Föstudagur 06.07.2012 - 14:45 - 6 ummæli

Betri tíð í skipulagsmálum Reykjavíkur?

 

 

Fyrir örfáum misserum breyttist umræða um skipulagsmál í Reykjavík. Það var í tíð Júlíusar Vifils Ingvarssonar formanns skipulagsráðs og að mér skilst að frumkvæði Ólafar Örvarsdóttur skipulagsstjóra að borgin kallaði til kynningar vegna endurskoðunar aðalskipulags.

Frummælendur voru ekki viðhlæjendur valdsins eins og áður hafði tíðkast, heldur aðilar sem gagnrýndu ríkjandi stefnu. Þarna hélt núverandi formaður skipulagsráðs Páll Hjaltason eftirminnilega ræðu þar sem hann gaf skipulaginu breiðsíðu. Annar ræðumaður var Sigrún Helga Lund sem talaði gegn einkabílismanum sem hafði verið meginforsenda borgarskipulagsins um áratugaskeið. Það var opnað fyrir skoðanaskipti og gagnrýni sem reyndar allt of fáir hafa notfært sér.

Í framhaldinu hefur umræðan orðið sýnilegri, málefnalegri og lausnamiðaðri en áður þó enn vanti mikið uppá að hún sé eins mikil og tilefni er til.

Fólk er farið að taka meira þátt í umræðunni, fundir eru haldnir  og fleiri greinar eru birtar.

Bara í þessari viku hafa verið birtar þrjár stórgóðar greinar um efnið í öðru dagblaðanna.

Ég leyfi mér að vísa á þær og birta stutt brot.

Allar eru greinarnar lausnamiðaðar og blása manni von í brjóst um betri tíð í skipulagsmálum.  Úrdrættirnir eru birtir hér í réttri tímaröð

Páll Hjaltason arkitekt og formaður skipulagsráðs skrifar mánudaginn 2. júlí m.a.
Reykjavík stendur á vissum tímamótum í skipulagsmálum. Kyrrstaða síðustu ára hefur gefið tóm til að endurmeta margar fyrri ákvarðanir í ljósi breyttra sjónarmiða og setja fram markvissari sýn til framtíðar. Aukin áhersla á umhverfisgæði, vistvænar samgöngur og almannahagsmuni leiðir fram nýjar lausnir. Þétting byggðar á auk þess ávallt að vera á forsendum þess byggðamynsturs sem fyrir er á hverjum stað og styrkja mannlífið í borginni. Sú niðurstaða sem samkeppni um Ingólfstorg leiddi af sér varðar veginn fyrir aðra uppbyggingu í miðborginni þar sem fólk á alltaf að vera í fyrirrúmi.

Slóðin að grein Páls er þessi:

http://www.visir.is/ingolfstorg—kvosin/article/2012707029955

Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi skrifar fimmtudaginn 5. júlí m.a.:

Á kynningar- og umræðufundum, sem hafa verið haldnir í öllum hverfum borgarinnar undanfarið, hefur komið skýrt fram að nýtt aðalskipulag felur í sér róttæka stefnubreytingu. Skipulagið hverfur frá dreifbýlisstefnu undanfarinna ára og áratuga. Engin ný úthverfi verða byggð í Reykjavík næstu áratugi. Reykvíkingar, og íbúar höfuðborgarsvæðisins alls, eiga nú þegar mikið af ágætum úthverfum. Nú er komið að innhverfunum.

…………..

Í kynningarbæklingi, sem skipulags- og byggingarsvið borgarinnar hefur gefið út, er gert ráð fyrir að Reykvíkingum fjölgi um 25.000 manns til ársins 2030. Það þýðir að byggja þarf um 12.000 íbúðir á tímabilinu. Skipulagið gerir ráð fyrir að uppbyggingin eigi sér fyrst og fremst stað á þéttingarási sem teygir sig frá Mýrargötu upp í gegnum Hlemm, meðfram Suðurlandsbraut, inn að Elliðaárósum og að Ártúnshöfða. Gert er ráð fyrir öflugum almenningssamgöngum á þessari leið og góðum hjólabrautum.

……………

Mikilvæg forsenda þess að Reykjavík verði í framtíðinni vistvæn og sjálfbær, og um leið manneskjuleg, er að umferðin verði meira borgarmiðuð þar sem gangandi og hjólandi njóta forgangs og hlutur almenningssamgangna verði stóraukinn.

Slóð að grein Hjálmars er þessi:

http://www.visir.is/nytt-upphaf-i-reykjavik/article/2012707059989

Björn Stefán Hallsson arkitekt skrifar föstudaginn 6. júli og segir m.a.:                                           

Fíngert yfirbragð gömlu húsanna í miðborginni og Þingholtunum eru einstök og algerlega sérstök menningarverðmæti. Þau tilbrigði sem í þeim felast og umhverfi þeirra eru það sem vekur áhuga í byggð Reykjavíkur og skapar aðdráttarafl. Þetta þarf að efla og upphefja með öllum tiltækum ráðum. Hús af sömu gerð verða aldrei byggð aftur í borginni.

………..

Fyrir það fyrsta þá væri það ekki hægt miðað við gildandi mannvirkjalög og byggingarreglugerð. Þau hús sem þar eru nú eru allt sem við eigum að þessu leyti. Gera þarf eins mikið úr tilvist þeirra og framast er kostur þannig að þeirra verði notið sem best í borgarumhverfinu. …………… Það er komið að algerri nauðsyn á sátt um verðmæti gömlu byggðarinnar, stöðva verður frekara niðurrif og ómarkvissa uppbyggingu og upphefja þau menningarverðmæti sem enn eru til í eldri byggðinni.

…………

Það er engu líkara en að fólk hafi ekki lært neitt af offari og óraunhæfum framkvæmdaáætlunum innan gömlu byggðarinnar í Reykjavík í aðdraganda hrunsins. Í verðlaunuðum tillögum samkeppninnar um uppbyggingu við Ingólfstorg er offarið endurvakið í anda 2007. Síðastliðin ár hefur umræðan um byggðina verið með þeim formerkjum að verið væri að snúa af þeirri leið, snúa deiliskipulögum frá ofuráætlunum í átt til byggingarmagns og stærða í eðlilegu samræmi við byggðarmynstrið, að snúa við blaði til sáttar við fíngerð einkenni byggðarinnar.

Slóðin að grein Björns er þessi:

http://www.visir.is/ad-glata-menningarverdmaetum-eda-upphefja/article/2012707069981

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Grein Björns Hallsonar er vönduð og faglega rökstudd.
    Verðlaunuð tillaga skapar ekki „genius loci“,anda staðarinns, það ,sem var meginmarkmið og kjarni samkeppninnar.

  • Garðar Garðarsson

    Mikið vildi ég að borgaryfirvöld tækju mark á þessum vel rökstuddu athugasemdum í grein Björns Stefáns Hallssonar og færu að skipuleggja eldri borgarhverfin þannig að þau haldi sem best í sína upprunalegu mynd, og létu vera af því að kæfa elsta og dýrmætasta hluta Kvosarinnar með alltof miklu byggingamagni.

  • Jóhann Sigurðsson

    Ef gerðir verða í samræmi við orð þessara manna er vissega breyting til batnaðar í vændum. Og takk til allra að ógleymdum þeim Júlíusi og Ólöfu.

  • Pétur Örn Björnsson

    Það er guðsþakkarvert að okkar volaða arkitektastétt skuli vera komin með arkitekt sem byggingarfulltrúa og þar að auki mann sem ber skynbragð á staðarandann.
    Grein Björns Stefáns Hallssonar er alvöru grein, skrifuð af tilfinngaríkri næmni; greinar Páls og Hjálmars finnast mér hins vegar þokukenndari.

  • Það er léttir að lesa þessar greinar þó tvær þeirra fjalli að mestu um sama efnið þó með mismunandi formerkjum sé. Þær eru allar skrifaðar af velvilja, áhuga og umhyggju fyrir reykjavíkurskipulaginu. Það blæs eins og málshefjandi segir nýjir vindar sem gefur manni von og umræðan er að opnast þannig að fleiri komast að henni en smálklíkur eins og áður var.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn