Föstudagur 03.07.2015 - 11:06 - 6 ummæli

Betra Breiðholt í endurnýjun.

IMG_2727

Því hefur oft verið haldið fram að það eigi aldrei að rífa nein hús, heldur endurhæfa þau og aðlaga þörfum líðandi stundar, byggja við þau og/eða breyta.  Þetta á bæði við einstakar byggingar og skipulög.

Sagt hefur verið að hús og borgir séu eins og lifandi vefur, eins og tré.

Christopher Alexander sagði reyndar  „A CITY IS NOT A TREE“, sem er auðvitað rétt þó það sé líka rangt. Það er alltaf verið að byggja við hús og borgir, og tré eru alltaf að vaxa í ýmsar áttir út frá rótinni.

Nú er að hefjast endurbætur á efra Breiðholt sem  er um þessar mundir 45 ára gamalt. Stóra blokkin við Æsufell var samþykkt árið 1970.

Breiðholtið er nú í svokölluðu hverfaskipulagsferli.

Skipulagið gekk í upphafi út á að koma verslun og þjónustu fyrir inni við miðju hverfinu og raða íbúðahúsinum umhverfis.  Allt átti að vera í göngufæri og við hendina. Byggðin var þéttust næst þjónustunni og skólunum svipað og hefur tíðkast í borgum og bæjum um aldir.

En verslunarhættir breyttust með almennri eign einkabifreiða og verslun og þjónusta fluttist Úr íbúðahverfunum inn á iðnaðar- og hafnarsvæði. Þetta gerðist með velþóknun skipulagsyfirvalda. Við það losnaði húnæði á góðum stöðum víðsvegar í borgarlandslaginu. Líka í Breiðholti.

++++

Hér fylgja nokkrar myndir af aflögðu veslunarhúsnæði  sem breytt hefur verið á snilldarhátt í íbúðir.

Verkið er unnið hjá GP arkitektum af Guðna Pálssyni arkitekt. Myndirnar sem fylgja eru teknar Af Sigurgeir Sigurjónssyni ljósmyndara.

Breytingin á húsinu byggist á deiliskipulagi frá 2005. Þá mátti byggja 2 hæðir ofan á húsið, hafa 19 íbúðir og 13 bílastæði.  Á þessu ári fékkst  samþykkt breytt deiliskipulag og fjölga  íbúðum í 24 og bílastæði  sem áður voru undir húsinu voru ærð út fyrir bygginguna.

Húsið er steypt, neðsti hlutinn klæddur með steinsteyptum plötum 8 mm þykkar, sem eru sagaðar niður ( plötur 150×300 sm) og skrúfaðar á trégrind. Timburklæðning er grófhefluð fura lituð ljós. Furan er norrænn viður og á betur við hér á okkar slóðum en mahognílitaða klæðningin, sem hefur verið ansi mikið notuð hér á Íslandi. Allstaðar eru svalir  1.6m á dýbt með handriði úr hertu gleri.

Aðkoma að íbúðum er frá svalagangi að norðanverðu sem er ekki það besta sem menn kjósa en sennilega eini möguleikinn hér.

Þetta er mjög gott dæmi um hvernig nota má þær fjárfestingar sem fyrir eru til þess að endurnýja það umhverfi sem fyrir er og sýnir að óþarfi er að rífa allt og byggja upp á nýtt.

++++

Heimasíða GP arkitekta er þessi:  http://gpark.is/

IMG_2733

IMG_2730

IMG_2726

IMG_2728

Að neðan koma svo þrjár ljósmyndir af húsinu áður en hönnuðurinn kom að verkinu.

IMG_2734

 

IMG_2737

IMG_2736

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • María Guðmundsdóttir

    Framúrskarandi og jákvæð þróun.

  • Hér í Yrsufellinu er yfirleitt leiðinlegasta veðrið í austanátt, enda einkar gott skjól af Æsu- og Asparfellsblokkunum í norðanátt, fyrir utan áhrifin sem Rúnar Ingi minnist á.
    Svalagangurinn þarna ætti að vera í sæmilegu vari fyrir flestum áttum, með Esjuna og Hólana norðanmegin, endann á Lönguvitleysunni austanmegin, og eldri hluta byggingarinnar sjálfrar, auk risablokkarinnar vestanmegin.

    Hins vegar myndi ég ekki endilega vilja búa í neðstu íbúðunum þarna, þar sem útsýnið af suðursvölunum takmarkast við göngustíginn, útkrotaðan steypuvegg og ryðgaða járnrimla – voða flotta, nýja, ryðgaða járnrimla að vísu, en samt…

  • Rúnar Ingi Guðjónsson

    „Aðkoma að íbúðum er frá svalagangi að norðanverðu sem er ekki það besta sem menn kjósa en sennilega eini möguleikinn hér.“ Þannig háttar með veðurfarið í byggðinni í efri byggðum, að norðanmegin er nánast alltaf skjól.

    Esjan veitir skjól fyrir norðanngarannum í efri byggðum Reykjavíkur.

  • Hörður Halldórsson

    Flott hús. Þarf að flikka upp á gömlu verslanakjarnana í hverfinu.

  • Rannveig Pálsdóttir

    þetta er ótrúlega falleg hús og mikil andlitslyfting. Vona að fleiri borgarhlutar verði teknir fyrir. Og Guðni Pálsson einn af okkar færustu arkitektum.

  • Þetta er rosaflott og á vonandi eftir að smita um allt hverfið sem hefur ánn misjafna daga undanfarið. En ég veit að hér er gott að búa.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn