Fimmtudagur 02.01.2014 - 14:46 - Rita ummæli

Jes Einar Þorsteinsson arkitekt

JES

Jes Einar Þorsteinsson kjörinn heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands

Jes Einar Þorsteinsson hefur verið ötull og áhrifamikill fulltrúi arkitektúrs á Íslandi og eftir hann liggja þekktar byggingar sem bera listfengi hans og fagmennsku gott vitni. Jes fæddist í Vestmannaeyjum árið 1934. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Ryekjavík stundaði hann nám í myndlist og arkitektúr í París og útskrifaðist sem arkitekt frá Ecole Nationale Supérieure des Beaux-Arts árið 1967. Á námsárunum vann hann í tvö sumur hjá Gísla Halldórsssyni arkitekt og með námi hjá Högnu Sigurðardóttur arkitekt og á ýmsum teiknistofum í París. Strax að námi loknu hóf Jes rekstur eigin teiknistofu sem hann hefur rekið í eigin nafni alla tíð. Jes Einar er án vafa kunnastur fyrir hönnun mannvirkja á sviði íþrótta og heilsugæslu. Má þar nefna íþróttamiðstöð og sundlaugar í Borgarnesi, Flateyri og Bolungarvík, Skeiðalaug á Brautarholti, búningshús við Laugardalslaug, íþróttahús í Njarðvíkum og að Laugum í Reykjadal. Á sviði heilsugæslu má nefna Sjúkrahúsin á Ísafirði og í Stykkishólmi, heilsugæslustöð, tónlistarskóla og bókasafn á Seltjarnarnesi og minni heilsugæslustöðvar víða um land, m.a. á Hvolsvelli og Vík í Mýrdal. Þá teiknaði Jes Einar Kirkjubæjarskóla á Síðu snemma á sínum ferli. Þó Jes hafi einkum unnið að stærri verkefnum er hann einnig höfundur að nokkrum athyglisverðum íbúðarhúsum, m.a Vogalandi 2 í Fossvogi, Einilundi 10 í Garðabæ og síðast en ekki síst eigin íbúðarhúsi og vinnustofu við Grjótasel 19 í Reykjavík.

Allan sinn starfsaldur hefur Jes Einar verið áberandi og leiðandi í félagsstarfi Arkitektafélagsins og lagt sitt af mörkum í hagsmunamálum arkitekta. Hann var formaður félagsins 1984-85, ritari 1971-72 og meðstjórnandi 1983 og 1986. Þá hefur hann setið í gjaldskrár-, samkeppnis- og siðanefndum félagsins og verið fulltrúi þess í stjórn Bandalags Íslenskra Listamanna. Mest er þó arfleifð hans í menntamálum stéttarinnar. Þar ber hæst vinna hans við ÍSARK og síðar við að stuðla að varanlegri kennslu í arkitektúr á háskólastigi á Íslandi. Jes var formaður skólanefndar ÍSARK frá 1994 og forstöðumaður sumarnámskeiðs ÍSARK 1996. Auk ævistarfs á sviði arkitektúrs hefur Jes Einar haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum á myndlist og eru málverk eftir hann í eigu Listasafns Íslands.

.

.

Textinn að ofan er saminn af Pétri H. Ármannssyni arkitekt og myndin sem var tekin þegar Jes veitti heiðursnafnbótinni viðtöku á aðalfundi félagsins í nóvember s.l. er fengin af heimasíðu Arkitektafélags Íslands

Arkitektafélagið hefur verið spart á að veita félögum sínum þessa viðurkenningu. Ef ég man rétt þá var fyrsti heiðursfélaginn (1955) Sigurður Guðmundsson sem teiknaði Ausurbæjarskólann, Fossvogskapellu o.fl.  Annar (1969) var Gunnlaugur Halldórsson. Síðan liðu 23 ár þar til  Hörður Ágústsson var kjörinn (1992) og svo komu þau Guðmundir Kristinsson (2001),  Gísli Halldórsson (2002), Högna Sigurðardóttir (2008), Manfreð Vilhjálmsson (2011) og nú Jes Einar Þorsteinsson (2013).

Það vill svo til að  ég vann með Jes Einari á teiknistofu þeirra Gísla Halldórssonar, Ólafs Júlíussonar og Jósefs Reynis á Tómasarhaga 31, sennilega sumrin 1958 eð 1959. Við vorum báðir sumarstarfsmenn, Jes, sem var í námsleyfi frá París, sat og teiknaði perspektiv af sýninga- og íþróttahöll í Laugardal og ég vann sem sendill.

Það heillaði mig að sjá Jes teikna perspektiv af þessu mikla húsi með kúluþakinu og sjá teikninguna töfrast fram.

Hann notaði auðvitað fjölda hjálpalína sem hann flokkaði í þrjá liti eftir tilgangi þeirra og til þess að greina á milli lína sem höfðu mismunandi tilgang þannig að þetta færi ekki bara í eitt stórt rugl. Einn var blár, annar rauður og þriðji grænn. Í lokin teiknaði hann síðustu yfirferðina með svörtu. Allt var þetta gert með tússi blandað blýantsstrikum.

Niðurstaðan varð fullkomin.

Síðan þetta gerðist eru liðin 55-56 ár!

Ég óska Jes Einari Þorsteinssyni til hamingju.

Hér er umfjöllun um teiknistofu þeirra félaga Gísla, ÓLafs og Jósefs á Tómasarhaganum.

 http://blog.dv.is/arkitektur/2010/12/01/arkitektastofa-70-ara/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/09/19/demanturinn-a-hotel-loftleidum/

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn