Sunnudagur 22.04.2018 - 18:48 - 6 ummæli

Borgarlína: leiðinleg línubyggð

Hér kemur grein eftir Trausta Valsson sem er doktor í skipulagsfræðum. Greinin  birtist í Morgunblaðinu 14. apríl 2018 og er endurbirt hér með leyfi höfundar. Yfirskriftin og ljósmyndirnar eru allar komnar frá Trausta og fylgdu Morgunblaðsgreininni að þeirri efstu undanskilinni en hún er sett inn af síðuhaldara.

++++++

Mikið hefur verið kvartað undan því að höfuðborgarsvæðið hafi ekki eignast miðbæ. Orsakirnar eru m.a. að svæðið skiptist í mörg sveitarfélög, sem reynt hafa að byggja upp sína „miðbæi“.

Reykjavík er svo óheppin að hinn gamli miðbær er mjög vestanlega á nesinu, þannig að hann gat einungis vaxið sem lína inn eftir Laugavegi, og síðan Suðurlandsbraut. Eftir að Hlemmi er náð minnir byggðin lítið á miðbæjarsvæði, er sundurslitin og lítt ánægjuleg.

Vegna þess að nýju hverfin í Reykjavík byggðust langt frá miðbænum, varð að byggja þar miðkjarna; Glæsibæ og Mjódd. Í þessum tilfellum tókst svo illa til að „mið“kjarnarnir voru staðsettir í útjaðri hverfanna.

Þjónusta hefur aukist í seinni tíð. Vegna þess hafa miðbæir víða styrkst. Í Reykjavík hefur þetta ekki verið nýtt til að skapa einn stóran, öflugan miðbæ. Í stað þess er þessari starfsemi dreift út um alla borg. Líklega hefði besta svæðið fyrir nýjan miðbæ verið við Elliðavog og á Ártúnshöfða, en við vogana er núna búið að skipuleggja íbúðarbyggð.

Dreyfing byggðar á sér gamla rót

Stór náttúrusvæði dreifa byggðinni og skilja að byggðareiningar. Dæmi: Úlfarsfell skilur Mosfellsbæ frá Reykjavík, og Garðahraun skilur Garðabæ og Hafnarfjörð að.

Einhverjir snillingar fundu það út fyrir þremur árum, að ekki mætti taka hraunasvæði undir vegi og byggð. Samt hefur Hafnarfjörður nær allur verið byggður á hraunum, og er fyrir bragðið svo sérstakur að hann mætti setja á heimsminjaskrá.

Önnur orsök skipulagsvandamálanna í dag, er erlend skipulagsstefna; „sóning“. Hún varð til í skítugum iðnborgum og íbúarnir voru á kafi í menguninni. Ráðið við vandanum var að skipta borgum í „sónur“, annars vegar fyrir iðnað og svo – fjarri þeim – íbúðarsónur. Þessi stefna var tekin upp hérna, og urðu þá til hin leiðinlegu svefnhverfi. Ein vondu áhrifunum af svona skipulagi eru svo líka að atvinnustaðir voru fáir, og þarf því að leggja dýrar stofnbrautir til atvinnusvæðanna, sem eru aðallega í vesturhluta Reykjavíkur.

Hin rétta aðferð í skipulagi – til lagfæra þennan vanda – er að auka fjölda atvinnutækifæra og þjónustu í svefnhverfunum. Við það minnkar umferðin á stofnbrautunum. Einmitt þetta hefur verið gert í hinum gömlu „svefnhverfum Reykjavíkur“, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Niðurstaðan er sú að umferð, t.d. á Hafnarfjarðarvegi, hefur furðu lítið aukist, þrátt fyrir mjög aukinn íbúafjölda. Um leið hefur flest þjónusta færst nær íbúunum.

Í Reykjavík hefur hinsvegar umbótum á úthverfunum verið lítið sinnt. Þau eru enn, að mestu, sömu leiðinlegu svefnhverfin.

Reykjavík býr af ýmsum ástæðum yfir miklum fjölda stofnana, sem fluttar hafa verið til, innan borgarinnar í seinni tíð, … en hvert? Ekki í austur, sem komið hefði á meira jafnvægi atvinnu og íbúða í borgarmyndinni. Nei! Stórar stofnanir hafa verið fluttar til vesturs, þannig að nú verða enn fleirri að fara eftir Miklubrautinni til vinnu… og á enn eftir að versna.

Dæmi um stofnanir sem er verið að flytja til vesturs, eru Kennaraháskólinn frá Stakkahlíð til Háskólasvæðisins. Háskólinn í Reykjavík var fluttur frá Kringlu vestur fyrir Öskjuhlíðina og Tækniskólinn gamli, sem var á Ártúnshöfða, hefur líka verið fluttur þangað. Loks stendur til að flytja Fossvogsspítala á Landspítalasvæðið. Samtals tengjast þessum stofnunum um 30 þúsund störf, sem leiða til mikils umferðarálags. Önnur ástæða mikils umferðarálags er bygging mikils fjölda hótela í vesturhluta Reykjavíkur.

Ef pólitíkusar og skipulagsmenn hefðu stöðvað uppbyggingu atvinnustaða í vesturhluta Reykjavíkur – og beint uppbyggingunni til austurs – væru umferðarvandamálin á Miklubraut og Hringbraut lítil.

Ofálag á stofnbrautum – Hvað á að gera?

Nú vaknar spurningin: Hvað eigum við að gera? Settar hafa verið fram ýmsar tillögur, svo sem göng undir Öskjuhlíð og Kópavogsháls, sem mundu kosta miljarðatugi. Mönnum líst heldur illa á það. Núna er svo komin fram ný tilaga um 70 miljarða borgarlínu, sem þó er líklegt er að fólk vilji ekki nota í þeim mæli sem reksturinn krefst, nema með þvingunaraðgerðum.

Undirritaður telur að leggja eigi ofangreind áform á hilluna og hefja í staðinn, mikinn flutning stofnana og atvinnutækifæra til austursvæðanna. Kannski er réttast að búa til nýjan stjórnsýslu- og menningarmiðbæ í Elliðaárdal. Þar er mjög fagurt og stórt svæði, sem liggur meðfram Rafstöðinni, og á milli reiðvallarins og Breiðholts III.

Reykjavík gæti byrjað á þessum nýja miðbæ með að reisa þarna Ráðhús úthverfanna. Hún gæti líka t.d. flutt Listasafnið úr Hafnarhúsinu, sem er illa aðgengilegt vegna umferðarhnúta og skorts á bílastæðum.

Ríkið gæti hjálpað til við að byggja Dalbæ með að byggja yfir einhver ráðuneyti og stofnanir á svæðinu. Þarna mætti líka koma fyrir þjónustu og íbúðabyggð, þannig að þessi nýji miðbær fylltist lífi.

Við verðum að horfast í augu við það að við erum búin að missa af hinum gamla, fallega miðbæ, bæði vegna þess hve hann er langt í burtu frá fólkinu og umferðarlega aflokaður, og eins vegna ljóts módernisma, túrisma og ofþéttingar.

Hvað með línubyggð meðfram borgarlínu?

Lítum nú nánar á skipulagsafleiðingar borgarlínunnar. Hluti af tillögunum um hana fellst í því að meðfram línunum komi 400 m þéttbýlisbelti á hvora hönd. Á þessi belti á að koma nær öll byggðaaukning til ársins 2040 og mundu þá búa þar álíka fólksfjöldi og í Kópavogi og Garðabæ.

Þessi hugmynd um þétt byggðarsvæði upp við borgarlínurnar, hefur þann tilgang að stutt sé í hinn nýja strætó, en með að láta fólk búa upp við línurnar, aukast líkurnar á að fólk vilji nota hann.

Það er alþekkt að skipulagsmenn teikna alskonar þjónustu á uppdrætti sína, þjónustu sem oft kemur alls ekki, eins og var t.d. í Bryggjuhverfinu við Grafarvog. Sama núna: Skipuleggjendur borgarlínu gera ráð fyrir mikilli þjónustustarfsemi á hinum þéttu „þróunarsvæðum“… sem er alger veruleikafirring. Sagt er jafnvel, að þarna meðfram þessum 57 km borgarlínum eigi að myndast „þorpsstemning“!

Skoðum nú hvernig þetta gæti litið út við Hafnarfjarðarveg: Borgarlínan og biðstöðvar hennar væru í miðjunni. Að biðstöðvunum lægju göngustígar, þvert á umferðaræðarnar, sem tefði umferðina. Húsin stæðu nokkuð þétt upp að Hafnarfjarðarveginum, og ef gluggi er opnaður, bærist ryk og hávaði inn.

Fljótlega kæmi því að því að íbúarnir krefðust þess að dregið yrði úr umferðinni og umferðarhraðanum. Væri Hafnarfjarðarvegur því fljótlega úr sögunni sem ásættanleg umferðartenging á milli Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Reykjavíkur.

Svona línubyggð byði vissulega upp á nálægð við borgarlínuna en mundi, að áliti undirritaðs, verða dauð, ljót og leiðinleg. Þessi byggð mundi að auki stinga í stúf við byggðarmynstur sveitarfélaganna.

Stjórnmálamenn ættu frekar að gefa fólki kost á að búa þar sem fallegt er, t.d. við strendur, í austurenda Viðeyjar og við vötnin ofan við byggðina. Við eigum að láta annað móta byggðina en það eitt að stutt sé í borgarlínustrætó… sem kemur svo kannski aldrei.

 

Þéttbýlisbelti 400 metra þéttbýlisbelti á að koma til beggja handa við borgarlínurnar. Á þeim á nær öll framtíðarbyggð á höfuðborgarsvæðinu til 2040 að rísa, alls um 40 til 50 þúsund manna byggð, til að sjá borgarlínunni fyrir nægilegum fjölda farþega. Sumstaðar er þéttleikinn þegar nógu mikill, en sumstaðar munu byggingaraðilar vilja kaupa upp gamlar eignir og reisa þá þéttu byggð sem borgarlínuskipulagið mun gefa leyfi fyrir.

Hentugt íbúðasvæði Stórt óbyggt svæðið í Elliðaárdal, norðan Rafstöðvarinnar. Í vinstra horninu er Toppstöðin. Opinberar byggingar tækju sig vel út í hallanum. Nálægðin við útivistarsvæðið í dalnum er stórkostleg.

 

Skuggamyndun Með þéttingu byggðar í Reykjavík er að koma í ljós að hin þétta byggð hindrar aðgengi sólarljóss, skapar skugga og lokar fyrir útsýni. Myndin er frá Lindargötu í Skuggahverfinu í Reykjavík. Heitið Skuggahverfi er nú aftur að verða að réttnefni.

Morgunblaðið/Eggert

++++

Þetta er grein sem birtist í Morgunblaðinu 14. apríl 2018 og er endurbirt hér með leyfi höfundar sem  er prófessor emerítus í skipulagi við HÍ. Trausti lauk masterprófi (Dipl.Ing.) fráTechnische Universitat i Berlin 1973. Hann stundaði framhaldsnám í Berkley í Californíu og lauk þaðan doktorsprófi í skipulagsfræðum 1987. Eftir hann liggja fjölmargar bækur og greinar um efnið þar sem hann hefur lagt fram tilgátur í skipulagsmálum sem vakið hafa gríðarlega mikla athygli.

+++

Efst í færslunni ef ljósmynd sem sýnir fjölbreytileika bjartrar byggðarinnar í Reykjavík. Þessi mynd fylgdi ekki grein Trausta í Morgunblaðinu en það gerðu aðrar myndir sem fylgja þessari færslu.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

 • Trausti bendir hér réttilega á marga annmarka borgarinnar, en ég er hræddur um að lausnirnar sem hann kemur fram með myndu frekar auka vandann.

  Borgin er að glíma við áratuga skipulagsmistök með uppbyggingu þar sem allar skipulagshugmyndir fólust í nýjum gorkúluhverfum tengdum með bifreiða-stofnbrautum. Þetta var skipulag hannað fyrir bíla, en ekki fólk og leiddi af sér einni útbreyddustu borg Evrópu með meðfylgjandi vanda innbyggingarinnar. Svifriksmengunin er ein af afleiðingunum af þessu.

  Borgarlínan er í raun ekki stefnu-breyting í skipulaginu. Skipulagshönnuðir horfðu einfaldlega á aðstæðurnar og settu fram innbyggingarlausn sem ynni á vandanum með minnstu breytingum á byggðinni. Borgin er línubyggð, svo lausnin fellst í betri innbyggingu á línunum. Það er vissulega hægt að gagnrýna þetta, en ekki án þess að koma fram með lausn á sama vandanum.

  Það liggur í augum uppi að það ætti að breyta öllum hverfum í „blandaða byggð“. En hugmyndir um nýjann miðbæ er gamlar og hafa aldrei gengið upp. Kringlan og Perland eru báðar byggðar á þessari hugmynd og ólíklegt að nýjar staðsetningar hingað eða þangað verði eitthvað berti. Miðbæjir myndast, en eru ekki búnir til. Flutningur stofnana í Elliðardalinn myndi að líkindum auka útbreyðslu borgarinnar til muna. Er það málefnaleg stefna höfundar?

  Grundvallar vandinn fólst og fellst enn í að borgin skiptist upp í sjö sveitafélög í „samkeppni“ við hvert annað þar sem allir stefna á botninn. Til að gera einhverjar raunverulegar breytingar, þarf í fyrsta lagi að sameina þessi sveitafélög.

  Helsta gagnrýnin á Borgarlínan er að hún gæti leitt til meiri útbreyðslu borgarinnar þar sem hún fylgir línuborgar-stefnu gamla skipulagsins. Trausti veit betur en ég að borgir vaxa náttúrulega með laukslagi, með hárri og þéttri miðju og síðan minnkandi byggð út frá henni. Helsti þátturinn sem breytir þessu er landslagið sem borgin situr í. Reykjavík (og hér á ég við alla borgina) situr við skorin sund og voga, með ýmis aðskyljandi landslög eins og Trausti vendir á. Ofan á þetta vandamál kom “hugmyndafræði” þegar borgin tók vaxtarkipp eftir stríð og borgin var skipulögð eftir “Zoning” skipulagi. Nóta bene var zóning úthverfa og bifreiðaskipulag og því erfitt að vera á móti zóning en með hinu.

  Mótspilun við Borgarlínu er því ekki meiri úthverfi, heldur meiri “hringamyndun” með tengingar yfir sundin til að snúa borginni yfir í náttúrulegt borgarskipulag. Brú yfir Skerjasund og þétt borgarbyggð í hrauninu í Garðabæ myndi gera mikið í átt að þessu. https://youtu.be/5HZQma9pWsg

  Lausnir skipulagsins eru ekki í höndunum á einu sveitafélagi, heldur þarf að skoða alla borgina sem eina heild.

  • Góður pistill hjá þér Guðjón og skrifaður af yfirsýn. Þú segir: „Borgin er að glíma við áratuga skipulagsmistök með uppbyggingu þar sem allar skipulagshugmyndir fólust í nýjum gorkúluhverfum tengdum með bifreiða-stofnbrautum. Þetta var skipulag hannað fyrir bíla…“ Þetta er einmitt eitt aðalefnið í grein minni: að hægt er að minnka umferðarálagið og toppana á stofnbrautum, með að auka þjónustu og atvinnu á austursvæðunum, þveröfug við það sem skipulagið hefur verið að gera. Ég segi: „Ef pólitíkusar og skipulagsmenn hefðu stöðvað uppbyggingu atvinnustaða í vesturhluta Reykjavíkur – og beint uppbyggingunni til austurs – væru umferðarvandamálin á Miklubraut og Hringbraut lítil. — Samkvæmt þessari hugsun legg ég til…“mikinn flutning stofnana og atvinnutækifæra til austursvæðanna. Kannski er réttast að búa til nýjan stjórnsýslu- og menningarmiðbæ í Elliðaárdal. Þar er mjög fagurt og stórt svæði, sem liggur meðfram Rafstöðinni, og á milli reiðvallarins og Breiðholts III.“– Þú Guðjón ert með ónógan skilning á möguleikum á að byggja nýja miðbæi, og segir: „En hugmyndir um nýjan miðbæ er gamlar og hafa aldrei gengið upp. Kringlan og Perlan eru báðar byggðar á þessari hugmynd…“ Já, Kringlan átti að verða stærri, en mest af svæðinu var tekið undir annað… en þar er þó sæmilegur innanhússmiðbær. Á Öskjuhlíð var á öndverðri 20. öld talað lauslega um miðbæ Þar, en bygging Perlunar var aldrei sett í slíkt samhengi.– Gamlar borgir eiga jafnan litla þrönga mibæjarkjarna. Margir hafa verið friðaðir eins og Gamla stan í Stokkhólmi. Ný miðbæjarstarfemi er ekki byggð þar. Sama ætti að gera í Reykjavík. Miðbærinn ætti að vera okkar Gamla stan, og nútíma plássfrek starfsemi ætti að móta nýjan miðbæ annarsstaðar, líkt og gert var í Stokkhólmi og víðar.

 • Það er þetta sem er að og þarf að lagfæra. það ætti ekki að leyfa neinar stofnanir vestan Ártúnsbrekku.

  Gullkorn:

  „Dæmi um stofnanir sem er verið að flytja til vesturs, eru Kennaraháskólinn frá Stakkahlíð til Háskólasvæðisins. Háskólinn í Reykjavík var fluttur frá Kringlu vestur fyrir Öskjuhlíðina og Tækniskólinn gamli, sem var á Ártúnshöfða, hefur líka verið fluttur þangað. Loks stendur til að flytja Fossvogsspítala á Landspítalasvæðið. Samtals tengjast þessum stofnunum um 30 þúsund störf, sem leiða til mikils umferðarálags“.

  HR var slys, Landspítalinn stefnir í að verða slys

 • Hilmar Þór

  Ég er fullkomlega sammála Þórarni hér að ofan enda sett sömu skoðun fram í færslum mínum um Borgarlínuna undanfarið.

  Ég vil bæta því við að hugmynd um að skapa fleiri atvinnutækifæri austar í borginni er líka til þess fallin að minnka bifreiðaumferð og styrkja rekstrargrundvöll Borgarlínunnar.

  Af því að ég er með nýjan Landspítala á nýjum stað á heilanum 🙂 þá fellst þar einstakt tækifæri. Byggjum nýjan Landsspítala austar í borginni og treystum rekstrargrundvöll Borgarlínunnar um leið og við jöfnum umferðaálagið á núverandi gatnakerfi.

 • Þorarinn Kristjánsson

  Þetta er góð og varfærnisleg grein hjá Trausta. Það er alveg rétt að snúa við hverjum steini og frara varlega í þessu máli.Og það er bara holt að fá einhverja dómadagsspá sem mótvægi við hallelujakórinn. Það sem á að gera er að taka frá rými í skipulaginu fyrir umfangsmikið borgarlínukerfi. En fjárfesta einunngis í svona tveim linum til að byrja með. Segjum eina austurvesturlínu og aðra norðursuður. Og alls ekki að fara alla leið á Vellina í Hafnarfirði eðaupp í Mosfellsbæ. Svo stórar hugmyndir geta bara drepið málið. Setjum markið á 7-17 km og klárum það fyrir innan við 20 milljarða og bíðum með frahaldið.

  • Þórarinn. Þú segir að rétt sé… „að taka frá rými í skipulaginu fyrir umfangsmikið borgarlínukerfi. En fjárfesta einungis í svona tveim linum til að byrja með. Segjum eina austurvesturlínu og aðra norðursuður. Og alls ekki að fara alla leið á Vellina í Hafnarfirði eða upp í Mosfellsbæ. Svo stórar hugmyndir geta bara drepið málið…“ Sammála þér um þetta síðasta því geysi afkastamikil og dýr flutningakerfi þarfnast stuttra leiða og mikins mannfjölda. Staðreyndin er að geysileg vegalengd er út í Vallahverfið og að Háholti í Mosfellsbæ, og svo búa þar mjög fáir íbúar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn