Miðvikudagur 17.02.2010 - 09:17 - 8 ummæli

Arkitektar Hjördís & Dennis -Kynning

innantakalett

Tveir reyndir arkitektar stofnuðu arkitektastofuna, Arkitektar Hjördís & Dennis, fyrir um 15 árum.  Eigendurnir hafa komið að mjög fjölbreyttum verkefnum hér á landi og erlendis, einkum á Bretlandseyjum og í Þýskalandi. Byggingarverkefnin eru fjölbreytileg að stærð og gerð, svo sem íbúðarhús, skólabyggingar, félagsheimili, íþróttahús, sundlaugar, hótel, verslunar- og skrifstofuhús o.fl.. Skipulagsverkefnin eru deiliskipulög fyrir sveitarfélög. Önnur verkefni eru hönnun húsgagna, sýninga og ljósaskilta.

Arkitektar Hjördís & Dennis hafa verið virk í samkeppnisumhverfi arkitekta og unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga. Meðal þeirra verka sem byggð hafa verið eftir samkeppnistillögum þeirra má nefna Sendiherrabústað Íslands í Berlin og Viðbyggingu við Laugarnesskóla.

Hjálagðar myndir eru af Sendiherrabústað Íslands í Berlín. Stofan vann verkið að undangenginni opinni samkeppni árið 2003. Byggingin þykir vel heppnuð listrænt, starfrænt og tæknilega séð.

Teiknistofan sem hefur sýnt frumkvæði og frumleika. Teiknistofan er dæmi um færa arkitekta sem fá ekki tækifæri til þess að leggja inn tillögu að nýu Háskólasjúkrahúsi við Hringbraut  vegna þess að forvalsnefnd setur kröfur í forvalinu sem engin íslensk arkitektastofa getur fullnægt óstudd.

Ég tel mig fylgjast mjög vel með því sem er að gerast í bygginga- og skipulagsmálum bæði hér og erlendis. Undanfarið hefur mér borist mikið af myndum af verkum íslenskra arkitekta og ég verð þess áskynja að þeir skila af sér verkum sem eru með því besta sem sést um þessar mundir.  Þess vegna undrar það mig hvað almenn umræða er óhliðholl íslenskum arkitektum. Ég man að Egill Helgason lét eitt sinn detta útúr sér að hann “treysti ekki íslenskum arkitektum” Það hljóta að hafa verið mismæli í hita og þunga dagsins.

meiri innantakalett

New Imagelett

Nmatkrókurlett

send að götulett

sendiráð3lett

Höfundar sendiherrabústaðarins eru arkitektarnir Hjördís Sigurgísladóttir og Dennis Davíð Jóhannesson. Ljósmyndari er  Werner Huthmacher í Berlin.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

 • stefán benediktsson

  Þegar ég lærði arkitektúr var talið að arkitektúr gæti mótað samfélag. Niðurstöður þeirra tilrauna voru fyrir aldamót verstu „slömm“ amk. Bretlands og Þýskalands. Það sem arkitektúrinn gat ekki áorkað (samfélagbót) var auðvitað ekki honum að kenna (samfélagsupplausn). Arkitektúr verður aldrei annað en vitnisburður um ráðandi þætti í samfélagsþróun. Það er bara miklu erfiðara að lesa lýðræðisöguna en einræðissöguna í arkitektúr. Frakkar hafa leyst þetta með De Gaulle airport, Pompidou Centre osfrv.

 • EiríkurJ

  Er ekki hægt að halda því fram að arkitektum hafi mistekist þátttaka í lýðræðislegri umræðu um bygginga- og skipulagsmál. Umhverfi okkar verður aldrei ákveðið af einni stétt, sama hversu mikilir sérfræðingar þar eru fyrir.

 • Það sem hefur komið óorði á íslenska arkitekta er hve oft hús sem þeir teikna passa illa inn í umhverfið í gamla bænum.
  Og hve húsin hafa reynst illa hönnuð varðandi notagildi. Ef ég má nefna dæmi um illa hönnuð hús þá þekki ég til Öskju í vatsmýrinni þar sem miljónum er eytt í glervegg, þar sem hver rúða er sérsmíðuð og súlurnar úr sérstöku efni (sem er að flagna) Glerveggurinn gerir það að verkum að á veturnar er annarsvegar of kallt þarna inni eða allt of heitt ef sólin skín. Sami arkitekt teiknaði Odda sem er eitt stór stigaop sem ekki nýtist í neitt, og gleymdi að teikna salerni í húsið!!!
  Forsendur góðs arkitektúrs fyrir fátæka stofnun eins og háskólann væri að mínu mati í þessari röð
  1) Ekki of dýr og flókin hönnun
  2) Notagildi, sem mest nothæft rými fyrir peninginn.
  3) Falleg og listræn hönnun.
  Reynsla okkar af arkitektúrum hingað til hefur oft verið ákkúrat öfug. Flott hönnun á húsi látin vera númer 1 og kostnaður og notagildi látið sitja á hakanum.

 • Guðmundur

  Steini, þetta er rétt hjá þér, ég hefði kannski betur mátt sleppa síðustu málsgreininni. Hún var ekki nógu vel orðuð hjá mér og kom asnalega út (líttu bara á hana sem misheppnaða tilraun til að vera fyndinn).

 • Guðmundur. Annarsvegar talar þú um að Íslenskir Arkitektar hafi átt erfitt með að slíta sig frá einföldum formum modernismans, sem ég get fallist á að vissu leiti, en hinsvegar talar þú um að þeir ættu að hafa unnið í byggingarvinnu svo þeir séu nú ekki að gera einhverjar „tiktúrur“ í byggingar sem eru erfiðar í framkvæmd.
  Hvort viltu ?

  Hinsvegar hefur vissulega borið á nýjungum í byggingarlist um allann heim með tikomun nýrra efna og meir tækni þekkingu og er það af hinu góða. Þetta á eftir að skila sér til íslands í nánustu framtíð þeas ef einhver er tilbúinn að borga fyrir „tiktúrur“ sem þessar því oft á tíðum er kostnaður mun meiri í óhefðbundnum formum og „tiktúrum“ eins og þú veist.

  Verst hvað arkitektarnir verða þá „óvinsælir“

 • Guðmundur

  Hjörleifur Stefánsson fer mun betur í það sem Magnús Orri er að tala um í bók sinni, Andi Reykjavíkur. Auðvitað setur hann þar fram ákveðið sjónarmið, en styður það með rökum. Það er rétt hjá Hilmari að íslenskir arkitektar hafa kannski mátt sitja undir of þungri gagnrýni oft á tíðum. Að sumu leyti er það vegna þess að arkitektar hafa orðið að lúta vilja misviturra byggingarverktaka sem vilja byggja sem mest fyrir hámarksgróða (sorgleg dæmi um slíkt sjást um alla borg, t.d. skuggahverfið), en líka vegna þess að með módernismanum kom ákveðið rof við fortíðina, eins og kunnugt er. Þetta rof var líklega meira afgerandi hér á landi þar sem fyrir var lítil byggingarlistahefð, og sú litla hefð sem hafði skapast var nátengd danmörku og nýlendutímanum og því var kannski enn ríkari tilhneiging til að líta niður á eldri byggingar (sbr. baráttuna um Bernhöftstorfuna og Grjótaþorpið).

  Burtséð frá því er þetta ágætlega falleg bygging sem Hilmar sýnir þarna. Súlurnar minna svolítið á Corbusier (finnst mér, er ekki sérfræðingur), og þetta samsvarar sér vel. Samt dregur hún dám af því sem svo margir íslenskir arkitektar virðast heillast af (varúð: leikmannsþankar): beinum línum og kassalaga formum, að vísu brotin upp með skálínum og ávölum súlum. Íslenskir arkitektar virðast bæði hafa rofið tengsl við fortíðina en eru samt afar íhaldssamir í stíl þar sem hönnun þeirra dregur oftar en ekki dám af módernisma (sem er nú kominn til ára sinna). Flestar listgreinar (tónlist, myndlist, kvikmyndagerð) hafa „vaxið“ upp úr módernismanum, í dag þykir ekki tiltökumál þótt tónskáld semji lagrænt klassískt verk, sem hefði þótt ansi hallærislegt fyrir 30-40 árum síðan. Sömuleiðis sér maður hreyfingu meðal arkitekta erlendis þar sem ásýnd, fegurð og hugmyndaflug fær meira vægi en áður, t.d. BIG í Danmörku og Calatrava, svo einhver dæmi séu tekin. Af einhverjum ástæðum virðist þetta rata seint hingað upp á sker, hver svo sem ástæðan er. Kannski hamlar umhverfið í skipulagsmálum (sem satt að segja er í molum) arkitektum í starfi sínu.

  Annars ættu allir sem hyggja á nám í arkitektúr að vinna í byggingarvinnu í smá tíma. Allir sem hafa unnið við slíkt vita að arkitektar eru ekkert sérlega vel liðnir, sérstaklega þeir sem vilja endilega láta gera einhverjar tiktúrur í byggingum sem eru erfiðar í framkvæmd og viðhaldi 🙂

 • Magnús Orri

  Það er það sem Egill átti við (held ég)..

 • Magnús Orri

  Sammála því að Íslenskir arkitektar eru yfirleitt að gera góða hluti EN það sem ég held að sé að er það að þeir eru að teikna of „International“ hluti sem passa illa inn í hið gamla Íslenska munstur (model) og stingur þess vegna í stúf. Sérstaklega á þetta við þegar verið er að byggja í eldri hverfum. Mannfólk er í þeim þáttum sem varða umhverfi sitt almennt ekki mjög nýjungagjarnir

  Ég er ekki að mæla með ást Dana á múrsteini en það má kannski eitthvað á milli vera.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn