Fimmtudagur 03.02.2011 - 09:40 - 5 ummæli

Broadway NY – göngugata

Árið 2009 gerði DOT (Department Of  Transportation) í New York tilraun með að gera Broadway að göngugötu.

Aðferðafræði DOT var skemmtilega óformleg.  Þeir notuðu málningu, blómaker og útihúsgögn til að breyta umferð og helga fótgangangandi mikið svæði á Broadway með litlum tilkostnaði og stunduðu svo rannsóknir á afleiðingum og áhrifum.

Það kom margt áhugavert í ljós  sem kemur vafalaust mörgum á óvart. Til dæmis hafa margir verslunareigendur haldið því fram að ef bílar eru fjarlægðir úr verslunargötum muni viðskiptin minnka. Á sama hátt hafa fasteignaeigendur talið í rökréttu framhaldi af minnkandi viðskiptum að húsaleigutekjur munu lækka. Í þessari tilraun kom þveröfugt á daginn.  Velta smávöruverslunnar jókst og húsaleiga hækkaði.  Fótgangandi vegfarendum líkaði tilraunin vel og óskuðu eftir að þessu yrði haldið áfram.  Mótbárur voru nokkrar og voru leigubílsjórar áberandi þar af augljósum ástæðum.

Fyrir tilraunina var 89% götunnar notað fyrir bíla meðan aðeins 11% var fyrir gangandi þó þeir væru 4,5 sinnum fleiri en þeir sem voru á bíl.

Þetta er áhugavert framhald af síðustu færslu sem fjallar um verkefni nema í skipulags og umhverfisfræðum á Hvanneyri. Í tengslum við þessa tegund verkefna hefur dúkkað upp nýtt hugtak “Streetscape” sem er skilt hugtökunum Landscape, Townscape og jafnvel Mindscape.

Allt stefnir í að tilraunin frá 2009 verði til frambúðar og Broadway gerð  að göngugötu á vissum stöðum (Times Square og Herald Square) og vistgötu annarsstaðar. Gangandi munu fá forgang í þessari miklu bílaborg!  „Miklu bílaborg“ segi ég, það er auðvitað rangnefni vegna þess að til dæmis Reykjavík er  meiri bílaborg en NY.

Þegar endanleg ákvörðun um Broadway sem göngugötu liggur fyrir verður komið fyrir borgartrjám og varanlegu götulandslagi á svæðinu sem breytir því í tæplega 4 kílometra langt útivistarsvæði frá Union Square til Central Park.

Hjálagt eru nokkrar myndir af tilrauninni á Broadway. Efst er útfærsla norsku arkitektanna  Snöhettan af umhverfinu við Times Square.

Þó það komi þessu máli ekki beint við en er því skilt langar mig að nefna að í nýlegri athugun á útgjöldum íbúa í Atlanta, Georgia í Bandaríkjunum kom í ljós að fólk notar 29% af tekjum sínum til húsnæðismála og 32% til daglegra ferðalaga og þar er einkabíllinn langstærsti útgjaðdaliðurinn.  Þetta segir að meðalíbúinn í Atlanta er 4 mánuði á ári að vinna fyrir ferðakostnaði sem að mestu má rekja til illa ígrundaðs borgarskipulags.  Fólk er að átta sig á því að bíllaus lífsstíll á bjarta framtíð fyrir sér. Fjallað er um þetta í myndbandi sem fylgir færslunni. Sjá tengil að neðan.

Bækling um tilraunina á Broadway má finna hér:

http://www.walk21.com/papers/RussoBroadway%20Re-Design%20for%20Walk%2021%2010-7-09%20-%20for%20web.p

Og áhugaverður tengill að myndbandi sem fjallar  um endurskipulag úthverfa m.t.t. einkabílsins hér:

http://www.ted.com/talks/ellen_dunham_jones_retrofitting_suburbia.html

Times Square

Fótgangandi og hjólandi fá meira svigrúm á Broadway en áður.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hjálmar Sveinsson

    Virkilega gaman að sjá þetta. Mikilvægasti lærdómurinn er kannski sá að það er hægt að ná frábærum árangri í því að gera borgir vistvænni, fallegri og skemmtilegri með mjög einföldum og ódýrum aðgerðum. Umhverfisráð samþykkti einróma um daginn að Austurstræti verður göngugata. Vestari akreinar Lækjagötu verða lokaðar fyrir bílum í sumar og meiningin er að gefa borgarbúum kost á að upplifa Laugaveg frá Klapparstíg að Lækjargötu sem göngugötu. Kannski verða blómapottar drifnir út á götuna, stólar og borð eins og í New York. Ég á erfitt með að ímynda mér að borgarbúum muni finnast það ömurlegt.

  • Jóhann Guðmundsson

    Rakst á þetta blogg; http://bldgblog.blogspot.com/

    Mjög skemmtilegt.

  • Vegfarandi

    Einkabílar eru ekki einingis peningaeyðsla vegna skipulags klúðurs, þeir menga, ganga á auðlindirnar, valda dauðaslysum og örorku og eru félagslega hamlandi og leiðinlegir. Þú tekur ekki kunningja þinn tali ef þið mætist á blikkbeljunni á Snorrabrautinni eins og ef þið væruð gangandi. Einkabílar eiga ekki að vera annað en leikfang sem allir þurfa að sjálfsögðu að eiga. Og það er ekkert á móti þeim sem slíkum. Nota þá í frítíma sínum og um helgar þegar fara á upp í sumarbústað eða annað slíkt.
    Laugavegurinn, strikið og Broadway eru mun skemmtilegri, heilsusamlegri og öruggari ef bílunum er fækkað eða komið í burtu. En það má láta aspirnar í friði.

    Slagorðið er „bílana burt, aspirnar kjurt“ á Laugavegi eins og á Broadway

  • Steinunn Harðardóttir

    Broadway er enn í dag, í upphafi árs 2011, með blómakerjum, stólum og mannlífi og konan sem stóð fyrir þessari umdeildu breytingu var kosin New York búi ársins
    http://www.ny1.com/content/features/131484/nyer-of-the-year–city-transportation-commissioner-changes-big-apple-s-streetscapes

  • Gunnar Guðmundsson

    Er þetta ekki reynslan af bílfríja svæðinu í miðborg Kaupmannahafnar, Åbulevarden í Árósum, bílfrija svæðið í Como á Ítalíu og Marais í París o.fl. o.fl. stöðum. Gekk ekki smásöluverslun betur og hækkaði ekki leigan og tóku húseigendur ekki til við að viðhalda húsum sínum alminnilega þegar götunum var breytt í göngugötur?. Það kemur ekki á óvart að reynslan á Brodway sé sú sama og annarsstaðar.
    Manni sýnist að almennt séu allir ánægðir með göngugötur, sama hvar er og á hvaða breiddargráðu þeim er komið upp. Hugsanlega gæti Laugavegurinn meira að segja orðið ákjósenleg gata til búsetu ef hann væri laus við bílaumferð.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn