Miðvikudagur 06.01.2010 - 06:46 - 10 ummæli

Austurvöllur

 

 

 

 

 

Ég las um helgina viðtal við tvo unga kollega mína, hörkuduglega arkitekta. Þeir héldu því fram að Austurvöllur “væri mjög vel heppnað almenningsrými”. Þeir bættu því við til að rökstyðja skoðun sína, að hlutföll torgsins væru “rétt”(!) en á móti kæmi að “húsin væru hins vegar hvert með sínu lagi”.

 

Það er auðvitað rétt hjá þeim að Austuvöllur er vel heppnað almenningsrými og hefur aðdráttarafl. En það er ekki eingöngu vegna góðra hlutfalla.

 

Það er vegna þess að margir samverkandi þættir gera hann að stað  sem fólk vill leggja leið sína um, hittast og dvelja um stund.

 

Ég nefni nokkra þætti: Austurvöllur snýr rétt gagnvart sól og vindum. Þrjár hliðar vallarins eru baðaðar sól mestan hluta dagsins. Fjórða hliðin er eins og sviðsmynd með sögufrægustu húsum þjóðarinnar, Dómkirkjunni, Alþingishúsinu og fallegum gömlum húsum við Kirkjustræti. Sú götulína er eins og demantur á gullhring,

 

Húsin umhverfis völlinn veita skjól frá ríkjandi vindáttum, austanátt, vestanátt og sértaklega norðanátt. Það er oft bjart og gott veður í norðanátt í Reykjavík og þá skín oft sólin.

 

Sviðsmyndin til suðurs, með  húsunum við Kirkjustræti er lægst og veitir því geislum sólarinnar aðgang að vellinum. Jafnvel í mesta skammdeginu.

 

Þegar fólk situr í sólinni eða fer um völlinn í vetrarnepjunni er sviðsmyndin áreitandi og óumflýjanlega sjarmerandi. Og svo er Ráðhúsið í grenndinni.

 

Austurvöllur er vel staðsettur, nálægt stjórnsýslunni og verslunum í “gamla bænum”, “vieille ville”. Sá sem þar dvelur verður var við höfnina og finnur fyrir annríki flugvallarins.  Á Austurvelli skynjar maður djúpa sögu Reykjavíkur og landsins alls. Fólk finnur að það er statt á sögufrægum stað og nemur anda hans.

 

Svo má ekki gleyma einu veigamesta atriðinu sem er að það er nánast ekki nein bifreiðaumferð á svæðinu. Það eitt hefur meiri áhrif á gæði Austurvallar en margan grunar.

 

Styrkur Austurvallar liggur í öllu þessu og mörgu öðru.

 

Allt þetta gerir það að verkum að á jarðhæð tveggja hliða Austurvallar hafa laðast að veitingahús sem vegfarendur nýta sér og styrkir það staðinn enn frekar.

 

Auðvitað má margt bæta á Austurvelli. Ég nefni þrennt. Í fyrsta lagi þarf að koma fyrir starfsemi í húsin vestan  við völlinn (m.a. gamla Landsímahúsinu).  Þar þarf að koma starfsemi sem nýtist þeim sem þarna koma. Þar gæti verið myndlistarsafn eða verslanir. Í öðru lagi þarf að flytja styttu Jóns Sigurðssonar þannig að hann horfi beint á aðalinngang Alþingis og minni þannig þingmenn á vökult auga sitt og söguna. Svo í þriðja lagi þarf að stýra trjágróðri betur en nú er gert.

 

Ef sams konar almenningsrými væri komið fyrir á Selfossi eða í Breiðholti í “réttum” hlutföllum, án þess að tillit væri tekið til sólar og vinda og ekki væri neina sögu að finna, yrði þetta álitið illa heppnað almenningsrými.

 

Það sem sameinar bestu torg og almenningsrými veraldarinnar er alls ekki hlutföllin. Það er mun flóknara en það.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Gaman að sjá hve margir gera sér grein fyrir hvernig skjól og sólskin eru nauðsynleg fyrir athafnir og vellíðan borgarbúa. En birta án sólar er líka mikilvæg fyrir borgarmyndina og á síðustu árum hefur henni verið rænt t.d. af Laugaveginum við þann stað sem kenndur var við Stjörnubíó og í vestasta hluta Austursrætis. Það er hálfrökkur á þessum stöðum nánst alla daga eftir að þar voru byggð stórhýsi sunnan götu. Hvenær skyldu skipulagsyfirvöld uppgötva þetta???

  • Þetta er skemmtileg umræða. Hef oft velt torgum og almenningsrýmum fyrir mér á íslandi.

    Það er svo marg sem spilar inn í þessu. Mér þætti td mjög athyglivert að profa að búa til lítil útisvæði á þeim stöðum þar sem hús hverfa við laugaveginn. Þá kemur sólin með sína birtu og yl inn á laugaveginn og það skapar stemningu og hlýleika. Þar gæti fólk stoppað og fengið sér kaffi etc sem myndi skapa enn meira líf.

    Svo langar mig að nefna að Hverfisgata í RVK er gata sem gaman væri að fá umræðu um og kannski efni í pistil.

  • Vil aðeins skjóta inn smá sögulegum staðreyndum til að til komast hjá misskilningi. Austurvöllur var fram til 1875 opinn völlur þar sem m.a. bændur í kaupstaðarferðum beittu fararskjóta sínum og borgarar sem stunduðu búskap í miðbænum heyjuðu líka völlinn.
    Í tilefni þjóðhátiðarinnar 1874 þegar við minntumst 1000 ára landnáms á Íslandi færði borgarstjórnin í Kaupmannahöfn þjóðinni styttu, sjáfsmynd Bertels Torvaldsens og var henni komið fyrir á Austurvelli miðjum. Austurvöllur í núverandi mynd var vígður í nóvember 1875 girtur og útbúinn með malarstígum í kross sem fyrsti almenningagarður Reykjavíkur. Opninn á sunnudögum fyrir almenning.

  • Gunnar Á.

    Ég ætla líka að skipta mér að umræðunni hérna.
    Ég tel að kaffihúsin og jarðhæðirnar (þær sem snúa að torginu) skipti mjög miklu ef ekki öllu máli. Hvað eiga flest öll góð og skemmtileg torg í stórborgum sameiginlegt? Jú þar eru „lifandi“ hús sem standa við það. Og svo jú engir bílar. Flest allar stórborgir reyna að draga úr bílaumferð í miðborginni og sumar hafa jafnvel bannað bílaumferð.
    Við skulum samt ekki útiloka áhrif gróðurins á Austurvelli. Sé ekki fyrir mér fólk vera jafnt æst í að liggja í sólböðum á hellulögðu torgi.

    Vandamáls Ingólfstorg er meðal annars bílaumferðin í kringum allt torgið en það rífur tengingun við gönguleiðir og byggingarnar við það. Af hverju þarf svosem að vera bílaumferð um Austurstræti?

    Svo er gaman að segja frá því að Austurvöllur (líklega best heppnaða torg á Íslandi?) varð eiginlega torg fyrir tilviljun, ekki skipulagt í þaula.

  • Einar vesturfari

    Ég sé ekki neina þörf á að hafa gras á Austurvelli sem breytist í moldarflag 9 mánuði á ári né byrgja sýn með trjágróðri sem er í laufi hluta árs. Ég gæti miklu frekar séð fyrir mér torg eins og Plasa Mayor í Madrid. fallega steinilagt torg án bíla og með miklu mannlífi. En fyrst og fremst þarf að færa styttu Íngólfs niður á Lækjartorg því hún sómir sér mjög illa á Arnarhóli. Hún er alltof lítil þar til þess að skapa þann virðuleika sem henni sæmir og þess sem hún stendur fyrir.

  • Við Laugaveginn er ekki að finna margar táfestur fyrir mannlíf (gatan er líka þröng og liggur illa við sól).

    En á sumrin er alltaf líf á litlum bletti við rætur Laugavegarins, þar er veitingahús sem er með borð úti. Það sem hjálpar mjög upp á sakirnar er að húsin í sólarátt eru örsmá — þ.e. Laufavegur 4 og 6 sem Ólafur F. bjargaði eins og frægt er orðið.

    Svo er það Kjörgarður en það hús er byggt inni í lóðinni þannig að sólar nýtur þar lengur. Sá staður er vægast sagt nöturlegur en dregur þó að sér þrjá skýrt afmarkaða hópa:
    1) Hálfgert útigangsfólk sem situr á eina bekknum sem þarna er og maular eitthvað matarkyns sem það hefur stolið úr Bónus. (allt árið)
    2) Upprennandi kaupkonur úr Skuggahverfinu og Þingholtunum sem breiða út teppi á stéttinni og eru með tombólur. (sumrin)
    3) Erlenda fjöllistamenn. (sumrin)

  • Sælir.
    Góður pistill Hilmar, eins og venjulega. Þetta blogg hjá þér er til fyrirmyndar. Ég skildi arkitektana ungu eins og Steinþór áréttar hér að þeir hafi meint.

    Hárréttur punktur hjá Hilmari með bílaumferðina. Lífið á Austurvelli tók kipp þegar Vallarstræti og Thorvaldssen-stræti voru opnuð fyrir fólk, en lokað fyrir bíla. Og sem hluti Grænu skrefanna hefur Pósthússtræti einnig verið lokað á góðviðrisdögum.

    Annars er hluta skýringarinnar á því af hverju Austurvöllur virkar og sum önnur torg (Gerðuberg) ekki, að finna í nafninu: AusturVÖLLUR er iðagrænn og mjúkur, en mörg torg eru steinlögð og köld. Litlir garðar víða um borgina, þar sem eru tré, gras og bekkir til að sitja á, virka ótrúlega vel. Skapa micro-climate, sem við eigum ekki einu sinni almennilegt orð yfir.

    Kv.
    Gísli Marteinn.

  • Londoner

    Sæll Hilmar, Áhugaverð komment, sem ég er að mestu sammála. Ég verð hins vegar að fá að leiðrétta ákveðinn misskilning í kommentum þínum. Okkur dettur ekki til hugar að halda því fram að hlutföllin ein og sér nægi til að mynda góð almenningrými, þau eru hins vegar mikilvæg. Viðtalið snerist ekki um Austurvöll, heldur sambandið milli borgarinnar og byggingarlistar ogvorum við að benda á mikilvægi þess að við horfðum á það sem er á milli hbygginganna en ekki bara byggingarnar sjálfar.
    Það hefur forgang þegar ‘byggt er í borg’. Við viljum reyndar frekar kalla það ‘þegar borg er byggð’.
    Á Austurvelli er þetta skýrt þar sem hann virkar ÞRÁTT FYRIR fjölbreytt artkitektónískt tungatak byggingana sem hann mynda.

    bestu kveðjur,

    Steinþór

  • Steinarr Kr.

    Mættu ekki vera verslanir eða eitthvað á jarðhæð Landsímahússins sem opnast út á torgið. Gæti svoleiðis ekki skapað hreyfingu og líf?

  • Hörður Halldórss.....

    Það var gerð heiðarleg tilraun að búa til torg við Gerðuberg sem er flott að mörgu leiti en maður sér aldrei fólk stoppa þar á góðviðrisdögum.Helst að krakkar í kringum Miðberg séu þar á vappi .Torgið er samt flott.Breiðholt er alls ekkert versta hverfi Reykjavíkur margt gott í því ef frátaldar séu örfáar Austantjaldsblokkir.Neðri hluti Seljahverfis er eitt flottasta hverfi Reykjavíkur fullyrði ég blákalt.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn