Sunnudagur 28.02.2010 - 23:26 - 6 ummæli

Betri nýting á húsnæði og mannafla

 

dzn_THE-PRIESTMANGOODE-RECOVERY-LOUNGE-1[1]

Það er ekki bara hér á landi sem arkitektar eru að velta fyrir sér sjúkrahúsum og hagræðingu þar.

Iðnhönnuðirnir hjá Priestmangood hafa lagt fram hugmyndir um sjúkraaðstöðu sem eiga rætur sinar að rekja til aðstöðu á fyrsta farrými stóru flugfélaganna á löngum flugum.

Hugmyndin er að gera eins og í flugvélunum;  Að lágmarka rýmið sem þarf fyrir starfssemina og hámarka framleiðni starfsmanna. Á sjúkradeild þeirri sem hér er til umfjöllunnar komast fleiri sjúklingar á færri fermetra og þeim er þjónað af færri starfsmönnum. Vinna hönnuðanna á rætur sínar að rekja til áforma um sparnað í breska heilbrigðiskerfinu, NHS.

Myndirnar sem fylgja sýna legudeild fyrir stutta innlögn eða aðstöðu þar sem sjúklingar fá næði til að jafna sig eftir aðgerð.

Nýlega kom út fróðleg skýrsla “The Health manifesto”   þar má kynna sér þessar hugmyndir betur. Þar er talað um að auka svokölluð  „High Street walk-in Centers“ í heilsugæslunni. Það er að færa heilsugæsluna nær notendahópnum, sjúklingunum.

Slóðin er hér.:

http://www.priestmangoode.com/content/uploads/The-Health-Manifesto.pdf

Það verður spennandi að sjá sparnaðarhugmyndirnar í þarfagreiningu vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar Lanspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut, en hún verður opinberuð á næstu vikum.

 

dzn_sq_THE-PRIESTMANGOODE-RECOVERY-LOUNGE-2[1]

Það er vert að hugleiða hvor kosturinn sé betri, að vera einn á stofu þar sem manni leiðist og er hugsanlega hræddur um öryggi sitt eða vera á tveggja manna stofu með einhverjum sem ekka á skap með manni. Þriðji kosturinn gæti verið, þegar þannig stendur á, sá sem hér er kynntur

dzn_THE-PRIESTMANGOODE-RECOVERY-LOUNGE-1[1]

Sjálfsagt má byggja einhverja tegund ferðammannaþjónustu á hugmyndum úr aðstöðu á fyrsta farrými flugfélaganna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Pant ekki liggja innan radíusar þess sem hrýtur.

  • Guðrún Bryndís

    Ein af skemmtilegri hugmyndum sem hafa komið fram til þess að spara pláss var sjúklingahylki Williams Breger, hugmyndin var sú að sjúklingar dveldu í hylki sem ferðaðist á brautum um sjúkrahúsið. Starfsfólkið ynni á hámarksafköstum, því það færi enginn tími hjá því að ferðast á milli staða. Nasa byggði prótótýpuna árið 1969 og einkaleyfi var skráð í Bandaríkjunum 1972.

  • Góður húmor…

  • Hvar er klósettið?

  • Guðmundur

    Hmm, ég sé bæði jákvæða og neikvæða þætti við þetta. Þetta lítur ágætlega út og sú pæling að ekkert snerti gólf til að auðvelda þrif er tvímælalaust til bóta, ímynda ég mér. Hins vegar virkar þetta svolítið „færibandalegt“ og miðað við orðræðuna í virðist þetta að miklu leyti ganga út á skilvirkni („patient turnaround“). Og persónulega dettur mér margt fyrr í hug en flugvélar þegar talað er um þægindi og vellíðan (já, ég hef prófað að ferðast í Saga Class).

    Annað sem mér finnst vafasamt í þessum pælingum er þetta: „Built environments for healthcare need to be thought out top-down not bottom-up“. Nú er svosem hægt að túlka þetta á ýmsa vegu, og útskýringin sem þeir gefa er skiljanleg, að það þurfi að hugsa um þetta sem heild en ekki alltaf að endurhugsa rýmið þegar nýr búnaður og annað kemur inn. En „bottom-up“ getur líka þýtt annað (og er notað þannig í stjórnun), þ.e. að hönnunin og forsendur fyrir henni komi „að neðan“ (frá starfsfólki og jafnvel sjúklingum), en ekki aðeins ofan frá, frá hönnuðum sem þekkja ekki starfsumhverfið nema á yfirborðinu. Nú getur meira en verið að þessar hugmyndir séu unnar í samvinnu við starfsfólk sjúkrahúsa, þótt það sé ekki sérstaklega tekið fram, en alltof oft sér maður svona vinnu unna „ofan frá“ og framlag fólksins á gólfinu sem notar rýmið í mesta lagi tekið til greina eftir á, þegar það ætti í raun að byrja á því. Við skulum vona að þetta verði vel hugsað í nýja hátæknisjúkrahúsinu, en einhvern veginn efast maður um það, sérstaklega miðað við vinnubrögðin hingað til.

  • Iðnhönnuður

    Þetta virkar sannfærandi. Jafnvel fyrir vandræðalausa langlegusjúklinga. Mér virðist vera meira “Pívasí” þarna en á hefðbundinni tveggja til þriggja manna stofum. Afþreying er mikil og svo er hægt að rúlla manni hvert sem er. Ræsting handhæg og tilfinningin fyrir öryggi mikil vegna nærveru starfsmanna.

    Þetta er dæmigerð vinna frá hendi iðnhönnuða þar sem markmiðið er að endurhugsa og endurhanna með hagræðingu í huga án þess að það bitni á þjónustunni.

    Ég mæli með að fólk skoði tengilinn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn