Mánudagur 27.04.2015 - 11:12 - 9 ummæli

„Betri spítali á betri stað“

Nú er búið að stofna Facebooksíðuna „Samtök um betri spítala á betri stað“ sem kallar eftir opinni fordómalusri umræðu um fyrirhugaðar framkvæmdir við nýtt sjúkrahús.

Þetta virðist vera framsýnn, faglegur og lausnamiðaður hópur sem tekur á hlutum sem enginn einstaklingur hefur haft tök á að gera með sama hætti áður.  Samkvæmt kynningunni er það þverfaglegur hópur sérfræðinga sem að síðunni standa. Þau hafa að markmiði að byggður verði spítali sem er ódýrari í byggingu og rekstri og að sjúkrahúsið verði betra en það getur orðið við Hringbraut, að hugsað sé til lengri framtíðar, öllum til heilla.

Hópurinn hefur m.a.  skoðað fjárhagshliðina og komist að því að það er hagstæðara að byggja skjúkrahúsiðá nýjum stað  austar í borginni og nær þungamiðju búsetunnar.  Þetta á bæði við um stofnkostnað og rekstur þar sem sparnaðurinn skiptir milljörðum að sögn. 

Þetta virðist vera í fyrsta sinn sem svona samanburður er gerður og hann birtur.

Á síðunni tekið á mörgum málum og framkvæmdin skoðuð frá mörgum sjónarhornum sem ekki hafa verið reifuð með sama hætti áður.

Slóðin er þessihttps://www.facebook.com/betrilandspitaliabetristad?fref=nf

Allar færslur „Samtaka um betri spítala á betri stað“  enda á orðunum: Taktu þátt í umræðunni. Láttu í ljós skoðun þína á þessari færslu, sem er vísbending um opna fordómalausa nálgun teymisins og ósk um skoðanaskipti.

Ég leyfi mér að birta hér tvær fésbókarfærslur trymisins. Sú fyrri er fjárhagslegursamanburður  og sá síðari fjallar um Aðalskipulag Reykjavíkur .:

 

-Fjárhagslegur samanburður eftir staðsetningu.

Þeir staðir sem bornir hafa verið saman eru Hringbraut, Fossvogur og það sem við köllum „Besti staður“ sem er staður nálægt þungamiðju búsetu höfuðborgarsvæðisins, sem liggur vel við tengibrautum umferðar. Þetta er staðurinn sem flestir eiga styst að fara á. Þennan stað á eftir að finna, það er á verksviði þeirra sem sjá um bogarskipulagið og byggingu Landspítalans.

Við miðum við að heildar byggingarmagn sem verður til ráðstöfunar á þessum þremur stöðum verði sambærilegt, annað hvort uppgert gamalt húsnæði eins og á Hringbraut og að hluta til í Fossvogi eða allt byggt nýtt frá grunni eins og á „Besta stað“. Heildar fermetrar f.u. bílastæðahús sem fyrirhugaðir eru á Hringbraut eru 153.987 og það þarf lítillega minna í Fossvogi og á Besta stað því minna er af tengibyggingum, brúm og þess háttar á þeim stöðum en á Hringbraut þar sem spítalinn yrði í rúmlega 20 húsum.

Byggingarkostnaðurinn lítur svona út með bílastæðahúsum:
Hringbraut 53,8 milljarðar króna (skv. lögum)
Fossvogur 59,1 milljarðar króna
Besti …….. 51,9 milljarðar króna

Ef tekið er tillit til fyrirsjáanlegra umferðarmannvirkja sem þarf að reisa þegar umferðaræðar springa vegna stóraukinnar umferðar er dæmið svona:
Hringbraut 74 milljarðar króna
Fossvogur 69 milljarðar króna
Besti …….. 57 milljarðar króna

Samkvæmt þessu er hagstæðast að byggja frá grunni á „Besta stað“ þó ekki sé fyrir hendi gamalt húsnæði sem má nýta eins og á hinum stöðunum. Ástæðan er m.a. að: það kostar líka að endurgera húsnæði; það er hagstætt að byggja frá grunni þar sem nóg rými er fyrir hendi o.fl. og; söluverðmæti eigna á Hringbraut og í Fossvogi er verulegt.

Þetta er fyrir utan þann stóra hag sem er af því að hafa spítalann á stað þar sem flestir eiga sem styst á hann. Þegar það er tekið með í reikninginn verður munurinn á „Besta stað“ og hinum verulega sláandi eða um 7 milljarðar króna á ári „Besta“ í vil.

Við sem þjóð höfum ekki efni á að missa af þeim hag, sérstaklega þegar þess er gætt að í neyðartilvikum eru batahorfur betri þegar stutt er á spítalann. Það munu um 100 sjúkrabílar koma að meðaltali á sólarhring að nýja spítalanum. Eins gott að stutt sé á hann.

Meira um þetta síðar.

> Taktu þátt í umræðunni. Láttu í ljós skoðun þína á þessari færslu.

Landspítalinn og Aðalskipulag Reykjavíkur

Ef staðsetja á spítalann í samræmi við markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 ( AR 2010-2030) ætti að finna honum stað sem stuðlar að styttri ferðatíma, minni umferð, minni mengun og minni þörf fyrir ný umferðamannvirki.

Þetta er best gert með því að færa þennan mannfrekasta vinnustað landsins austar í borgina, nær þungamiðju búsetu. Þannig má minnka umferðartafir, stytta ferðatíma og nýta betur umferðamannvirki sem fyrir eru.

– Takmarkanir vegna kröfu um aðlögun að gömlum byggingum

Eitt markmið aðalskipulagsins lýtur að því að ný byggð aðlagist þeirri sem fyrir er í samræmi við menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð. Þess utan er ákvæði í skipulaginu um að hús innan gömlu Hringbrautar verði ekki hærri en sem nemur 5 hæðum.

Erfitt er að samræma þetta mikla mannvirki þeim gömlu byggingum sem fyrir er og hæð sjúkrahússins er talin þurfa að vera mun meiri. Til að mynda er meðferðarkjarninn samkvæmt deiliskipulagi á pari við rúmlega 8 hæða íbúðarhús.

Meira um þetta síðar.

> Taktu þátt í umræðunni. Láttu í ljós skoðun þína á þessari færslu.

Sjá einnig : https://www.facebook.com/betrilandspitaliabetristad?fref=nf

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

 • Ég hef sjaldan séð eins eindregnar og jákvæðar athugasemdir og hér við þennan pistil. Vonandi veit það á gott.

 • Staðsetning við Elliðaárósa blasir við sem besti kostur ef byggja á spítala frá grunni á nýjum stað. Málið er hins vegar að það þarf þá að stíga það róttæka skref að byggður verði nýr Landspítali frá grunni fremur en að plástrað verði á það sem fyrir er. Miðað við það hvað umræðan um uppbyggingu Landspítalans fer stundum i einkennilega farvegi þá er varla von á sátt um þessa leið heldur. Það hefur verið rætt um bruðl í þessu samhengi og að stór byggingaráform séu nú örugglega bara til að færa vildarvinum í hópi verktaka stór verkefni á silfurfati. Uppskrúfuð orðskrípi á borð við „hátæknisjúkrahús“ hafa ekki hjálpað til heldur.

  Í annarri umræðu um skipulagsmál er svo búið að hamra á þeirri hugmynd að flugvélar verði að geta lent hjá aðalsjúkrahúsi landsins og það hlýtur að vera jafn vont að færa sjúkrahús frá flugvelli eins og að færa flugvöll frá sjúkrahúsi.

  • Árni Ólafsson

   Spítali á krossgötum austur-vestur og norður-suður ása höfuðborgarsvæðisins hlýtur að vera vel í sveit settur. Góð tengsl verða við flugvöllinn eftir Miklubraut þótt vegalendin sé örlítið meiri.

 • Þetta er ánægjulegt framtak. Það vantar vettfang til að ræða þetta risa mál nánar. Rökin um að þetta tefjist um einhver ár við að breyta um staðsetningu vega mjög lítð að mínu mati, til lengri tíma litið.

  Ef við segjum að þessi nýji spítali muni gagnast okkur næstu 80-100 árin þá er engin spurning um að finna nýjan stað fyrir hann, einhverstaðar þar sem hægt er að byggja „frjálst“ og þar sem hægt verður að byggja við spítalann í framtíðinni.

  Það hefur nú bara sýnt sig að kostnaður við að endurnýja og viðhalda gömlu byggingum er sennilega meiri til langs tíma litið en að byggja nýtt frá grunni. Þessar gömlu byggingar verða hátt í tvö hundruð ára gamlar eftir 80 ár, hvaða vit er í því.

  Það eitt að byggja nýjan spítala sem ekki er hannaður eftir hagvæmustu og nýjustu hönnunarstöðlum bara til að aðlagast byggðinni í þingholtunum er hreint út sagt galið.

 • Hvenær hefst samtalið milli þeirra sem vilja Hringbraut og þeirra sem vilja „betri“ stað. Þurfa þeir ekki að hittast. Kannski í Kastljósi!

 • Sigrún Gunnarsdóttir

  Þetta er ánægjulegt.

  Nú er umræðan komin á „annað plan“.

  Það þarf að leysa þennan ágrenning sem fyrst og á farsælan hátt.

  Maður bíður eftir meiri umræðu hér og innleggi frá nýjum landspítala ohf.

 • Ekki var seinna vænna.

  En nú heyri ég það sjónarmið útskýrt að fyrirhuguð ytri Sundabraut og áframhaldandi brú og braut af Suðurgötu yfir á Álftanes muni setja Landspítala við Hringbraut aftur á Besta Stað.

  Hvað segir maður við því?

 • Þetta er frábært og þarna eru færð rök sem hafa ekki verið í umræðunni áður svo ég viti.

 • Loksins, loksins eru málsmetandi menn að vakna til lífsins. Facebooksíðan „Samtök um betri spítala á betri stað“, hefur verið kynnt til leiks af þverfaglegum hópi sérfræðinga og vonandi verður slagkraftur síðunnar svo kröftugur, að ráðamenn leggi við hlustir. Að samstaða náist um „besta stað“, þar sem efasemdir um ágæti uppbyggingar við Hringbraut fara vaxandi og ekki síst innan læknastéttarinnar.
  Eitt þarf þessi þverfaglegi hópur að hafa í huga. Fjölmargir, einkum í eldri kantinum eru ekki á facebook en vilja engu að síður með einhverjum hætti koma að leitinni að „besta staðnum“.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn