Laugardagur 22.09.2012 - 12:09 - 7 ummæli

Arkitektúr tímarit komið út.

 

Tímarítið Arkitektúr er komið út glæsilegt að venju. Allur frágangur og málfar er til fyrirmyndar. Í kynningu Arkitektafélagsins er síðasta tölublað kynnt með eftirfarandi hætti:

ARKITEKTÚR – tímarit um umhverfishönnun, 1. tölublað 2012 er komið út. Útgefandi er Arkitektafélag Íslands og Félag landslagsarkitekta, Ritstjóri er Bjarki Gunnar Halldórsson  FAÍ. Í ritnefnd eru Kristín Þorleifsdóttir FÍLA, Anna María Bogadóttir FAÍ, Lilja Filippusdóttir FÍLA og Harpa Heimisdóttir FAÍ. Um hönnun sáu Borghildur Sölvey Sturludóttir FAÍ og Anders Möller Nielsen FAÍ og MAA. Blaðið er óvenju glæsilegt að þessu sinni og hefur líklega aldrei verið efnismeira. Auk leiðara og umfjöllunar um samkeppnir um umhverfi Norræna hússins, Karastaðastígs á Þingvöllum og göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa eru í blaðinu 19 greinar um arkitektúr og umhverfishönnun. Hildigunnur Sverrisdóttir arkitekt FAÍ skrifar skemmtilega og gagnrýna grein um Hörpu, Garðar Snæbjörnsson arkitekt FAÍ fjallar um hinn athyglisverða Brunareit og Kvosina, danski arkitektinn Stig Lennart Andersson MAA, MDL fjallar um þróun borgarlífs, Kristín Þorleifsdóttir, Phd. og landslagsarkitekt FÍLA fjallar um markaði svo aðeins fátt eitt sé nefnt af öllu því vandaða efni sem í blaðinu er. 

Ritstjórnin hefur augljóslega lagt hart að sér til þess að tímaritið verði sem glæsilegast. Og það hefur tekist.

Þarna er vel skrifuð umfjöllun Hildigunnar Sverrisdóttur um Hörpu. Þar veltir hún m.a. fyrir sér hvort byggingin snúi ekki öfugt. Eins og fram hefur komið í mínum pistlum þá er ég sammála þessu. Þetta sjá flestir sem kynt hafa sér málið.

Eitt vil ég þó finna að þessu tölublaði. Það er að ekki er fjallað um stærsta mál sem komið hefur upp í arkitektúr í sögunni. Það liggur fyrir að Landspítalinn Háskólasjúkrahús mun breyta ásýnd höfuðborgarinnar. Margt bendir til að aðeins hluti þessarrar miklu áætlunar verði framkvæmd á næstu áratugum.

 

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig ritstjórn tókst að sneiða hjá þessu mikla máli í þessu tölublaði. Slíkur er þungi umræðunnar og slík eru áhrifin ef af þessu verður. Ég hefði viljað sjá ítarlega faglega umfjöllun um málið þar sem sérfræðingar úr öllu samfélaginu leggðu orð í belg. Í þessu eintaki Arkitektúrs var kjörið tækifæri til þess á faglegan hátt að upplýsa um málið hugsanlega þannig að rétta megi stöðu þeirra sem vinna að þessu verki. En það hallar nokkuð á þá um þessar mundir. Því miður. Í næsta tölublaði er það of seint.

Ef tímaritið Arkitektúr ætlar að hafa áhrif verður það að ná til almennings og fjalla þannig um málin að í það verði vitnað í öðrum fjölmiðlum.

Það verður að fjalla um mál líðandi stundar og leggja mikilvæg sjónarmið til í umræðuna.

Harpan er útrædd, byggð og búin þó mikilvægt sé að fólk tjái sig um hana öðrum til fróðleiks og skemmtunar.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/16/byggingarlistin-er-utundan/

og

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Örnólfur Hall

    Það má segja að Harpan sé útrædd á AT því þetta er í annað sinn (2005 & 2012) sem hún er í fyrirrúmi í því riti með glansmyndum á forsíðum. Væntanlega verður hún varla í þriðja sinn 2014 í glansmynd. — Hörpuumræðan heldur áfram um að allt sé ekki eins og ætti að vera þar.- Sem ýtinn gagnrýnandi hef ég iðulega fengið að heyra harða gagnrýni frá notendum: Gestum, listafólki, starfsfólki, fötluðum o.fl.
    Svo ekki séu nefndir tækni-og fagmenn. Fer yfir þetta á öðrum vettvangi.

    Ég minnist þess ekki að hafa fengið boð um að senda nú inn grein í AT.
    Ég reyndi það í AT 2010, eftir að hafa fengið boð, en ritnefnd þá ansaði því engu og sögðu ekki einu sinni: því miður þetta hentar ekki en takk fyrir samt. Afgreitt var með þögninni.

    Ég tek heilshugar undir með Dennis.

    Eins tek ég undir með Stefáni um að vanda málið og að nota sem stystar og hnitmiðaðar setningar. – Gunnlaugur Halldórsson arkitekt var mér minnistæður fyrir hve hann notaði fallegt og hnitmiðað mál þegar hann var að lýsa arkitektúr.

  • stefán benediktsson

    Ég sakna umfjöllunar um LSH eins og HÞB en ef enginn skrifar er ekkert að birta. Það er ekki eins og blaðið hafi efni á að greiða fyrir greinar.
    Annað smásmugulegra mál sem ég er búinn að láta fara í taugar mínar lengi.
    Ég get einhverveginn ekki sætt mig við fleirtöluna af orðinu samkeppni. „samkeppnir um umhverfi Norræna hússins, Kárastaðastígs á Þingvöllum og göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa“ skildist alveg eins vel þótt sagt yrði „samkeppni um umhverfi Norræna hússins, Kárastaðastígs á Þingvöllum og göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa“.
    Ég á von á aldurs vegna að þeim hafi fækkað sem eru sammála mér en varð bara að hafa sagt þetta einhversstaðar. No hard feelings Hilmar.

  • Helgi Hallgrímsson

    Ég vil benda á það að stór hluti greina í þessu tímariti hafa í gegnum tíðina komið í formi aðsendra greina utan úr bæ. Mönnum er í lófa lagið að senda inn greinar um landspítalaskipulagið eða hvað sem er annað sem menn telja mikilvægt að sé fjallað um. Einnig er öllum (félagsmönnum í aí eða fíla) frjálst að bjóða sig fram í ritnefnd.

  • Helgi hallgrímsson

    V.F!
    Ef þú ætlar að vera með svona dylgjur um rit nefndina er lágmark að gera það undir fullu nafni.

    • Hilmar Þór

      Ég er sammála Helga hér að ofan. Sérstaklega vegna þess að V. F. hefur verið nokkuð málefnalegur/málefnaleg frá uppbafi þessarar vefsíðu. ViðkomandI hefur oftast bætt umræðuna og bryddað á nýjum sjónarhornum. Segðu okkur hver þú ert og orð þin vega þyngra!

  • Svar við spurningunni um auðu síðurnar, eða síðurnar sem allir sakna í tímaritinu um LSH er sennilega að finna í samsetningu ritstjórnar sem tengist þeim aðilum sem er að vinna að hönnun sjúkrahússins. Fólkið forðast opna faglega umræðu um málið af skiljanlegum ástæðum.

  • Ég velti fyrir mér hvort ekki sé komi tími til að að gefa út veftímarit um Arkitektúr og hönnun sem gæti komið út oftar og tæki á málum sem eru í umræðunni? Blogg Hilmars Þórs er i raun vísir að slíku veftímariti.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn