Nýlega kom út tímaritið ARKITEKTÚR sem gefið er út af Arkitektafélagi Íslands og Félagi Íslenskra Landslagsarkitekta.
Að þessu sinni er sjónum beint að ferðamannastöðum á Íslandi þar sem einkum er litið aðbúnaðs og aðstöðu til þess að taka á móti fólki. Þá er fjallað um nokkrar glæsilegar nýbyggingar svo sem sundlaugina á Hofsósi, Menningarhúsið Hof á Akureyri, Skála Íslendings í Reykjanesbæ o.m.fl.
Þarna er líka merkilegt viðtal við Reyni Vilhjálmsson og Manfreð Vilhjálmsson um ferðaþjónustu og arkitektúr ásamt greinum um merkingar á ferðamannastöðum o. fl.
Þarna eru líka áhugaverðar greinar um landslagshönnun og vöruhönnun.
Þetta er spennandi blað sem ætti að liggja frammi í öllum betri stofum landsmanna.
Blaðið kostar aðeins kr. 1250.- og fæst í öllum betri bókabúðum
22.09.2011
Mér hefur verið bent á að ég nefndi ekki að ofan að í ritinu er ágæt yfirferð yfir arkitektasamkeppnir sem voru haldnar á síðastliðnu ári hér á landi.
Þar er fyrst að telja Nýjan Landspítala þar sem er fjallað um allar innsendar tillögur. Þá er fjallað um samkeppni um framhaldsskóla í Mosfellsbæ þar sem birtar eru teikningar af öllum verðlaunuðum og innkeyptum tillögum.
Um þriðju samkeppnina sem dæmd var á síðasta ári er ekki fjallað en það er hjúkrunarheimili á Eskifirði. Ekki veit ég hver ástæðan er, en þetta vekur athygli vegna þess að það er mikilvægt að jafnræði sé gætt og að arkitektar fái umfjöllun um verk sín. Þessi efnistök skekkja myndina af samkeppnismálum á síðasta ári.
Ef fjalla átti um samkeppnir á annað borð hefði hjúkrunarheimilið átt að vera fremst í forgangsröðinni vegna þess að hjúkrunarheimili eru mikið á dagskrá hér á landi um þessar mundir.
Ég tek fullkomlega undir þessa ábendingu. Hér hefði mátt gera mikið betur. Við munum að sjálfsögðu leggja áherslu á að laga þetta í næsta tölublaði.
Ritstjóri
Fróðleg umfjöllun um íslenska byggingarlist og umhverfismál. Því miður hefur láðst að prófarkarlesa blaðið þannig að stafsetningarvillur, innsláttarvillur og jafnvel slæmar málvillur eru allt of tíðar. Fagmennskan þarf að vera á öllum vígstöðvum.
Flott útgáfa og forvitnilegt efni – þrátt fyrir þennan vandræðagang. Gengur vonandi betur næst!