Föstudagur 25.12.2009 - 13:18 - 3 ummæli

Grafarvogskirkja

 

Í tilefni jóla ætla ég að fjalla um kirkjubyggingar. Í kirkjubyggingum er oft að finna falda þekkingu (hidden knowledge) eða dulmál ýmiskonar. Grafarvogskirkja er þar engin undantekning og verður fjallað um hluti því tengdu hér í þessari færslu.

Í samkeppni um hönnun Grafarvoskirkju árið 1990 lögðu arkitektarnir áherslu á hugmynd um klassiska þrískipa kirkju, basiliku, sem byggir á öllum helstu hefðum kirkjubygginga liðinna alda. 

Grafarvogskirkja er mikilvæg bygging og þungamiðja Grafarvogshverfis og eitt af kennileitum þess.  Kirkjan er áberandi séð frá Vesturlandsvegi og Gullinbrú og er svipmikil þegar komið er að henni.

 

Þó húsið sé lítið að grunnfleti er það áberandi í byggðinni og sameinar hana vegna forms og efnisvals. Þar falla saman þungt og dökkt form miðskipsins og ljósir og léttir fletir hliðarskipanna. Þessar andstæður þungur og léttur minna á andann og efnið. 

Eins og áður sagði er hér um að ræða þrískipa kirkju þar sem miðskipið er „Via Sacra“, hinn heilagi vegur, sem táknar vegferð mannsins frá vöggu til grafar og áfram til eilífðar. Við enda hins heilaga vegar er hringurinn, sem er söfnuðurinn. Hringurinn er opinn á móti eilífðinni þar sem er altarið; borð Drottins.

Þarna sameinast tveir helstu pólar í kirkjuarkitektúr, vegurinn og hringurinn. Eins og í dómkirkjum miðalda tengjast miðskipinu ótal rými og kapellur sem þjóna þörfum líðandi stundar. 

Miðskipið er steinsteypt og klætt steinum. Steinarnir á veggjum miðskipsins er skírskotun til ritningarinnar þar sem segir „……látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús“  Steinarnir tákna þar mannlífið sem er   „….musteri Guðs“. Þannig eru steinarnir tákn safnaðarins, fólksins.

Þegar inn í kirkjuna er komið blasir við enda miðskipsins stór steindur gluggi, „Kristnitakan“ eftir Leif Breiðfjörð.  Glugginn er um 6 metra breiður og um 12 metrar á hæð. Veggir og gólf eru klædd steinflísum af sömu gerð og notaðar eru utan á byggingunni. Í loftinu er „himinn“, ljósar viðarplötur, sem notaðar eru til þess að stjórna ómtíma hljóðsins í kirkjunni. Í plötunum eru innfeld ljós, með aukinni birtu þegar nær dregur altarinu þar sem lofthæðin er mest.  Ómtíminn er stysstur við innganginn og lengist þegar nær dregur altarinu og er lengstur þar. Birtan er mest og ómtíminn lengstur yfir altarinu.  Þetta er skírskotun til himinsins, birtunnar.

Það er mikið fjallað um hljóm og tónlist í kirkjubyggingum og kirkjulist, en minna um ljósið.  

Ljósið er meginmál  í kirkju- og byggingarlist þó almennt sé ekki sé mikið um það fjallað,   „… í náttmyrkanna landi, ljómar fögur birta“ (jesaja 9.2)

Byggingarlistina er heldur ekki hægt að lesa án ljóss, hvorki huglægt né hlutlægt.

Forkirkja Grafarvogskirkju og „Via Sacra“ er lífæð hússins þar sem hátíðlegt yfirbragð eykst eftir því sem innar dregur og fólk færir sig nær altarinu.

Í kirkjunni er tekinn upp sá siður, sem algengastur var til forna, að staðsetja skírnarfont á leið barnsins til samfélags kristinna manna. Fyrir miðju Via Sacra, gengt kapellu er skírnarfontur staðsettur. Rúmt er um hann og aðstandendur þess sem á að skíra safnast þar saman við athöfnina. Að henni lokinni er haldið með barnið að altarinu í söfnuð kristinna manna.

Ef horft er á grunnmynd kirkjunnar sést að hún líkist fiski, en fiskur er elsta tákn kristinna manna. Fiskur er á grísku „ichþys“. Þegar kristnir sáu stafina, eða mynd af fiski klappaða í stein skildu þeir að í orðinu eða myndinni var að finna skammstöfun fyrir orðin : Jesú Kristur, Guðs sonur, frelsari. Við þetta varð fiskurinn leynilegt felumerki.

Kirkjan er þrískipa, en skipið er eitt af táknum kirkjunnar þar sem sagt er að „…..kirkjan sé skip sem siglir yfir heiminn. Drottinn er við stýrið og hinir kristnu áhöfnin og hreyfiaflið er heilagur andi. Fyrir afli hans siglir skipið í höfn Paradísar og lífsins eilífa. Orð Guðs eru áttavitinn…..“ 

Af grunnmynd Grafarvogskikju má lesa nokkrar helstu tölur sem skipað hafa stórann sess í trúarlegu táknmáli.

Fyrst er að telja miðskipið sem er eitt. Talan einn er móðir allra talna. Guð er einn og einn er tala upphafsins. Hliðarskipin eru tvö, lögmálið og fagnaðarerindið eða Gamla- og nýja testamenti. Skip kirkjunnar eru þrjú; heilög þrenning. Upprisa Jesú var á þriðja degi. Hliðarskipunum er skipt í fjóra hluta; tölu heimsins, höfuðáttirnar, einn, tveir, þrír, fjórir og svo nýtt upphaf. Og guðspjallamennirnir eru fjórir. Af allri grunnmyndinni má  síðan sjá form fisksins sem er elsta tákn kristinna manna eins og nefnt var áður. 

Eftir að vakin er athygli á þessum atriðum eru þau augljós þó þeir sem ekki vita af þeim sjái þau ekki. Við útveggi kirkjunnar eru 24 súlur sem eru fulltrúar pstúlanna. Tólf horfa til austurs, upphafsins þar sem sólin kemur upp og hinar tólf til vesturs þar sem sólin sest. Þá er að finna samtal kirkjunnar og helgimyndar Leifs Breiðfjörð og læt ég lesendum eftir að ráða í það.
Í tilefni jóla ákvað ég að fjalla um kirkjubyggingu. Grafarvogskirkja varð fyrir valinu vegna þess að hana þekki ég vel. Hún er teiknuð af okkur félögunum, Finni Björgvinssyni og undirrituðum. Ég hef ekki áður fjallað um eigin verk í pistlum þessum en geri á því undantekningu í tilefni dagsins og vona að lesendur umberi það.

Gleðileg Jól.

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Kári Harðarson

    Ein fallegasta bygging sem ég hef komið í. Ég er einhvern veginn ekki hissa að hún skuli vera eftir þig.

  • „Það er meira milli himins og jarðar en auganu mætir“

  • Steinarr Kr.

    Þú á heiður skilið fyrir þessa fallegu byggingu. Gleðileg jól.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn