Miðvikudagur 02.02.2011 - 12:04 - 5 ummæli

Skólaverkefni-Austurstræti sem göngugata

Guðrún Birna Sigmarsdóttir og Jóhann Smári Pétursson BS nemar í umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands skiluðu síðasta vor verkefni sem heitir “Austurstræti sem göngugata”.

Þau skoðuðu sögu götunnar frá myndun hennar til dagsins í dag og gerðu drög að þróunaráætlun.  Þau SVOT greindu svæðið Lækjartorg, Ingólfstorg, Austurvöll, Austurstræti og Pósthússtræti og rannsökuðu hvort Austurstræti gæti orðið góð göngugata.

Niðurstaðan var að þau telja að Austurstræti geti skapað sér mikla sérstöðu sem göngugata.  Gatan gæti orðið aðal “afþreyingargata” Reykjavíkur og miðpunktur menningar- og ferðamálastarfsemi borgarinnar.  Þau telja þó að Héraðsdómur og Arionbanki ættu ekki að vera þarna, víkja í hliðargötu og hverfa úr “afþreyingargötunni”.  Ég veit ekki af hverju þau nefna ekki Landsbankann í þessu samhengi sem gæti orðið öflugt menningarhús. Þá hefur verið nefnd annarsstaðar sú hugmynd að gera hús Héraðsdóms og Pósthúsreitinn allan að miðbæjarkringlu (verslunarmiðstöð)

Niðurstaða nemanna ásamt nýlegri samþykkt í borgarstjórn benda til þess að hafin sé þróun í þá átt að minnka varanlega umfang einkabifreiða í miðborginni. Ef þetta er stefnan þá þarf samfara henni að bæta þjónustu almenningssamgangna til muna.

Í tillögu nemanna er gerð ráðstöfun til þess að draga úr ókostum vegna veðurfars m.a. með að hægja á norðanstreng sem blæs oft hressilega suður Pósthússtræti og fleira í þeim dúr.

Það er sérstaklega ánægjulegt að með tilkomu kennslu á háskólastigi í arkitektúr, skipulagi og umhverfismálum hér á landi að nemar eru í auknu mæli að skoða  íslensk vandamál og leysa með staðbundnum lausnum.

Myndin efst sýnir það svæði sem þau Guðrún Birna og Jóhann Smári voru að skoða.   Svæðið tekur einnig til Austurvallar og Ingólfstorgs.

Austurstræti iðandi af lífi á góðum degi

Austurstræti á sólríku síðdegi með aspartrjám og fallegum laufum sem bærast léttilega í sumarandvaranum. Mynd tekin af svölum Arionbanka (áður Búnaðarbanka Íslands)

Tölvumynd. Horft vestur Austurstræti

Endurvakin markaður í tengslum við göngusvæðið. Hér er gömul mynd af grásleppusölu í miðbænum

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Smá leiðrétting.
    BS neminn heitir Jóhann Sindri Pétursson ekki Jóhann Smári.

  • Stefán Benediktsson

    Góð hugmynd hjá Jóhönnu! Ummæli Daníels styrkja mig í þeirri skoðun minni að byggingaryfirvöld í Reykjavík ættu að hafa listrænan einráð. Hann sæi um að framfylgja hugmyndum borgaryfirvalda um útlit gatna, torga og hverfa. Reykjavík er höfuðborg með listrænan metnað sem birtist í menningarhátíðum sem höfða til alls heimsins. Borgin á að „klæðast“ samkvæmt því.

  • Stefán Benediktsson

    Góð hugmynd hjá Jóhönnu!

  • Jóhanna Björnsdóttir

    Ég vil bæta við hugmyndir Daniels og leggja til að reiturinn Laugarvegur, Snorrabraut, Hverfisgata og Hlemmur verði gerður að verslunarmagasíni. Þá eru komnir tveir verslunarpólar (magasín) í sinn hvorn enda þeirrar perlu sem Laugavegurinn er. Svo í framhaldinu verði Laugavegurinn allur vistgata þar sem gangandi hafa algeran forgang.

  • Héraðsdómur verður að víkja. Starfsemin þar drepur allt líf á Lækjartorgi og stórslasar það á Austurstræti. Mér líst mjög vel á þá hugmynd að fá magasín í húsið og þá kannski með kaffihúsi eða einhverju líflegu á jarðhæðinni. Aðalmálið er að fá líf í stóru, þungu gluggunum við Austurstræti sem minna á fangelsisglugga.

    Við Lækjartorg hægra megin við Héraðsdóm er einnig bygging sem þarfnast útlitsbreytingar. Ef ég man rétt var húsið upprunarlega mjög fallegt en er í dag grátt og dapurlegt. Ef ég sem sagt man rétt myndi ég vilja sjá það gert upp eins og það var upprunarlega. En þá er ég auðvitað komin út fyrir efnið í ljósi þess að umræðan snýst um Austurstræti.

    Ég vil breyta viðbyggingu Landsbankans sem, með fullri virðingu fyrir arkítektinum (byggingin væri örugglega flott ein og sér) virkar eins og krabbamein. Skemmir glæstan Landsbankann (húsið sko, ekki bankann sjálfan). Klæðið viðbygginguna bara með sama efni og upprunarlega bankahúsið og þetta myndi allt líta betur út. Það myndi svo ekki drepa neinn að hafa viðbygginguna í sama stíl og gamla bankahúsið, (gluggar og svoleiðis).

    Síðast en ekki alveg síst finnst mér að nýja 2000 byggingin við Austurstræti (nálægt Ingólfstorgi) sé ekki alveg að gera sig. Byggingin sjálf er svo sem fín en málmklæðingin Austurstrætismegin lætur vegginn virka eins og járnmúr og gerir allt svæðið í kring svolítið skuggalegt. Takið eftir þessu næst þegar þið labbið framhjá! Ef skipt væri um klæðingu er ég viss um að vesturendi Austurstrætis yrði strax fallegri.

    Sem sagt, þrjú vandamál sem þurfa að leysa til þess að láta götuna líta betur út.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn