Fimmtudagur 12.01.2017 - 15:29 - 6 ummæli

Stefnuyfirlýsingin 2017 og skipulagsmálin

935457

Það var fagnaðarefni að lesa stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vorið 2013,  fyrir tæpum fjórum árum. Þar var í fyrsta skipti tekið á skipulagsmálum í stjórnarsáttmála og Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð var fylgt eftir. En í sáttmálanum stóð orðrétt:

“Ríkisstjórnin telur mikilvægt að fegra hið manngerða umhverfi, borgir og bæi. Sett verða lög um sérstök verndarsvæði í byggð í samræmi við það sem tíðkast víða í Evrópu og Norður-Ameríku. Markmiðið er að vernda sögulega byggð. Þannig verði framkvæmdir til þess fallnar að styrkja heildarmynd svæðis sem nýtur verndar til samræmis við upprunaleg einkenni þess og auka þannig á menningarlegan styrk þess og aðdráttarafl”.

Það má segja að þetta hafi verið óvenjulegt ákvæði í stjórnarsáttmála og allir gerðu ráð fyrir að þetta mundi að  hafa töluverð áhrif á skipulagsmál í landinu.

Á öðrum stað í sáttmálanum frá 2013 stóð:

„Húsakostur Landspítala er óviðunandi. Leggja þarf áherslu á viðhald og endurbætur á núverandi húsa- og tækjakosti stofnunarinnar þar til varanleg lausn fæst“.

Þessi setning var túlkuð þannig að nú ætti að koma núverandi húsnæði Landspítalans í lag og samhliða finna „varanlega lausn“ á framtíðarhúsnæði spítalans. En byrjunin á þeirri vegferð hlýtur að vera að finna framtíðarstaðsetningu spítalans með faglegum hætti. En engin slík staðarvalsgreining lá fyrir þá og liggur heldur ekki fyrir í dag.

Svo var ákvæði um Reykjavíkurflugvöll  þar sem stóð:

Reykjavíkurflugvöllur er grundvallarþáttur í samgöngum landsins. Til þess að hann geti áfram gegnt því mikilvæga þjónustuhlutverki sem hann hefur gert gagnvart landinu öllu þarf að tryggja framtíðarstaðsetningu hans í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu.“

Eins og fyrr segir var ánægjulegt að lesa þessa stefnuyfirlýsingu og maður fylltist bjartsýni. Nú þegar litið er til baka sér maður að ekkert hefur gengið eftir þrátt fyrir mikinn persónulegan áhuga einstakra ráðherra á öllum þessum málum. Tilraunir til þess að verja staðaranda Reykjavíkur á viðkvæmum stöðum mistókst að mestu og nægir þar að nefna uppbyggingu við Austurbakka Reykjavíkurhafnar. Sumt tókst vel eins og t.a.m. Hljómalindarreitur sem er byggður í anda þessarrar stefnuyfirlýsingar.

Húsakostur Landspítalans hefur fengið að grotna niður og „varanleg lausn“ til framtíðar á húsnæðismálum spítalans er ekki fundin vegna þess að staðarvalsgreining hefur ekki farið fram.  Það virðist sem embættismenn hafi þvælst fyrir málinu þannig að fagleg vinna hefur ekki átt hljómgrunn hjá stjórnmálamönnum.  Heldur hefur fúskinu verið haldið áfram allt kjörtímabilið hvað þetta varðar.

Og umræðan Reykjavíkurflugvöll er nánast enn á sama stað.

+++++

Í stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar  sem undirritaður var í fyrradag kveður við annan tón.

Skipulags- og húsnæðismálum er nánast ýtt út af borðinu en þrjú einstök atriði nefnd og þar af eitt af mikilli festu.

Orðrétt stendur.:

„Uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut verður hraðað eins og kostur er og byggingu meðferðarkjarna lokið árið 2023.“ 

Ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en að hafnað sé sjálfsagðri ósk um að faglega verði staðið að uppbyggingu landspítalans og leitað þeirrar „varanlegu lausnar“ sem nefnd var í sáttmálanum frá 2013.  Ekki er sérstaklega minnst á viðhald og endurhæfingu eldra húsnæðis sem er orðið beinlínis heilsuspillandi ef marka má fréttir. Í mínum huga er þarna verið að ganga þvert á eitt helsta slagorð Bjartrar Framtíðar í kosningabaráttunni sem allir muna: „Ekkert Fúsk“. Þetta er nánast svo mikið áfall að líkja má við náttúruhafarir. En vonandi áttar nýr heilbrigðisráðherra sig á málinu þegar hann fer að kynna sér það.

Tvö önnur atriði sem varða skipulagsmál eru nefnd í sáttmálanum frá í fyrradag. Annarsvegar orðrétt: „Skoðaður verði möguleiki á samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um „Borgarlínu“.  Sem er ákaflega skynsamlegt og hinsvegar:  „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila.“  Sem segir okkur að þetta flugvallarmál hjakkar enn í sama farinu og fyrir tæpum, fjórum árum.

Svo er talað um að „sérstök  höfuðborgarstefni verði mótuð“ án þess að skilgreina það nánar. En eins og allir vita er höfuðborgin ekki eingöngu fyrir höfuðborgarbúa og það er til margs að líta í því samhengi.

++++

Ég hef spurt að því áður og spyr enn; Hver skyldi vera ástæðan fyrir því að stjórnvöld og embættismenn hafni því að gerð verði óháð fagleg staðarvalsgreining vegna staðsetningar spítalans þannig að „varanleg lausn finnist“?   Það hefur verið óskað eftir þessu í áratug eða alveg frá því að þær stoðir sem héldu uppi staðarvalinu frá 2002 féllu.  Svari nú hver fyrir sig.

Og hver er ástæðan fyrir því að ekki hefur verið kynnt með nútíma tölvumyndum hvernig fyrirhugaður meðferðarkjarni Landsítalans fari í borgarlandslaginu? Til dæmis með bílferð um Miklubraut frá Kringlumýrarbraut að Suðurgötu og aftur til baka frá Hofsvallagötu að Snorrabraut.  Kannski líka yfirflugsmyndir og „Walk through“ um gömlu Hringbaut og Bústaðaveg.  Svari þessu hver fyrir sig.

Mér er sagt að svona myndir séu til, menn vilji bara ekki sýna þær. Ég veit ekki hvort það sé satt en það er auðvelt og kostar smápening að gera svona myndir. Nýr Landspítali ohf ætti að láta gera svona myndir af óháðum aðila úr því að þau eru svona sannfærð um verk sitt. Það getur bara hjálpað til að leysa hluta deilunnar um þetta mikla hús.

++++

Efst er mynd sem sýnir formennina handsala samkomulagið í fyrradag.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Það er augljóst að Sigmundur Davíð var með í að semja sáttmálann 2013 en var hvergi nærri 2017. SDG er sárt saknað í þessu máli.

  • Gunnar G.

    Heimur versnandi fer.
    Þessi stjórnarsáttmáli er allt of almennt orðaður.
    Hann hefði getað verið helmingi styttri.

  • „Höfuðborgarstefna verði mótuð“?
    Er þetta ekki skilgreint frekar?
    Hvað er átt við?
    Flugvöllinn?
    Borgarlínuna?
    Sundabraut og Þjóðvegi í þéttbýli?
    Hvað?
    Er þetta kannski bara froða?

    • Hilmar Þór

      Stórt er spurt.

      Nei þetta er ekki skilgreint í sáttmálanum. En sennilega vita höfundarnir hvað þetta á að merkja.

  • Eysteinn Jóhannsson

    „Markmiðið er að vernda sögulega byggð. Þannig verði framkvæmdir til þess fallnar að styrkja heildarmynd svæðis sem nýtur verndar til samræmis við upprunaleg einkenni þess og auka þannig á menningarlegan styrk þess og aðdráttarafl”. (stjórnarsáttmáli 2013)

    Er þetta ekki nákvæmlega það sama og stendur í Menningarstefnu ríkisins í Mannvirkjagerð?

    Bara með öðru orðalagi.

    Þessa stefnu ætti ekki að þurfa að endurtaka í stjórnarsáttmlála.

    En það er greinilega nauðsynlegt vegna þess að ekkert hefur verið farið eftir stefnunni og engu skipulagi eða húsi hefur verið breytt með vísan til stefnunnar.

    Eða hefur þú heyrt af því Hilmar?

    • Hilmar Þór

      Eflaust hefur menningarstefnan haft einhver áhrif en ég man ekki eftir að það hafi beinlínis brotið á henni eða hún hafi skipt sköpun þó ærin ástæða hafi verið til allmörgu sinnum síðan hún var samin.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn