Miðvikudagur 18.01.2017 - 11:02 - 5 ummæli

Byggt við Háskólabíó og aukaafurðir í samkeppnum

 

tollhusid2lett

Þegar arkitektar taka þátt í samkeppnum reyna þeir að skilgreina spurninguna sem sett er fram í keppnislýsingunni og svara henni í samhengi við skilgreinungu keppandans á viðfangsefninu. Þetta er einmitt það sem veldur því að samkeppnistillögur eru mismunandi. Ef allir keppendur skilgreindu keppnislýsinguna eins og allir læsu umhverfið og skilgreindu það yrðu allar lausnirnar áþekkar.

Í samkeppnum vakna líka spurningar hjá keppendum sem ekki er beinlínis spurt um í keppnislýsingum.  Þá kemur oft ýmislegt í ljós sem gerir arkitektasamkeppnir sérlega spennandi.

Þegar arkitektar taka þátt í samkeppnum þá líta þeir á samkeppnisverkefnið í stóru samhengi. Langt út fyrir samkeppnismörkin.  Þetta er auðvitað sjálfsagt og nauðsynlegt.  Þessu vinnulagi fylgja oft ýmsar smáhugmyndir sem falla utan sjálfs samkeppnisverkefnisins og hafa auðvitað ekki afgerandi áhrif á niðurstöðu dómnefndar. Tilgangurinn með þáttökunni í samkeppninni var oft ekki að sigra, heldur ekki síður að leggja eitthvað til málanna.

Þegar samkeppni var haldin um Listasafn Reykjavíkur fyrir allmörgum árum gat að líta  hugmynd um endurmótun Tryggvagötu í einni samkeppnistilögunni. Þetta tengdist hugmyndum arkitektanna á teiknistofunni ARGOS, um aðkomu að safninu.

Hugmynd ARGOS er afar einföld og gengur út á að færa meginþorra bílastæða yfir götuna í skugga og opna solríkt svæði framan við mynd Gerðar Helgadóttur á suðurvegg Tollhússins. Þannig opnast rúmgott útivistarsvæði fyrir fólk og listaverkið fær loks notið sín.  Nú er ástandið þannig að bílarnir eru baðaðir í sól um leið og þeir skyggja á listaverkið og fólkið gengur handan götunnar í skugganum.

Þegar horft er á skissuna að ofan veltir maður fyrir sér af hverju ekki er löngu búið að framkvæma þessa sjálfsögðu og fyrirhafnarlitlu aðgerð til fegrunnar götunnar og öllum til ánægju, heilsu- og hagsbóta?

kropp-heildlettÍ samkeppni um nýtt skrifstofuhús fyrir Alþingi árið 1985 fannst tveim keppendum, Hjörleifi Stefánssyni og Þóri Helgasyni (Tore Lie Ballestad) arkitektum að rétt væri að ganga út frá verndun húsanna á svæðinu við tillögugerðina. Þessi hugmynd gekk þvert á keppnislýsinguna. Þeir félaga spurðu samt hvort tillagan yrði tekin til dóms ef hún kæmi fram. Dómnefnd svaraði því játandi og þeir skiluðu inn frábærri tillögu sem er nánast sú sama og varð síðar ofaná og nú er verið að framkvæma.

Þetta var djörf tillaga en þótti ekki í samræmi við tíðarandann.  Aðrir þátttakendur og meirihluti dómnefndar töldu að rétt væri að húsunum við Kirkjustræti yrði fargað fyrir nýbygginguna. Það má gera ráð fyrir að Hjörleifur og Þórir  hafi vitað að það var ekki til árangurs fallið að nálgast lausnina með verndun í huga. En af hugsjónninni einni lögðu þeir af stað í þessa vegferð. Tveir dómaranna, Ingvar Gíslason forseti þingsins og undirritaður töldu þetta góða nálgun og vildu að tillagan færi í sæti eða að hún hlyti innkaup. Við vorum í miklum minnihluta en fengum hana innkeypta.

Sjá myndina að ofan og takið eftir að Vonarstræti 12 hefur, samkvæmt tillögunni, verið flutt í Kirkjustræti eins og raunin varð 30 árum síðar.  Allar verðlaunatillögur gerðu ráð fyrir 100% niðurrifi við Kirkjustræti. Hinir síðustu verða stundum fyrstir.

+++++++

Að neðan eru svo nokkrar teikningar sem lagðar voru til dóms í samkeppni um nýtt tónlistarhús í Reykjavík 1. mars 1986.  Samkeppnislýsing gerði ráð fyrir að húsið risi austast í Laugardal rétt við íþróttahús Tennis- og Badmintonfélags Reykjavíkur.  Keppnislýsingu fylgdi  ítarleg húsrýmisáætlun sem var skýr og metnaðarfull.  Höfundar tillögunnar hér að neðan fundu tvennt að lýsingunni. Í fyrsta lagi töldu þeir staðsetninguna ranga af tveim ástæðum. Þeir töldu ekki rétt að skerða útivistarsvæðið í Laugardal og að tónlistarhúsið ætti að tengjhast miðborginni betur og fyrirliggjandi hótelstarfssemi. Í öðru lagi vissu keppendur, og í raun allir, að samtökin um byggingu tónlistarhúss höfðu ekki aðgang að þeim fjármunum sem til þurfti. Eftir þessa greiningu keppendanna spurðu þeir hvort tillaga sem byggði með öðrum hætti á öðrum stað en uppfyllti husrýmisáætlunina fyrir umtalsvert minna fé yrði tekin til dóms? Þeir vildu leggja fram tillögu á betri stað sem kostaði verulega minna en var áætlað. Svarið var á sama hátt og þegar Hjörleifur og Tore spurðu vegna annarrar nálgunar varðandi skrifstofubyggingu Alþingis en það var sérstaklega tekið fram í svarinu að tillagan yrði ekki verðlaunuð.

Ungu arkitektarnir ákváðu, af hugsjónaástæðum, að kasta sér út í vinnuna í von um að umræður færu af stað um þessa nálgun sem þeim þótti skynsamari en áætlun dómnefndar. Tillagan fékk engin verðlaun og ekki innkaup. En hún vakti mikla athygli og umræður. Fjallað var um hana í blöðum og hún var tekin til umræðu í Samtökunum um Tónlistarhús í Reykjavík sem fengu frumritin að láni og hafa ekki sést síðan. Svo fundust þessar teikningar nýverið og eru birta hér.

Það má kannski segja að sem betur fer var tónlistarhúsið ekki byggt þarna inni í Laugardal þó að það sé miðlægara nú en fyrir rúmum 30 árum. Einkum vegna tilkomu samgönguáss AR2010-2030. Í staðin fengum við Hörpu sem er skynsamlega staðsett og þjónar tilgangi sínum vel

 

 

helgi_scan-951afgstodum

Af afstöðumyndinni má sjá að gert var ráð fyrir öflugri tengingu við almenningsflutningakerfið við Suðurgötu. En á þessum árum var mikið rætt um tengingu Suðurgötunnar  til suðurs yfir Skerjafjörð. Þarna var líka lögð fram sem aukaafurð tenging við hugsanlegan tónlistarskóla sunnan við Háskólabíó. Það er húsið nr 3 við Dunhaga sem gefið var svoldið Aaltóskt yfirbragð með æfingarsölum í viftuformi.

haskolabio-1

Á sneiðingunum sést hvernig svölum var skotið inn í bíosalinn til þass að fullnægja kröfum um sætafjölda eins og fram kom í húsrýmisáætlun.

 

helgi_scan-961afst

Fækka þurfti sætum vegna aðlögunar að kröfum um fyrsta flokks hljómburð í salnum sem breyta átti úr bíoi í fyrsta flokks hljómlistarsal.

 

haskolabio-3-efri-haed

haskolabio-4-utlit-asfstodumynd

 

 

Að ofan er afstöðumyndin.  Þar má lesa að Hagatorgi hefur verið breytt þannig að umferðinni er beint út á stofnbrautir t.d. Suðurgötu þar sem góð tenging er til annarra borgarhluta. Neshaginn hefur verið lagður niður milli Neskirkju og Melaskóla til þess að draga úr umferð inn í íbúðahverfin á Melum og Högum.

Þessi samnorræna arkitektasamkeppni um hönnun tónlistarhúss var haldin skömmu eftir stofnun samtaka um tónlistarhús og var aðal viðfangsefni þeirra á árunum 1985 til 1987.   Guðmundur Jónsson arkitekt  í Osló varð hlutskarpastur og hlaut 1. verðlaun. Samkeppnin reyndist samtökunum dýr en hins vegar má líta svo á að hún hafi markaðssett hugmyndina um tónlistarhús meðal almennings og ráðamanna sem endaði með því að Harpa var byggð.

Það muna það allir sem tóku þátt í samkeppni um nýtt Tónlistarhús í Reykjavik að kvöldið fyrir skiladag, þann 28. febrúar 1986 var forsætisráðherra svíþjóðar myrtur á götu í Stokkhólmi. Tillagan var gerð með fullri vitund og samþykkis Guðmunda Kr. Kristissonar arkitekts og annars höfundar Háskólabíós. Hinn arkitektinn, Gunnlaugur Halldórsson, var nýlátinn. Hann hafði látist fyrr í mánuðinum og vissi ekki af þessu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • S. Ólafsdóttir

    „Þegar horft er á skissuna að ofan veltir maður fyrir sér af hverju ekki er löngu búið að framkvæma þessa sjálfsögðu og fyrirhafnarlitlu aðgerð til fegrunnar götunnar og öllum til ánægju, heilsu- og hagsbóta?“

    Svarið er : Peningaleysi, viljaleysi, hugmyndaleysi og allsleysi!

  • Þessi þrjú dæmi lýsa samfélagslegri fórnfýsi arkitekta betur en hundrað þúsund orð.

  • Hilmar Þór

    Þessir „spræku“ menn voru arkitektarnir Finnur Björgvinsson og Hilmar Þór Björnsson. Það làðist að geta þess i færslunni. Og þó undarlegt meg virðast þá var bara eitt tungumál leyfilegt í samkeppninni og það var enska.

  • Halldór Jónsson

    Það er auðséð að einhverjir sprækir útlendingar hafa teiknað þessa tónlistarhússhugmynd. Allavega er tungumálið enska. Hverjir voru teiknararnir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn