Föstudagur 29.08.2014 - 10:23 - 19 ummæli

Caffe-latte beltið í Kaupmannahöfn

 

Á sunnudaginn kemur verður opnað nýtt byggingaland í Kaupmannahöfn. Þetta er hafnarsvæði sem áður hét Nordhavn. Hverfið kallast á við Sydhavnen og Örestaden sem margir þekkja.  Við Sydhavnen er Sluseholmen og Örestaden þar nálægt en við Nordhavnen verður Århusgadekvarteret.

Þarna á að byggja á næstu 40-50 árum 40 þúsund manna byggð og atvinnuhúsnæði fyrir sama fjölda fólks.

Danir gera sér grein fyrir því að það verður dýrt að búa þarna og ekki á færi allra. Samkvæmt Politiken er gert ráð fyrir að íbúðir þarna kosti á annað hundrað miljónir íslenskra króna.

Menn segja að þessi byggð muni ekki eingöngu breyta borgarlandslaginu heldur einnig hinu pólitíska landslagi. Félagsleg samsetning borgaranna verði önnur á komandi árum.

Menn spá því að Socialdemokratar muni missa þá sterku stöðu sem þeir hafa haft í borginni í meira en 100 ár.

Það er að gerast það sama í Kaupmannahöfn og víða annarstaðar að vel menntað og efnameira fólk flytur inn í borgirnar. Svefnbæirnir eru að missa aðdráttarafl sitt. Fólk vill þjónustu, menningu og götulíf í nágrenni sínu.

Íbúðir á jaðarbyggðum munu lækka í verði. Verslunarkjarnar fara á hausinn vegna þess að verslunin flyst á netið og fólk með peninga flytur inn í borgirnar. Þjónusta í úthverfum er að minnka.

Áður var talað um“ Wisky Bæltet „norðan Kaupmannahafnar þar sem hinir efnameiri og „de gamle penge“ bjuggu.  Þetta svæði var líka kallað „Böf og rödvinsbæltet“.  Nú er farið að tala um „Caffe-latte bæltet“ sem einmitt gengur frá Sydhavnen til hins nýja Århusgadekvarter, þar sem miðborgin gamla er með í beltinu.

Þetta er áhugavert að skoða og spegla í hugmyndum um uppbyggingu við höfnina í Reykjavík og í Vatnsmýri. En við verðum að muna að Kaupmannahöfn er höfuðborg dana sem eru um 17 sinnum fleiri en við.

Myndbandið að ofan lýsir hugmyndum dananna vel. Þarna er sýndur arkitektúr sem gengur þvert á það sem mér sýnist vera að herast á bakkanum sunnan Hörpu í Reykjavík. HVað svo sem mönnum almennt kann að finnast um hann.

Að neðan er mynd af nýlegum húsum í Sydhavnen.

Manglende_plan_for__871388y

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Er vandinn ekki frekar skilningsleysi skipulagsyfirvalda á þessari hugmynd um línuborgina?

  • Hlmar Þór

    Vissulega er þetta allt að mestu rétt hjá Gesti.

    En við höfum aldrei náð svo langt í skipulagsmálum, svo ég viti, að breið sátt hafi náðst í borgarstjórn um einhverja raunhæfa samgöngulausn sem tekur sérstaklega á almenningsflutningum.

    Það er þessi línuborg sem mun binda borgina saman frá austri til vesturs sem pólitísk sátt er um.

    Ég efast ekki um að til eru betri lausnir. En þessi er uppi á borðinu og um hana er mikil sátt. Því ber að fagna. Við verðum líka að muna að þessi lína útilokar ekki einhverjar þveranir eða net almenningssamgangna þegar til lengri framtíðar er litið.

    Það er aðeins eitt sem ég hef áhyggjur af og mér sýnist Gestur vera með svipaðar áhyggjur og það er að skilgreina hugmyndina betur og gera tíma- og framkvæmdaáætlun.

    Maður gæti hugsað sér að borgin fjárfesti strax í svona 10 rafknúnum strætisvögnum sem færu í áætlun á þessarri leið strax næsta vor. Og bættu svo aðstöðuna með sértökum akreinum fleiri strætóum o.sfv. á næstu árum. Borgin þarf að koma hugmyndinni strax í framkvæmd með traustri þróunaráætlun.

    Helsta ógnunin við þessa áætlun er skipulagið sjálft og ráðgjafar borgarinnar.

    Ég hef tekið eftir að við deiliskipulag Austubakka, hugmyndavinnu Betri borgarbrags og Hægrar Breytilegrar attar ásamt samkeppnistillagna um Súðarvogsskipulagið var ekki tekið mið af samgönguásnum þó hann hafi verið komin fram þegar sú skipulagsvinna var unnin.

    Verst er að þeir sem komu að skipulagsvinnunni á þessum svæðum ég nefni eru einmitt helstu ráðgjafar borarinnar í skipulagsmálum.

    Það er ekki hægt að túlka niðurstöðuna öðruvísi en að þessir sérfræðingar hafi ekki trú á hugmyndinni um samgönguásinn þó þeir hafi ekki haft kjark til þess að segja það opinberlega og rökstyðja þessa skoðun sína.

    • Ég verð hér að vera sammála Gesti, og hef reyndar orðað svipaðar efasemdir hér á síðunni hjá þér áður. Það er ekkert vandamál fyrir yfirvöld að útvíkka þá stofnæð sem Laugavegur – Suðurlandsbraut – Vesturlandsvegur er/var og fjölga ferðamátum og skilgreina lóðir undir verslun og viðskipti. En eins og Gestur, þá hef ég efasemdir um þetta sem stjórnunartæki í skipulagsmálum: hvað merkingu hefur strætómiðstöð við BSÍ í þessu samhengi? Eru menn tilbúnir í að flytja hana á ásinn – og þá hvar? Hvað ætla menn að gera við miðstöð strætó í mjódd? verður hún flutt í ártúnsbrekkuna? Væri slíkt bót fyrir samgöngumál á höfðuborgarsvæðinu? Ég tel ekki. Seltjarnarnesið, sem Reykjavík stendur á, tengist meginlandinu frá botni fossvogs að mynni elliðaáa, sem þýðir að þungamiðja byggðar á höfuðborgarsvæðinu er alls ekki á Seltjarnarnesinu línulega, heldur inn á landi þar sem borgin og nágrannasveitafélögin eru allt annað en línuleg, því er hin línulega hugsun aðeins skynsamleg fyrir hluta svæðisins. Til viðbótar við það bætist að umferðakerfi borgarinnar vill dreifa umferðinni á Sæbrautina og ökumenn dreifa því á Bústaðaveginn til að létta af umræddum ás. Það að draga aukna þjónustu að þessum eina ás inn á Seltjarnanesið, myndi því væntanlega þyngja miðlægu umferðina. Hugsanlega eru til lausnir og útfærslur sem styðja við ásinn og svara einhverjum af þessum spurningum, en eftir stendur að það eru sterk öfl formfræði og flæðis sem munu vinna gegn þessum hugmyndum óháð góðum vilja skipulagsyfirvalda og annarra. Svo tel ég óeðlilegt að hnýta í þau deiliskipulög sem þú nefnir og BBB, þegar ásahugmyndin var aldrei hluti af þeirra forskrift – þú verður að gefa stefnunni meiri tíma til að komast til framkvæmda.

    • Hlmar Þór

      Þakka þér innleggið Halldór. Þú hefur sterka sýn í skipulagsmálum eins og flestir sem hér legja orð í belg. Og sjónarmiðin skipta máli. Nánast hver svo sem þau kunna að vera.

      Það er vissulega margt sem þarfnast umræðu og varðar aðalskipulagið og samgönguásinn. Ég hef til dæmis bent á að hugmyndir um að gera umfeðamiðstöðina (við Hringbraut) að meginmiðstöð almenningssamgangna í borginni stangast á við samgönguásinn og línuborgina

      Þetta nefnir þú líka og fl.

      En þessi lína getur verið byrjun á alvöru almenningsflutningakerfi á höfuðborgarsvæðinu.

      Gefum hugmyndinni tækifæri.

      En ég er ekki sammála því að að það sé óeðlilegt að benda á eitthvað í vinnu BBB sem stangast a við aðalskipulagið.. Sérstaklega í ljósi þess að búið var að kynna hugmyndir AR hvað þetta varðar tæplega ári áður en BBB lauk sinni vinnu. Það er ekkert mannanna verk það merkilegt að ekki megi ræða það og jafnvel gagnrýna.

      Og ég er ekki að hnýta í skipulagsvinnu ið Austurhöfn, BBB, Hæga breytilega átt eða skipulagstillögur við Súðarvog. Ég segi bara að tillögugerðin bendi til þess að höfundarnir hafi ekki trú á samgönguásnum en þori ekki að segja hvers vegna.

      Enda er samgönguásnum er ekki gerð viðhlýtandi skil í þessum fjórum skipulagsáætlunum og rannsóknum eins og ég skil þau.

      Þetta segi ég auðvitað til þess að ögra smávegis.

    • Gunnar Jónsson

      Fróðlegt væri að fá umfjöllun um BBB, Súðarvog og Hga breytilega átt(!) hér á vefnum. Við sem ekki þekkjum til skiljum varla hvað um er verið að ræða.

  • Ekki hef ég neitt á móti línulegri þróun þéttbýlis frekar en t.d. netbyggingu borgarsvæða, þar sem áhersla er á að tryggja álíka aðgengileika yfir stórt svæði. Ef fólk vantar eitthvað tákn fyrir þéttbýlisþróun eins og línu þá er það líka í lagi, eins og kristnir menn nota kross eða fisk sem sín tákn. Það sem ég hef hins vegar fundið að „línuhugmynd“ Reykjavíkur er hvað hún er illa skilgreind, erfið í framkvæmd og ekki ljóst hvaða aðkallandi vandamál henni er ætlað að leysa, hverjir hagnist á henni og hverjir tapi, hvað hún kostar miðað við aðra kosti – og hver beri ábyrgð á að framkvæma hana og innan hvaða tíma. Ef þetta vantar er hætta á að þssi línuhugmynd reynist ekki ferð til fjár.
    Við höfum hins vegar bent á að einhvers konar línuleg þróun milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar sé kostur sem rétt sé að skoða frekar. Þar væri t.d. hægt að skipuleggja ódýrar lóðir fyrir íbúðarbyggð. Þangað mætti flytja margs konar geymslu- og atvinnustarfsemi sem nú tekur upp miklu dýrari lóðir í þéttbýlinu auk þess sem þar mætti auðveldlega skipuleggja hraðar almenningssamgöngur milli staða.

  • Þurfa menn ekki að fara að læra að sníða sér stakk eftir vexti í skipulagsmálum?

  • Dennis Davíð

    Ég tek undir með Hilmari varðandi Línuborgina sem hefur þróast „lífrænt“ úr Kvosinni inn eftir Laugavegi og Suðurlandsbraut þrátt fyrir tilraunir skipulagsyfirvalda,hér á árum áður, til að beina henni í aðrar áttir t.d. þar sem Kringlan er nú. Að skapa nýjan miðbæ þar mistókst. Ég tel að áherslur í nýju aðalskipulagi varðandi þróunarásinn sé viðurkenning á því að Línuborgin sé komin til að vera og beri að styrkja hana og efla. Þar eru ýmsir spennandi möguleikar sem vert er að skoða.

    • Hilmar Þór

      það er eins og hin fjórða vídd, tíminn gleymist oft í skipulagsáætlunum eins og Dennis nefnir dæmi um.

      Það þarf að vera eitthvað tímalegt samhengi í skipulaginu þannnig að það byggi á því sem fyrir er.

      Það er ekki hægt að byrja á auðum pappír í þessum efnum.

    • Árni Ólafsson

      … og það á að klappa kettinum með hárunum – ekki þvert eða á móti 🙂

  • Smá innlegg í þessa athyglisverðu umræðu.

    Nordhavnen er um 370 hektarar sem danir ætla að byggja upp á næstu 40 til 50 árum (hálfri öld) Þetta er sem sagt langtímaplan líkt og fingraplanið frá 1947 eftir Steen Ejler.

    Vatnsmýrin er um 140 hektara (svarar til 2300 ha í Danmörku miðað við fólksfjölda) og hana ætla borgaryfirvöld að byggja fyrir 2030 eða á næstu 20 árum.

    Svo mikil uppbygging hjá svo lítilli þjóð á svo stuttum tíma er algerlega óhugsandi og er dæmd til að mistakast.

  • Athyglisvert að sjá svona arkitektadrauma fyrir efnamenn 21. aldarinnar, sem auðvitað geta leyst öll sín vandamál með peningum. Skítt með þá efnaminni. Svo eru svona draumar kallaðir „skipulag“ til þess eins að bíta höfuðið af skömminni. Ekki svo ólíkt Vatnsmýrardraumunum, Línuborginni Reykjavík eða öðrum nýlegum arkitektadraumum. Hvernig væri nú að rumska svolítið og tengjast íslenskum raunveruleika þar sem ungt fólk flýr land af því það sér enga von til þess að geta nokkurn tíma eignast þak yfir höfuðið.
    Þeir sem gefa sig í að skipuleggja ættu amk. að sjá sóma sinn í því að leggja raunhæft mat á skýjaborgirnar og sýna fólki fram á afleiðingarnar af því að framkvæma þær. Alltaf gott að skilgreina vandamál áður en farið er að leysa þau og hafa þetta allt uppá borðinu.

    • Hilmar Þór

      Það er margs að gæta í skipulagsmálum og félagslegi þátturinn er ekki síður mikilvægur en formið (sem er ofmetið) og svo er það auðvitað hin sögulega vídd.

      Varðandi ágæt innlegg Dennis og Gests þá er það þannig, ef ég man rétt, að það er siður í Danmörku að í hverri íbúðarbyggð verði vist hlutfall leiguhúsnæði til langs tíma. Þ.e.a.s. að t.a.m í svörtu húsunum í Skuggahverfinu væri kannski tíunda hver íbúð legð út í félaghusnæðiskerfinu á félagslegum grunni til langs tíma. Slík úrræði jafnar félagslega samsetningu íbúanna og hvrfisins. Það þarf að skoða þessa hugmynd betur hér á landi.

      En að öðru.

      Mér skilst að Gestur hafi eitthvað við línuborgina og samgönguásinn að athuga í nýja aðalskipulaginu. Ég er á annarri skoðun og tel hann eitt það alsterkasta sem fram kemur þar. Það þarf að gera eitthvað í almenningssamgöngum borgarinnar og Línuborgin er ein hugmynd sem rétt er að skoða með jákvæðu hugarfari.

  • Jón Guðmundsson

    Like!

  • Dennis Davíð

    Slæmu fréttirnar eru að hér sýnist mér að verið sé að búa til „Getto for the Rich“ sem er spor afturábak i hinni norrænu höfuðborg Dana sem hingað till hafa státað sig af jöfnuði og félagslegu réttlæti. Þetta er ávisun á að einhver önnur hverfi borgarinnar verði fátækrahverfi með tilheyrandi vandamálum.

  • Þetta er fallegt og lofar góðu. En þetta er of stór biti. Jafnvel fyrir 5 milljón manna þjóð. Svona megaprojekt hafa verið reynd víða áður en aldrei tekist. Eina leiðin er að þróa hægt hverfi til annarrar notkunnar. Gefa fjórðu víddinni, tímanum, sjens.

    Ef byggja á í Vatnsmýrinni eða í Nordhavnen þarf að hlúa að því litla sem fyrir er og láta það vera ráðandi í mótun þess nýja.

  • Stallaðar húsahæðir, randbyggð, gatnakerfið dregur úr bílaumferð og vindstrekkingi (öfugt við Vatnsmýrarskipulagið). Iðandi mannlíf….Svaka flott allt saman.

    Þarna er sýnt mikið götulíf þar sem allir eru að leika sér og kanalarnir fullir af litlum skemmtibátum. Svona var Sluseholmen líka kynntur en hann varð aldrei þannnig og þetta verður heldur ekki eins og arkitektarnir halda að þetta verði. Og Vatnsmýrin verður heldur ekki eins og arkitektarnir eru að telja okkur trú um að verði.

    Því miður.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn