Föstudagur 21.09.2012 - 07:54 - 9 ummæli

Vandkunsten í Reykjavík

Ég má til með að kynna hér lítillega dönsku teiknistofuna Vandkunsten. Hún var stofnuð í sambandi við einhverja stærstu samkeppni sem haldin hefur verið í Danmörku fyrr og síðar. Það var samkeppni SBI um lága þétta byggð. Keppnin var gríðarlega vel undirbúin og tók á öllu sem varðaði búsetu fólks frá nánast öllum hugsanlegum sjónarmiðum.

Þetta var árið 1971 og voru þeir sem stóðu að Vandkunsten kornungir menn. Einn þeirra var félagi minn, Trolle, sem lést skömmu síðar.

Vandkunsten vann samkeppnina með því að leggja fram tillögu sem tók á nánast öllu samfélaginu; pólitískum málum, efnahagsmálum, atvinnumálum og nánast öllum félagslegum spurningum sem þá voru uppi auk þess auðvitað að leggja fram tillögu með framúrskarandi arkitektúr.

Í framhaldinu unnu þeir yfir 60 fyrstuverðlaun í opnum dönskum, norrænum og alþjóðlegum samkeppnum. Stofan hefur verið tilnefnd 5 sinnum til Mies van der Rohe verðlaunanna, fengið Eckersberg medalíuna,  CF Hansen verðlaunin, Træprisen, DAL verðlaunin og nánast öll arkitektúrverðlaun sem veitt eru í Danmörku. Alþjólegu verðlaun Kasper-Salin, Frits Schumacherverðlauni og hina virtu Alvar Aaltó medaliú fyrir utan fjölda verðlauna sem ríki og bæjarfélög hafa veitt þeim fyrir framúrskarandi arkitektur.

Flestar þessara viðurkenninga voru veitt Vandkunsten  fyrir ramma- og deiliskipulagshugmyndir og íbúðabyggingar.

Og af hverju má ég svo til með að kynna Vandkunsten sérstaklega. Jú, það er vegna þess að stofan sóttist  eftir að fá að taka þátt í lokaðri samkeppni um íbúðasvæðið í Úlfarsárdal í Reykjavík. Þeir sóttu þetta nokkuð fast en niðurstaða þeirra sem báru ábyrgð á valinu var sú að aðilar sem voru í föstum viðskiptum við skipulag borgarinnar væri þeim fremri og líklegri til þess að koma fram með nýjar og nothæfar hugmyndir sem vísuðu veginn til framtíðar í skipulagsmálum hér á landi.

Enginn veit hvernig Vandkunsten hefði nálgast lausn sína í Úlfarsárdal.  En ég tel líklegt að þeir hefðu nálgast hana í stóru samhengi hlutanna. Tillaga þeirra hefði verið önnur en við eigum að venjast, framúrstefnulegri, vistvænni og með menneskjuna í forgrunni. Þeir hefðu að líkindum skoðað allt suðvesturhornið sem eina skipulagslega heild og allt svæðið frá Akranesi til Selfoss og Keflavík sem eitt atvinnusvæði. En það fáum við aldrei að vita.

Hjálagt eru nokkrar myndir af verkum stofunnar og neðst er stutt myndband þar sem eitt verka þeirra í Grænlandi er kynnt og sýnir hvernig þau nálgast lausnir sínar. Myndbandið er fróðlegt og lýsir skíra og opna hugsun sem einkennir stofuna. Þeir sem þekkja verðlaunatillögu þeirra frá 1971 sjá skyldleikann.

Hér má kynnast verkum stofunnar nánar:

http://www.vandkunsten.com/dk/Projekter

Efst í færslunni er óbúðahverfið Tinggården þar sem er lág þett byffð sem gefur tækifæti tilþéttra göturýma en um leið opinna útivistarsvæða eins og sjá má af afstöðumyndinni að ofan.

 

 

 

 

 

Hér að neðan er lýst skemmtilegri hugmynd vandkunsten varðandi þinghús dana.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

 • Sigurður Jónsson

  Tinggården er eitt merkilegasta íbúðahverfi síðari tíma. Óskiljanlegt er að borgin hafi hafnað þessum snillingum. Kann einhver skýringu á því?

 • Magnús Bjarnason

  Takk fyrir þennan frábæra pistil.

 • Ég heimsótti Tinggården 1984 og varð fyrir sterkum áhrifum. Þarna sá maður drauma okkar kynslóðar verða að veruleika. Byggingarfélagið, sem byggði íbúðarsvæðið, var „non profit“ sem vekur mann til umhugsunar. Ég held að unga hugsjónafólkið, sem mætti á kynninguna á Hljómalindarreitnum, hafi verið með álíka drauma um samfélag sem byggi á öðrum gildum en fjárhagslegum.

  • Vonandi heldur þetta unga fólk áfram meþ sínar hugsjónir

 • Björn Helgason

  Ég held að eftirfarandi sem skrifað var í athugasemdarkerfinu vegna færslunnar um „Horgul og sköpun á höfuðborgarsvæðinu“ eigi við hér. Hún er frá sjálfum pistlahöfundi og er svona:

  Hilmar Þór
  13.9 2012 @ 10:56
  Því miður sé ég mér ekki fært að taka þátt í þessu merkilega framtaki. En er að velta fyrir mér þessu mikla máli.

  Ég held að hinn mikli hiti í efnahagslífinu fyrir hrun hafi að einhverju marki stafað af sterkri og landlægri kunningja- og vinavæðingu allra hluta og vegna þess að almenn umræða átti sér ekki stað um viðfangsefnin á þessum árum.

  Við vitum að svona var þetta í fjármálakerfinu þar sem eigendur bankanna og bankarnir unnu náið saman með endurskoðendum og nánast öllu fjármálakerfinu.

  Í skipulagsmálum var þetta líka þannig að áætlanirnar voru ekki ræddar í samfélaginu. Þær voru ræddar í lokuðum, hópum sem einhvernvegin fóru sínu fram svipað og í fjármálakerfinu. Það vildu bara allir byggja og allir lána til bygginga og svo keyrði hraðlestin fram af hengibrúninni.

  Ef einhverjar efasemdarraddir komu upp var þaggað niður í þeim.

  Ég tek dæmi af skipulaginu í Úlfarsárdal sem engin þörf var fyrir. Samt var farið af stað vegna þess að verktakar vildu byggja og lánastofnanir lána án þess að skoða heildarmyndina og hvort þörf væri fyrir þessi ósköp..

  Sjálft skipulagið var boðið út með forvali í einskonar samkeppni þar sem fimm stofur voru valdar til þess að etja kapp um hnossið. Fyrir valinu urðu góðkunningjar borgarskipulagsins auk náinna fjölskyldumeðlima stjórnenda borgarskipulagsins.

  Einhverjir fundu að þessu, enda fullkomlega óeðlilegt, og varð niðurstaðan sú að valið var fellt úr gildi eftir hvassa umsögn borgarlögmanns. Hann taldi fjölskyldu-og vinavæðingu ekki ganga að mér skildist.

  Forvalsgögnin voru endurmetin af starfsmönnum borgarinnar sem komust eðlilega að sömu niðurstöðu og samstarfsmenn þeirra í fyrra mati. Þeir treystu sér sennilega ekki til að ganga gegn fyrri ákvörðun end hefði slíkt ekki veri vel séð hygg ég. Auðvitað áttu aðilar utan borgarkerfisins að meta umsagnirnar úr því að svona var komið.

  Í framhaldinu varð þetta bara “buisniss as usual” og við sitjum uppi með orðinn hlut.

  Það er gaman að geta þess að meðal umsækjenda í forvalinu voru einhverjir frægustu og færustu skipulagsaðilar veraldarinnar, Vandkunsten frá Danmörku. Margir voru hissa á að þeir sýndu þessu svona mikinn áhuga. Vadkunsten hefur lagt áherslu á vistvæna félagslegt skipulag í gegnum tíðina sem hefur vakið heimsathygli. Einn af þeirra sérstöku hæfleikum er að nálgast lausnirnar á forsendum staðarins. Þess vegna skilur enginn sem kynnst hafa verkum Vandkunsten hvernig stóð á því að borgin hafnaði þjónustu þeirra á sínum tíma.

  Vankunsten skoraði ekki nægilega hátt til þess að ná að vera í hópi miðlungsmanna í skipulagsmálum hér á landi.

  Kunningjasamfélagið og vinavæðingin er ein af ástæðunum fyrir því hvernig komið er. Menn lögðu ekki í umræðuna um skipulagsmál eða hreynlega vildu hana ekki og héldu þessu meira og minna hjá sjálfum sér.

  Heimasíða vandkunsten er þessi:

  http://www.vandkunsten.com/

  Svara
  Karl
  13.9 2012 @ 11:25
  Einmitt þetta sem Hilmar nefnir vegur þyngra en nokkurn grunar. Maður rökræðir ekki við hagsmunaklíku. Það er bara svoleiðis.

 • Guðrún Ingvarsdóttir

  Gaman að sjá umfjöllun um þessa frábæru stofu Hilmar – og sorglegt eins og þú segir að slíkir samfélagsgagnrýnendur fái ekki að koma með „glöggt gestsauga“ hingað til lands. Ég starfaði í sumarvinnu á námsárunum hjá þeim félögum í gamla hesthúsinu sem þeir notuðu sem teiknistofu. Frábær andi sem sveif þar yfir- bæði metnaður og fagmennska – en það sem mér fannst einkum aðdáunarvert var hversu lítið þeir tóku sjálfa sig hátíðlega. Þrátt fyrir að stofnendurnir væru þarna komnir á sjötugsaldur var markmið stofunnar enn að nýta eðlislæga forvitni og spyrja spurninga í stað þess að aðlaga sig sjálfkrafa status quo. Úr þessu viðhorfi hafa sprottið frábær verkefni sem hafa haft mikil áhrif á stefnuna í dönsku íbúðaskipulagi.

  Michael Steen Johnsen, einn af stofnendum stofunnar, var prófessorinn minn og ég hef enn ekki fundið þann kennara sem kemst með tærnar þar sem hann hefur hælana. Hann og Jens Thomas Arnfred eru með albestu fyrirlesurum um arkitektúr og mannlegt eðli.

  • Hilmar Þór

   Gaman að heyra þetta Guðrún.

   Þetta hafa verið yndislegir menn. Þeir voru báðir Michael og Arnfred kennarar á deild professor Viggo Möller-Jensen á akademíunnu þegar ég var þar ef ég man rétt.

   Ég hygg að þeir hafi kennt Stefáni Erni Stefánssyni, Halldóri Guðmundssyni og Finni Björgvinssyni.

   Viggo rak stofuna “Fællestegnestuen” þar sem þessir tveir sem þú nefnir störfuðu. Fellestegnestuen teiknaði og teiknaði með arkitektúr sem meginmarkmið. Í raun teiknuðu þeir sig í hel og fóru nett á hausinn. Þar var ekkert gefið eftir í hugsjóninni um mannvænan og vistvænan arkitektúr. Það geri Vandkunsten ekki heldur.

   En þeir lifa af.

  • Jón Guðmundsson

   Fyrsta árið mitt á Akademíunni var síðasta starfsár Tyge Arnfreds föður Jens Thomasar Arnfred. Tyge var þá prófessor deildarinnar og Michael Sten var í kennarahóp deildarinnar. Tyge rak Fællestegnestofuna með Viggo Möller. Jens Arnfred sonur Tyge var á þessum tíma að kenna við Chalmers í Svíþjóð. Þarna mættust Fællestegnstuen og Vandkunsten á sömu deildinni. Þetta voru miklir snillingar og öðlingar, bestu og dýpstu pælingarnar áttu sér oft stað úti í Nýhöfn.

 • Aðalheiður

  Þetta eru hugmyndaríkir menn, sennilega komnir á besta aldur. Myndbandið um þinghúsið er frábært vegna þess að þar er unnið af hugsjón og áhuga en ekki samkvæmt einhverju BREEAM kerfi sem vistað er í kerfislægri gæðahandbókinni sem er notuð sem e.k. stöðutákn ráðgjafafyritækjanna

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn