Mánudagur 23.11.2009 - 11:21 - 6 ummæli

Jörn Utzon

 

Manni getur dottið í hug að frægasta verk Jörn Utzons, Óperuhúsið í Sidney hafi þvælst fyrir honum. Hefði hann ekki unnið samkeppnina um óperuhúsið hefði hann hugsanlega haft mun breiðari og meiri áhrif á byggingarlistina en raun varð á.

Óperan vakti slíka athygli að hún varpaði skugga á önnur verk Utzons. Hafa skal í huga að hann var aðeins 38 ára þegar hann vann samkeppnina.

Hefði hann ekki unnið Sidney Óperuna hefði hans nafn verið skráð í flokk brautryðjenda (trendmakers) á borð við Alvar Aalto, Gunnar Asplund og Arne Jacobsen og hann hefði hugsanlega haft breiðari áhrif.

Það hefði hann gert vegna sérstakrar næmni hans fyrir staðnum. Byggingar hans spruttu upp úr því umhverfi og þeirri menningu þar sem þau voru reist.

Hann horfði í kringum sig áður en hann setti blýantinn á blaðið. Þetta er eitthvað sem minni áhersla er lögð á nú á dögum í byggingarlistinni en æskilegt væri.

Jörn Utzon er fæddur 1918 og gekk á Akademíunni í Kaupmannahöfn á stríðsárunum og lauk ekki prófi með toppárangri. Hann var lesblindur.  Að ljúka prófi með góðum árangri  í arkitektaskóla getur verið vísbending um að maður hugsi ekki eins og kynslóðin á undan manni en það er ekki endilega merki um að maður standi þeim á sporði.

Kannski og sennilegast var Utzon sterkari og víðsýnnni en dómararnir, þó að ég þekki það ekki. Hann var undir áhrifum af Gunnari Asplund og vann um tíma á teiknistofu Alvars Aalto.

Þetta átti að vera stutt færsla með fjölda mynda en hún verður aðeins lengri.

Mig langar nefnilega til þess að segja eina sögu af Jörn Utzon sem var auðvitað óþekkur. Það er þannig að þýðlindar geðluðrur sem dansa eftir almenningsálitinu ná sjaldan toppárangri í listum. En þeir geta náð árangri í bissniss eins og dæmin sanna. Sjáið bara Mozart og Björk í tónlistinni, Picasso í myndlistinni sem var kominn á toppinn á bláa tímabili sínu en sneri af tómri óþekkt við blaðinu og málaði myndina af stúlkunum frá Avignon. Svona má lengi telja.

Jörn Utzon og Tobias Faber (sem síðar varð rektor Konunglegu Listaakademíunnar) voru félagar á Akademíunni. 

Meðan Danmörk var hersetin af Þjóðverjum datt þeim félögum, Tobiasi og Jörn í hug að fanga dúfur og mála á þær merki breska flughersins og sleppa þeim lausum á flugi út yfir Kongens Nytorv fyrir augum þýskra hermanna, gráum fyrir járnum. 

Þeir fönguðu 40-50 dúfur og máluðu á þær merkið og slepptu lausum yfir Kaupmannahöfn út um glugga á Charlottenborg, höllinni við Kongens Nyrtorv þar sem skólinn var til húsa. Þetta var  gjörningur sem þeir félagar vissu ekki einusinni að væri gjörningur.

Þetta hafði eftirmála innan dyra skólans en komst ekki í hámæli. Enda hefði hvorugur þessarra heiðurmanna sennilega lokið námi ef upp hefði komist. 

Hjálagt eru svo nokkrar myndir af verkum Jörns Utzon, Fredensborg húsin 1962 á Sjálandi, Can Feliz á Mallorca1994, Bagsværd kirkju 1976 á Sjálandi, Þinghúsið í Kuweit 1982, Can Lis 1973  á Mallorca sem skírt var eftir eiginkonu hans.

Heimili Utzons á Mallorca Can Lis byggt árið 1973. Glerið er í ramma utan við steininn og lítur þá út eins og óglerjað sé.

Verönd við Can Lis

 

Seinna hús Utzon á Mallorca Can Feliz, byggt 1994. Þar notar hann sömu aðferð til þess að glerja. Áhrifin eru eins og sést á myndum af Can Lis hér að ofan.

Fredensborg húsin frá 1962

Fredensborghúsin eru byggð úr sjálönskum gulum múrstein með „löberforbant“. Sami litur er á „vingetegl“ sem notað er á þökum. Hefðbundið danskt handverk með heðbundin form, en húsin nútímaleg.

Húsunum er þjappað saman til þess að auka opið landrými. Ekki ósvipað og í tillögu Högnu Sigurðardóttur um orlofsbúðir Landsbankans.

Húsgagna og hönnunarmiðstöðin Paustian frá árinu sem hefuir verið í byggingu undanfarin ár.

 

Bagsværd Kirke frá árinu 1976

Altari Bagsværd Kirke

Bagsværd Kirke  þykir sérstök í útliti en upphafin og andleg rýnmismyndun þegar inn er komið.

Þinghúsið í Kuweit frá árinu 1982

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

 • Hilmar Þór

  Sæll Pétur.

  Myndirnar af stríðstólunum tveim eru tilkomnar vegna sögunnar um það þegar Faber og Utzon settu merki breska flughersins á dúfur og slepptu þeim lausum frammifyrir vélbyssum þjóðverjanna á Kóngsins Nýjatorgi árið 1942.

  Dúfurnar höfðu betur í þessum gjörningi án þess að nokkur Messersmchmitt hafi verið skotin niður.

  Vingetegl var og er þekktasti danski þaksteinninn. Hann tók við af stráþakinu og er nefndur þarna vegna þess að efnisvalið sýnir hvað Utzon var næmur á rætur hefðarinnar á þeim stöðum sem hann byggði hús sín.

  Hann hefðu getað valið skífur eða spánskar nunnur og munka en hann valdi þakefni frá djúpri danskri hefð.

 • Sæll frændi, það sem vakti áhuga minn á þessari grein þinni um Jörn Utzon, var ekki það að ég hefði sétstakan áhuga á arkitektúr eða vit en myndin af Spitfire að skjóta niður Messerschmitt bf 109, hvað kemur það þessari grein við? Svo er það myndin af húsunum með „Vingetegl“ þakskífunum, ég bý í Hosby húsi eins og þú kanski veist en það eru þá að ég held svokallaðar „Vingetegl“ skífur á þakinu hjá mér. Ég er ákaflega ánægður með húsið mitt, enda búinn að búa í því frá 1985. Það eina sem ég hef þurft að gera varðandi viðhald er að ég hef að sjálfsögðu þurft að bera á viðarverkið svona á 3-4 ára fresti og skipta um nokkra varnskrana! Sem sagt ég er ofsalega hamingjusamur í mínu Hosby húsi. Kveðj frá mér.

 • Jóhannes S. Kjarval

  Takk fyrir góða og upplýsandi grein og ekki síður vangaveltur um hugsanlegan status Utzon ef hann hefði ekki sigrað í Sidney. Það væri margt öðruvísi ef það væri öðruvísi ! Flott síða í heild sinni.

 • Stefán Benediktsson

  Sá yfirlitssýningu á verkum Utzons í Louisiana fyrir nokkrum árum. Hefði gjarnan viljað eyða þar nokkrum dögum. Held að ályktun þín sé rétt, að Óperan hafi gert honum erfiðara fyrir. Góð myndin af R.B.Fuller á titilblaðinu hjá þér.

 • Skemmtileg lestning Hilmar

 • Kristján Pétur Sigurðsson

  Þetta er góð grein um hann Jörund og bloggsíðan sem heild á heiður skilinn. Takk

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn