Föstudagur 15.02.2013 - 03:16 - 13 ummæli

Brú milli almennings og arkitektúrs

 

 

Ég vil leyfa mér að vitna í ágætt, uppbyggjandi og lausnamiðað viðtal við þau Arnór Víkingsson og Ragnheiði Jónu Jónsdóttur sem reka sjálfseignarstofnunina Hannesarholt við Gundarstíg í Reykjavík.  Þau segjast hafa keypt húsið til þess að laga það og varðveita það sem menningarverðmæti og opna húsið almenningi.

En þau vilja einnig nota húsið til þess að stuðla að betri umræðuhefð hér á landi, færa umræðuna „niður“ til almennings og „brúa bilð milli almennings og fræða“.  Húsráðendur í Hannesarholti eru ekki ánægðir með umræðuhefðina og benda á að umræðan er ekki keppni þar sem leitað er að sigurvegara, heldur skoðanaskipti. Þau segja að hún sé  ekki til uppbyggingar fallin eins og hún fer fram í dag. Hún einkennist af því að ráðist er í manninn fremur en málefnin.

Þetta sló mig nokkuð vegna þess að vefsíða mín hefur einmitt haft öðru fremur það markmið að „brúa bilið milli almennings og arkitektúrs“.

Ég hef kappkostað skiljanlegt íslenskt málfar,  lágmarkað fræðileg hugtök og sparað fræðilegar tilvitnanir sem títt eru notaðar af þeim sem ekki kunna skil á fræðunum, persónum og leikendum.

Ég hef gert tilraun til þess að ná utan um sem breiðasta svið umræðunnar og ögrað þannig að  hugsanlega náist til leikmanna í þeirri von að þeir staldri við og leggi kannski eitthvað til málanna. Ég hef margoft vitnað í Guðberg Bergsson sem saknar gagnrýni sem gagn er að í umræðunni hér á landi.

Óskatakmarkið var að ná til leikmanna og fá þá til að taka afstöðu og tjá sig um arkitektúr og skipulag. Breyttti litlu hvort það var gert í athugasemdarkerfinu, á Facebook, kaffistofum, en best er þegar málin eru rædd heima yfir kvöldmatnum með börnunum eða í skólastofunum.

Ég hef orðið fyrir perónulegum ónotum vegna faglegra sjónarmiða sem fram hafa komið á þessum vef. Þetta gerist þó að skýrt komi fram að það sé ekki allt mín persónulegu sjónarmið sem sett eru fram, heldur skoðanir sem eru í umræðunni víða og þurfa á að halda  umræðu á breiðum vetvangi. En ég læt þetta mér í léttu rúmi liggja í von um að stíllinn í umræðunni mun breytast á næstu árum. Og þar mun starfsemin í Hannesarholit skipta máli ef þeirra áform ganga eftir.

Það kann að vera að einhver haldi að þarna eigi ég við einhverja undirmálsmenn sem eru að agnúast í mér. Svo er alls ekki. Þarna eru á feðrinni „virtir“ aðilar úr minni stétt og svo ótrúlegt sem það kann að virðast líka einstaklingar úr hinu opinbera akademiska fræðasamfélagi. En það á reyndar ekki við nema um eina menntastofnun. Einstaklingar úr öllum öðrum æðri menntastofnunum hafa sýnt umræðunni áhuga. Ég er þakklátur fyrir það.

Efst í færslunni er myndband þar sem Papar syngja um litla kassa sem allir eru eins. Lagið var samið árið 1962 af Marvinu Reynolds (1900-1978) og flutti hún það sjálf 62 ára gömul  og sjá má á myndbandinu að neðan. Það sem er merkilegt við þetta er annarsvegar að texti lagsins var saminn þegar úthverfastefnan var komin á fulla ferð í BNA og vandamálið orðið sýnilegt. Manni sýnist að þrátt fyrir alla umræðuna í hálfa öld hafi lítið breyst. Textinn er jafn beittur og á meira erindi í umræðuna en nokkru sinni fyrr. Kassarnir í byggingalistinni  eru allavega meira áberandi nú en fyrir 50 árum.

Maður veltir fyrir sér hvort svona umræða skipti einhverju máli?

Hvort hún breyti einhverju?

Marvina Reynolds samdi líka fleiri þekkt lög sem urðu vinsæl með The Seekers og Joan Baze og fl. Ég nefni „What have they done to the rain“ sem fjallaði um geislavirkt  regn.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Hilmar Gunnarz

    Mig langar að benda á framlag Reykjavíkurborgar til borgarmenningar. Það framtak hefur allt verið til mikils sóma, sem og bloggið hans Hilmars.

  • Takk fyrir bloggið Hilmar. Þú ert dugnaðarforkur að halda þessu úti. Það ættu að vera fleiri svona blogg ef eitthvað. T.d. eitt í hjá hverju miðlanna. Það myndi efla umræðuna enn frekar. Kannski eitthvað fyrir þá að íhuga sem finnst þitt blogg ekki nógu spennandi?

    Það er leiðinlegt að þurfa að þola skítkast í eins litlu samfélagi og Íslandi. Ég reikna með að ég væri með ofsóknaræði og gengi með rennilás fyrir munninum ef ég byggji á þessari einangruðu fámennu eyju, eins og svo margir kollegar hafa líka sagt mér að þeir geri, því miður! En skiljanlegt er það og það þetta heftir allt og alla.

    Ég bý sem sagt ekki á Íslandi (på godt og vondt). Kannski ég þess vegna sem ég vill spjalla hér og annars staðar á opinberum vettvangi, ég þarf ekki að að hafa áhyggjur að einhver skyrpi á mig út á götu á morgun þess vegna. Og þegar ég skrifa eitthvað hér úti þá er mér fyrirgefið, þar sem ég er bara einn af þessum skrítnu Íslendingum sem þeim finnst dáldið krúttlegir hérna í Noregi.

    Fjarvist mín þýðir að sé stundum eitthvað í stöðunni sem þið ekki sjáið. Og fínt fyrir mig líka að þið bendið mér á hluti sem ég ekki skynja.

    T.d. var einhver að segja mér um daginn að fyrir hrun hafi bara allt þótt æðislegt og ekki mátti krítísera neinn skapaðan hlut því þá væri maður svo neikvæður og leiðinlegur, nei öllu átti að hrósa. Þannig að ekkert varð til að stoppa ruglið, sem fékk bara að vaða uppi og eyðileggja allt. Engin krítík hefði verið í samfélaginu.

    En eftir hrunið hefði málið snúist við og allt væri súperkrítískt. Nú væri bara verið að reyna að rífa allt niður alveg sama hvað maður reyndi að gera mikið rétt.

    Viðmælandi minn var úr bankageiranum reyndar. Ég sé nú ansi marga góða möguleika í endurhönnun umhverfisins sem þarfnast þátttöku margra, og sem allir ættu að taka með opnum hug, þótt ég eigi skilji alveg hvernig fólk gæti verið skeptískt á nýjar hugmyndir bankamanna um „betri“ vöru eftir það sem á undan er gengið.

    Endurskipulagning umhverfisins þarfnast samræðu ofan frá og niður og neðan frá og upp til að hægt sé að finna lausnir bæði í stóru línunum í borginni og hinu smáa daglega amstri. Svo að ríkið geti sem best hjálpað einstaklingum sem vilja bæta ástandið og sjá og finna á eigin skinni hvernig hægt er að gera þetta með umbótum á umhverfinu. Góð samræða er win-win, bæði einstaklinga, sveitarfélaga og ríkis. Þess vegna er svo mikilvægt að sem flestir taki þátt, gangi til verks með opnum hug án bölsóts og persónulegs skætings.

    Hér er þessi fína lína milli þess að reyna að nota samræðu til að reyna að hafa góð áhrif á mál og kasta ljósi á fleti sem engum öðrum hefur dottið í hug,… og þess að þagga niður í fólki til að geta keyrt yfir aðra á skítugum skónum, eða til að halda í viðvarandi ástand. Og það verður oftast niðurstaðan, eða ástandið helst í horfinu eða það sem verra er, það versnar því að ekki er hægt að komast að samkomulagi.

    Er þetta ekki eins og vesenið í sameigninni? Er ekki bara búið að ala upp þjóð þar sem allir eru konúngar í sínu ríki, labba beint út af heimili sínu, innangengt í bílskúrinn, keyra út, leggja svo ókeypis einhvert þar sem þeir geta keypt ópíum eða eitthvað annað svo þeir geti keyrt heim í bílskúr aftur alsælir, án þess að spyrja kóng né prest og án þess að þurfa nokkurn tíma að svo mikið að yrða á nágrannan, hvað þá komast að samkomulagi, sýna tillit eða finna WIN WIN, nýja stöðu sem allir hagnast á?

    Frænka mín lenti í þessu. Hún var byrjuð að eldast, flutti úr einbýlinu í þægilegri íbúð. En það var allt vitlaust í sameigninni. Sumir ætluðu bara taka yfir allan kjallarann og var skítsama um alla hina.

    Allavega best að eyða sem minnstum tíma og orku í skætinginn eða svörun við honum Hilmar, það er fjöldi fólks sem er mjög ánægt með þá litlu umræðu sem er í gangi um borgarlandslagið. Enga krafta má missa við að sinna hinu uppbyggilega samtali sem getur fært okkur betri stað.

  • Örnólfur Hall

    Ég skil vel að þú sért ósáttur með að hafa orðið fyrir persónulegum ónotum vegna faglegra sjónarmiða. Við Dundur (Guðm.Kr.) fengum t.d. á okkur ónotadembur vegna faglegrar gagnrýni á standaða Glerbáknið við Hafnarbakkann. – Varla prenthæfar nafngiftir brúkaði “hyllingar & mærðar”kórinn en við lærðum láta hnýfilyrði ekki hrína á og hlægja af þessu.
    — Þú ert svo stór og öflugur í umræðunni að ég held þú ættir ekki að láta þetta á þig fá. —Ónotagemlingarnir sitja uppi með ónotahnútana og líður illa. – Oft er þetta líka öfund vegna þess hve vel þér tekst til. – Haltu ótrauður áfram !

  • Sigurbjörn

    Berið saman Papana og orginalinn. Þetta með líkkisturnar eru út úr kortinu hjá Pöpum, en það er blogg Hilmars ekki og hefur aldrei verið. En hvaða æðri menntastofnun ert þú að tala?

  • Þetta er vandaðasta bloggsíða sem ég þekki. Hún hefur allt. Vandaða framsetningu, afburða þekkingu höfundarins, afar fjölbreytt og forvitnilegt efni sem stundum er sögulegt, stundum háaktuell en alltaf fróðlegt. Meira að segja málefnalega umræðu að langmestu leyti. Það er sko aldeilis gaman að fylgja þér í umfjöllun þinni bæði innanlands og utan.

  • stefán benediktsson

    Það er rétt hjá GG að dropinn holi steininn, en svo kemur gat og annar steinn. Aldur minn er afstæður eftir því hvort miðað er við steina eða flugur, en ég tel mig geta fullyrt að þessi umræða byrjaði fyrir löngu og mun halda lengi áfram, vonandi, því hún er bráðnauðsynleg. Niðurstöður eru margar og í takt við tímann hverju sinni. Tíminn og vatnið koma bæði við sögu. Þessi vettvangur, síðan hans Hilmars, er mér nauðsynlegur útsýnispallur til afstöðu, skoðana og viðhorfa til nýrra, gamalla og sígildra viðfangsefna.

  • Síðan þín er millistykkið mitt þegar kemur að arkitektúr og skipulagi.
    Ummæli þeirra sem sletta skít dæma sig sjálf.

    Takk fyrir mig.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Dropinn holar steininn, þannig mun þessi umræða síast út í þjóðfélagið.

    Við leikmenn upplifum stundum umræðuna um arkitektur og arkitekta sem einskonar fjarlægt og háfleygt eyland. Þökk sé þessu frumkvæði þar sem almenningur og arkitektúr geta mæst.
    Sjálfur hef ég fengið aukinn skilning og innsæi á þessum málaflokki við lestur síðunnar.

    Fyrir mig hafa þessi skrif breytt heilmiklu.

    Læk

  • Steinarr Kr.

    Það þyrfti að vera Like takki fyrir svona færslur.

    • Læk

    • Jón Ólafsson

      Like

    • Pétur Örn Björnsson

      Læk. Lækurinn hjalar fram og streymir.

      Pistlar Hilmars Þórs hafa fyrir löngu sannað gildi sitt sem ómetanlegar brýr sem við finnum okkur flest fótfestu … á … til að tjá okkur um streymið, flæði sköpunarinnar sjálfrar í okkar fallvalta heimi, þar sem allt er hverfult. Allt er breytingum undirorpið og þá er gott að geta staðið smá stund á brú og fylgst með streyminu flæða. Takk kærlega, enn og aftur Hilmar Þór fyrir brúarsmíðar þínar. „A view from the bridge“

    • Ég mundi læka menningarverðlaun fyrir framtakið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn