Laugardagur 15.04.2017 - 10:06 - 9 ummæli

Brim – Marshallhúsið – ný notkun eldri húsa.

Ég hef oft haldið því fram hér í þessum pistlum að það eigi almennt ekki að rífa hús heldur að endurnýja þau og aðlaga að nýjum þörfum og nýjum kröfum. Nýlegt dæmi um velheppnað verk sem unnið er samkvæmt þessu er Marshallhúsið úti á Granda. Þar er gömlu húsi breytt þannig að það hentar sérlega vel sem menningarmiðstöð með áherslu á nútíma myndlist.  Jafn óskilt sem það er upphaflegri starfssemi hússins sem var fiskvinnsla.

Nýlega útskrifaðist ungur arkitekt, Baldur Snorrason, frá Konunglegu Dönsku Akademíunni í Kaupmannahöfn. Útskriftarverkefni hans var af svipuðum toga og umbreyting Marshallhússins. Hann leggur til að fiskvinnsluhúsi Brims við Miðbakkann í Reykjavíkurhöfn verði breytt í fjölnotahús með náinni tengingu við hafnarstarfssemi. Þarna er hægt að fylgjast með fiskvinnsu, þar sem fiskur dagróðrabáta er unnin í ásýnd landkrabba, erlendra og innlendra. Þarna er viðhaldi minni báta unnið fyrir opnum tjöldum og þarna er bókasafn, fyrirlestrarsalir og veitingasala, fiskimarkaður, fundarherbergi, sýningarsalir, vinnustofur auk skrifstofa fyrir útgerðarfyritækið Brim.

Þetta er fallega leyst verkefni þar sem virðing er borin fyrir húsina í öllum grunnatriðum um leið og það er fært í nútímahorf og því  breytt þannig að það henti nýrri fjölþættri starfssemi. Þetta er sama hugmyndafræði og notuð var við endurnýjun Marshallhússins úti á Granda.  Í báðum tilfellunum  er markmiðið að varðveita húsin og skerpa á hinni sögulegu vídd og gefa þeim nýtt hlutverk við hæfi.

+++++

Vonandi er að verða hugarfarsbteyting gagnvart eldri byggingum hér á landi. Það hefur mörg áhugaverð byggingin verið látin víkja fyrir leiðinlegum húsum. Ég nefni iðnaðarhúsin gömlu í skuggahverfinu, Völundarhúsin, Kveldúlfsskemmurnar og hús Sláturfélags Suðurlands. Nú er verið að endurskipuleggja gömul iðnaðarhverfi víða og færa nýja starfssemi inn í þau. Þar er sennilega mikilvægustu svæðin Skeyfan, svæðið við Nýbýlaveg og á Kársnesi í Kópavogi eru undir.  Víða erlendis hefur svona umbreyting átt sé stað í mikilli sátt við það sem fyrir er.

++++

Hér að neðan koma nokkrar myndir af lokaverkefni Baldurs Snorrasonar arkitekts og svo í lokin eru 2-3 myndir af Marshallhúsinu sem var endurgert af arkitektunum hjá Kurt & Pi í Reykjavík.

++++

Hér er slóð að heimasíðu Baldurs:

 

https://www.behance.net/gallery/45315229/The-Maritime-Center

 

Efst í færslunni er ljósmynd af Brim skemmunum eins og þær líta út í dag. Og hér strax að ofnn er tölvumynd af húsinu óbreyttu.

 

Að ofan er líkan af Brim skemmunum eftir að þeim hefur verið breytt. Útveggurinn og þekjan er rofin á úthugsuðum stöðum til þess að hleypa dagsbirtu inn í bygginguna. Opið er niður um tvær hæðir á flestum þessarra staða þannig að birtan flæðir um flest rými byggingarinnar

 

 

Að neðan má sjá breytta skemmu og hvar þekjan er rofin og gjár myndaðar í húsið til þess að hleypa dagsbirtunni inn í bygginguna.

Öllum meginlínum hússins og gluggaskipan er haldið óbreyttu að mestu og eins lengi og þeir standa ekki í vegi fyrir nýrri og breyttri notkun.

 

 

Af sneiðingunum má lesa hvar og hvernig þekjan er rofin og nýjum gólfum er skotið inn á viðeigandi stöðum til þess að mæta nýjum þörfum.

 

Grunnmynd hússins er á sama tíma lifandi og öguð mæð góðu flæði um húsið.

Nýtt útlit þar sem helstu einkennum gömlu byggingarinnar er haldið til haga. Fólk er „dregið“ inn í bygginguna um glufur sem myndaðar hafa verið í húsið.

Innandyra er húsið auðlæsilegt og gegnsætt. Hér sést í fiskiker á fiskimarkaði.

Svipmynd af efri hæð með mikilli ofanbirtu. Bókasafn til vinsri.

Fyrirlestrarsalur.

Kaffitería.

+++++++

MARSHALLHÚSIÐ.

 

Eins og fyrr segir er Marshallhúsið af svipuðum toga og Brim skemmurnar þó svo að það sé eldra og af annarri og vandaðri gerð. Marshall húsið sem er frábært tímam+ótaver að stofni til var teiknað af Sigurði Guðmundssyni heiðursfélaga Arkitektaféags Íslands ásamt Eiríki Einarssyni arkitekt. Hér hefur eins og í húsi Baldurs Snorrasonar verið haldið í helstu einkenni hússins um leið og því er nánast öllu breytt og færð til nútímans. Þetta er afskaplega vel gert þar sem arkitektarnir hafa ákveðið að gera sem minnst. „Less is more“. Manni finnst eins og allt hafi alltaf verið svona ef frá er talinn barinn.  Nýtt stigahús er  þannig útfært að maður áttar sig varla á að hann hafi ekki alltaf verið þarna.

Veiringastaður á jarðhæð með nýrri tröppu upp á efri hæðir.

Veitingasalur á jarðhæð

Á efri hæðum Marshallhússins eru gallerý og vinnustofur þar sem gestir geta notið myndlistar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

 • Stefán Örn Stefánsson

  Skemmtileg hugmynd og fallega framsett tillaga og takk fyrir að bera þetta svona fram fyrir okkur, höfundur og bloggari. Megi þeir sem ráða reyna að láta þetta hvetja sig svolítið áfram. Marshall-húsið var endurgert með töluverðum fjármunum frá eigendum hússins og það þarf fjármuni til að koma hlutum af stað og starfsemi í gang. Marshall-húsið heitir eftir utanríkisráðherra Bandaríkjanna en fjárhagsaðstoð eftirstríðsáranna við ríki í Evrópu til endurreisnar var kennd við hann. Húsið gæti alveg eins verið kennt við Lýsi og mjöl hf. eða kallað Faxamjölshúsið en það er kannski ekki alveg eins artí eða spennandi.
  En projektið er spennandi og húsið fallegt og þetta samstarf sem þar hefur verið komið á til mikillar fyrirmyndar. Kannski getur það smitað af sér á Miðbakkann.

 • Hlynur Þór Magnússon

  Pistlarnir þínir, Hilmar Þór, eru að mínum dómi einstaklega góðir, stórfróðlegir og skemmtilegir (og fyrir mig ekki síst þegar Flatey á Breiðafirði kemur við sögu). – Mig Vesturbæinginn í Reykjavík í gamla daga langar að forvitnast um eitt: Hvenær kom nafngiftin Marshallhúsið til sögunnar? Man ekki til að hafa heyrt hana eða séð fyrr en á síðustu árum. En kannski hef ég einfaldlega ekki verið með á nótunum.

 • Halldór Jónsson

  Þð er eitthvað heillandi við þessa viðhorfsbreytingu varðandi endurnýjun eldri húsa.

 • Ljomandi vel gert Baldur Snorrason.

 • Guðmundur Gunnarsson

  Þarna ætti að vera hágæða matarmarkaður.
  Ein Spurning:
  Hvaða starfsemi fer fram þarna núna?

  • Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt

   Í pakkhúsi Brims er líf og fjör. Þar slær hjarta tveggja mikilvægustu atvinnugreina Íslands; Sjávarútvegurinn og urmull erlendra ferðamanna. Pakkhúsið hýsir jafnframt „Sendiráð Grænland“ sem Skákfélagið Hrókurinn mannar sjálfboðaliðum. Þar eru ýmsar uppákomur; Fyrirlestrar um Grænland, skákmót, samastaður Grænlendinga og vina að ógleymdri umfangsmikilli fatasöfnun til handa börnum og fullorðnum á Grænlandi.

  • Hilmar Þór

   Þetta vissi ég ekki Kristjana. Þegar Guðmundur í Brim sýndi okkur nokkrum húsið vegna hugsanlegs matarmarkaðar var það nánast tómt.

 • Örnólfur Hall

  – Ekki hefði mér dottið í að þessi gamla hönnun (fiskvinnsla/fiskmarkaður) okkar kollega Ormars Þórs fengi þessa fallegu endurskírn ungs arkitektúrnemanda ! – Bravó Baldur Snorrason ungi arkitekt !!!

 • Fallegt nemendaverk og góð ábending um varðveislu eldri iðnaðarhúsa.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn