Þriðjudagur 20.09.2016 - 10:57 - 2 ummæli

Ásmundur Sveinsson og byggingalistin.

c503759a0e3930ea3ec02dc8cb1f9765

„Ég vildi óska þess að skólarnir ynnu mikið að því að opna augu mannverunnar svo þau gætu notið þess sem þau sjá og fundið til ef eitthvað er heimskulega unnið eða vitlaust gert“.

Þetta sagði Ásmundur Sveinsson myndhöggvari  sem var einn af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar. Hann var þeirrar skoðunar að listin ætti heima hjá fólkinu sjálfu sem hluti af landslagi borgarinnar og honum var annt um að á Íslandi byggðist borg sem væri bæði „praktísk og falleg“.

Nýlega var sýndur sjónvarpsþáttur á RUV um Ásmund Sveinsson (1893-1984) myndhöggvara undir heitinu „Íslendingar“. Í þættinum fjallar Ásmmundur nokkuð um byggingar og byggingalist. Ég leyfi mér að drepa á nokkrum atriðum, orðrétt.

Ásmundur var sannfærður um að það væri ómögulegt að leggja stund á abstraktlist án þess að áhugi fyrir byggingarlist sprytti fram. Hann vildi opna augu Íslendinga fyrir umhverfi sínu og að Reykvíkingar hefðu skoðun á því hvernig borg þeir byggðu.

Íslendingar geta rifist um vísur — en ekki götur og hús

„Í því sambandi hef ég verið dálítið svæsinn,“ sagði Ásmundur í sjónvarpsviðtali við RÚV 1970. „Ég hef verið að segja að Íslendingar eru bókaormar; þeir geta rifist um vísu og geta eytt mörgum dálkum í blöðum um hvort vísan sé rétt kveðinn, eða kannski bara alls ekki kveðin. Það er náttúrulega allt í lagi, ég vil hafa góðar vísur.

En hafa þeir ekki auga fyrir því að nú er verið að byggja nýja borg hér og eyða mörgum milljónum í það? Það er aldrei rifist um götur og hús í blöðunum. Ég vil láta vera krítik á þessu! Þegar arkitekt gerir gott, þá á að hæla honum, en ef hann gerir vont, þá á að húðskamma hann. Þetta er ekki gert! Og af hverju? Af því að fólki er sama hvað það sér. Það er ekki búið að opna augun fyrir því að við erum að skapa hér bæ, sem við eigum öll.“

Ásmundur sagði að ábyrgð þeirra sem komu að uppbyggingu Reykjavíkur væri mikil gagnvart komandi kynslóðum.:

„Ég held að það þurfi bæði í skólum og víða bara að koma við þetta, að maður hafi nautn af að gera fallegan bæ og praktískan,“ sagði hann í sama viðtali. „Ég er alveg handviss um að næsta kynslóð krítíseri þennan bæ miklu meira heldur en einhverja vísu, hvort hún sé illa kveðin eða alls ekki kveðin. Því þetta þýðir svo mikið í framtíðinni. Það er framtíðin sem á að taka við þessum bæ og okkar villur verða áreiðanlega reiknaðar.“

 

++++++++

Hér er tengill að umfjöllun RUV

http://ruv.is/frett/ef-arkitekt-gerir-vont-tha-a-ad-hudskamma-hann

++++++++

Torbergur-Tordarsson-Espera1

Ég leyfi mér að vitna aftur í textabút úr Ofvitanum eftir Þórberg Þórðarson (1883-1974) sem var af sömu kynslóð og Ásmundur Sveinsson.

Gömlu mennirnir voru greinilega mjög áhugasamir um byggingalist.

“Allir Íslendingar kunna að lesa bækur.

En hversu margir kunna að lesa hús?

Það er meiri íþrótt að kunna að lesa hús en að geta lesið bækur.

Húsið er hugsun, sem hefur hæð, lengd og breidd.

Bókin er vöntun á hugsun, sem aðeins hefur lengd.

Húsið er sannleikurinn um líf kynslóðanna.

Bókin er lygin um það”.

++++++

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Sigrún Guðmundsdóttir

    Frábærir menn. Okkur vantar fleiri svona 🙂

  • Gunnar Gunnarsson

    „Ég er alveg handviss um að næsta kynslóð krítíseri þennan bæ miklu meira heldur en einhverja vísu, hvort hún sé illa kveðin eða alls ekki kveðin.“

    „Næsta kynslóð“ á eftir Ásmundi! Er hún ekki gengin til feðra sinna gagnrýnislaus! Nú er enn önnur kynslóð sem þegir og sú þriðja að taka við eftir að þessi vísu orð Ásmundar féllu. Og hún segir eki orð. Og enn er ekkert krítiserað annað en leikhús og bókmenntir!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn