Sunnudagur 05.01.2014 - 11:07 - 7 ummæli

Arkitektúr til fólksins

 „Arkitektúr er allt of mikilvægur til þess að afhenda arkitektum einum forræði yfir honum“ stendur á skiltinu á myndinni að ofan.

Þetta er eitt af mörgum skiltum sem danska arkitektafélagið lét hengja upp á götum Árósa á degi byggingalistarinnar 1. október s.l.

Tilgangurinn var að ná til notenda byggingarlistarinnar, hins almenna borgara.

Fyrir meira en fjörutíu árum byrjuðu danskir arkitektar að beina umræðu um arkitektúr út fyrir þröngan hóp þeirra sjálfra.

Þeir byrjuðu fyrir alvöru að tala við notandann og upplýsa hann um arkitektúr og skipulag. Þeir fóru í skólana og töluðu á íbúaþingum. Fjölmiðlarnir juku umfjöllun um skipulag og arkitektúr. Og danirnir eru enn að. Undanfarin ár hafa verið tveir fastir þættir í danska ríkissjónvarpinu í hverri viku („Hammerslag“ og „Danmarks bedste hus“) þar sem efnið er til umfjöllunnar auk annarrar almennrar umræðu.

Danir bjóða upp á kennslu í byggingalist og skipulag í skólum. Þetta er ekki alltaf sérstakt fag heldur samtvinna þeir þessa kennslu öðrum námsgreinum grunnskólanna. t.a.m. félagsfræði, hagfræði, sögu og listum.

Hér á landi eru arkitektarnir aðarlega að tala hver við annann.

Íslenskir arkitektar mæta á opna fundi  til þess að hlusta á aðra arkitekta. Svo kinka þeir kolli hver fyrir öðrum og takast helst ekki á. Þeir tjá sig nánast ekki opinberlega og ef þeir gera það þá ber málfluttningurinn keim af einhverri upphafningu sem hinn almenni borgari hefur lítinn áhuga á. Hann skilur jafnvel ekki orðfæri sérfræðinganna og samhengið.

Hinn almenni borgari vill bara umhverfi sem virkar og hann hefur efni á. En hann vill og þarf að skilja samhengi hlutanna. Hann þarf að skilja skipulagið, arkitektúrinn og arkitektana sjálfa. Hann þarf að skynja að hann getur haft áhryf.

Borgarinn vill að arkitektinn og skipulagsfræðingurinn tali til sín á máli sem hann skilur og um málefni sem varðar hann sjálfan og hans félagslegu hagsmuni. Svo finnst honum auðvitað betra ef þetta lítur sæmilega út.

Ég hef reynt að halda þessari vefsíðu úti einmitt til þess að ná til hins almenna notanda byggingalistarinnar og skapa umræðu með þátttöku hans.

En það hafa ekki allir áhuga á arkitektúr, skipulagi og staðarprýði. Því miður er áhuginn miklu minni en tilefni er til.

Af hverju ætli það sé?

Sennilega m.a. vegna þess að flestir halda að þeir hafi ekki vit á efninu og þeirra skoðanir skipti ekki máli. Það er auðvitað skiljanlegt þegar þeim er ekkert kennt um efnið í skólum og lítið ef fjallað um það í fjölmiðlum.

Sennilega er líka einhverja skýringu að finna í því að sérfræðingarnir hafa tilhneigingu til þess að upphefja svo sérsvið sitt í málflutningnum að hinn venjulegi maður botnar ekkert í um hvað er verið að tala og brestur kjark til þess að taka þátt í umræðunni og hafa áhryf á þróunina.

Svo held ég persónulega að svokölluð kynningarferli sveitarfélaga vegi þungt. Borgararnir hafa slæma reynslu af kynningarferlum og grenndarkynningum. Það ferli skilar sjaldnast nokkrum árangri. Lítið er tekð tillit til athugasemda borgaranna eins og dæmin sanna. Hönnuðir, hagsmunaaðilar og jafnvel kjörnr fulltrúar virðast oft líta á þá sem gera athugasemdir sem andstæðinga sína. Það er auðvitað tóm vitleysa, Þeir sem gera athugasemdir eru auðvitað samstarfsmenn hönnuða, hagsmunaaðila og stjórnmálamanna.

Þarf ekki að taka á þessu?

Arkitektúrinn er ekkert öðruvísi en annað.  Maður hefur ekkert gaman af tónlist nema að  kunna að hlusta á tónlist og ekkert gaman að bókum nema kunna að lesa bækur. Við tónlistarkennslu í skólum eykst skilningur og ánægja þjóðarinnar af tónlistini. Sama á við um bókmenntir og myndlist. Ef þessar greinar væru ekki kenndar í skólum væri áhuginn fyrir þessum listgreinum svipur hjá sjón.

Byggingarlistin er hér útundan, hún er ekki kennd og fólk kann ekki að njóta hennar og gerir ekki nægjanlega miklar kröfur.

Arkitektar þurfa á kröfuhörðum og upplýstum neytendum að halda. Fyrst þegar þeir eru fyrir hendi byrja sérfræðingarnir og stjórnmálamennirnir að vanda sig og skapa arkitektúr fyrir fólk.

Það er komið nóg af arkitektúr fyrir arkitekta

 

„Arkitektúr hversdagsleikans fjallar um samskipti fólks“

„Hefur þú heilsað uppá nágranna þína í dag?“

„Arkitektúr fjallar ekki eingöngu um hvernig hann lítur út“

„Arkitektúrinn fjallar líka um hvað hann getur“

„Bókasafnið er kannski ekki það sama og Wikipedia“

„…en það er enn eitt af mikilvægustu félagslegu almenningsrýmunum“

„Hvernig mundir þú nota borgina ef allir bílarnir væru farnir?“

„…. mundir þú fjarlægja malbikið og setja grænar grasflatir í staðinn og nota svæðið til útivistar?“

„Það er gott að búa í velhirtu og fallegu húsi“

„… sá sem býr á móti þér nýtur hússins þíns enn frekar!“

„Sá blindi og heyrnarlausi nýtur einnig byggingalistarinnar“

„Gæði borgarrýmisins talar til allra skynfæra“

 

„Þetta er staðurinn sem byggingalistin fer til þess að deyja“

„Byggingalistin og skipulag gengur út á að skapa upplifanir“

„.. og fjallar aldrei eingöng um að skapa fallegt útlit“

.

.

Sjá einnig færslur um svipað efni

Um óskiljanlegt áhugaleysi á arkitektúr:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/08/oskiljanlegt-ahugaleysi-fyrir-arkitektur/

Um arkitektúrkennslu í grunnskólum:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/04/13/arkitektur-i-grunnskolunum/

Um almenna fræðslu í skipulagi og byggingalist:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/09/21/fraedsla-i-byggingarlist/

Um hvernig byggingalistinni er haldið útundan í umræðunni:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/16/byggingarlistin-er-utundan/

Myndirnar í færslunni eru fengnar af danskri vefsíðu og hef ég snarað texta nokkurra skilta á Íslensku.:

http://arkfo.dk/da/blog/arkitekter-burde-boble-lidt-mere

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Hilmar Þór

    Ég var að koma af mjög góðum fyrirlestri og sýningu í Norræna Húsinu rétt í þessu, „12 draumar arkitekta“. Fyrirlesturinn var vandaður, liflegur og vel fluttur.

    Ég mæli með henni.

    Það vakti athygli mína hversi fáir voru mættir ég taldi 31+fyrirlesararnir sem voru 2, alls 33.

    Ég kannaðist við svipinn á flestum og met það svo að af þessum 33 voru 26 arkitektar eða arkitektanemar. Hina 7 veit ég ekki hverjir voru. Kannski líka arkitektar?

    Þetta styður þá kenningu að arkitektan koma til þess að hlusta á aðra arkitekta og arkitektar halda fyrirlestra fyrir kollega sína. Þeir beina sjaldan orðum sínum og nálgun til almennra borgara.

    Þessu þarf ð breyta og auka áhuga almennings fyrir efninu.

    Annað sem var athyglisvert á fyrirlestrinum var að rúmlega 75% áheyrenda voru konur!

  • Pétur Örn Björnsson

    Mörg eru skáldin, en misjafnt er drukkið ölið og út úr okkar albesta stóð þá
    „spýjan út úr honum.“ 🙂

  • Þorgeir Jónsson

    sagði ekki skáldið um okkur Íslendinga? „Þið búið vel, en fátækrahverfin eru innra með ykkur.“

  • Þorgeir Jónsson

    sagði ekki skáldið um okkur Íslendinga? „Þið búið vel, en fátækrahverfin eru innra með ykkur.“

  • Pétur Örn Björnsson

    Ég tala um borgina … í örfáum bútum úr mögnuðu ljóði Octavio Paz:

    „ég tala um glerturnana, brýrnar, neðanjarðargöngin, flugskýlin,
    furðuverkin og stórslysin þeirra“

    „um bankana og bankaráðin, um verksmiðjurnar og stjórnendur, um
    verkamennina og þeirra siðspilltu vélar,
    ég tala um vændið frá ómunatíð, óslitið um götur jafnlangar og
    lostinn og leiðinn“

    „ég tala um einsetumanninn og bræðralag hinna taumlausu, um
    samtryggingu yfirvaldanna og ræningjagengin

    um Mannvininn mesta að hvetja fallöxina og um Sesar, þann ástmög
    mannkynsins“

    „varir sem segja Sesam og tíminn sem opnast og herbergið litla umskapað
    í garð myndbreytinganna, og loft og eldur fallin í faðma, jörð og vatn
    orðin eitt“

    „ég tala um borgina, fjárhirði aldanna, móður sem elur okkur og svelgir,
    býr okkur til og gleymir.“

    Octavio Paz var mexikóskt ljóðskáld og Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum. Bútar mínir eru sóttir í ljóð Paz, Ég tala um borgina í þýðingu Sigfúsar Bjartmarssonar og Jóns Thoroddsen og er að finna í bókinni Allra átta, útgefin 1993 af Bjarti.

  • Skólarnir hafa brugðist
    Fjölmiðlarnir hafa brugðist
    Arkitektarnir hafa brugðist

    Áhuginn vex með meiri umfjöllun.
    Meiri áhugi á arkitektúr setur fjölmiðlana af stað.

    Þetta er dæmisagan um eggið og hænuna.

    Engin hæna=ekkert egg
    Ekkert egg=engin hæna

  • Jón Gunnarsson

    Orð í tíma töluð. Fjölmiðlarnir eru ekki að fjalla mikið um arkitektúr. Þeir fjalla hinsvegar eitthvað um allskonar hönnun (föt og nytjahluti) Í helgarblöðunum nú um helgina er eitt viðtal við arkitekt. En þar er ekkert talað um arkitektúr!! Bara um eitthvað frægt fólk sem arkitektinn hefur hitt og hvernig arkitektinum líður í flugvélum og hvort um hann gangi kjaftasögur. Ekkert um arkitektúr (sic)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn