Mánudagur 06.07.2015 - 08:12 - 22 ummæli

Lækjargata – Fortíðarþrá?

 

Aðalstræti -1021

Fyrir helgina var sagt frá niðurstöðu i samkeppni um nýtt hótel  við Lækjargötu í Reykjavík. Húsið á að standa á horninu við Vonarstræti þar sem nú eru bifreiðastæði og byggingin sem Iðnaðarbankinn lét reisa yfir starfssemi sína fyrir hálfri öld. Tillagan gerir ráð fyrir að hús Iðnaðarbankans víki fyrir nýbyggingum. Sem er sennnilega óþarfi. Iðnaðarbankahúsið er þarna og gæti fært mikilvæga sögu áfram til komandi kynslóða.

Það er skemmst frá því að segja að tillögunni var afar illa tekið. Það vakti athygli mína að hinir mætustu menn voru jafnvel stóryrtir og vildu ekki sjá þessa byggingu á þessum stað. Uppnefndu tillöguna og kölluðu hana „kassagerðararkitektúr“ og þaðan af verra.

Hvernig ætli standi á því?

Sennilega er það vegna þess að mönnum þykir vænt um Lækjargötuna og telja hana eina merkilegustu götu borgarinnar. Það er sennilga líka vegna þess að fyrir nokkrum áratugum unnu aðgerðarsinnarnir í Torfusamtökunum sigur í baráttu sinni og komu í veg fyrir að gömul hús við Lækjargötu, Bernhöftstorfan, yrði rifin og  ráðuneytisbygging kæmi í staðinn.

Menn muna líka eftir því að 1986 var samþykkt deiliskipulag fyrir Kvosina. Þar var mikil rannsóknarvinna lögð fram til þess að átta sig á anda staðarins og sögulega vídd Kvosarinnar. Niðurstaðan var sú að lagðir voru fram skýringaruppdrættir sem gáfu til kynna hvernig byggingar í Kvosinni og nágrenni hennar gætu litið út. Það var fundinn einskona arkitektóniskur samnefnari fyrir Kvosina. Þessar leiðbeiningar hafa haldið og margir vonuðust eftir að þær næðu yfir stærra svæði í framtíðinn. T.a.m. hafnarsvæðið allt norður að Hörpu.

Þriðja atriðið og það sem mestu máli skiptir í þessum framgangi í umræðu um arkitektúr og skipulag er að fólk almennt er farið að hafa meiri áhuga á efninu en verið hefur og hefur áttað sig á að umræðan og skoðanir þess skiptir máli. Það segir að umhverfið sé of mikils virði til að láta arkitekta, fjárfesta og stjórnmálamenn eina um málið.

Almennir borgarar eru í ört vaxandi mæli farnir að hafa skoðun á skipulags- og byggingarmálum og láta hana hiklaust í ljós.

Því ber að fagna.

+++++

Ég fyrir minn hlut hef ég nokkrar áhyggjur af þessari tillögu að nýju hóteli við Lækjargötu. Hún tekur ekki mið af þeim húsum sem fyrir eru í götunlínunni til beggja handa við húsið og húsanna handan götunnar. Hún tekur ekki mið af og þeim vísbendingum sem Kvosarskipulagið gaf fyrirheit um. Þá er ég ekki bara að tala um hæð hússins eða nýtingarhlutfall (sem er að sögn minna en deiliskipulagið leyfir).

Ég er að hugsa um arkitektóniska nálgun, gluggasetningu, efnisval, þök og fl. sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Heldur skynjar maður þetta, þetta er líka tilfinningamál eða innsæji sem ástæðulaust er að vanmeta.  Tillöguna skortir tillitssemi og skilning á því andrými sem er að finna í götunni, andrými sem fólk vill viðhalda. Höfundarnir og dómnefnd virðast ekki hafa fylgst með umræðunni og/eða ekki hafa sama skilning á mikilægi götunnar og flestir þeir sem um þessi mál véla eða tekið þátt i umræðunni.

+++++

Efst í færslunni er skissa úr Kvosarskipulaginu frá 1986 sem hefur haldið að mestu allar götur síðan. Nokkur hús við Aðalstræti hafa verið byggð samkvæmt deiliskipulaginu. Líka nokkur nýju húsanna við Lækjargötu. Deiliskipulagið einkennist af tiltölulega grönnum byggingum sem mótast að vissu marki af gömlum lóðarmörkum.

 

Varðandi aukinn  áhuga fólks á arkitektúr og skipulagi þá vek ég athygli á  teikningu sem Magnea Guðmundsdóttir arkitekt hefur teiknað af því hvernig „endurlífga“ mætti lækinn sem er undir götunni og breyta götumyndinni eins og sjá má hér að ofan. Þetta er að vissu marki fortíðarþrá sem virkar, ef marka má reynslu víða um lönd.

Hugmyndin felur í sér að helmingi núverandi akstursleiðar verði breytt í eins konar síki eins og þekkt eru í ýmsum borgum.  Þetta var gert með svipuðum hætti í Árósum í Danmörku með þeim afleiðingum að fasteignaverð hækkaði við götuna og mannlíf bættist verulega.

Þó Magnea hafi sett þetta svona fallega fram á hugmyndin sér langa sögu. Sennilega allt frá því að lækurinn var settur í stokk á sínum tíma en hann var þá a vissu marki opið klóak. En þarna rennur ekki lengur skolp. Deiliskipulag Kvosarinnar frá 1986 sem áður var nefnt tók á þessu og staðaranda Kvosarinnar allrar.

Að ofan er falleg hugmynd að byggingum á umræddum stað sem ég fann á netinu og var sett þar inn í tilefni umræðunnar um helgina. Ég veit ekki hvaðan hún er kominn eða hver er höfundurinn. Þarna sést hvernig húsin taka tillit til gamalla lóðarmarka í formi, efnisvali og/eða lit, sem tengir nýbygginguna við sögu staðarins og anda hans.

07.07.2008:

Það hefur nú verið upplýst að teikningin að ofan er skýringarmynd vegna deiliskipulags á reitnum. Deiliskipulagið var gert af THG arkitektum árið 2008.

Að ofan má sjá byggingar, nýjar og gamlar við Aðalstræti í Reykjavík. Þarna eru að mestu  nýbyggingar sem ná frá Vesturgötu í norðri að Túngötu í suðri. Þetta eru nánast allt Hótel. Nyrstu húsin eru ný og byggð amkvæmt Kvosarskipulaginu frá 1986. Þá kemur Morgunblaðshöllin sem er vissulega stílbrot en segir samt sína sögu á sama hátt og hús Iðnaðarbamkans í Lækjargötu gerir þar.  Sögu sem ástæðulaust er að þurrka út. Fast við Morgunblaðshúsið er hús Tryggingarmiðstöðvarinnar sem byggt er samkvæmt Kvosarskipulaginu. Næst kemur elsta hús Reykjavíkur sem er hluti Innréttinganna. Svo er það Ísafoldarhús Björns Jónssonar ráðherra.

Þá koma þrjú hús þar sem eitt er gamalt og tvö ný. Þau eru byggð samkvæmt sérstöku deiliskipulagi Grjótaþorps að ég held og teiknuð af Argos arkitektum.  Nýtingarhlutfall þarna errúmlega 2.  Öðru nýju húsanna hefur verið gefð útlit Fjalarkattarins sem var áður þar sem bygging Tryggingarmiðstöðvarinnar er nú. Svo er það gamalt hús sem þarna hefur verið í meira en 100 ár og loks nýbygging á horninu sem hefur turn sem er söguleg skýrsakotun til hússins Uppsala sem þarna stóð áður.

Svona á að byggja í 101

821970

821957

Að ofan eru tvær myndir af umræddri tillögu að hóteli við Lækjargötu. Það verður að segjast eins og er að sá sem þetta ritar þekkir tillöguna eingöngu af takmörkuðum upplýsingum sem komið hafa fram í fjölmiðlum um helgina.

——-

06.07.2015. kl 15:30. Hér er bætt við slóð að tillögunni og tilheyrandi greinargerð.:

http://www.glamakim.is/2015/07/06/laekjargata-12-hugmyndasamkeppni-um-hotel-i-kvosinni/

 

++++

Að neðan koma svo aftur tvær teikningar af húsum við höfnina. Þau eru sama marki brennd og eru ekki sérlega reykvískar. Þessar byggingar „flétta sig ekki inn í borgarvefinn“ eins og Gunnlaugur Stefán Baldursson arkitekt, hefur stundum orðað það við svipaðar aðstæður. Í mínum huga er þetta alþjóðlegur óstaðbundinn arkitektúr sem er óttalega leiðinlegur almennt séð ef leyfilegt er að alhæfa útfá þessum takmörkuðu upplýsingum. Þessar byggingar hafa ekki verið mikið í umræðunni og vekja ekki eins mikil viðbrögð og húsið í Lækjargötu. Sennilega vegna þess að fólki finnst ekki eins vænt um hafnarbakkann og Lækjargötu.

 

06.07.2015. jkl 15:30.  Hér að neðan kemur síða úr deiliskipulagi Kvosarinnar frá 1986 til glöggvunar. Hún sýnir útlit að Lækjargötu til austurs fyrir og eftir. Af einhverjum ástæðum er myndin teigð í hæðina. Ég bið afsökunnar á því.

Lækjargata 1986170

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

 • Þetta er líklega með ljótari byggingum sem ég hef séð en það er að sjálfsögðu smekksatriði. Hún fellur hinsvegar afar illa að öllum byggingunum í kring og ég held að erfitt sé um það að deila. Þetta er álíka ólánskubbur og skiptistöðin á Lækjartorgi, sem menn vilja nú rífa.

  Ég vona að þetta verði stöðvað áður en til framkvæmda kemur. Hvar get ég skrifað undir!

 • Björn H. Jóhannesson

  Vel mælt hjá Árna.

  Ekki er hægt að líta framhjá byggingarlistinni,
  hún er óhjákvæmileg.

 • Birkir Ingibjartsson

  Þegar maður skoðar tilllöguna á heimasíðu GlámuKím sér maður að um nokkuð einfalda og hógværa lausn er að ræða…

  http://www.glamakim.is/2015/07/06/laekjargata-12-hugmyndasamkeppni-um-hotel-i-kvosinni/

  Að ætla byggja lægra en 4 hæðir á þessum stað væri sóun á afar góðu byggingarlandi og erfitt að mínu mati að réttlæta slíka stefnu. Meira byggingarmagn = meira fólk = sterkari miðbær.

  Við götuna standa nú bara eftir 2-3 hús sem eru lægri og því erfitt að sjá hver rökin fyrir því eru að temja hæð nýbygginga á þessum stað við 3 hæðir. Miklu raunhæfara væri að leyfa þessum lægri húsum að vaxa um 1-2 hæðir. Húsin hinum megin götunnar liggja nokkuð tilbaka frá götunni og sitja þar að auki ofar í landinu. Á milli hinna stærri húsa og þeirra smærri sem sitja ofar myndast því að mínu mati mun sterkara og jafnara göturými þar sem báðar hliðar götunnar talast á í stað þess þau sem ofar sitji drottni yfir þeim lægra settu…!

  Það breytir því ekki að ég sé enga ástæðu fyrir því að leyfa ekki Bankanum að standa. Tillaga Glámu/Kím vitnar í raun til bankans með sínu uppbroti og því væri áhugavert að vita afhverju honum er ekki leyft að standa. Ósk verkkaupa er mín ágiskun…

  Ef bankinn fær að standa við hlið tveggja ~4 hæða nýbygginga verður uppbrotið mun sterkara og byggingin mun aðlagast mun betur að götunni auk þess sem hinni sögulegu vídd götunnar er haldið til haga og á lífi.

 • Gunnar Gunnarsson

  Ljós er í myrkrinu?
  Það hefur verið sagt að borgin hafi yfir að ráða einhversskonar rýninefnd sem kalla má til ef byggja á á viðkvæmun stöðum. Hún verður væntanlega kölluð tilnúna og mun væntanlega gagnrýna tilöguna eða hafna henni. Ef hún hefur til þess vald, fellir hún tillöguna tillöguna. Þá er hún væntanlega bara fallinn og höfundar standa væntanlega með verki sínu og hætta frekari afskiptum..
  Ekki er hægt að búast við að höfundarnir fari að endurskoða tillöguna svo hún falli að gagnrýninni.
  Það gera ekki listamenn. Hvorki leikstjórar, listmálarar né leikstjórar en kannski arkitektar.
  Hjá þeim snýst listin nefnilega um viðskipti.
  P.S. Hvar er hægt að skoða hinar tillögurnar í Samkeppninni?

  • Árni Ólafsson

   Byggingarlistin er fagurfræðileg mótun hins hversdagslega veruleika. Hún lýtur því öðrum lögmálum en þær listgreinar, sem eru eða geta verið óháðar hversdagsleikanum.

 • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

  Með því að renna yfir umfjöllun arkítektanna á heimasíðu þeirra sést að ætlun þeirra var að hanna hógvært hús sem félli vel inn í byggðina sem fyrir er.

  Þegar ég skoða tillöguna betur sættist ég að nokkru leiti við hana. En þó ekki.

  Þetta fer væntanlega eftir því við hvað er miðað. Hvort viðmiðið er stefnan sem hefur einhverntíma verið mótuð um þessi 4+ hæða hús eða leifarnar af byggðinni sem eftir er frá tímanum fyrir það. Mér finnst rétt að miða alltaf við eldri og lægri byggðina. Lægri húsin falla í skuggann af þeim hærri en ekki öfugt.

  Ég hef samt ekki lesið greinargerðina sem fylgir með þessu heildarskipulagi Kvosarinnar frá 1986 sem Hilmar vísar til. Það væri áhugavert að sjá hvernig höfundar hennar rökstyðja að fylgja heldur 4+ hæða stefnunni sem mér sýnist vera gert. Ég efast ekki um að það er vandað. Það væri áhugavert ef einhver gæti vísað á efnið tengt þessu skipulagi. Ég átta mig t.d. ekki á því að mörg húsanna á myndunum virðast vera nánast eins. Það er sérstaklega áberandi á fyrstu myndinni í pistlinum. Sáu menn fyrir sér að búa til sterkari miðbæ með þeim hætti?

  Húsin sem falla í seinni flokkinn við Lækjargötu eru að mínu mati húsin tvö næst norðan við Iðnaðarbankahúsið (ein til ein og hálf hæð upp að þaki) og svo gula húsið á horninu handan Vonarstrætis (tvær hæðir upp að þaki). Svo og auðvitað öll húsin handan garðanna austan megin götunnar. Húsin næst sunnan brunna húsinns á horni Austurstrætis, sem eru þá byggð samkvæmt Kvosarskipulaginu sem vísað hefur verið í, eru að mínu mati of há, t.d. í samanburði við hitt endurbyggða húsið við Austurstræti og Hressó.

  Að mínu mati er Iðnaðarbankahúsið fullkomlega úr takti við nágrenni sitt við Lækjargötuna. Enda hefur væntanlega verið gert ráð fyrir að þau hús vikju fyrir byggð í stíl við það. Að mínu mati er það slys sem þó hefur unnið sér inn ákveðinn sess. Sjálfur hef ég ekki á móti því að þessi saga varðveitist bara á myndum, en ef menn vilja leyfa húsinu að halda sér þá skuli næstu byggingar gegna því hlutverki að rífa húsahæðina niður í eðlilegan skala.

  Hóteltillagan snýr fimm hæða veggjum út að götunni, þó hluti efstu hæðarinnar sé inndreginn. Að mínu mati eru fjórar hæðir af veggjum of mikið, en það er vissulega ekki í ósamræmi við Iðnaðarbankahúsið.

  Fordæmi frá brunahorninu, og einnig hótelreit sem nú er í uppbyggingu neðarlega á milli Laugarvegar og Hverfisgötu, sýna að ná má góðum málamiðlunum í þessum efnum. Menn verða bara að gera upp við sig hvaða skali sé markmiðið.

  Á móti þessu öllu kemur að fyrra skipulag virðist vera ófrávíkjanlegt þegar kemur að því að draga saman stærð húsnæðis. Það virðist enginn geta dregið úr umfangi bygginga frá fyrra skipulagi nema húseigendur. Við verðum að höfða til hans. Hann getur litið til lausna úr öllum tillögunum þremur.

 • Sad.
  Displaced.
  Boring.
  Foreign object.

  From investors for investors.
  But not for the city / citizens.

 • Dennis Davíð

  Áhugverð færsla hjá þér Hilmar sem veltir upp ýmsum flötum þessa verkefnis. Það vekur athygli mína að þessi samkeppni er í raun lítil boðskeppni þar sem aðeins þremur stofum var boðin þátttaka. Hún virðist ekki hafa verið haldin í samvinnu við Arkitektafélag Íslands eins og venja er og Borgin virðist ekki hafa komið að henni heldur. Ég velti fyrir mér hverjir hafi verið í dómnefnd. Voru það faglegir ráðgjafar eða aðeins fulltrúar hóteleigenda? Ég hefði kosið að farin hefði verið önnur leið á þessum viðkvæma og sögulega reit í hjarta Borgarinnar.
  Árið 2007 var haldin samkeppni um byggingar á lóðum brunarústa á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Sú samkeppni var á vegum Borgarinnar í samstarfi við Arkitektafélag Íslands og var hún öllum opin, bæði arkitektum og leikmönnum. Fjölmargar tillögur bárust, sumar frá útlöndum t.d. ein frá hinum þekkta danska arkitekt Jan Gehl. Tveir ráðgjafar frá AÍ sátu í dómnefndinni. Vinningstillagan (StudioGranda/Argos/Gullinsnið), sem þótti bera af, var síðan útfærð og byggð. Hún þykir hafa heppnast vel og braut blað í því hvernig hægt er að nálgast svona verkefni í gamla miðbænum. Hún hefur siðan fengið alþjóðlega viðurkenningu fyrir frábæra endurnýjun og verndun í sögulegum miðbæ Reykjavíkur.

  • Hilmar Þór

   Ég hef líka velt þessu fyrir mér. Það er að segja því umhverfi sem samkeppnin var haldin í.

   Mér sýnist að í aðalatriðum sé hér um samanburðarteikningar að ræða.

   Það er að segja að verkkaupinn fær tvo eða fleiri arkitekta til þess að leggja fram sínar hugmyndir um lausn verkefnisins

   Svo leggst verkkaupi yfir lausnirnar og velur eina. Þetta er ágæt aðferð til þess að nálgast verkefnið og finna arkitekt.

   En hvort hægt sé að kalla þetta samkeppni er umhugsunarefni.

   Af þessu tilefni hef ég spurst fyrir um dómnefndina og fengið þau svör að enginn arkitekt eða skipulagsfræðingur hafi setið í dómnefndinni.

   Við borðið þar sem matið fór fram sátu hagfræðingur, verkktaki og fulltrúi fjárfesta. Þetta eru miklir sómamenn sem ég þekki til og hafa eflaust gert sitt besta. og af mikilli samviskusemi.

 • Stefán Benediktsson

  Húsin austan Lækjargötu milli Bankastrætis og Bókhlöðustigs standa ekki við Lækjargötu heldur Bankastræti, Skólastræti, Amtmannsstíg og Bókhlöðustíg. Að fella byggingar við Lækjargötu að þeim húsum mun seint takast svo nokkrum líki. Ein bygging við Lækjargötu og ein við Aðalstræti eru gerðar eftir gamla Kvosarskipulaginu. Ég get tekið undir að gamla lóðaskiptingin hefði mátt sjást í vinningstillögunni, en bið menn og sérstaklega arkitekta að horfa ekki bara á þessi hús frá sjónarhorni fuglanna heldur manna sem ganga og aka götuna og átta sig á hvað opnun hússins að götunni er góð breyting frá flestum húsum sem við götuna standa og víðar. Allt of lítið um að inni og úti renni saman í göturými, í Reykjavík.

  • Hilmar Þór

   Það er vissulega rétt hjá þér Stefán að það er ekki á mörgum stöðum i eldri hverfum borgarinnar þar sem gólfkóti og gangstéttarkóti er sá sami.

   Þegar byggt er nýtt opnast tækifæri til þess að nýta sér þessa kosti. En það er svo sjálfsagt að það getur ekki haft neina vigt. Ég hef ekki séð hinar tillögurnar í samkeppninni en geri ráð fyrir að þær hafi allar nýtt sér þennan kost.

   Samtal milli bygginga beggja vegna Lækjargötu tel ég mikilvægt. Við erum greinilega ekki sammála um það Stefán.

   En ég bendi á samtal Edinborgarkastala við verslunarhúsin við Princess Street í Edinborg. Þar er gata og stór garður á milli. Þetta samtalmilli kastalans og verslunarhúsanna er sérlega mikilvægt hvort heldur litið er efir götunni endilangri, frá kastalanum eða frá verslunargötunni.

   Og svo vil ég bæta því við til gamans að á teikningavef Reykjavíkurborgar er bæði Íþaka og MR skráð við Lækjargötu og eru nr 5. 🙂

  • Þorgeir

   Sammála Hilmari. Þessi breiða gata er úrslitaatriði sem gerir meiri kröfur til hönnubnar hússins. Ég sit núna í MR og horfi út um gluggan og sé alla götumynd Lækjargötu til austurs. Þetta gæti maður ekki séð ef gatan væri þrengri eða mjó. Við sjáum til dæmis aldrei alla götumhlið Austursstrætis vegna þess hvað strætið er mjótt.
   Og BTW þetta er ljótt hús!

  • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

   Kannski er það fullróttækt en ég hef stundum leikið mér af því að líta svo á að húsaröðin austan Lækjargötu frá Bókhlöðustíg til og með Stjórnarráðinu standi við Laufásveg. Þá á ímyndaðri, en þó eðlilegri, framlengingu hans.

   Ég er utanbæjarmaður og geri þetta mér bara til skemmtunar. Það er meðal annars komið til af því að ég hef stundum séð fyrir mér aukið vægi Laufásvegar sem samgönguleiðar.

   Í dag er hann mjög þægileg hjólaleið, að því frátöldu hvað hann endar svo asnalega við Landspítalann. Gatan er mjög falleg og fylgir nokkuð vel jafnri hæð utan í holtinu.

   Ef liprir sporvagnar ganga einhverntíma um miðborgina þá myndi ég skoða hvort réttara væri að línurnar gengu suður frá Lækjargötu um Laufásveg frekar en um Fríkirkjuveg. Hvort sem það væri til þess að beygja niður Skothúsveg, eins og strætó gerir í dag, eða fara einhverja nýja leið um þetta hverfi. Það væri betri þjónusta við íbúa Skólavörðuholts/Þingholta (ég veit ekki hvar mörkin eru), sem þyrftu þá að ganga styttri leið í almenningssamgöngur.

  • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

   Ég tek samt heilshugar undir nauðsyn þess að styrkja þetta göturými, þ.e.a.s. Lækjargötu, garðana austan hennar og húsaröðina hinum megin þeirra. Þar er að mínu mati ónýtt tækifæri.

  • Hilmar Þór

   Þorgeir MRingur. Gott hjá þér. Skelltu þér í skipulags- eða byggingalistarnám eftir MR. Þú hefur auga fyrir umhverfinu sem marga skortir.

 • Jón Rögnvaldsson

  Það er ekkert nema eðlilegt við fortíðarþrá. Það ber að hlúa að henni.

 • Steinarr Kr.

  Gott innlegg í umræðuna.

  Heyrði það nefnt að gamla Iðnaðarbankahúsið, þó nothæft sé, sé illa farið og enn í því skemmdir eftir bruna.

  Hvað finnst mönnum um svona sölutrix eins og loftbelgurinn og sólarupprás í vestri (sólsetrið þarna er rauðara)?

  Mynd merkt skýringarmynd 2 sýnist mér liggja mikð nær almennum hugmyndum folks um hvað það vill þarna.

 • Guðmundur

  Ég myndi ekki endilega kalla það að endurlífga lækinn fortíðarþrá. Vatn er órjúfanlegur þáttur í byggingarlist og þróun borgarumhverfis og hefur verið notað í margar aldir (árþúsund, jafnvel) til að lífga og fegra umhverfið. Myndin birtir frekar e.k. þrá eftir meginlandsstemningu.

 • Góð umfjöllun og ég get tekið undir hvert orð. Til viðbótar vil ég vekja athygli á að hornbyggingar eru sérstakar. Þar þarf að gera auknar kröfur ekki síst þegar um er að ræða eitt hornið á Kvosinni sjálfri. Öll hús í Kvosinni eru full af fallegri íslenskri hönnun en metnaðurinn virðist ekki ná til húsanna sjálfra. Og húsin við höfnina eru aumasta gerð af 2007.

 • Upplýstur

  Við verðum að hafa í huga að þeir sem leggja svona tillögu inn í samkeppni bera fulla ábyrgð á henni sjálfir og enginn annar. Ef höfundar vinna ekki til verðlauna bera þeir einir tjónið.

  Ábyrgð dómnefndarinnar mun meiri vegna þess að þeir eiga bæði völina, og kvölina ef illa tekst til. Dómnefndin ber ábyrgð á forsögninni og niðurstöðunni.

  Dómnefndin ber ábyrgð gagnvart samfélaginu.

  Sú ábyrgð er mikil.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn