Sunnudagur 12.07.2015 - 16:44 - 16 ummæli

Lækjargata – Hin sögulega vídd

 

11665570_10207512092586131_3281059351348502681_n

Birkir Ingibjartsson er einn örfárra arkitekta sem taka þátt í almennri umræðu um skipulag og arkitektúr.

Það ber að þakka honum og þeim kollegum hans sem tjá sig opinberlega um þennan mikilvæga málaflokk.

Birkir  tjáir sig eins og flestir á málefnalegan hátt og er upplýsandi.

Hann hikar ekki við að leggja sínar hugmyndir fram til þess að lífga upp á umræðuna með það að markmiði að reyna að laða fram góða niðurstöðu í kjölfarið og ná sáttum ef þannig stendur á.

Í ummælum við síðasta pistil  á þessum vef segir hann m.a. um fyrirhugaðar byggingar við Lækjargötu:

„Að ætla byggja lægra en 4 hæðir á þessum stað væri sóun á afar góðu byggingarlandi og erfitt að mínu mati að réttlæta slíka stefnu. Meira byggingarmagn = meira fólk = sterkari miðbær.

Við götuna (Lækjargötu) standa nú bara eftir 2-3 hús sem eru lægri og því erfitt að sjá hver rökin fyrir því eru að temja hæð nýbygginga á þessum stað við 3 hæðir. Miklu raunhæfara væri að leyfa þessum lægri húsum að vaxa um 1-2 hæðir. Húsin hinum megin götunnar liggja nokkuð tilbaka frá götunni og sitja þar að auki ofar í landinu. Á milli hinna stærri húsa og þeirra smærri sem sitja ofar myndast því að mínu mati mun sterkara og jafnara göturými þar sem báðar hliðar götunnar talast á í stað þess þau sem ofar sitji drottni yfir þeim lægra settu…!

Það breytir því ekki að ég sé enga ástæðu fyrir því að leyfa ekki Bankanum að standa. Tillaga Glámu/Kím vitnar í raun til bankans með sínu uppbroti og því væri áhugavert að vita af hverju honum er ekki leyft að standa.

Ósk verkkaupa er mín ágiskun.

Ef bankinn fær að standa við hlið tveggja ~4 hæða nýbygginga verður uppbrotið mun sterkara og byggingin mun aðlagast mun betur að götunni auk þess sem hinni sögulegu vídd götunnar er haldið til haga og á lífi“

++++

Skoða má tillöguna um hótelið við Lækjargötu á eftirfarandi slóð:

http://www.glamakim.is/2015/07/06/laekjargata-12-hugmyndasamkeppni-um-hotel-i-kvosinni/

++++

Efst er mynd þar sem Birkir hefur gert í framhaldi af athugasemdinni við síðustu færslu og fellt gamla Iðnaðarbankahúsið inn í vinningstillöguna, þannig að saga götunnar og bankans er gefið áframhaldandi líf.

Þarna varpar Birkir með myndrænum hætti, sjónarmiði margra arkitekta og annarra, inn í umræðuna.

Ég þakka Birki Ingibjartsyni fyrir það.

Strax hér að neðan er tillaga sú sem verkkaupi kýs að byggja og neðst kemur svo mynd af Lækjargötunni áður en húsin sunnan við bankabygginguna brunnu. Í öðru þeirra bjó hinn ástsæli dómkirkjuprestur Sr. Bjarni Jónsson.

 

821957

Reykjavik Laekjargata, anno 1962

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Ivan Alexander

    Það sem angrar mig mest um þessa tillögu er andleysið sem gegnsýrir þetta nýja hús. Það virðist vanta heildarsýn. Þetta hótel tjáir ekki neitt á markvissan hátt, heldur virðist það vera ætlað að skipa bara rými þarna í byggðinni til að gegna því hlutverki að hýsa ferðamenn. Við vitum þó að öll hús leggja sitt af mörkum í að móta andann sem einkennir stað, sama hvort framlag þeirra sé íhugað af hönnuðum þeirra eða ekki. Það einasta sem þetta hús segir okkur er að arkitektar þess misskilji anda miðbæjarins. Það gæti legið í Reykjavík, í Dubai eða í Los Angeles; það er í engum andlegum tengslum við íslenska landslagið. Það er ótrúlegt að sjá hvernig húsin sem standa rétt við hliðina á þessari lóð segja hið gagnstæða.

    Efnahagsmál ráða þessari tillögu greinilega, en peningamál eru einungis önnur takmörkunartegund sem arkitektar fást við þegar verið er að teikna hús. Það hefði verið hægt að vinna inni í rammanum sem var settur hér og búa til hús sem henti staðnum og svæðinu mun betra. Sjálfur er ég frá Tromsø, borg sem hefur séð nokkrar þeirra hrikalegustu hóteltillaga sem maður getur hugsað sér. Mér finnst það bara sorglegt að við í norðri geta ekki áttað okkur á því að það er andinn sem byggingarprinsíppin á bak við eldri, hefðbundnari hús skapa sem fólk fer hingað til að sjá og upplifa, ekki staðlausar steinsteyptar blokkir.

  • Örnólfur Hall

    – Á bloggsíðunni: ÍSLENSKIR ARKITEKTAR segir Hilmar Þór að Iðnaðarbankinn sé: Barn síns tíma !
    – Já,- og var þá ekki barnalegt („naívt“) að troða þessu kassalaga bankabákni inn í þessa fv. fallegu húsaspildu (Frá Vonarstræti að Skólabrú) með m.a. fallegu timburhúsi, séra Bjarna Jónssonar vígslubiskups, á horninu? 🙁
    – Húsi með hliðum og kvistum (sjá mynd) sem kallaðist svo innilega á við Iðnaðarmannahúsið. – Hús sem flokkast þá væntanlega undir þessa ‚timburkofa‘ okkar sem Birkir kallar svo, með hroka og háði, á áðurnefndri bloggsíðu. 🙁 – Hann talar þar síðan með aðdáun um að bankinn sé ‚stílhreinn‘. 😉
    – Áþekkar húsatýpur voru byggðar t.d. í Þýzkalandi eftirstíðsáranna og í hverfum endurreistra gamalla húsa hafa þau verið rifin, fyrir önnur, til spilla ekki gömlu heildarmyndinni. Þessum húsum var ekki hampað í Vestur- þýzkum arkitektaskólum á tíma undirritaðs. Hvað þá sagt að þau væru ‘stílhrein’.

    – PS: Vegna fermingarundirbúnings heimsótti undirritaður oft séra Bjarna á heilmili hans í húsinu sem var með sál og fullt af hlýju. – Það var betri upplifun en heimsóknir í ískaldan og fráhrindandi Iðnaðarbankann mörgum áratugum seinna.:(

  • Magnus G. Bjornsson

    Thad ad thessi tillaga hofdi til Idnadarbankans breytir engu um „agaeti“ tillogunnar. Thad eru fleyri hus en Idnadarbankinn i kvosinni og Idnbankinn hefur aetid verid storeflis-sar asamt Morgunbladshollinni a thvi svaedi. Thad er med eindaemum fynst mer ad arkitektar tini fram rok sem thessi sem a-tillu til fegrunar thessarar byggingar. Fyrri grein hofundar syndi mun betri nalgun fyrir nybyggingar i kvosinni, sem i thessari tillogu eru hafdar ad vettugi. –

    Magnus G. Bjornsson Arkitekt MNAL / FAI

  • Birkir Ingibjartsson

    Svona aðeins til að leggja orð í belg vil ég skýra þau megin atriði sem liggja að grundvelli þess að ég tel það styrkja þetta götuhorn, Lækjargötuna og borgina í heild sinni ef bankinn fær að standa.

    1. Með því að skipta byggingarmassa hótelsins í 3 einingar verður upplifunin af massanum ekki jafn yfirþyrmandi og útlitið mun allavega fylgja hinum “eðlilega” takti skiptingar í götunni. Tillaga Gláma/Kím gerir ráð fyrir uppbroti af þessu tagi og mætti vissulega ýkja það uppbrot miðað við það sem tillagan gerir ráð fyrir. Það er oft talað um Lækjargötuna eins og hún sé rosa löng en þessi reitur er annar af tveimur núverandi byggðum reitum við götuna + Tjarnarskólinn. Óuppbrotið hótel mun þar af leiðandi taka upp um minnst 1/4 af lengd götunnar út að Lækjartorgi.

    2. Ef hótelið krefst uppskiptingar í útliti, eins og höfundar virðast sammála mér um, þá vaknar upp sú spurning afhverju Bankinn getur ekki sinnt því hlutverki. Útlit hússins er stílhreint og einfalt og ber sterk einkenni frá þeim tíma þegar það var byggt. Það ber með sér bjartsýni síns tíma á framtíð miðbæjarins og þess borgarsamfélags sem hér var að mótast. Að tala um húsið sem feilnótu finnst mér bera vott um skilningsleysi á markmiðum þess samfélags sem byggði húsið. Ef fólki er alvara um að byggja upp byggingarsögu Reykjavíkur þá verðum við að huga að því sem við eigum og hjálpast að við að auðga hana hægt og rólega.

    3. Hin sögulega vídd Lækjargötu er augljóslega mikil eins og uppgröfturinn á lóðinni gefur til kynna. Við getum ekki tekið til baka þær breytingar sem orðið hafa á götunni seinustu áratugi enda myndi ég segja að þær beri flestar vott um eðlilegan vöxt borgarinnar. Við erum heldur ekki í stöðu til að sitja og dæma einstakar eldri ákvarðanir enda byggja þær á forsendum síns tíma. Við getum einungis byggt okkar ákvarðanir á því sem við vitum og skiljum í dag. Núverandi ástand götunnar er það sem við stöndum frammi fyrir og með því að viðhalda og byggja við það sem nú stendur við götuna er söguleg vídd götunnar spennt út til hins ýtrasta. Með þeim hætti er hinum raunverulega anda götunnar haldið til haga.

    4. Að lokum vil ég bæta inn í að í raun trúi ég ekki á gildi þess að vera sérstaklega sentimental gagnvart einstaka byggingum. Ef bankinn verður rifinn mun ég samt alveg fara á veitingastaðinn þarna í portinu. Eðli borga er slíkt að þær ryðjast áfram og vaxa nánast á eigin forsendum, forsendum sem eru mótaðar af þeim samfélögum sem þar búa. Samtímis verður þessi vöxtur yfirleitt mun áhugaverðari þegar hann þarf að afmarka sig og aðlagast að gefnum upphafsskilyrðum í stað þess að fá að byrja á núlli í hvert skipti. Þannig hlaðast upp jarðlög hverrar kynslóðar fyrir sig sem gerir lesturinn á borginni og íbúum þess mun ríkari og áhugaverðari.

    p.s. hryggurinn milli Vatnsmýrar og gamla bæjarins mun liggja eftir framlengdri Snorrabraut frá Nauthólsvík niður á Sæbraut ekki Lækjargötu…

  • Almenningur hlýtur að krefjast þess,að yfirvöld „rýni“ vel í þessa tillögu,
    því að Lækjargatan er meginhryggurinn á milli Hafnarsvæðisins og Tjarnarinnar ásamt framtíðarsvæði Flugvallarins og ekki einhver hliðargata.
    Vissulega geta lóðaeigendur nýtt reitinn samkv. gildandi reglugerð,en „opnun“ jarðhæðar inní þröngan innigarð er engin „afsökun“ fyrir því að vanrækja flest ,sem býður uppá nokkuð eðlilegt samband við umhverfið.
    Yfirvöld eiga að gera fjárfestum grein fyrir,að byggingar þurfa, líkt og menn, að hegða sér skikkanlega og sýna vissa tillitsemi.

    • Hilmar Þór

      Þú greinir þetta vel Gunnlaugur og notar svipaða nálgun og ég og fl.

      Þ.e.a.s. að líta á hús eins og persónur. Pesónur eru kurteisar, frekar, gáskafullar, skemmtilegar og leiðinlegar o.s.frv.

      Þessi hryggur sem þú nefnir milli hafnarinnar og tjarnarinnar er mjög mikilvægur, en hann er verið að skemma. Einkum að norðanverðu við höfnina. Þer eru áætlanir um að byggja hús sem ekkert vilja skipta sér af því sem fyrir er við götuna og þennan meginhrygg. Sennilega, þegar grannt er skoðað, er þetta mikilvægasta gata borgarinnar.

    • Ég tala um „hrygg“ af því að Lækjargatan verður í framtíðinni miklvægsta æð í borginni,ekki síst fyrir gangandi og hjólandi fólk.Og þessvegna væri afar fróðlegt að birta til samburðar báðar þær tillögur sem ekki voru valdar til útfærslu.

    • Gunnar Ólafsson

      Þessi tenging milli Tjarnarinnar og Reykjavíkurhafnar er nýr vinkill í Kvosaruræðunni. Hann hefur gleymst norðan Lækjartorgs. Austan við Lækjargötu/Kalkofnsveg er þetta í góðu lagi en að vestan og norðan Lækjartorgs er þetta stórgallað. Hvað eru fagmennirnir að hugsa.

  • Runólfur Ágústsson

    Ég hef hvergi séð tillöguna sem var nr. 2 frá Stúdíó Granda. Hvar er hana að finna?

    • Hilmar Þór

      Jú Runólfur gaman væri að birta hana einnhvern daginn. ‘Eg er með hana undir höndum. Kannski ég geri það bara. Birti hana. Hún er falleg.

  • Það ætti að byggja ofan á gamla bankahúsið svítur og breyta því húsi í kastalastíl og byggja svo útfrá því byggingu í gömlum fallegum stíl við umhverfið

  • Örnólfur Hall

    – Frá byggingu þessa húss hafa flestir eldri og samtímakollegar undirritaðs litið á það sem ‘feilnótu’ í Lækjargötunni.
    Undirritaður man t.d. eftir harðri gagnrýni kollega Hannesar Davíðssonar o.fl. á það.
    – En nú er heilagur staðarandi kominn í spilið og rammaður inn í hina sögulegu vídd! 😉

    – Þurfa nú ekki eldri arkitektar að fara að hugsa sinn gang og meðtaka nýjan upplýstan sannleika ?
    – Það er ekki einleikið með þessa ‚arkitektaspeki‘ eins og kollegi Gunnlaugur Halldórsson sagði forðum ! 😉

    – Fróðlegt væri að heyra hvað kollegar og höfundar hótelsins, sem ég treysti, af mörgum góðum, til allra góðra verka, hafa að segja um tillögu unga arkitektsins?

  • Guðmundur

    Skemmtilegt að sjá myndina neðst af gömlu húsunum 🙂

  • Jón Eiríksson

    Þetta er eitthvað annað og ásættanlegra!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn