borg, er tímabært að snúa sér að Vatnsmýrinni.
    Mikil hætta er á að æðibunugangur í þessum málum verði dýrkeyptur og skaðlegur og borgarbúar sitji áfram uppi með óhagkvæmt og óvistlegt borgarumhverfi – jafnvel þótt vel takist til í Mýrinni.

  • Helgi Hallgrímsson

    Þorsteinn

    Það sem ég meinti með þessu er að ákvörðun breska hersin um að velja flugvellinum stað í Vatnsmýri hefur haft mikil áhrif á þróun Reykjavíkur undanfarin 70 ár, og að mínu mati hamlað eðlilegri byggðarmyndun útfrá miðbænum.
    Það er rétt að ekki sé brýn þörf fyrir byggingarlandið í vatnsmýrinni á allranæstu árum, en það væri raunhæft að byggja svæðið upp á nokkrum áratugum.
    Það liggur fyrir mjög góð skipulagstillaga um nýtingu vatnsmýrarinnar (sigurtillagan í samkeppninni) og að mínu mati er þetta einstakt tækifæri fyrir borgina.

  • Þorsteinn G.

    Ég beini þessu til Helga Hallgrímssonar

    „Varðandi flugvöllinn þá er það mín skoðun að við eigum ekki að láta hernaðarlega ákvörðun fyrir 70 árum stjórna þróun Reykjavíkur um aldur og ævi“

    Er það forsenda fyrir skipulagsþróun hvenær ákvarðanir eru teknar og af hverjum?.

    Eigum við ekki heldur að meta stöðuna faglega útfrá skipulagslegumforsendum dagsins í dag árið 2011.

    Það liggur fyrir að ekki er þörf fyrir landið undir flugvellinum eins og sakir standa.

  • Helgi Hallgrímsson

    Ég tek undir með Guðríði Öddu. Að mínu mati eiga þessi hús ekki heima á neinu safni heldur á að skila þeim niður í miðbæ, koma fyrir á auða eða illa nýtta reiti og leyfa fólki að búa og starfa í þeim.
    Varðandi flugvöllinn þá er það mín skoðun að við eigum ekki að láta hernaðarlega ákvörðun fyrir 70 árum stjórna þróun Reykjavíkur um aldur og ævi. Þetta byggingarland er svo einstakt m.a. vegna nálægðar við miðbæinn og þar að auki kusu reykvíkingar völlinn burt í lýðræðislegri kosningu.

  • Hilmar Þór

    Ólafur Jónsson.

    Það heldur því enginn fram að uppbygging í Úlfarsárdal sé samkvæmt einhverjum hugmyndum um þéttingu byggðar. Þvert á móti, hinsvegar segir í færslunni að eins og sakir standa þurfi að :” klára þau lönd sem þegar hafa verið brotin undir byggð eins og blasir við víða, t.d. í Úlfarsárdal”.
    Áður enn ráðist er að nýjum svæðum á borð við Vatnsmýsi. Það er ekki þörf fyrir það land sem er í Vatnsmýrinni. eins og sakir standa.

    Ef flugvöllurinn átti að fara hefði þurft að taka þá ákvörðun áður en ráðist var í uppbyggingu í Grafarvogi. Síðan þá hefur verið byggt í Grafarholti og nú eru auðar lóðir fyrir milli 15 og 20 þúsund manns í Grafarholti.

    Þetta er spennandi og verðugt umræðuefni þar sem að mörgu er að hyggja.

  • frábær hugmynd, árbæjarsafn hefur mér aldrei þótt á góðum stað, Viðey er hins vegar magnaður staður, flytja safnið allt og skapa gamalt reykvískt Viðeyjarþorp

  • Magnús Sveinn Helgason

    Mér finnst þetta mjög góð hugmynd, og ef að hægt er að gera þetta að veruleika myndi afraksturinn verða milu skemmtilegri og líflegri borg. Í litlum borgum eins og Reykjavík eru borgarsöfn eins og Árbæjarsafnið eru miklu betur komin nær miðbæ. Og af hverju ætti ekki að vera hægt að flytja Árbæinn sjálfan? Af hverju er það eitthvað ómugulegra en að flytja hús af öðrum stöðum upp í Árbæ?
    Skil hins vegar að mönnum finnist kostnaðurinn hár, og ber virðingu fyrir því að safnafólk sé á móti þessu.
    En sem borgarbúi og áhugamaður um borgarlíf finnst mér að Árbæjarsafn í Viðey sé miklu áhugaverðara en Viðey eins og hún er
    í dag eða Árbæjarsafn eins og það er í dag. Það má sjá fyrir sér meiri uppbyggingu menningarstarfs og ferðaþjónustu í Víðey í kringum Árbæjarsafn þar úti.

  • Drýsill

    Árbæjarsafnið er á fullkomnum stað, það ætti frekar að stækka það, hafa opið allt árið og ókeypis inn. Möguleikarnir eru miklir. Það er nóg af tómum byggingum og ónýttu byggingarlandi út um hvippinn og kvapinn. Þetta er ekki NY/Tokyo!

  • Ólafur Jónsson

    Safn gamallra húsa í Viðey er mjög fín hugmynd, en eins og Stefán bendir réttilega á þá er Árbærinn og túnið ekki eitthvað sem er hægt að færa, og ekki einu sinni að nafni til. Aftur á móti væri hægt að stofna Viðeyjarsafn og flytja flest húsin úr árbæjarsafni til eyjarinnar.

    Varðandi flugvallar svæðið þá ber að hafa í huga að:

    Þétting byggðar miðar að því að stoppa (hægja á) útþenslu borgarlandsins. Að tala um útþenslu borgarlandsins í samhengi við uppbyggingu í Vatnsmýrinni er rangt að mínu mati. Nær væri að tala um einhverskonar innþenslu (implosion), þar sem aðstæður eru allt aðrar en í útjaðri borgarlandsins.

    -„Þétting byggðar“ getur ekki farið fram í Úlfarssárdal. Það er einfaldlega hlægilegt að tala um þéttingu byggðar í „óbyggðum“.

  • Guðríður Adda Ragnarsdóttir

    Hvers vegna eru timburhús úr Reykjavík á SAFNI?
    Má ekki flytja þau heim aftur, þannig að í þeim búi fólk og starfi?
    Getur Reykjavík ekki átt gamlan borgarhluta og marga nýja?
    Hvað líður hverfisvernd byggðar innan gömlu Hringbrautar?

  • Sitthvað er við þessar flutningshugmyndir að athuga. Fyrst ber það nú að nefna að staðsetning Árbæjarsafns er engin tilviljun. Hún helgast jú af því að á miðju safnsvæðinu er sjálfur Árbærinn. Hann verður augljóslega ekki fluttur frá sínum stað. Það er því erfitt að sjá hagkvæmnina í því að flytja gömlu húsin frá norðausturhluta svæðisins út í Viðey og stofna þar nýtt safn – en þá án aðalsafngripsins sem menn myndu eftir sem áður sýna með einhverjum hætti.

    Ég þekki engan í safnageiranum sem er hrifinn af þessum flutningshugmyndum – þótt þeim sé oft pakkað í þann búning að umhyggja fyrir safninu ráði för. Bendi á þessa grein e. fyrrum borgarminjavörð: http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1082330

    Mönnum finnst líka blóðugt í fjársveltum safnageira að þegar hagsmunir verktaka henta, þá sé hægt að setja fram flutningshugmyndir sem uppá 1,5 milljarða (árið 2006) – sem var þó talið of varlega áætlað af safnmönnum. Til að setja þetta í samhengi, þá nemur þessi upphæð u.þ.b. tuttugu ára rekstrarkostnaði safnsins!

  • 100% samála þér í þessu Hilmar. Árbæjarsafn út í Viðey er góð hugmynd sem gæfi báðum (þe. Viðey og safninu) nýtt líf. Að auki mæli ég með að þeir sem ekki hafa prófað nú þegar fari í smá flugferð yfir höfuðborgarsvæðið og skoði það úr lofti á góðum degi – þá sést vel hversu gysið það er í raun og veru og hvaða möguleikar eru fyrir hendi núþegar að þétta byggð.

    Svona til að halda áfram með gömul hús – þá mæti nota ný fengna reynslu manna við að byggja „ný-gamalt“ og skella upp nokkrum snotrum húsum í Hljómskálagariðinum undir td. kaffihús og auka lýsingu á svæðinu þannig að þetta svæði nýtist betur.

  • Þorsteinn G.

    Þetta eru ný sjónarmið og vert að skoða nánar. Það má vissulega halda því fram að uppbygging borgarskipulags í Vatnsmýri sé útþensla.

    Þétting er þegar borgin er þétt þa sem fyrir eru gatnakerfi, þjónusta og stoðkerfi. Það er ekki í Vatnsmýri fyrir utan að þar er flugvöllur reykvíkinga.

    Það er sóun verðmæta að leggja hann niður og rífa. Sérstaklega núna þegar engin kallar á landið og ekki er eftirspurn eftir því.

    Eins og kemur fram að ofan þá bera þau flest einkenni þess að hafa staðið í sjávarþorpi, enda gerðu þau það flest á blómatíma þeirra.

  • Viktor Arnar Ingólfsson

    Mér hefur alltaf þótt það skemmtileg hugmynd að flytja húsin í Árbæjarsafni út í Viðey. Þau hafa öll einkenni sjávarþorps og fara illa á núverandi stað. Nælægð við fjöru og sjó er nauðsynleg til að þorpið verði trúverðugt.

  • Sveinbjörn S

    Það þarf að minnstakosti að fara varlega í uppbyggingu í Vatnsmýri meðan ekki er fundin lausn á samgöngumálum reykvíkinga í lofti.

    Skemmtill hugmynd um „Viðeyjarsafn“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn