Miðvikudagur 13.04.2011 - 08:06 - 12 ummæli

Arkitektúr í grunnskólunum

Þegar ég gekk í grunnskóla var ofuráhersla lögð á íslenskugreinar. Þeir sem ekki voru sæmilega læsir við átta ára aldur voru álitnir illa gefnir. Þeim var safnað saman í tossabekk.

Á eftir lestrinum í forgangsröðinni  kom kennsla í réttritun, setningafræði, málfræði og bókmenntum. Og svo var  grein í íslenskukennslunni sem hét “ritgerð”.  Þegar ritgerðin var dæmd breytti engu hvað neminn var að reyna að koma frá sér, eða hvort það var skiljanlegt sem hann var að reyna að segja. Ritgerðin var dæmd niður eftir stafsetningarvillum,  málfræði og málvillum.

Ekki má heldur gleyma bókmenntum þar sem rækilega var farið yfir allskonar bómenntaverk í lausu og bundnu máli.  Krakkarnir voru látnir læra Gunnarshólma utanað og skýra öll ljóð og allar bókmenntir eftir höfði kennarans, eða viðurkenndri túlkun.

Neminn fékk ekki að skýra áhrifin á hann sjálfan sem listunnanda. Listin var með því tekin úr bókmenntunum.

Svo var kennd stærðfræði sem þá var kölluð reikningur.  Þessar greinar, íslenskugreinarnar sex og reikningur voru aðalmálið.

Aðrar námsgreinar voru kallaðar “kjaftagreinar” og aðrar, sem var verra; “aukagreinar”

Kjaftagreinarnar voru landafræði, náttúrufræði, saga og kristnifræði. Þessar greinar las maður  rétt fyrir próf og reyndi svo að gleyma þeim sem fyrst.

Svo komu “aukagreinar” sem voru ekki mikils metnar.  Nánast allir fengu topp einkunn í aukagreinunum. Aukagreinarnar voru tónmennt, myndmennt, handmennt og leikfimi.  Maður skynjaði að þessar greinar skiptu ekki miklu  máli í menntuninni að mati skólastjórnenda.

Okkur var ekki kennt að tala eða tjá okkur um nokkurn hlut, ekki kennt að skoða umhverfið sem við lifðum í, ekki kennt að hafa skoðun á hlutunum og skýra málstað okkar og hugmyndir. Ekki kennt að skiptast á skoðunum.

Okkur var ekkert kennt um skipulagsmál eða arkitektúr.

Mér var aldrei sagt af hverju Melaskólinn væri byggður í boga eða af hverju skólaportin eru tvö, af hverju kennarastofan væri þar sem hún er og leikfimishúsið þar sem það er. Mér var heldur aldrei sagt frá hugmyndum að baki skipulagi Haganna.

Ég veit að kennsluhættir hafa mikið breyst til bóta á þeim langa tíma sem síðan er liðinn. Ég veit líka að lesblindir eru ekki álitnir heimskir og þeim safnað saman í tossabekk. Ég veit líka að börnum er kennt að tjá sig og hafa skoðanir.

En mig grunar að ekki fari mikil kennsla fram um arkitektúr og skipulag í grunnskólum þessi misserin.

Hinsvegar veit ég að fyrir 15-20 árum bauðst Arkitektafélag Íslands til þess að kynna arkitektúr og skipulag í grunnskólum endurgjaldslaust. Ekk veit ég til þess að það boð hafi verið þegið!

Myndin með færslunni er fengin af vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Þar gefur að líta leikskólann Hagaborg,  Melaskóla sem var barnaskóli, Hagaskóla sem var gagnfræðaskóli og Neskirkju sem er að hluta menntastofnun. Fjær er svo æðsta menntastofnun landsins Háskóli Íslands.  Myndin er tekin 1962.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Torfi Stefán

    Rétt til að svara nöfnunum (Stefán og Stefán). Alhæfingin er full mikil. Margt er unnið í skapandi greinum en rétt er að leikskólinn nýtir á margan hátt allar fjölgreindirnar skv. Gardner.
    Arkitektúr er á margan hátt grein sem nýtir sér aðrar greinar og væri því spennandi. Ég vil þó benda á að svo til allar greina upp í háskóla vilja komast í grunnskólann og telja sína mikilvægust allra.

  • Stefán Guðmundsson

    Það er eitthvað rétt í því sem Stefán segir, sennilega er Laikskólinn besta menntastofnunin að stúdentsprófi. Leikskólinn er skapandi og þroskandi, grunnskólin og framhaldsskólinn er innrætandi og niðurdrepandi.(afsakið alhæfinguna)

    En krafan er frjálslegra og skapandi nám þar sem kennsla í arkitektúr, skipulagi og umhverfismálum er verkfærið.

  • stefán benediktsson

    Allur lærdómur ungbarna byggir á stórkostlegri hæfni til að greina, álykta og sannprófa þar til þú getur klappað, gengið, talað, sungið, flautað, svo förum við í skóla og það líða um það bil 16 ár þangað til þú færð að spreyta þig á verkefni sem byggir á þessum hæfileikum. sem ekkert hafa verið nýttir að ráði síðan þú varst í leikskóla.

  • Torfi Stefán

    Ég er núna í kennsluréttindanámi, áhersla á framhaldsskóla og með BA í sagnfræði sem bakgrunn.
    Það sem stingur í stúf er að það sem er sagt hér að ofan er umræða sem hefur verið í deiglunni hér á Íslandi síðan minnst 1907 þegar Guðmundur Finnbogason gaf út bókina Lýðmenntun. Einhvern veginn hefur þó hitt orðið ofan á og þá einkum vegna þess að kennaranum líður eins og hann sé við stjórn, hann stjórni hraðanum og nær því yfirferðinni skv. aðalnámskrá.
    Ég var í Melaskóla og kláraði þar 1996 og var í tvísetnum skóla. Almennt var námið frekar hefðbundið en við og við komu öðruvísi nálganir eins og að útbúa ferðaskrifstofu og þvíumlíkt, þó er spurning hvað það kom mikið í námsmatið. Hagaskóli var þó fullkomlega staðnaður.
    Það er hins vegar margt í gangi í mörgum skólum núna og er hægt að benda á útikennsluna í Norðlingaholti sem gott dæmi.
    Hvað framhaldsskóla varðar er enn nokkuð ríkjandi hefðbundið fyrirkomulag þó vissulega sé boðið upp á margskonar afþreyingu eins og leiklist og annað því um líkt, fer þó sjaldnast í námsmat.
    Ein góð spurning sem mætti vel spyrja sig er afhverju þarf skólastofan að vera ferköntuð/kassalaga? Eru það einhver lögmál að þannig læri nemendur betur? Í reynd má velta fyrir sér arkitektúr um leið og maður veltir fyrir sér skólarýminu sjálfu.
    Efnistök og aðferð kennarans byggist þó fyrst og fremst á sjálfstrausti hans og stuðningi skóla við öðruvísi aðferðir.

  • Ég held að flestir sem hafa gengið í grunnskóla á Íslandi geti verið sammála um að lítið hafi farið fyrir kennslu í skapandi greinum/skapandi hugsunarhætti. Það sama er upp á teningnum alls staðar í heimunum og ástæðan er einföld. Innan skapandi greina er fyrst nýlega farið að stunda rannsóknir að einhverju marki. Með rannsóknum verður viðfangsefnið áþreifanlegra og þ.a.l. kennsluvænna. Ef við tökum raungreinar sem dæmi þá er sá hluti sem kallaður er rannsóknavinna oft mjög nálægt því sviði sem er undirstaða skapandi greina, nefnilega að upphugsa nýjar lausnir. Í skapandi greinum hefur rannsóknavinnan falið það í sér að setja orð á og miðla því ferli sem á sér stað þegar nýjar lausnir eru fundnar upp. Þetta hefur áður nánast verið tabú innan hinna skapandi greina, þar sem tíðkast hefur einhverskonar snobb í kringum listamanninn og að innblástur sköpunar sé frá listagyðjum kominn.
    Mette Volf er danskur arkitekt sem árið 2008 gaf út bókina Design – proces og metode, sem er bók ætluð til hönnunarkennslu á menntaskólastigi. Bókin er sú fyrsta á norrænu tungumáli sem fjallar um hönnunarferli og aðferðir á máli sem er skiljanlegt fyrir alla eldri en tólf og ein sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Ég hef trú á að fleiri bækur á svipuðu sviði eigi eftir að líta dagsins ljós og festa skapandi hugsunarhátt í sessi sem hluta af námsefni.

  • Hilmar Þór

    Nei Emil Örn, þú misskilur eitthvað. Ég átti yndislega æsku og leið alltaf vel í skóla. Í Melaskóla var kennari minn Ólafur Einarsson, mikill sómamaður sem vann vinnu sína af mikilli alúð og við krakkarnir upplifðum hann sem vin okkar og leiðbeinanda. Ég hitti hann annað slagið og við tökum alltaf tal saman og það fer vel á með okkur.

    Melaskólinn var þrísetinn á þessum tíma og það voru yfir 30 krakkar í hverjum bekk. Þó svo að mér hafði liðið vel og allt gekk í raun ágætlega “eftir áætlun” þá var náminu háttað eins og ég lýsi að ofan.

    Ég vona að ég geti við tækifæri farið inná spurningar Steinarrs Kr, Helgu og Torfa Stefáns. En það verður að bíða smátíma.

  • Emil Örn Kristjánsson

    Aumingja karlinn. Ósköp hefur þú átt vonda æsku.
    Ég ætla ekki að segja að skólinn hafi verið gallalaus en ég minnist þess ekki að hann hafi verið svona óskaplega slæmur. Reyndar má líka ýmislegt athuga við kennsluna í dag.
    Það er ekkert kerfi fullkomið og ég vil meina að sú skólaganga sem þú ert að vitna til hafi heldur ekki verið alslæm.

  • stefán benediktsson

    Við erum ekki jafnaldrar. Samt er skólaupplifun okkar alveg eins. Það segir mér mikið. Það hvað þú hefur spjarað þig segir mér líka, að skólinn á minni þátt í gerð okkar en væntingar standa til, enda kannski eins gott því hann fór ekki að breytast að ráði, fyrr en undir lok síðustu aldar, en er samt enn langt á eftir samfélagsþróun. T.d. gætu börnin kennt kennurum meira á tölvur en þeir þeim. Rýning, greining og ályktun eru lítið notuð verkfæri og börn um of meðhöndluð sem tómar fötur. Arkitektúr er birtingarmynd ríkjandi viðhorfa hverju sinni og börn þyrftu að fá að nálgast hann sem slíkan. Börn eru ekki minni fræðimenn en fullorðnir, bara ekki eins stór.

  • Og finnst þér viðbygging Melaskóla í góðu samræmi við aðalhúsið? Eða ósamræmið gott?

  • Torfi Stefán

    Ég var að velta því fyrir mér hvort þú gætir svarað því afhverju viðbyggingar (og reyndar sumar af fyrstu byggingum) Hagaskóla eru hafðar á einni hæð. Þegar bæði hluti af hagaskóla eru tvær hæðir og með kjallara og síðan Melaskóli einar fjórar hæðir og með kjallara. hvaðan kemur þessi flatneskjustefna?

  • Guðmundur magnússon

    Þetta eru athyglisverðar hugleiðingar.
    Sennilega er íslensk umræðuhefð sprottin af þessu skólauppeldi á árum áður.
    Krökkunum var ekki kennt að hafa og segja frá skoðunum sínum.
    Einkenni íslenskrar samræðu er eimitt ekki að koma með skoðanir eða rökstyðja þær. Heldur segja íslendingar hvorum öðrum sögur máli sínu til stuðnings og vitna í ummæli einhverra annarra. Vitna í Njálu og eitthvað sem áður var sagt. Koma með hendingu úr vísu eða vísubrot og fleyga setningu sem allir þekkja. Samræðan er á bókmenntalegum grunni.

    Sennilega er arkitektúr og skipulag heppilegt efni til þess að kenna fólki að rökræða. Í skipulagi og byggingalist, sem hvorutveggja er nytjalist er nægt rými fyrir milljón mismunandi skoðanir sem allar eiga mikið undir sér.

  • Steinarr Kr.

    Undir skólalýsinguna get ég tekið og bætt við að ég man að það stóð Tilraunaútgáfa á flestum mínum kennslubókum.

    Þú veltir upp ýmsum spurningum með Melaskóla og Hagatorg. Endilega segðu meira frá. Hef verið að velta þessu fyrir mér, án svara.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn