Laugardagur 01.10.2016 - 17:43 - 11 ummæli

Niðurrif – Brotið blað í Reykjavík

IMG_6949

Í Morgnblaðinu í morgum mátti lesa að meirihluti umhvefis- og skipulagsráðs Reykjavíkur lagðist gegn því að að heimilað yrði að rífa niður hús við Freyjugötu 16 á horninu við Valastíg og húsið við hliðina sem er nr 35 við Bragagötu og stendur á horni Bragagötu og Freyjugötu.

Umhverfisráð telur að “húsverndunarsjónarmið og varðstaða um byggðarmynstur gömlu Reykjavíkur verði að vera í forgangi þegar þess sé kostur”.

Við sem höfum fylgst með þessum málum vitum hinsvega að tækifærið til þess að standa vörð um byggðamynstur Reykjavíkur liggur alltaf fyrir og hefur alltaf legið fyrir hendi og verið besti kosturinn.

Húsin sem um ræðir eru frá þriðja áratug síðustu aldar og virðast í sjálfu sér ekki sérlega merkileg út af fyrir sig en eru mikilvæg og merkileg í þeirri bæjarmynd sem við elskum og ferðamennir koma til þess að sjá og upplifa.

Hér er brotið blað í skipulagsmálum í Reykjavík hvað verndun húsa og byggðarmynstur varðar. Borgaryfirvöld sýna hér í fyrsta sinn svo eftir sé tekið að þeim er annt um borgina okkar, staðaranda hennar og einkenni. Þau reyna hér að standa í lappirnar með hagsmui heildarinnar að leiðarljósi.

Það er auðvitað komin tími til. Borgaryfirvöld hafa undanfarið dregið lappirnar hvað þetta varðar undanfarin ár eða hitt sem er líklegra haft við ofurefli að etja.

Þetta er ekki létt verk fyrir kjörna fulltrúa okkar í borgarstjórn. Andstæðingarnir eru oft öflugir fjáraflamenn, löngu úr sér gengin deiliskipulög og síðast en ekki síst ráðgjafar landeigenda og jafnvel borgarinnar sjálfar, skipulagshöfundarnir sem unnið hafa þessi deiliskipulög fyrir landeigendur og oft fyrir borgina sjálfa. Og það versta er, eins og margoft hefur verið bent á þá hafa þessir ráðgjafar stundum leikið tveim skjöldum. Deiliskiulagt fyrir borgina og almannahafsmuni og samtímis eða í beinu framhaldi hannað byggingarnar með sérhagsmuni landeigenda að markmiði.

Það gengur auðvitað ekki og ætti að banna.

En til hamingju Reykvíkingar að okkar kjörnu fulltrúar hafi nú loks spyrnt við fótum með það að markmiði að vernda og varðveita staðaranda Reykjavíkur og séreinkenni hennar.

+++++

Myndirnar sem fylgja voru teknar í dag af umræddum húsum.

Sjá einning eftirfarandi færslu:

Niðurrif eldri húsa í Reykjavík

IMG_6947

IMG_6948

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

 • Það er ekki hægt að vernda allt því það er misvel byggt og misvel umgengið. Þegar við stöndum frammi fyrir því að litið hrörlegt illa byggt og illa við haldið hús þar sem gjöld hafa hækkað margfalt vegna staðsetningar þá kemur sá punktur upp að fólk getur ekki staðið undir því sem nauðsynlegt er að gera í viðhaldi. Þá eru gróðapungarnir komnir á stjá og bjóða vænar fúlgur. Svona er þetta í raun.
  Hinsvegar er sjálfsagt að vernda glæsileg hús svosem í Tjarnargötu og víðar og gera það af fagmennsku.

 • Orri Ólafur Magnússon

  Þakka þér fyrir að vekja máls á þessum afbrotum borgarinnara gegn þeim fáu sögulegu minjum sem eftir standa, Hilmar Þór. Sagan um hús afa þíns og ömmu er einmitt lýsandi dæmi um ranga og hættulega stundarhagsmuni sem verða oftast ofan á . Reyndar má segja að Laugavegur hafi því miður verið eyðilagður alla leiðina og götumyndinni vart við bjargandi héðan í frá. ( Vonandi bíða Skólavörðustígsins ekki sömu örlög – en hver veit, hvað Degi B. dettur í hug næst ? ) Ég minnist þess að þýsk kona, upp alin í DDR ( Austur-Þýskalandi ) sagði við mig að Reykjavík minnti sig alltaf á austur-þýska kommúnista-arkítektúrinn ( „Plattenbauten“ ) – sama ferkantaða steynsteypan alls staðar. Konan hafði, sé ég æ betur eftir að vera fluttur heim frá meginlandinu, á réttu að standa.

  • Orri Ólafur Magnússon

   pardon : „steinsteypan“ , auðvitað.

 • Hilmar Þór

  Sitt sýnist hverjum um þessi mál.

  Ég vil samt nefna sem dæmi um virðigaleysið gagnvart þessum gömlu byggingum að borgin gerir egar gröfur um skrásetningu húsanna áður en þau eru rifin. Þau eru hvorki mæld upp eða teiknuð upp fyrir rif. Þau eru heldur ekki skráð með ljósmyndum.

  Ég hef sagt þa áður að það á ekki að gera minni kröfur um skrásetningu húsa sem á að rífa en nýrra húsa sem á að byggja. Ég gæti trúað að teikningar af svona húsum sem hér er óskað eftir að verði rifin mundu telja nokkuð á annað hundrað og verklýsingin sennilega svona 200 A4 síður.

  En að líkum lætur þá verða eftir tvö blöð í formatinu A2 og enginn skrifaður teksti. Kannski þessar lósmyndir sem fylgja þessari færslu.

  Það er allt

  Afi minn og amma áttu sérlega myndarlegt hús að Hverfisgötu 94. Það stóð út í götuna og var eitt það glæsilegasta við Hverfisgötu. Það var rifið til þess að rýma fyrir bifreiðastæðum Landsbankans að Laugarvegi 77.

  Húsið Hverfisgata 94 er auðvitað farið. En það sem verra er, er að engar teikningar eða ljósmyndir eru til af húsinu sem var mikið skreytt með allskonr útskornu prjáli umhverfis glugga og þakskegg.

 • Sem betur fer er borgin ekki í sömu tötrunum og áður fyrr. Húsin verða gömul og úrsérgengin og við byggjum ný sem hentar nútímanum en engu öðru. Þarna er um að ræða úrsér gengin hús sem engin eftirsjá er að.

  • Gömul hús má gera upp. Þessi hús sem „henta nútímanum“ eru almennt sálarlaus klón að mínu mati. Við eigum nóg af þeim en alltaf minna og minna af því gamla.

 • Jon B G Jonsson

  Er þetta svo frabært? Borgin verður að þroast. Ny hus geta verið falleg! Við byggjum ekki Reykjavik framtiðarinnar til að þoknast turistum. Nog er nu samt.

  • Orri Ólafur Magnússon

   Það eitt sér að ( erlendum ) túristum þyki húsin í gamla miðbænum krúttleg og sæt – „Kardemommubæjararkítektúr“ – er slíkt engin röksemd fyrir því að rífa þau. Andúð sumra landsmana á ferðamannavæðingu miðbæjarins, sem vissulega hefur farið út í öfgar, má ekki villa okkur sýn á ýmsar minjar úr ( fátækri ) fortíð sem okkur ber skylda til að varðveita fyrir komandi kynslóðir. Ef gamlar byggingar eru „úr sér gengnar“ er ástæðan sú að þeim hefur ekki verið haldið við. Að mínu mati er þetta einmitt kjarni málsins : allt of margt er einfaldlega látið grotna niður hér landi . Slíkt hugarfar er frumstætt og í rauninni tímaskekkja .

 • Guðrún Guðmundsdóttir

  Það er vissulega fagnaðarefni að borgarstjórn sé að átta sig á að byggðamynstur gömlu Reykjavíkur sé einhvers virði. Ekki seinna vænna!

 • Frábært

 • Steinn Ari

  Samkvæmt Mogganum liggur ekki deiliskipulag fyrir varðandi þennan stað. Lóðarhafar hafa ráðið arkitekta til þess að teikna hús á lóðunum tveim. Það er einmitt það vinnulag sem Hilmar varar ítrekað við með réttu. Kjarkur kjörinna fulltrúa er ekki mikill. Þeirra áræði kemur til vegna þess að það liggur ekki fyrir deiliskipulag þarna. Það er því ofmetið að hér sé brotið blað í stefnu borgarinnar í þessum efnum! En þetta er vissulega jákvætt skref. Maður bíður þess að borgaryfirvöld felli úr gildi einhvað af þeim hörmulegu deiliskipulagsáformum sem eru að skemma borgina og láti hagsmunaaðila fara í mál og taki þar með deiluna í eitt skipti fyrir ölli í stað þess að hopa sífellt eins og gert hefur verið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn