Föstudagur 22.07.2011 - 22:26 - 5 ummæli

Arkitektúr í Dalvík-„BERG“ menningarhús

Ég var á árlegri fjallaferð í síðustu viku með vinum mínum og kom við á nokkrum stöðum á Norðurlandi.  Mér til mikillar ánægju varð á vegi mínum framúrskarandi arkitektúr á allmörgum stöðum norðanlands.

Ein byggingana var “Berg” menningarhúsið á Dalvík sem var formlega tekið í notkun þann 5. ágúst 2009.

Húsið er í eigu Sparisjóðs Svarfdæla sem afhenti bæjarstjórn Dalvíkur það til afnota fyrir íbúa Dalvíkurbyggðar.

Í húsinu er aðstaða fyrir fjölbreytta menningarstarfsemi svo sem listsýningar, tónlistarflutning og menningartengda ferðaþjónustu, auk aðstöðu fyrir ráðstefnuhald.  Bókasafn Dalvíkurbyggðar hefur fengið  glæsilega aðstöðu í húsinu.

Húsið minnti nokkuð á Norræna Húsið í upphafi hvað varðar starfssemi. Þarna var góður salur, aðlaðandi bókasafn og kaffistofa með útsýni í “rétta” átt.  Efnisval er frumlegt og jafnframt spennandi. Hinsvegar er eins og það halli á hvað varðar laus húsgögn og grænlitaða ofanábyggingin hefur ekki augljósan rökstuðning eins og í Norræna Húsinu.

Það sem einkum vakti athygli mina var afstöðumyndin og hvernig húsið er staðsett í bæjarskipulaginu miðsvæðis nálægt ráðhúsinu og heilsgugæslunni.

Af afstöðumyndinni má lesa skýra sýn á nágrennið. Aðkoma er augljós. Úti og innirými spila vel saman. Gætt er að sólargangi og útsýni og ekki síður helstu vindáttum. Ekki veit ég hver sá um lóðarhönnun en hún var hógvær og rökrétt.

Ég óska höfundi Fanneyju Hauksdóttur arkitekt FAÍ og sveitarfélaginu til hamingju með frábært hús sem gaman var að heimsækja.

Salur er fallega hlutfallaður og er í góðum innbyrðis tengslum við anddyri, kaffistofu og bókasafn.

Til suðvesturs er sólrík útiverönd. Heilsugæsla Jóns Haraldssonar arkitekts í baksýn.

Efnisval endurspeglar litinn í fjöllunum i grendinni.

Úr kaffistofunni sem er miðpunktur hússins er útsýni til fjalla handan Eyjafjarðar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

 • Lilja Filippusdóttir

  Sæl veriði – mig langar að þakka fyrir skemmtileg og málefnaleg skrif á síðunni. Gaman er að sjá svona landsbyggðar innslag slæðast með 🙂

  Berg er að mörgu leiti falleg bygging – hún myndi jafnvel njóta sín enn betur ef lóðin hefði verið kláruð, en eins og þú bendir á þá er lóðin „hógvær“ eða svo að segja fallega þökulögð. Því miður virðist sem umgjörð bygginga almennt sé alltaf fyrsti kostnaðarliðurinn sem er skorinn niður.
  En mig langar að benda á að það eru til skemmtilegar lóðateikningar ofaní skúffu sem kannski fá að líta dagsins ljós þegar slaknar á sultarólinni 🙂

 • Álfgrímur

  Grænlita ofanábyggingin

  fær augljósan rökstuðning

  á mynd númer fimm.

 • Stefán Guðmundsson

  Það er meira en líklegt að Fanney hafi ekki komið að þarfagreiningunni þannig að hugsanlegir gallar varðandi búningsaðstöðu og fl sé ekki á hennar ábyrgð.

 • Jón Kjartan Ingólfsson

  Þetta er að mörgu leyti snoturt hús, en það eru á því vænir gallar líka.

  Fyrir hús sem er ma. ætlað fyrir tónlistarflutning er það vægast sagt bagalegt að það er engin baksviðs- og búningsaðstaða, engar geymslur í eða við sal fyrir hluti eins og kórpalla, hljóðfæratöskur og nótnastanda, hvergi hægt að koma flyglinum í skjól osfrv.

  Það er eins og hún Fanney, sem hefur mér vitandi ekki áður hannað hús til svona nota, hafi alfarið sleppt því að ráðfæra sig við fólk sem notar svona hús.

  Það finnst mér afar klaufalegt.

 • Sigtryggur Jónsson

  Þetta er velheppnað hús og það er góð þjónusta i kaffiteríunni.

  Hvað varð annars af kaffistofu Norræna Hússins?. Af hverju var hún lögð niður?

  Þetta var ein besta kaffistofa Reykjavíkur með „smörrebröd“ og flatkökum með hangikjöti auk norræns samfélags með norrænum dagblöðum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn