Föstudagur 20.11.2009 - 11:09 - 19 ummæli

Bíllaus borg

Ég hef nefnt það áður að nýtt vinnulag hefur verið tekið upp vegna undirbúnings að endurskoðun aðalskipulags borgarinnar.

 

Áður var þetta þannig að skipulagið var unnið af stjórnmálamönnum og sérfræðingum, mest í kyrrþey, og svo var það opinberað og auglýst. Án nokkurrar umræðu sem heitið gat. Þeir sem gerðu athugasemdir voru álitnir andstæðingar borgarskipulagsins.

 

Í gær voru arkitektar boðaðir til morgunfundar þar sem farið var yfir samgöngumál í borginni. Það átta sig kannski ekki allir á því hversu samgöngumál eru mikilvæg.

 

Þau eru lykilþáttur.

 

Það vakti einkum athygli mína að fenginn var fyrirlesari sem talar í aðra átt en stefnt hefur verið að í borginni undanfarin 25 ár. Það var Sigrún Helga Lund frá samtökunum um Bíllausan lífsstíl.

 

Þarna er enn brotið blað með nýjum og betri vinnubrögðum við undirbúning að gerð aðalskipulags þar sem óskað er eftir gagnrýni og viðbrögðum þegar í upphafi vinnunnar.

 

Sigrún Helga sýndi fram á hvað þjónustan við einkabílinn skekkir samkeppnisstöðu annarra kosta. Þar nefndi hún “ókeypis” bílastæði, kröfur um lágmarksfjölda bílastæða í byggingareglugerð, sífellt fleiri og stærri “ókeypis” umferðarmannvirki, skattfrjálsir bílastyrkir og margt fleira.

 

Einkabíllinn er óhemju dýr og óheppilegur ferðamáti í borgum. Það sjá allir um leið og málið er skoðað enda eru flestar borgir Evrópu að hafna einkabílnum

 

Því hefur verið haldið fram að í hvert sinn sem fjölgar um einn einkabíl í landinu þurfi að útvega honum 7 bílastæði. Hvert bílastæði tekur að minnsta kosti 25 fermetra lands. Það er að segja að hver bíll þarf um 175 fermetra lands bara í bílastæði. Öll þessi stæði þarf svo að byggja og þeim þarf að halda við, bíleigendum að “kostnaðarlausu”.

 

Ég man eftir því að fyrir 10-15 árum héldu menn því blákalt fram að Íslendingar væru búnir að velja hvernig þeir vildu ferðast og það væri með einkabílnum. Þetta er auðvitað vitleysa. Skipulag borgarinnar og þjónustan er þannig að það er ekkert val. Þetta þekki ég á eigin skinni. Ég bjó erlendis í 8 ár og saknaði aldrei einkabílsins. Ég hugðist taka upp sama lífsstíl þegar heim var komið en gafst upp eftir viku vegna þess hvað borgin var illa skipulögð og hvað almenningssamgöngurnar voru lélegar.

 

Það hefur lengi verið vitað að einkabíllinn er óheppilegt samgöngutæki í borgum. Kaupmannahöfn gerði Strikið að göngugötu fyrir tæpum 50 árum. Fyrir um tuttugu árum fór Kaupmannahöfn að setja kröfur um hámarksfjölda bílastæða.

 

Kollegar mínir voru að hanna lúxusíbúðir í miðborg Kaupmannahafnar og vildu hafa tvö bílastæði neðanjarðar fyrir hverja íbúð. Því var hafnað af yfirvöldum sem sögðu það stefnuna að fækka stæðum í miðborginni, m.a. vegna þess að verið væri að leggja áherslu á almenningssamgöngur, Metro o.fl.

 

Arkitektarnir og verkkaupar þeirra gáfu sig en töldu að íbúðirnar mundu vart seljast án þess að óskinni um tvö bílastæði á hverja lúxusíbúð yrði fullnægt. Þeir sögðu að þeir sem þarna flyttu inn mundu aka á tveimur BMV og að konurnar gengu í pelsum. Þetta væru íbúðir fyrir ríkt fók sem vildi lúxus.

 

Niðurstaðan varð eitt stæði á íbúð og allar íbúðirnar runnu út.

Á þessari loftmynd af KTH, tækniháskólanum í Stokkhólmi sést að þar er ekki einu tré fargað fyrir bifreiðastæði. Takið eftir að járnbrautarstöðin er ekki langt undan.

Því hefur verið haldið fram að ekkert bifreiðastæði þurfi, eða eigi að vera, við háskóla. Háskóla eigi að staðsetja þannig að stúdentar komist allra sinna ferða gangandi eða með almenningssamgöngum.

Þetta er loftmynd af svæði Háskóla Íslands. Háskólinn býr ekki við bifreiðastæðavanda, heldur samgöngu- og skipulagsvanda.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • I want to quote your post in my blog. It can?
    And you et an account on Twitter?

  • Með svæði Háskóla Íslands þá ætti náttúrulega að byggja á bílastæðunum við Hótel Sögu og Háskólabíó blandaða byggð norðvestan megin við Suðurgötuna, með hugsanlega torgi í miðjunni sem vísar í suður og skapar skjól fyrir norðanáttinni. Svo ætti að mjókka Suðurgötuna og til að skapa borgarstemmningu (og skjól fyrir rokinu).
    Þar mætti byggja bæði íbúðir fyrir stúdenta og hugsanlega kennara og aðstöður fyrir fyrir fyrirtæki sem gætu tengst HÍ eins og fyrirtæki með rannsóknar- og þróunarstarfsemi og sprotafyrirtæki.

  • Það er athyglisvert að sjá hér í þessum kommentum að enginn hefur ennþá tekið upp hanskan fyrir bílaborgina með þessum hefðbundnu frösum um að íslendingar hafi „valið“ einkabílinn eða að loftslagið bjóði ekki upp á almenningssamgöngur. Viðhorfsbreytingin er greinilega komin vel á veg.

    Það virðist vera að síast inn sú staðreynd að það er ekki til „borg“ á þessari plánetu þar sem allir fara ferða sinna á einkabíl og komast auðveldlega ferðar sinnar.

  • Árni Ólafsson

    Það þarf að rjúfa þann vítahring sem felst í bílaborgarskipulaginu. Æ umfangsmeiri umferðarmannvirki kalla á aukna umferð og stuðla að sundrun borgarinnar og aðgreiningu borgarhverfa. Í stað þess að þróa samfellda borg höfum við búið til sundraða byggð, sem erfitt er að umgangast öðru vísi en í bíl.

    Umferðarmannvirkin eru orðin andlit borgarinnar og setja sterkan svip á hversdagsumhverfi borgarbúa. Eiginleikar borgarumhverfisins og bæjarmyndarinnar eru víða þannig að þar vill enginn dvelja eða fara um öðru vísi en í bíl (t.d. Suðurlandsbraut, Hagatorg og Hallsvegur). E.t.v. ætti að leggja áherslu á að breyta borginni í samfellda byggð – t.d. með því að byggja á veghelgunarsvæðum tengibrautanna (og jafnvel stofnbrautanna vestan Reykjanesbrautar) og breyta þeim í aðalgötur þar sem byggingar kæmu í stað jarðvegshauga og hljóðmana. Einskismannslandi væri þannig breytt í brú milli bæjarhverfa og aðalgötunum breytt úr sveitavegum í borgargötur. Þetta gæti orðið liður í markvissum aðgerðum til þess að minnka einkabílaumferð sem mér skilst að sé allt að þrefalt meiri en íbúafjöldi Reykjavíkur gefur tilefni til (það væri fróðlegt að fá nánari upplýsingar um þetta atriði).

    Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk gangi, hjóli eða taki strætó í fráhrindandi umhverfi – án skjóls af byggð, án bæjarmyndar og án hefðbundinna borgarrýma. Það gerir enginn nema af illri nauðsyn – tilneyddur. En að óbreyttu heldur vítahringurinn áfram að vinda upp á sig með dreifbýlum úthverfum, götóttum almenningssamgöngum, meiri einkabílaumferð, fleiri bílastæðum, fyrirferðarmeira gatnakerfi (jafnvel með mislægum gatnamótum inni í borginni !), enn gisnari byggð sem kallar á enn meiri umferð og enn fleiri bílastæði, enn breiðari götur ….. o.s.frv.
    Hvernig brjótumst við út úr þessum vítahring?
    Með því að breyta eiginleikum borgarumhverfisins?
    Með því að gera ekkert – bíða og sjá?
    Eða hvað?

  • Það er gaman að skoða loftmyndina af háskólasvæðinu. Sjáið td hvað það væri nú skemmtilegt að taka Hringbrautina í stokk, þó ekki væri nema frá bensínstöðinni og að hringtorginu við þjóðminjasafnið. Þá myndi þetta svæði teygja sig óslitið alveg niður í miðbæ þrátt fyrir skothúsveginn sem er ekki mikil umferðargata.

    Síðan mætti skipuleggja háskólasvæðið í heild sinni með tengsl við miðborgina í huga.

  • Það væru gaman að heyra hvaðan Samúel T. og Bíllaus lifsstíll hafa sína tölu um 4 stæði á hvern bíl. Hilmar hefur töluna 7 stæði á hvern bíl frá erlendum sérfæðingi sem hann reynir svo að rökstyðja sjálfur með leik að tölum. Hilmar gleymir þar söfnum, leikhúsum, tónlistarhúsum, leikhúsum og kvikmyndahúsum og fl. Ég hef það á tilfinningunni að talan 7 sé ekki ofmat. Frekar vanmat. Einhver sem þetta les hlýtur að vita þetta. En því verður ekki á móti mælt að kostnaður við einkabílinn er víða falinn og ekki nægjanlega skilgreindur. Bílar eru böl. Skoðið svo myndir Hákons Hrafns. Þær eru sláandi og segja meira en þúsund orð.

  • Hákon Hrafn

    Viðbót við þetta og myndirnar hér í byrjun langar mig að hvetja fólk til að skoða 3 eftirfrandi myndir af ólíkum háskólasvæðum.

    Mynd 1 http://www.rokk.is/skipulag/hi.jpg
    Fyrst er það stærri mynd af HÍ svæðinu. Þar sjálst bílastæðin sem eru við SA endann og fyrir fram Skeifuna. Vissulega eru þau ekki í á milli bygginga eins bílastæðin við Háskólabíó (sem nýtast þá líka á kvöldin). HÍ tók upp gjaldskyldu á bílastæðum í Skeifunni sem eru innan við 5% af öllum bílastæðum skólans. Því var mótmælt kröftuglega af nemendum líkt og almenn réttindi væru tekin af þeim. Í dag eru bílastæði í Skeifunni ekki nýtt nema 30-40% á vinnutíma. Á þessari mynd sjást hve gríðarlegt pláss þessi stæði taka. Ég vinn við HÍ og flestir vilja auðvitað halda í þessi bílastæði.

    Mynd 2 http://www.rokk.is/skipulag/uni_saarland.jpg
    Næst er mynd af skóla sem ég var í fyrir nokkrum árum í Þýskalandi (University of Saarland). Hann er frábrugðinn mörgum öðrum evrópskum skólum vegna þess að hann er frekar ungur og var ekki byggður upp inn í bæ. Skólinn er í 2-3km fjarlægð frá smáborg sem telur rúmlega 200þús íbúa. Engar íbúðir fyrir nema eru á þessu svæði þannig að þarna eru bara skólabyggingar, mötuneyti og vísindagarðar í jaðrinum. Það er hlið inn á þetta svæði. Inn á svæðið getur ákveðinn fjöldi starfsmann keyrt (með kort) og strætó. Nemendur geta lagt á bílastæðum sem eru fyrir utan (lengst til vinstri á myndinni). Þau eru á tveimur hæðum (stálgrind með neti) og það kostar að geyma bílinn þarna.

    Mynd 3 http://www.rokk.is/skipulag/trinity_college.jpg
    Hin myndin er af „klassískum“ gömlum skóla sem byggist upp og endar í nánast í miðbæ. Skólinn er Trinity College í Dublin. Þarna eru skólabyggingar, söfn og slatti ef nemendaíbúðum (ég gist þarna í viku fyrir tveimur árum). Gamli hlutinn er vinstra megin og nýrri hlutinn hægra megin. Svæðið afmarkast ca af grænu línunnni. Innan svæðis eru engin bílastæði og mjög fá fyrir utan. Andinn þarna er frábær.

    Berið þessar myndir saman og hugsið hvort það sé ekki möguleiki að gera eitthvað betur á höfuðborgarsvæðinu en nú er gert.

  • Hákon Hrafn

    Enn og aftur frábært blogg og umræður hér.

    Hér þarf fyrst og fremst algjöra viðhorfsbreytingu, bæði hjá almenningi og stjórnmálamönnum. Í síðari hópnum sýnist mér Dofri standa fremst í því að reyna að koma einhverjum breytingum í gegn. Ég fór á íbúafund hjá Kópavogi á fimmtudaginn (Í þannig bæ vil ég búa!) og maður heyrir alveg að það sé vilji hjá bæjaryfirvöldum til að gera einhverjar breytingar (veit það sjálfur að Gunnsteinn bæjarstjóri hjólar sjálfur) en það er líka ljóst að þær yrðu gríðarlega óvinsælar hjá almenningi. Stjórnmálamenn ýmist lofa fleiri mislægum gatnamótum eða fleiri bílastæðum, vandamáli sem eltir skottið á sjálfu sér.

    Meginþorri íbúa landsins vill fá að nota bílinn sinn eins og úlpu, í hann er farið á morgnanna og helst þarf að komast í honum inn í væntanlega áfangastaði. Þetta breytist ekki fyrr en
    a) bílastæðum verði fækkað alveg við byggingar og
    b) rukkað verði fyrir öll bílastæði nema við íbúðarhúsnæði.

    Enginn stjórnmálaflokkur vill setja þetta á stefnuskrá af óvinsældar ástæðum.

    Dæmi um hvernig a) virkar er t.d. skutl í skóla og í íþróttir barna. Foreldar eru t.d. að keyra börn 300-400m leið á þessa staði og stoppa alveg við innganginn. Ef almenn bílastæði er t.d. 200m frá inngangi verður enginn hvati að keyra 100m að bílastæði. Sama á við t.d. Landspítala og Háskóla Íslands. Þar keyra starfsmenn og nemendur nokkur hundruð metra (vegalengd sem tekur 5-10m að labba) út af því að hægt er að leggja bílnum nánast við innganginn.

    Dæmi b) skýrir sig auðvitað sjálft. Bílastæði eru ekki ókeypis. Ef ég geng í matvörumarkað og kaupi vöru þá er kostnaður við bílastæði innifalinn í vöruverði. Skólar og opinber þjónusta eiga ekki að bjóða upp á ókeypis bílastæði. Þetta er vissulega erfiðara með aðila á einkamarkaði eins og búðir.

    Öll þessi gríðarlegu umferðarmannvirki gera það að verkum að byggð verður aldrei þétt og dreifð byggð „tryggir“ að það verður aldrei rekstrargrundvöllur fyrir strætó.

    Ef einhverjum finnst þetta öfgafullt viðhorf hjá mér má benda viðkomandi á það þetta er normið í flestum borgum erlendis. Ég hjóla í vinnu á hverjum degi. Ég á nýlegan jeppling. Ég hætti að keyra í vinnu eftir að hafa kynnst því sjálfur árið 2001 að danskar miðaldra konur hjóla jafnvel nokkra tugi kílómetra á dag í vinnu, líka í desember og janúar þegar það er skítkalt. Ef þær geta þetta ættu Íslendingar að geta það líka.

  • Hilmar Þór

    Samúel T. og Samtök um Bíllausann lífsstíl hafa notað töluna 4 stæði á hvern bíl.

    Erlendur fyrirlesari sem kom hingað til lands fyrir nokkrum árum sagði þau minnst 7. Þetta var reyndar bandaríkjamaður og það má leiða að því líkur að þetta eigi ekki við um Evrópu.

    Ekki veit ég hvað á að segja en ég fór að telja stæðin.

    Heima er 1. stæði
    Í vinnunni er 1. stæði
    Svo er minnst eitt gestastæði við hvert heimili, á stæði eða við götu.
    Ef fjórði hver bíleigandi er jafnframt sumarbústaðaeigandi með 4 stæði við bústað sinn kemur fjórða stæðið.

    Þá vantar að leggja saman öll stæði vegna: verslunnar, íþróttasvæða, flugstöðva, sjúkrahúsa, ferðamannastaða, bensínstöðva, elliheimila, skóla, bændabýla, vegasjoppa, kirkna, heilsuræktarstöðva, gestastæði við vinnustaði o.s.frv. o.frv.

    Samúel T. er mjög vel að sér í þessum hlutum, sömuleiðis Samtök um bíllausann lífsstíl.

    Fróðlegt væri að heyra hvaðan þau fá sína tölu um “aðeins” 4 stæði á hvern bíl.

    Bandaríkjamaðurinn rökstuddi sína tölu. Ég man bara ekki hvernig en ég hef trú á að þau séu langt yfir 7 þegar allt er talið.

    4 stæði á bíl hlýtur að vera vanmetið.

  • Hjalti Þór Þórsson

    Varðandi þetta með að helmingur borgarlandsins fari undir samgöngumannvirki. Skýrsla var unnin 2004 þar sem sýnt er fram á það. Hana má nálgast hér:
    http://www.rvk.is/Portaldata/1/Resources/adalskipulag/skyrslur/Land_oerf_samgangna-NER-HS2004.pdf

  • Út frá nýrri borgarmiðju við Geirsnef eru lestarsamgöngur mjög spennandi, ásamt samgöngumiðstöð. Samgöngumiðstöð á að vera þar sem komið er inn í borginna en ekki vestur í bæ.

    Ef kjarninn við Geirsnef verður 30.000 manna vinnustaður + íbúar, er kannski orðin grundvöllur á lestarkerfi.

    Eins hef ég hugleit að um þessa nýju byggð væri lagt lestarspor í báðar áttir hringinn um byggðina, á þessu spori væri aðeins litlir vagnar. þetta lestarspor væri eins og upp á annarri hæð, lægi utan á húsum og jafnvel í gegnum þau. Þessir vagnar mundu virka eins og lyftur, það er að segja maður kæmi útúr þessari venjulegu lyftu gengi td. yfir gang og ýttir á ör annað hvort til hægri eða vinstri, staðin fyrir upp eða niður. Síðan opnast hurðin, maður ýtti á áfram takkann og síðan stopp í tæka tíð eða veldir áfangastað. þetta væri allt tölvustýrt, tölva sægi til þess af vagnar væru alltaf til staðar á réttum stöðum.

  • Enn einn pistillinn þar sem bent er á þarft og réttmætt málefni. En það má ekki gleyma því að aðstæður hér eru talsvert aðrar en í borgum í vestur Evrópu sem við berum okkur gjarnan saman við. Það þýðir engan vegin að við getum ekki tileinkað okkur notkun á almenningssamgöngum en við gætum þurft eilítið aðrar útfærslur en þær sem notaðar eru þar.

  • Stefán Benediktsson

    Það eru engin bílastæði við Empire State!

  • Sigrún Helga Lund

    Flottur og þarfur pistill.

    Það sem vakti helst vonbrigði á fundinum var málflutningur Ólafs Bjarnasonar, samgöngustjóra Reykjavíkur.

    Hann talaði fyrst og fremst um rafmagnsbíla og minni bíla, en gaf minna fyrir aðra valkosti. Sérstaklega sagði hann „það verða auðvitað að verða greiðar samgöngur“.

    Ætli hann líti á samgöngur bara sem umferð einkabíla?

    Finnst honum efsta myndin hér að ofan vera dæmi um „greiðar samgöngur“?

    Eitthvað grunar mig að þetta sé ekki sú Reykjavík sem meirihluti borgarbúa vill sjá.

    Að lokum tek ég innilega undir það að sýna þurfi borgarfulltrúum eins og Dofra og Gísla Marteini stuðning. Báðir hafa verið duglegir að mæta á fundi Bíllauss lífsstíls og eru heilhuga í stuðningi sínum við fjölbreyttari samgöngumáta.

  • Jón Guðmundsson

    Sláandi að sjá myndirnar og muninn á umhverfi þessara tveggja háskóla, Svíþjóð annars vegar og Ísland hins vegar. Vonandi verður þetta mönnum hvatning til að bæta verulega úr!

  • Þetta vandamál þekkja nemar HÍ. Ég var oftast í VR-II og að labba þaðan niður í aðalbyggingu var frekar niðurdrepandi. Ekkert nema bílastæði. Munurinn var sláandi þegar að framhaldsnáminu kom og KTH varð einmit fyrir valinu. Fá, rándýr bílastæði en bæði neðanjarða- og ofanjarðarlestar og strætisvagnar svo að afskaplega fáir notuðu þau. Og á þessu afmarkaða reit er ekki bara KTH heldur líka fleiri háskólar og listskólar. Það hefði ekki verið hægt ef krafa hefði verið um ókeypis bílastæði, það hefði þurft að stækka götuna sem liggur að skólasvæðinu umtalsvert afþví hún er núþegar frekar mikill hnútur á morgnanna.

  • Sláandi munur á háskólasvæðunum!

    Annars las ég það að í miðborg Kaupmannahafnar sé það stefna yfirvalda að fækka bílastæðum um 3% á ári til að rýma fyrir öðrum samgönguleiðum, eins og hjólreiðabrautum og gönguleiðum. Hér er nýbúið að taka í gegn Skólavörðustíginn og allt í þeim tilgangi að auka aðgengi bíla að verslunargötunni. Svo má aldrei nefna möguleikana sem felast í að gera Laugaveg að göngugötu, nema nokkrum sinnum á ári til spari. Sorglegt að labba þarna á fallegum degi undir vélardrunum, nagladekkjaníð og útblæstri.

    Í Danmörku var samgönguáætlun þessa árs sögð að 2/3 hluta græn og að 1/3 hluta svört, þ.e. að minni hlutinn var ætlaður í malbik undir bíla og meiri hlutinn undir grænni samgöngumöguleika. Ég las samgönguáætlun íslenskra stjórnvalda til ársins 2014 (að mig minnir) og þar er hvergi minnst á t.d. hjól eða hjólreiðar.

    Það þarf alveg nýja hugsun í þessi samgöngumál og vonandi að menn eins og Gísli Marteinn og Dofri Hermannsson, sem hafa hugsað á þeim nótum, geti unnið nýjum hugmyndum fylgi hér í Reykjavík, það er alveg sama hvaðan gott kemur!

  • Samúel T. Pétursson

    Takk fyrir að koma inn á þetta.

    „Það átta sig kannski ekki allir á þvi hversu samgöngumál eru mikilvæg.“

    Það er ekki annað hægt en að taka mjög sterklega undir þetta. Í raun er það álit stórrar fræðistéttar samgöngufræðinga sem telur form og virkni borga ráðast í megindráttum af samgöngum, en ekki öfugt, eins og margir arkitektar og skipulagsfræðingar halda. Þættir eins og nærþjónusta, þéttleiki, sérhæfing byggðar o.fl. byggir mikið á ferðavenjum t.d.

    „Sigrún Helga sýndi fram á hvað þjónustan við einkabílinn skekkir samkeppnisstöðu annarra kosta. Þar nefndi hún “ókeypis” bílastæði, kröfur um lágmarksfjölda bílastæða í byggingareglugerð, sífellt fleiri og stærri “ókeypis” umferðarmannvirki, skattfrjálsir bílastyrkir og margt fleira.“

    Þetta er alveg rétt hjá Sigrúnu. Hún virðist virðist fá góðar upplýsingar um þessi mál.

    „Einkabíllinn er óhemju dýr og óheppilegur ferðamáti í borgum.“

    Hann er dýr, en hentugleikinn fer algerlega eftir í hvers konar borgarmynstri hann er í. Í hinum gömlu evrópsku borgarkjörnum er hann að sjálfsögðu óhentugur, en sá „óhentugleiki“ kemur til af því að borgarmynstrið varð til fyrir tilkomu hans. En um leið og út fyrir þessa kjarna er komið eru yfirburðir hans yfir öðrum samgöngumátum óumdeilanlegur þegar kemur að ferðatíma og öðrum þægindum. Og þar er vandinn sá sami og í RVK, þ.e. yfirleitt gnægð af gjaldfrjálsum „amenities“ sem ekki nema að litlu leyti skila sér í gegnum gjöld og skatta og skekkja samkeppnisstöðu hinna „borgarvænni“ samgöngumáta. Og leiðir til dreifðara byggðamynsturs með tilheyrandi office parks o.fl.

    „Enda eru flestar borgir Evrópu að hafna einkabílnum“. Það er nú ansi misjafnt reyndar. Í raun berjast almenningssamgöngur í bökkum víða í evrópskum borgum og heyja varnarbaráttu. En ein ástæða þess er að sífellt er verið að bæta aðstöðu þeirra sem eru akandi, m.a. með fjölgun bílakjallara o.s.frv.

    „Því hefur verið haldið fram að í hvert sinn sem fjölgar um einn einkabíl í landinu þurfi að útvega honum 7 bílastæði.“ Yfirleitt talið að þau séu um 4 talsins, og 2-3 í eigu annars en bíleigandans.

    „Hvert bílastæði tekur að minnsta kosti 25 fermetra lands.“ ef það er inni á sk. dedicated parking lot (og þá eru akstursleiðir innan þess svæðis teknar með), en minna ef það er samsíða götu t.d. án sérstakra akstursleiða.

    „Það er að segja að hver bíll þarf um 175 fermetra lands bara í bílastæði.“ Það er of há tala.

    „Öll þessi stæði þarf svo að byggja og þeim þarf að halda við, bíleigendum að “kostnaðarlausu”. “ þau sem eru í eigu annars en bíleigandans já. Nýleg rannsókn frá Bandaríkjunum sýnir að þessi samfélagskostnaður sé a.m.k. 25% af kostnaði BNA við Medicare fyrirkomulagið, og hugsanlega jafn hátt því. Og þá eru menn ekki að taka með sk. „sunk cost“ sem fylgir því að geta ekki nýtt rýmið undir aðra nýtilegri starfsemi sem gefur leigutekjur.

    „Fyrir um tuttugu árum fór Kaupmannahöfn að setja kröfur um hámarksfjölda bílastæða.“ Mjög margar borgir sem gera þetta. San Francisco í BNA er nýlega farin að taka þetta upp líka, til að nefna dæmi þaðan. Í RVK er það 64. grein byggingarlaga sem blífur enn, hugsanlega örlagaríkasta klausan í nokkurri reglugerð sem í gildi er á Íslandi.

  • Kristján Hrannar

    Einhvers staðar las ég að helmingur þess flatarmáls sem þekur Stór-Reykjavíkursvæðið fari undir bílastæði og malbik.

    Ég fór síðan gangandi í Skeifuna um daginn. Þar komst ég hvað best að því hvað Reykjavík er hönnuð fyrir bíla en ekki fólk. Þar sem bílum líður vel líður fólki illa – og öfugt!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn