Föstudagur 18.12.2009 - 14:20 - 9 ummæli

Gamla höfnin-Samkeppni

Nú stendur yfir sýning á tillögum sem komu inn í hugmyndasamkeppni um gömlu höfnina í Reykjavík. Ég fór að skoða hana í hádeginu.  Dómnefndin var þar stödd og varði dóm sinn gagnvart arkitektum og þátttakendum keppninnar.

Dómararnir stóðu sig vel þó viðstaddir hafi ekki verið sammála þeim í öllu.

 

Mér fannst einkenna flestar tillögurnar skort á greiningu. Það er að segja að þátttakendur skilgreindu anda staðarins, kosti og galla Reykjavíkurhafnar ekki nægjanlega vel áður en þeir hófu tillögugerðina.

 

Ég var ekki þáttakandi en hefði viljað að keppendur hefðu unnið að því að styrkja kosti hafnarinnar og draga úr göllum hennar. Gert tilraun til þess að styrkja hafnarstarfsemina og tengja hana borginni. Ekki setja fram tillögu um nýja höfn, heldur bætta höfn.

 

Tillögurnar gengu út á að tengja borgina höfninni. Sumar gengu svo langt í þeirri hugmynd að höfninni var nánast bolað burt. (tillaga nr.6) Höfn er ekki höfn nema þar séu skip og bátar. Höfn er ekki höfn nema þar sé hafnarstarfssemi.

 

Tillaga Björns Ólafs (tillaga nr.9) virtist mér hæfa á margann hátt tilefninu. Hún var lítillát og varfærnisleg. Tók mið af aðstæðum í lítilli borg þar sem hugað var að n.k. þrískiftingu svæðisins, þar sem er hjarta borgarinnar, miðbærinn, ferðamannahöfn og fiskihöfn með sterku baklandi í Örfyrisey.

 

Það var nánast ekkert eftir af hafnarstarfsemi í sumum tillögunum. Í stað hafnarstarfseminnar var komið fyrir náttúrugripasafni, nýsköpunarmiðstöð, sjóminjasafni m.m. Fyrir er tónlistarhús og hótel. Í raun skiluðu sumir þátttakendur ekki tillögu að Reykjavíkurhöfn, heldur einhverju sem mætti kalla “Reykjavík Waterfront”

 

Margar tillögur báru merki “2007” þar sem mikið af ágætum byggingum sem henta hafnarstarfssemi eru látnar víkja fyrir Íbúðahúsum og starfsemi sem ekki þurfa á höfninni að halda.

 

Þegar gámavæðing skipaflutninga hófs urðu til mörg mjög áhugaverð svæði tengdum höfnum gömlu borganna víða um heim. Hafnirnar hafa undanfarna áratugi tekið miklum breytingum. Sums staðar hefur þetta tekist vel annarstaðar illa.

 

Einn staður sem margir Íslendingar þekkja hefur farið illa út úr þessari þróun. Það er gamla höfnin í Kaupmannahöfn. Hún er ekki lengur höfn heldur n.k. kanall eða skipaskurður án skipa. Þar eru hvorki skip né bátar sem heitið getur. Engin hafnarstarfsemi.

 

Það sætir furðu að svona skuli vera komið fyrir Kaupmannahöfn. Þegar ég var á Akademíunni í Kaupmannahöfn voru stöðugar umræður um framtíð hafnarinnar. Þar tóku virkan þátt yfirburðamenn eins og prófessor Halldor Gunnlögsson, Jörn Utzon og margir fleiri.

 

Niðurstaðan er sú sem blasir við, “Copenhagen Waterfront” með Operu, Skuespilhus, og Konungllegu bókasafni. Ekkert þessara hús kallar á staðsetningu við höfn, Ekkert þeirra tekur mið af umhverfinu í sínum arkitektúr. Allt alþjóðlegt, sérkennalaust og leiðinlegt. Eða frekar, ekki eins skemmtilegt og það hefði getað orðið.

 

Hér að neðan eru svo nokkrar myndir af fyrstu verðlaunatillögunni sem ég fékk sendar frá höfundunum, Graeme Massie Architects. Í dómnum segir að um sé að ræða “kraftmikla, myndræna og formfasta tillögu…..með mikinn sveigjanleika til aðlögunar við núverandi byggð”. Mér er það hinsvegar óskiljanlegt að þarna eins og í mörgum öðrum tillögum var gert ráð fyrir að HB-Grandi væri lagður niður á þessum stað. 

 

Þegar skipulagsuppdrátturinn er skoðaður finnst mér tillagan bera frekar keim af inngripi en “mikilli sveigjanlegri aðlögun”  Þetta virkar eins og að fleyg sé stungið inn í borgina miðja frá hafi. 

 

Þetta er fallega framsett tillaga eins og sjá má hér að neðan. Mjög vel gerð grein fyrir sögulegu samhengi eins og Þorvaldur S. Þorvaldsson dómari fór vel yfir á fundinum. Bryggjurnar allar í sterku sambandi við gatnakerfið o. s. frv. Samt hafði ég á tilfinningunni að þarna væru sérfræðingar á ferð sem kunna sitt fag en væru að plata sveitamanninn svolítið. Og það tókst.

En dæmi nú hver fyrir sig.

 

 

 

 

 

Gönguleið að “Hörpu” nýja Tónlistarhúsinu..

 

 

 

 

“Buisness Park Courtyard”

 

 

 

 

 

 

Tillaga er gerð að sundlaug á Ægisgarði í innhöfninni. Þetta minnir á hafnarbaði Bjarke Ingels í Kaupmannahöfn. Þar formaði hann stökkpallinn eins og stefni á skipi. Það gerði hann sennilega af því að öll skipin voru farin úr höfninni og eitthvað þurfti að koma í staðinn. Svona smá söguleg skýrskotun hjá BIG.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

 • Magdalena Sig

  úff mér líst ekki alveg nógu vel á þetta.
  Það sem gerir Reykjavíkurhöfn sérstaka er þessi gamli góði litli skali með sætu grænu húsunum og nálægðina við sjóinn, slyppinn og sjómennskuna.
  Þessi tillaga ber því miður allt of mikinn keim af þeirri stórborgarstefnu sem hefur verið ríkjandi hér í borg.
  Við erum eftir allt saman bara smábær, og ættum bara að halda okkur í það og nýta þá eiginleika sem því fylgja, ekki reyna að vera eitthvað sem við erum ekki.
  Því fyrr sem fólk áttar sig á því, því betri verður borgin.

 • Hilmar Þór

  Sigurlaug Sæmundsdsdóttir bað mig að leiðrétta tengilinn hér að ofan.

  Hann á að vera:

  http://www.MVRDV.nl

  Hún vekur þar jafnframt athygli á Didden Village sem er á síðunni og skoða á með gamla bæinn í Reykjavík í huga.

 • Árni Ólafsson

  Laufabrauð?

  Hvaða óskir og þarfir er verið að uppfylla?
  Hver er tilgangurinn með bílagöngum undir höfnina að útkjálka borgarinnar, Örfirisey?
  Hvers vegna er verið að pæla í íbúðarbyggð, sem er áveðurs og í særoki?
  Hvers vegna er þá ekki gert ráð fyrir skjólmyndandi byggð á slíkum stað?

  Ég vil óska Graeme Massie til hamingju með glæsilegan árangur. Þessi sterka tillaga með skörpu línunum, sem þar að auki virðist sett fram á mjög aðgengilegan hátt, minnir mig samt á laufabrauðsskurð þar sem notað er mynsturkefli. Teknar voru tvær – þrjár strokur með keflinu (ein að vísu út fyrir kökuna) en mynstrið á keflinu var bara því miður ætlað í eitthvað allt annað. Það sést vel þegar mynstrið er borið saman við gamla bæinn með götum sínum og görðum. Í nýju byggðinni er ekki unnið með hefðbundna bæjarmynd þar sem garðurinn veitir skjól fyrir veðri og umferð. Þá hefði einnig þurft að skipta um mynsturkefli til móts við Kvosina og bæta við það hefðbundna borgarumhverfi sem þar er með götum og torgum.

  Það verður fróðlegt að rýna tillöguna betur – og pæla í því hvort hún sé heppileg hernaðaráætlun fyrir þróun miðborgar og hafnar. Stífleiki, abstrakt borgarmynstur og aðgeining virðast neikvæðir þættir við fyrstu skoðun en viðbúið er að þróunaráætlun taki á því þannig að gert verði ráð fyrir sveigjanlegri samþættingu allra hluta – eins og eðlilegt er í miðbæ og jaðarsvæðum hans.

  Ég var í borginni um helgina – og þvílíkur nístandi kuldanæðingur. Að fólk skuli leggja það á sig að búa þarna! Skjólgóð byggð er heldur betur nauðsyn á þessum vindblásna stað, sérstaklega þarna úti á nesinu og við sjóinn. Og ég fullyrði að útsýni er stórlega ofmetinn þáttur. Skjól og sólrík verönd eða svalir skipta að mínu mati alltaf meira máli en útsýnið. Stokan með mynsturkeflinu út í flóann til þess að fá hlutdeild í útsýni finns mér því órökrétt. En óneitanlega er þetta sterk mynd – og „sölumóment” tillögunnar (hvort sem verið er að plata sveitavarginn eða ekki). Og lýkur þar með ábyrgðarlausum pælingum um jólabakstur.

 • Ég hlýt að lesa þetta eitthvað vitlaust því mér sýnist sigurtillagan vera mjög formföst og ósveigjanleg. Ég hefði haldið að margar aðrar tillögur væru sveigjanlegri, sem sagt að hægt væri að breyta þar ýmsu án þess að heildarhugmyndin falli við það. Vörumerki vinningstillögunnar er sköndullinn og hún fellur ef hróflað er við honum eða að hann mistekst í útfærslu.

  Og ég tel einmitt líklegt að sköndullunn sé mjög óraunhæf hugmynd til útfærslu. Sjávarrok úr öllum áttum á sköndli sem er innan við 100 m breiður? Og mér sýnist orðanotkun vera einmitt mótsagnakennd og innantóm eins og áður hefur verið fjallað um á þessari síðu.

  Dæmi: „Kjarni hinnar nýju uppbyggingar felst í lágreistri og þéttri hryggsúlu…“ Síðan er talað um 3-4 hæðir en á teikningu eru sýndar 4-5 hæðir og hvorugt er lágreist í mínum huga. Líka er bent á að hægt sé að byggja stórar byggingar og minnst á húsasund sem mér sýnist fremur vera skuggasund.

  Það er vafalaust margt gott í tillögunni en ég sé ekki að hún sé heppileg til útfærslu nema með miklum breytingum. Við eigum nú þegar allt og mikið af fallegum teikningum sem urðu óaðlaðandi hverfi.

 • Þessi vinnings tillaga er mjög vel sett fram, eins og sjá má frá tenglinum.
  Það er eitt að vefjast fyrir mér. Hvernig er hægt að tala um blandaða byggð þegar allt er svona sterklega afmarkað. Mér finnst að borg þrífist af því að blanda saman (mixa). Ekki sortera allt niður eftir notagildi.
  Nú er þetta hálfpartinn búið að gerast, með því að setja Europris, Bónus og Krónuna út á Granda. Mér finnst þetta ekki góð þróun og við ættum að læra af þessu. Mér finnst að við ættum að miða skipulagsdrætti að blöndun og þéttingu.
  Mér virðist sem hér sé verið að sortera og rífa í sundur. En vissulega er gert ráð fyrir þéttingu á vissum stöðum í tillögunni. Mér finnst nokkrir aðrir hlutir líka mjög góðir.

 • Á Slippurinn að vera áfram?

  Ég fór á skipulagskynningu í gamla BÚR húsinu fyrir nokkrum árum og þá var verið að tala um að leggja niður Slippinn og reisa íbúðarhúsahverfi á þeirri lóð (sem átti að stækka umtalsvert með landfyllingu). Mýrargötuna átti að leggja í stokk frá sirka Hafnarbúðum, undir gamla Slipphúsið og eitthvað aðeins vestureftir.

  Var þetta einhver R-lista verkefni sem nú er búið að slaufa þegar annar meirihluti er kominn til valda?

  Ég er ekki frá því að það ætti að lækka laun borgarfulltrúa um helming. Mig grunar að of há laun plús allskyns aukagreiðslur sem smurt er ofan á þau beinlínis hvetji til ofvirkni; að fólki finnist það alltaf þurfa að vera í vinnunni og afreka eitthvað, t.d. stofna til allra þessara samkeppna sem síðan hreinlega gleymast eftir að búið er að afhenda verðlaunin. Aldrei virðist verða barn úr brók.

 • Hilmar Þór

  Þakka þér kommentið Hrafnkell og til hamingju með tillöguna.

  Ég er sérstaklega ánægður með að þú skulir stíga fram, verja verk félaga þinna og gefa okkur tengil þar sem hægt er að kynna sér verðlaunatillöguna betur.

  Ég hef stundum verið ögrandi hér á blogginu, einmitt til þess að kalla fram viðbrögð, en menn eru tregir til þess að stinga niður penna og taka þatt i umræðunni.

  En varðandi þitt komment.

  Þú segir: “Ég á hálf erfitt með að skilja hvað þér gengur til með að draga þá ályktun að vondri hugmynd hafi verið platað inná fáfróða íslendinga.” Það kemur ekki fram í mínu bloggi að mér finnist hugmyndin vond.

  Þvert á móti hæli ég henni fyrir margt. Það er tvennt sem ég finn að henni. Það er annarsvegar að ég skil ekki hvernig styrkja á fiskiskipahöfnina með því að bola HB-Granda frá svæðinu.

  Og hinsvegar geri ég athugasemd við að dómnefd telji tillagan sé, “…..með mikinn sveigjanleika til aðlögunar við núverandi byggð”.

  Þarna er dómnefnd með aðra sýn á aðlögun að núverandi byggð en ég og fleiri.

  Þetta er í hnotskurn það sem ég segi og fólk getur lesið að ofan.

  Og það að ég haldi því fram að vondri hugmynd hafi verið “platað inná fáfróða íslendinga” er rangt eða í besta falli oftúlkun. Ég álít sveitamenn ekki fáfróða, síður enn svo, þó svo að ég noti orðasambandið “að plata sveitamanninn” þarna. Ég nota þetta þekkta orðatiltæki í þeim tigangi og í því samhengi sem ég veit þú þekkir og skilur.

  Fólk á það til að falla fyrir hlutum, sem það hefur ekki séð áður eða hefur ekki dottið í hug. Sérstaklega þegar öllu er pakkað inn í sölulegar umbúðir. Stundum er þetta gott og stundum slæmt.

  Þetta “syndrome” kemur oft fram í samkeppnum og þá er niðurstaðan oftast sú að ekkert verður úr tillögunum. Ég nefni til skýringar samkeppni um íþróttasvæði í Suðurmjódd, Samkeppni um skrifstofubyggingu Alþingis þar sem ég var einn dómaranna í. Skrifstofubyggingu stjórnarráðsins við Sölvhólsgötu. Samkeppni um fjölbýlishús framtíðarinnar. Nú og auðvitað Vatnsmýrarkeppnina og þá keppni sem við erum að ræða hér. Hér er vafaleust eitthvað oftalið og eitthvað vantalið. Ég er hræddur um að eins fari fyrir samkeppni um gömu höfnina. Fyrstu verðlaun í öllum þessum keppnum voru því marki brenndar að þær voru nýstárlegar í hugmyndum og framsetningu, pakkaðar inn í nýstárlegar umbúðir og ekki í tengslum við staðhætti né í samræmi við tilefnið.

  Ég vil að lokum benda á tengilinn í kommenti Hrafnkells þar sem kynnast má verðlaunatillögunni betur.

 • Hrafnkell

  Sæll Hilmar

  Nú var ég ekki í Sjóminjasafninu í hádeginu þannig að ég get ekki lagt mat á þær umræður sem þar voru. Mig langar hins vegar að leggja nokkur orð í belg varðandi þinn dóm um verðlaunatillöguna enda málið mér skylt.

  Ég á hálf erfitt með að skilja hvað þér gengur til með að draga þá ályktun að vondri hugmynd hafi verið platað inná fáfróða íslendinga. Einnig held að þú sért eitthvað að miskilja sumt að því sem dregið er fram í tillögunni og því set ég hér inn slóð á vefsíðu tillögunnar https://sites.google.com/a/alta.is/hafnarsamkeppnin/

  Tillagan gerir einmitt ráð fyrir lifandi höfn sem þú kallar eftir, slippurinn verður áfram á sínum stað. Það sama gildir um útgerð, fiskvinnsla og önnur hafnsækin starfsemi við Grandann með þó ákveðnum tilfærslum með tímanum eða eins og segir í tillögunni “Gert er ráð fyrir að atvinnustarstarfsemi á hluta núverandi athafnasvæða í Örfirisey færist yfir á önnur skýrt afmörkuð svæði, eftir því sem atvinnu- og iðnaðarhúsnæði úreldist og endurnýjast.”

  Það hefði verið ánægjulegt ef þú hefðir skilað inn tillögu þar sem þú hefur greinilega ýmsar hugmyndir um hvernig höfnin ætti að þróast. Það er í raun óskiljanlegt að fleiri tillögur bárust. Fyrirfram bjóst ég við að nær allir íslenskir arkitektar, landslagsarkitektar og skipulagsfræðingar myndu taka þátt en það var því miður ekki svo.

 • Guðmundur

  Persónulega á ég eftir að sakna Slippsins. Það er sérstaklega tignarlegt að standa uppi á Arnarhól og sjá skipin í Slippnum gnæfa yfir húsunum í Kvosinni og miðbænum.

  Annars langar mig að spyrja að tvennu:
  1. Af hverju gera allar tillögur í dag ráð fyrir ferköntuðum og kassalaga húsum?
  2. Er við ekki farin að ganga aðeins of langt í ofskipulagi, þegar hverfi eru skipulögð út í æsar og skipulagsfræðingar spá fyrir um þarfir fólks áður en fólkið flytur í hverfið og verður að laga sig að því skipulagi og getur lítið mótað umhverfi sitt að eigin þörfum?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn