Mánudagur 31.01.2011 - 08:20 - 20 ummæli

Asparblús borgarstjórnar

Síðunni hefur borist eftirfarandi grein frá Einari E. Sæmundsen landslagsarkitekt FILA.  Einar var garðyrkjustjóri í Kópavogi og kom þar að „Borgartrjárækt“ sem hefur þróast sem sérgrein sem kölluð er „Urban forestri“. Borgartrjárækt hefur verið viðfangsefni Einars um alllangt skeið og  fjallar hann um hana hér í þessari stórgóðu  og tímabæru grein.

Gefum Einari orðið:


Sagt er að stærsti skógur Íslands sé í görðum íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Þessi fallegu tré hafa veitt mörgum garðeigandanum ánægju í uppvexti. Ósagt er þá hve mikil áhrif skjólið af gróðrinum hefur haft á húshitunarkostnað eða hreinsunarhlutverk gróðurs fyrir andrúmsloftið.

Saga skipulagðrar trjáræktar hvort heldur er til yndis eða nytja á Íslandi er ekki nema rúmlega eitthundrað ára.  Það má því fullyrða að við séum en að læra hvernig tré og annar nýgræðingur hegðar sér við aðstæður eins og á Íslandi.  Það á við um aspir sem við höfum ræktað í tæp 70 ár á Íslandi en þær geta orðið allt að 200 ára gamlar í heimkynnum sínum. Þetta reynsluleysi og tilraunakennda notkun á trjágróðri segir okkur að við séum að læra. Hluti þess lærdóms er að ræktun í görðum er farin að verða ýmsum til ama. Helst beinist sá ami að Alaskaösp og Sitkagreni. Þeim tveimur trjátegundum sem best hafa fest rætur hér.

Um miðjan níunda áratuginn þá var ráðist í að endurmóta göturými og torg hjá Reykjavíkurborg.    Reynt var að gera yfirbragð svæða vistlegra, helluleggja yfirborðið, þrengt aðeins að bílunum, komið fyrir bekkjum og dvalarsvæðum og síða koma fyrir trjágróðri. Yfirbragð miðborgarinnar breyttist á skömmum tíma mjög til hins betra. Vegna reynsluleysis og sumpart vantrúar á hvaða gróður og jafnvel hvort gróður ætti erindi inn í opinbert rými þá ákváðu menn að velja Alaskaösp hún klikkar ekki. Vantrúarmenn á gildi aspar (ráðgjafar, verkfræðingar og stjórnmálamenn) fengju skjótt að sjá að það gat vel gengið að láta tré vaxa jafnvel í göturýminu.  Aspirnar voru hugsaðar sem einskonar undafarar fyrir aðrar tegundir sem bæði þurfti að rækta upp til þess að koma í staðin og ekki síður þurfti að finna réttu tegundir og kvæmi sem hentuðu.  Nýverið bregður svo við að Borgarstjórn Reykjavíkur blæs til útrýmingarherferðar á öspum í Miðborginni.

Eins og borgarstjóri gæti hafa sagt – þá varð ég dapur við að lesa samhjóma tillögu borgarstjórnar.  Ég hefð viljað sjá mun meiri jákvæðni og framsýni í tillöguflutningi fulltrúa.  Því eins og í pottinn var búið þá var öspin  hugsuð sem undanfari.  Tillagan hefði átt að hljóma að borgarstjórn hleypti af stað undirbúningi, jafnvel rannsóknarverkefni til þess að leiða fram æskilegar tegundir til þess að nota í borgarrými Reykjavíkur. Rannsaka hvernig þyrfti að standa að því að búa jarðveg og aðrar kringumstæður fyrir torggróður. Það tekur ekki meir en nokkrar sekúndur að fella tré en áratugi að rækta tré til þessara nota og láta þau ná nothæfum vexti.  Í nágrannalöndum okkar þá þurfa tré sem notuð eru í opinberu rými áratugi í forræktun og undirbúning til þess að hæfa í nýju umhverfi.

Tillaga borgarstjórnar hefði því átt að leggja áherslu á uppbyggilegar endurbætur á opinberu rými miðborgarinnar. Ekki gefa fyrst veiðileyfi eða útrýma, áður en það sem á að koma í staðinn er fundið.  Það mátti jafnvel lesa milli línanna í tillögunni óminn af þeim gengdarlausa og oft tækifærissinnaða áróðri sem hafður er uppi af hagsmunaaðilum sem hafa tekjur af því að fella tré á vorin fyrir vænann túskilding og þeirra sem eru að hræða líf úr fólki og bjóðast til að kíkja í ræsin í leit að rótum hjá fólki með sérbúnum myndavélum.

Tré eru lifandi verur og vaxa meðan mennirnir sofa – eins og spakur maður sagði – þau vaxa bæði ofanjarðar og neðan. Þau þurfa rými og eru mis vel fallinn til notkunar því þarf að velja rétt tré á rétta staði. Í upphafi skyldi endirinn skoða og með aukinni þekkingu getum við nýtt okkur kosti asparinnar og lágmarkað vandamál.

“If I had eight hours to chop down a tree, I’d spend six hours sharpening my ax” var haft eftir Abraham Lincoln.


Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

  • Aðalsteinn Sigurgeirsson

    Ekki hafði þessi ágæta grein Einars E. Sæmundsen merkjanleg áhrif á einbeittan vilja meirihluta borgarstjórnar. Tæp þrjú ár liðu uns starfsmenn borgarinnar hófu að framfylgja samþykktum borgarstjórnar. Dauðasök þeirra var sú að „Trén sem felld voru í dag voru orðin nokkuð há …. og var krónan á sumum þeirra komin utan í nærliggjandi hús.“
    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/11/18/aspartre_felld_vid_domkirkjuna/

    Það er áreiðanlega óþekkt vandamál í öðrum löndum heims að borgartré geti orðið svo stórvaxin að krónur þeirra „komist utan í hús“! Eða hvað?

  • Jóhann Sigurðsson

    Ágæt grein. Auðvitað hefði á sínum tíma mátt planta ððru kvæmi á milli aspanna, þar sem þær voru settar í raðir (ösp-hlynur-ösp-hlynur o.s.frv.). Þá hefði mátt fella aspirnar þegar þær væru komnar upp. Hugsanlega má enn fara þessa leið á einhverjum stöðum.

  • Rúnar Ingi Guðjónsson

    Eftir að hafa lesið yfir öll innleggin hér, þá er niðurstaðan, séð frá mínum bæjardyrum, þessi:

    -Trjárækt er langtímaverkefni. Skipuleggja þarf ræktun tugi ára fram í tímann.
    -Hraðvaxin tré veita skjól fyrir hægvaxnari „æðri“ trjátegundum.
    -Í Reykjavík er á flestum stöðum, þegar kominn skjólveggur trjáa.
    -Löngu tímabært er að gróðursetja og undirbúa næstu kynslóð trjáa.
    -Ekki má grisja skjólbeltið sem nú er til staðar fyrr en hægvaxnari tré hafa vaxið í 5-8 metra hæð.
    -Kröfur um trjátegundir, fjölda og osfr. ætti að vera inná deiliskipulagi. svo skýr stefnumörkun sé ljós þeim sem vinna að hönnun og þróun borgarinnar.

  • Þetta er rétt sem Birna segir ennfremur það sem aðrir hafa sagt í þessari umræðu – ég segi líka í pistlinum að menn hafi sínum tíma litið á öspina sem undanfara. Einskonar „ammetræ“ – í tvennum skilningi.
    Til þess að venja menn við það að tré geti vaxið í göturými í Reykjavík – og líka gerðu menn sér grein fyrir að öspin er stórvaxin og á því ekki alltaf við sem framtíðar tré.
    Nú bjóða ræktendur (framleiðendur) aspa mikið fjölbreyttara efni aspa m.a. kvæmi sem er vaxa hægar og henta því betur.

    Lykillinn að endurnýjun trjágróurs í borgarrými er að finna og prufa hentugar tegundir og það hefur ekki verið hörgull á hugmyndum hjá þeim sem hafur tjáð sig hér fyrir framan.
    Það krefst tíma og skipulegra aðgerða. Það er líka annað sem þarf að horfa til. Í deiliskipulagi þarf göturýmið að vera stærra ef það á að vera pláss fyrir t.d. hlyn sem er mikið frekari á rýmið. Eins þarf að tryggja vaxtarrými fyrir rætur og eðlilegann vatntsbúskap.

    Þetta hefur verið gagnleg umræða um áhugavert mál.

  • Þóroddur.

    Hefur Besti og Samfó aldrei brugðið sér af bæ. Birna í Danmörku þekkir til mála og skýrir þetta vel út eins og flestir hér að ofan. Er ekki skynsamlegt að draga þetta mál til baka?

  • Birna Björnsdóttir

    Hér í Danmörku notar madur aspir sem „ammetræer“ sem thýdir ad thegar madur gródursetur trjálund, thá blandar madur hægtvaxandi trjám (eik, bøg og fl.) og fljótvaxandi trjám. Svo thegar hægtvaxandi trén hafa nád vissri stærd, thá heggur madur fljótvaxandi trén, og eftir eru thá „fínu“ trén.

  • Sigvaldi Ásgeirsson

    Ég óska höfuðborgarbúum til hamingju með stærsta skóg á Íslandi. Vonandi verður þessi skógur ekki grisjaður svo mjög, hvorki af völdum borgarstjórnar né einstakra garðeigenda, að Reykjavík verði aftur borg roksins.
    Margar aspir í görðum í Reykjavík mættu fá aukið rými með því að fækka einstaklingum, þannig að þeir sem eftir verða fái betur notið sín. Miða ég þá við Akureyri, þar sem sjá má fjölda aspa með mikla krónu, sannkölluð bæjardjásn. Flest götutrén af asparkyni í Reykjavík eru tiltölulega ung ennþá, miðað við hvað þetta geta orðið gömul tré. Ég myndi gjarnan vilja sjá þessi tré fá að komast til fullorðinsára, áður en hugað er að því að fella þau, þ.e. ef hvert og eitt þeirra hefur nóg rými til þess að ná að þroska fagra krónu.
    Já vissulega eru líka til mismunandi klónar af alaskaösp og krónulögun þeirra með misjöfnum hætti. Persónulega finnast mér krónumjóstu afbrigðin síst fallin til að skreyta götur og torg.

    Flosi heitinn Ólafsson setti eftirminnlega fram í bundnu máli háðsglósu til þeirra, sem óttast, að einn góðan veðurdag gæti öspin í garði þeirra gert óþyrmilega vart við sig, þegar heimilismenn hægja sér.

    Ég er sammála borgarstjóra um, að hlynur er sem tegund og stakstætt tré kannski flottari en alaskaösp. En þá má ekki gleyma því, að hann er nokkuð lengi að vaxa, sem ég segi honum alls ekki til lasts, enda langlífur mjög, sem bætir hitt uppi. Með hlýnandi veðráttu mun vaxtarhraði hlyns líka aukast verulega. En gleymum því ekki, að hlynurinn varpar miklu meiri skugga en öspin. Það er einfaldlega eðli hans, sem síðframvindutegundar. Öspin er landnemategund og eðli hennar samkvæmt varpar hún mun minni skugga af jafnstórri krónu en hlynurinn gerir. Þetta þurfa sóldýrkandi Íslendingar að vera meðvitaðir um.

  • Mjög áhugavert og þarft umræðuefni hér. Mér finnst standa upp úr að við þurfum fjölbreyttari trjá og runnagróður í borgarmyndina. Ég er sannfærður um að við getum nýtt aðrar tegundir á ýmsum stöðum og mér líst mjög vel á að við lítum á hinar hraðfara tegundir sem undanfara sem mynda skjólið fyrir hægvaxta tegundir. Þær hraðvaxta látum við síðan víkja að miklu leyti fyrir hinum þegar fram í sækir. Framvinda heitir þetta á fræðimáli. Það þýðir þá að stundum þurfum við að gróðursetja hægvaxta tegundir á svipuðum tíma og þær hraðvaxta til að þær séu fullvaxta þegar þær eiga að taka við.

    Álmur, hlynur, reynitegundir, furutegundir, grenitegundir, víðitegundir, Chamaecyparis, aspartegundir, bergflétta, elritegundir, sírenur, yllir o.s.frv. Fjölbreytni er best.

    Þá má líka minna á „opnu“ svæðin utan miðborgarinnar. Þar veitir ekki af að bæta skjól fyrir þá sem ganga og hjóla um auðnirnar milli hverfa og sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins. Hversvegna er ekki ræktuð tré í meira mæli á þessum svæðum með framvindu fyrirkomulagi? Aspir og greni og furur en inn á milli fjölbreyttari trjátegundir sem taka við að 30-60 árum liðnum.

    Þá eru það stofnbrautirnar. Afhverju á að leggja helgunarsvæði stofnbrauta undir skrúðgarðyrkju og grasslátt? Stærsti skrúðgarður borgarinnar er Miklubrautin. Hver pant vera þar í 80 dB að tsjilla? Hversvegna ræktum við ekki þéttan trjágráður á þessum svæðum. Afhverju eru ekki stór tré á miðeyjum milli akreina? Þar mundu stærstu aspir sóma sér vel.

  • Þórhildur Þórhallsdóttir

    Það er frábært ef að borgin fer í þá vinnu að skoða götutré í Reykjavík en ég tek þó undir með greinarhöfundi að vonandi verður það gert undir jákvæðum formerkjum, en ekki með þeim neikvæða tóni sem liggur í tillögu meirihlutans.

    Eins og öll tré eru aspir með galla og koma þeir gjarnan fram vegna þess að aspir hafa verið gróðursettar á staði þar sem ekki er pláss fyrir þær að þroskast á sinn náttúrulega hátt. En sú herferð sem hefur verið gegn öspinni undanfarin ár er mjög svo ósanngjörn og líkist meira tískufyrirbrigði en skynsamri hugsun. Kannski ætti að kalla þetta „asparleiða“ vegna þess að ekki hefur verið gróðursett meira af öðrum tegundum á síðustu árum. En er það ekki of einföld lausn að ætla að fella aspirnar?

    Götutré þurfa einnig að hafa ýmsa eiginleika í vaxtarlagi og sú umræða hefur lítið verið tekin með. Asparklóninn ´Pinni´ var einmitt valinn á Laugaveginn vegna þess að hann er mjög plássnettur og myndar lítinn skugga. Hann er beinvaxinn með mjög mjóa krónu og lítinn vöxt til hliðanna sem einmitt hentar vel í hinu mjóa göturými á Laugaveginum eins og hann er í dag. Vill einhver fá hlyninn í Vonarstræti á Laugaveginn? Kræklótt birki sem vex út í akreinina og nær engri hæð til að tengjast húsunum eða reyni sem nær ekki að blómstra vegna þess hann stendur í of miklum skugga?

    Það er miklu meira en að segja það að ætla að fækka öspum í miðborginni þegar við vitum ekki hvað við ætlum að fá í staðinn. Áður en sögin er munduð er því óskandi að fyrst verði gerð metnaðarfull stefnumótun fyrir götutré í Reykjavík sem hægt er að nýta þegar göturými eru endurgerð. Hvar viljum við hafa götutré og hvað eiga þau að geta?

  • Það er alltaf athyglisvert að lesa um aspir í miðbænum. Ef maður skoðar þau tré sem notuð eru sem götutré í miðbæ Reykjavíkur, þá algengast að sjá Alaskaösp og eitthvað af Ilmreyni, Hlyni hefur verið plantað á Ingólfstorg og í Lýðveldisgarðinum við Hverfisgötunni (kannski ekki rétt að tala um þá sem götutré, kannski frekar torgtré). Borgarstjóri talaði um á sínum tíma að hann vildi planta Hlyn i staðinn fyrir Alaskaaspir. Mér finnst ekki ástæða til að fækka mikið öspum í miðbænum, frekar vildi ég sjá breiðari flóru trjáa til viðbótar við aspirnar, þá ekki síst Hlyn og Álm þar sem það á við. Alaskaspirnar eru skjólgjafar og eiga sennilega talsvert „sökina“ á að við getum ræktað mun fleiri tegundir trjágróðurs en áður í Reykjavík, þar með talin eplatré sem virðast líka vera í uppáhaldi hjá borgarstjóra. Því vil ég taka undir það að það er nauðsynlegt að fara rólega í að fella aspirnar , við þurfum þá að hafa vissu fyrir að fá góð tré í staðinn. Þetta væri verðugt rannsóknarverkefni fyrir borgina að rannsaka hvaða möguleikar séu fyrir hendi með ræktun götutrjáa hérna í Reykjavík. Þó slíkt verkefni færi af stað þá væri það sennilega langtímaverkefni.

    Af þeim götutrjám sem eru til staðar er það ekki vafi í mínum huga að Alaskaösp þrífst best, Ilmreynir virðist vera nokkuð í lagi, en það er enginn veruleg gróska í þeim. Auk þess að þrífast betur, þá er líftími Alaskaaspar líklega helmingi lengri en Ilmreynis.

    Líklegt má telja að mest takmarkandi þátturinn við að rækta götutré sé aðgengi að vatni. Ég hef ekki upplýsingar um hversu mikil mold er í jörðinni undir þeim götutrjám sem eru til staðar, en með yfirborðsskoðun sýnist mér að það sé hugsanlega um einn til tveir rúmmetri. Því nefni ég mold hérna, þar sem trjáræturnar vaxa í moldinni, og moldin er aðalgeymslu staður vatnsins. Vatnið er bæði nauðsynlegt trénu til að þrífast og einnig er það mikilvægt fyrir þá lífstarfsemi sem á sér stað neðanjarðar, niðurbrot næringarefna og þess háttar. Þó um einn eða tveir rúmmetrar af mold sé til staðar fyrir hvert tré, þá er allt umlykjandi möl og sandur, sem sogar til sín fljótt það vatn sem fellur í moldina, vatn dreifir sér frá blautari staðar til þurrari, þar sem er rými fyrir það. Það er stundum vitnað til þess að við sjáum bara þann helming trésins sem vaxi ofanjarðar, en að neðanjarðar sé annað eins magn af lífmassa í formi róta. Kosturinn við Alaskaösp virðist vera að þær geta komist af við lakari jarðvegsskilyrði en mörg önnur tré og þrátt fyrir að gera kröfur um aðgengi að vatni, kannski felst það í að hún eigi auðveldara með að sækja sér vatn langar leiðir en margar aðrar trjátegundir, og þola það „stress“ sem götutrjám er boðið uppá, jarðvegsþurrk, vind, salt, traðk o. fl.

    Það er minnst á að það séu einhverjar vangaveltur um að fjarlægja Alaskaaspirnar á Laugarveginum, það þætti mér vera sjónarsviptir af. Þrátt fyrir að nokkur hópur fólks virðist hafa horn í síðu aspanna, þá verður að segjast að þær lyfta mikið upp götumynd Laugarvegarins og hæfa þessu þrönga rými mjög vel, og ilma vel, stundum geri ég mér ferð um Laugarveginn þegar rignir, bara til að njóta asparilmsins. Ef maður reynir að ímynda sér fullvaxna Hlyni í staðinn fyrir aspirnar, þá myndu þeir fylla algerlega út í göturýmið húsveggja á milli og valda gríðarmiklum skuggum bæði í húsunum og á götunni. Hlynur gæti hugsanlega hentað vel þar ef Laugarvegurinn væri á suðlægari breiddargráðu, en tæplega uppá kalda Íslandi. Þrátt fyrir allt þá passar öspin sennilega trjáa besti sem götutré þar sem er tiltölulega þröngt rými, hún er með tiltölulega opna og mjóa trjákrónu miða við flest önnur tré sem koma til greina sem götutré á Íslandi í dag. En einstakir Hlynir gætu verið skemmtilegir þar inná milli, t.d við götuhorn.

    Í mínum huga er ösp ekki bara ösp, það er til nokkuð margir klónar sem hafa mismunandi krónulögun, það eru t.d. breiðari krónulögun á öspunum í Lækjargötunni (fyrir utan þau tré sem plantað var fyrir fram stjórnarráðið), en hins vegar hafa aspirnar á Laugarveginum frekar mjóa krónulögun.

    Það er athyglisvert að skoða Hlynina sem eru á Ingólfstorgi og í Lýðveldisgarðinum. Ég held það sé rétt hjá mér að á báðum stöðunum séu innflutt tré frá Svíþjóð frá sama ári, sérstaklega ræktaðir þar fyrir norðlægustu vaxtarsvæði Hlyns þar í landi. Á Ingólfstorgi eru þeir frekar daufir, lifa en myndu sennilega ekki kallast sérstaklega glæsilegir, þeir virðast hafa mjög takmarkað rými til að þroska gott rótarkerfi. Í Lýðveldisgarðinum er þessu hins vegar öðru vísi farið, þar vaxa fallegir og gróskumiklir Hlynir sem eru bænum til mikillar prýði og væri unun af að sjá víðar, enda greinilegt að trén hafa úr meiri jarðvegi að moða.

    Það eru vangaveltur um að fjarlægja Alaskaaspirnar á Sóleyjargötu, það væri gaman að sjá það gert þannig, að umferðareyjan væri grafin út og settur viðeigandi jarðvegur og plantað Hlyn í staðinn. Eini ókosturinn við þetta er að sennilega eru ekki nógu stórir og góðir Hlynir til staðar í íslenskum gróðrarstöðvum, og að góðir Hlynir erlendis frá eru dýrir þegar þeir eru komnir til Íslands, sérstaklega í peningakreppu.

    Grundvöllurinn til að rækta götutré er að planta trjám sem eru 3-5 metra há við útplöntun, þetta er gert erlendis og þessi tré finnast í takmörkuðu magni í íslenskum gróðrarstöðvum í dag. Það er margra ára ferli að rækta góð götutré.

  • Samson B. Harðarson

    Áhugaverð umræða hér. Það vill svo skemmtilega til að ég er núna í miðjum doktórskúrs í ræktun borgartrjáa, sem haldinn er í Svíþjóð. Við höfum verið hér saman nemar og kennarar frá öllum norðurlöndunum auk Bandaríkjunum og ræðum fram og aftur um borgartré.
    Viðfangsefnið snýst um að það er nauðsynlegt að fjölga tegundum í öllum löndum, þær eru of fáar oft bara 1-2 sem eru 50-70% allra trjáa. Sjúkdómar geta svo að segja útrýmt einni tegund, eins og gerðist með álminn bæði í USA og evrópu. Annað viðfangsefni er að nauðsynlega er að útbúa beðið og þá t.d. með að útbúa svokallað rótarvænt burðarlag þar sem um 80% er gróf möl og 20% mold. Þeir í stokkhólmi hafa sérstaklega verið að flytja inn íslenskann vikur til að nota í sína gerð af rótarvænu burðarlagi. Ég verð stútfullur af fróðleik þegar ég kem til baka.
    Kveðja

  • Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir

    Góðan dag og takk fyrir að vekja athygli á þessu. Mér varð heitt í hamsi þegar ég las tillögu borgarstjóra og var ekki sátt við svona einstrengislega atlögu að öspum sem eru oftar en ekki hin fínustu tré. Rétt er að borgarbúar og Íslendingar allir fóru offari þegar þeir plöntuðu þessu hér um 1990 og það var svona í anda okkar almennt – að sjá þetta rjúka upp í stað þess að bíða eftir hægvaxta trjám.

    Ég er sammála borgarstjóra að fjölbreytnin mætti verða meiri en það skorti algjörlega að stefna lægi fyrir um hvernig ætti að gera þetta, hvað kæmi í staðinn, hversu lengi þetta átti að taka og hvers vegna lægi svona á (þetta yrði ágætlega kostnaðarsamt enda ekkert grín að rífa upp stálramma á Laugavegi og fleira).

    Bendi ykkur á ræðu mína í borgarstjórn í þessu samhengi http://www.facebook.com/notes/porbjorg-helga-vigfusdottir/raeda-i-borgarstjorn-18012011-aspir/490702892654 . Hún er ekki ritskoðuð en þarna koma sjónarmið okkar Sjálfstæðismanna ágætlega fram.

    kveðja
    Þorbjörg Helga garðáhugamaður og borgarfulltrúi

  • Hilmar Þór

    Ég verð að segja að mér finnst þetta skemmtilegt umræðuefni.

    Það er alveg rétt hjá Gísla Marteini. Borgarstjórn hefur ekki samþykkt að fella þessi tré heldur að beina þeim tilmælum til garyrkjustjóra að móta áætlun hvernig best sé að fjarlægja þau……….o.s.frv. Það er mikill munur þessu tvennu og rétt að halda því til haga. Þakka Gísla Marteini ábendinguna sem léttir á manni, en mér finnst ég samt skynja vilja í borgarstjórn til þess að fella aspirnar.

    Ef sú verður niðurstaðan þá tel ég skynsamlegt að gera áætlun um málið til langs tíma. Fyrst verði ákveðið hvaða trjátegund skulu notuð. Ég gæti séð fyrir mér t.d. vesturbæjarreyni í vesturbænium austur að Snorrabraut, silfurreyni vestan Elliðaáa og tilskorna furu (n.k stór Bonsai tré) í efri byggðum o.s.frv. Ef þessi aðferð yrði ofaná þarf að rækta upp borgartré í hundraðatali í gróðrarstöð og flytja þau nánast fullvaxta á framtíðarstað. Þetta er aðferð sem notuð er víða erlendis. Velji borgin þessa aðferð er rétt að byrja ræktun borgartrjáa strax í vor. Það væru tré sem yrðu svo sett niður á Sóleyjargötu, Vonarstræti og Laugarveg eftir svosem 15-20 ár. Á meðan má halda öspunum í skefjum með því að “trimma” þau svoldið eins og Haraldur hér að ofan gerir í Breiðholtinu.

    Þetta stendur kannski allt í greinargerðinni sem fylgdi tillögunni eða væntanlegri áætlun garyrkjustjóra.

  • Eg setti hér aspir i Breiholti 1977 og þær eru fallagar maðu bara klippir af þeim,og svo er þetta feikilega gott skjól af þeim að í roki er logn í garðinum/

  • Umræddur hlynur hefur lifað 20 borgarstjóra á 94 árum. Við bestu aðstæður getur svona tré orðið 500 ára – og mikið að umfangi.
    Hvað eru margir borgarstjórar í því?

  • Sælir.
    Þetta er ekki alveg nákvæmt. Í borgarstjórn er bæði hægt að samþykkja tillögur, eða vísa þeim til viðkomandi fagnefnda borgarinnar. Þar fá þær faglega umfjöllun og nefndarmenn sækja sér upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að taka upplýsta ákvörðun. Eftir það tekur ráðið sína ákvörðun.

    Borgarstjórn hefur því ekki samþykkt neitt af því sem kemur fram í tillögunni. Þá stæði ‘borgarstjórn samþykkti tillöguna og vísaði til umhverfis og samgöngusviðs til meðferðar.’ Svo er ekki.

    Fínar umræður hér, en ég held það sé nauðsynlegt að halda þessu til haga.

  • Finnur Birgisson

    „Faglegt mat verði lagt á það rými sem þarf til að aspir annarsstaðar njóti sín hverju sinni.“
    – Hvað í ósköpunum ætli þetta eigi að þýða?

  • Hilmar Þór

    Ég sló upp fundargerð frá borgarstjórnarfundi þann 18. janúar s.l.
    Þessa bókun má finna þar:

    “3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar:

    Borgarstjórn Reykjavíkur beinir þeim tilmælum til garðyrkjustjóra að hann móti áætlun um hvernig best sé að fækka öspum í miðborginni. Hafist verði handa við að fjarlægja aspir af Sóleyjargötu, Vonarstræti, Laugavegi og Tjarnargötu og önnur tré sett í staðinn. Faglegt mat verði lagt á það rými sem þarf til að aspir annarsstaðar njóti sín hverju sinni.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa tillögunni til umhverfis- og samgönguráðs”.

    Þarna er samþykkt að garðyrkjustjóri móti áætlun um að fjarlægja aspir af Sóleyjargötu, Vonarstræti, Laugarvegi og Tjarnargötu og önnur tré sett í staðin. Þetta er ekki sannfærandi forgangsröðun. Vonandi er þetta skýrt betur og rökstutt í greinargerð sem fylgir tillögunni en hana hef ég ekki séð.

    Ég tek undir með Einari E. Sæmundsen og Einari Jóh. að rétt sé að gróðursetja fyrst ný tré af annarri gerð og leyfa þeim að festa rætur og ná fallegri stærð áður en ráðist er á aspirnar og líta á þær sem „undanfara“ sem njóta má þar til ný tré taka við.

    Ég fyrir minn hlut er afar sáttur við aspirnar á þeim götum sem nefndar eru þó svo að ég sé þess fullviss að hægvaxta eðaltré væru þokkafyllri í gömlu götum Reykjavíkur. En það tekur þau tíma að vaxa. Kannski 100 ár. Viljum við bíða eftir því, borgarfulltrúar?

    Vonandi tekur garðyrkjustjóri sér góðan tíma til þess að brýna axirnar áður en hann tekur til við að fella þessi fallegu tré.

  • Þakka ykkur báðum fyrir bréfið, Einar og Hilmar. Það er þó rétt að geta þess að borgarstjórn hefur ekkert samþykkt í þessum efnum ennþá.

    Besti flokkurinn og Samfylkingin lögðu fram tillögu um að garðyrkjustjóri mótaði stefnu um það hvernig fækka mætti öspum í borgarlandinu. Þeirri tillögu var vísað til umhverfis- og samgönguráðs.

    Sjálfur held ég að það megi alveg fækka öspum eitthvað, og hefur reyndar þegar verið gert. Sumar pössuðu vel meðan þær voru minni, en eru núna farnar að valda skemmdum á umhverfinu, og eiga ekki endilega að vera þar um áratugaskeið til viðbótar. Í því felst engin andúð á þessu tré, nema síður væri.

    Sjálfum finnst mér við mega vera duglegri að gróðursetja hlyn, reyni og fleiri slík ‘borgartré’, því eins og Einar Jóh. bendir á hérna að ofan, tekur það tré drjúgan tíma að verða stór og myndarleg.

    En s.s. engin áætlun hefur verið gerð um útrýmingu aspa, og verður ekki gerð. En kannski má fækka einstaklingunum eitthvað? Um það um umhverfis- og samgönguráð taka ákvörðun í samráði við garðyrkjustjóra.

  • Einar Jóh.

    Eitt fallegast tré á höfuðborgarsvæðinu er hlynurinn á horni Vonarstrætis og Suðurgötu. Það tók hann um 100 ár að ná þessum árangri. Það er ekki á fólk leggjandi að bíða svo lengi eftir skjóli og fallegu umhverfi. Þessvegna er það rétt hjá Einari að öspin er það besta sem völ er á ef skjótur árangur á að nást. Svo er öspin reglulega falleg en halda þarf henni í skefjum þar til önnur eðaltré taka við af henni og hún felld. Svo á ekki að hika við að fella aspirnar þegar eðaltrén sem planta á samtímis með öspunum hafa náð sæmilegri stærð.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn