Mánudagur 25.08.2014 - 12:35 - 9 ummæli

Landspítalinn aftur á dagskrá

Picture1

Núverandi forstjóri Landspítalans var í viðtali í morgunútvarpi Bylgjunnar þann 15. ágúst s.l.  Þar lagði hann áherslu á að hefja framkvæmdir við byggingu spítalans sem fyrst til þess að koma bráðastarfsemi sjúkrahússins í eitt hús og að ef ekki væru til peningar þá þyrfti að finna aðra lausn.

Þarna opnaði forstjórinn á umræðu um aðra lausn en þá sem nú liggur fyrir.  

Páll Torfi Önundarson, prófessor í blóðsjúkdómum við HÍ og yfirlæknir á Landspítalanum brást við og skrifaði grein í Morgunblaðið sem hann hefur sent hingað til birtingar.

Ég birti greinina hér með mikilli ánægju, enda ástæða til þess að taka umræðuna upp að nýju í kjölfar þessarar opnunar forstjórans og ekki síður í tengslum við ný tækifæri sem hafa skapast með nýju aðalskipulagi.

Hér kemur grein Páls Torfa í heild sinni:

Núverandi forstjóri Landspítalans er mjög áhugasamur um framgang sjúkrahússins og er það vel. Hann er þó ekki heilagur maður eins og nafni hans, postulinn, frekar en ég. Því er engum skylt að hafa sömu skoðun og hann á réttu og röngu eða á fegurð eða byggingarlausnum á Landspítalalóð.

Í viðtali í morgunútvarpi Bylgjunnar 15. ágúst sl. sagði hann að nauðsynlegt væri að hefja nýbyggingar á Hringbrautarlóð Landspítalans sem allra fyrst til þess að koma bráðastarfsemi sjúkrahússins í eitt hús og er ég sammála því. Hann mælti með fyrirliggjandi fyrsta áfanga í SPITAL-planinu umfangsmikla – en sagði jafnframt að ef ekki væru til peningar í þá byggingu þá þyrfti að fara í aðrar lausnir sem hann nefndi „skítamix“. Mér fannst þetta sniðugt orð af því að mér finnst SPITAL-planið einmitt vera þess eðlis; allt of stórt fyrir byggingarlóðina, vitlaust staðsett, ljótt, byggt í brekku og með slæmum tengingum við gömlu húsin, sem þar með munu nýtast illa.  Áframhaldandi nýting húsanna á Hringbraut var einmitt aðalforsenda staðarvalsins, m.ö.o. að spara peninga, sem liggja víst ekki á lausu hérlendis.

Ég leyfi mér að biðja ritstjóra Morgunblaðsins að birta enn og aftur hlið við hlið mynd annars vegar af deiliskipulagstillögu SPITAL, sem gerð er fyrir milljarða, og hins vegar af tillögu minni og Magnúsar Skúlasonar arkitekts, sem enginn peningur hefur verið settur í. Svo sting ég upp á því að lesandinn sjálfur, borgarbúinn, meti hvor tillagan sé „skítamix“. Þá má hafa í huga borgarmyndina, fegurðina, Þingholtin.

Tillaga okkar Magnúsar er fullnægjandi lausn fyrir bráðastarfsemina og rannsóknarstofurnar til nokkurra áratuga og ásýnd Þingholtanna breytist ekki mikið. Valstarfsemi getur verið áfram í Fossvogi um sinn. Margir hafa haft samband við mig, arkitektar, verkfræðingar, læknar og aðrir og lýst yfir stuðningi við lausn okkar Magnúsar fyrir þessa lóð, sem lýst hefur verið í fyrri greinum bæði í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. En þeir sömu vilja ekki segja það opinberlega. Er eitthvað að óttast?

******

Efst er mynd af tillögu Magnúsar Skúlasonar arkitekts og Páls Torfa sem þeir telja  er fullnægjandi lausn fyrir bráðastarfsemina og rannsóknastofurnar þar sem ásýnd Þingholtanna breytist ekki mikið, ólíkt SPITAL-skipulaginu. Að neðan er svo tillaga sú sem nú liggur fyrir.

Neðst er svo mynd af húsi sem sem er álíka hátt og fyrirhugaður meðferðarkjarni sem á að rísa sunnnan við gamla Landspítalann frá því 1930.

Meðferðarkjarninn er 25,4 metrar á hæð eða sem nemur venjulegu 9 hæða húsi eða 80% hærra en viðmið aðalskipulagsins. Meðferðarkjarninn er nánast jafn hár og fjölbýlishúsið við Kleppsveg sem sýnt er á neðstu myndinni í færslunni.  En hann er líka þrisvar sinnum lengri en blokkin og um 17 sinnum fyrirferðameiri ef ég skil uppdrættina rétt!

Það er full ástæða til þess að skoða nánar með faglegum hætti og í fullri alvöru deiliskipulagstillögu þeirra Magnúsar Skúlasonar arkitekts og Páls Torfa Önundarsonar yfirlæknis um aðra nálgun.  Aðlaga deiliskipulagið  markmiðum aðalskipulagsins um húsahæðir og aðliggjandi byggð og ekki síður að fjárhagslegri stöðu ríkisins og samfélagsins alls.

Kannski taka málið upp í heild sinni í samræmi við þá sviðsmynd sem nú blasir við. 

Fjallað er um tillögu Magnúsar skúlasonar arkitekts og Páls Torfa á þessari slóð:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/24/husnaedisvandi-landspitalans-onnur-nalgun/

 

 

 

Picture3

photoaaaa1

 Fjölbýlishúsið við Kleppsveg sem sýnt er á myndinni að ofan er álika hátt og fyrirhugaður meðferðakjarni SPITAL hópsins sem rísa á sunnan við gamla Landspítalann við Hringbraut.  Meðferðarkjarninn verður  þrisvar sinnum lengri en blokkin og um 17 sinnum fyrirferðameiri (að rúmmáli) ef ég skil uppdrættina rétt! Margir efast um að þingholtin og borgarlandslagið beri svo stóra byggingu á þessum stað.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

    • Einar Jóhannsson

      Málefnalegt þetta hjá „spritta“ eða hitt þá heldur.. Kannski hann hafi fengið sér of mikið spritt þarna kl. fimm í morgun. Síðuhaldari á að henda svona bjánum út. Þeir skemma umræðuna og eru eins og skemmt epli.

  • Það er nokkuð merkilegt hvað arkitektar eru tregir við að tjá sig um verk kollega sinna hér á landi. Ef menn komast hjá því, þá sleppa þeir því, obinberlega. Ekki er það nú svo að arkitektar hafa ekki skoðun á verkum kollegana, því er nú öðru nær. En það er lenska á íslandi að ræða ekki obinberlega um slík mál, kannski vegna þess að hver veit hvaðan næsta verkefni, eða vinna kemur. En í bakherbergjum er þetta rætt, það er ljóst og sitt sýnist hverjum.

    En að þessum tillögum þá virðast þær raunsæjar og á mun eðlilegri skala en SPITAL lausnin sem er óendanlega stór og fyrirferðamikil. Eru einhverji sérfræðingar virkilega búnir að reikna sig út í það að agnar smá þjóð út í ballarhafi þurfi að byggja slíkt ferlíki til að sinna sínum skyldum við skattborgara þessa lands. Sérstakelga þegar tillit er tekið til þess að tækin á landspítalanum hanga saman á límbandi.

    Ég á bara mjög bágt með að trúa því og vona ég innilega að stjórnvöld grípi í taumana áður en við förum út í það að byggja þetta ferlíki.

  • Páll Torfi Önundarson

    Takk fyrir þín orð Gunnar Jónsson, en það er ekki líklegt, að þeir sem hannað hafa SPITAL fyrirkomulagið og fengið greitt fyrir það eða standa fyrir það með einhverjum hætti, muni brjóta odd af oflæti sínu og mæla með annarri tillögu. Enda hefur það ekki gerst. Til þess þarf nýja vendi að sópa út hinu gamla. Og það vilja ekki allir nýja vendi.

  • Gunnar Jónsson

    Ég hef ekkert vit á sjúkrahúsum en það hefur Páll Torfi sem telur tillögu þeirra Magnúsar fullnægja þörfinni næstu áratugina.

    Af hverju brjóta Landspítalamenn ekki odd af oflæti sínu og byrja bara að byggja eftir tillögu þeirra felaga. Sníða þjóðarsjúkrahúsinu stakk eftir vexti og hætta þessum góðærishugmyndum SPITAL

  • Einar Jóhannsson

    Auðvitað á að ræða öll mál tæpitungulaust. Það er siðaðra manna háttur að debattera og skiptast á skoðunum. Það er illa komið fyrir arkitektum ef þeir þora ekki að tjá sig. Það eru einmitt arkitektar sem eiga að hjálpa okkur pöpulnum að skila þessi skipulagsmál.

    Ef þöggun er í gangi þá er illa fyrir okkur komið. Og það svona rétt eftir „hið svokallaða hrun“.

    Aðalatriðið er að fara að byggja sjúkrahúsið og það verður ekki samkvæmt SPITAL tillögunni sem hentar ekki fyrir okkar fjárráð.

    Við eigum að byggja smærra og byrja strax framkvæmdir!!!

  • Hilmar Þór

    „Margir hafa haft samband við mig, arkitektar, verkfræðingar, læknar og aðrir og lýst yfir stuðningi við lausn okkar Magnúsar fyrir þessa lóð, sem lýst hefur verið í fyrri greinum bæði í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. En þeir sömu vilja ekki segja það opinberlega“

    Þessari reynslu deili ég með Páli Torfa og þá er ég ekki bara að tala um Landspítalann heldur skipulags- og byggingamál almennt.

    • Pétur Örn Björnsson

      Tek undir orð Páls Torfa og Hilmars Þórs. En hvernig stendur á því að arkitektar, verkfræðingar, læknar og aðrir virðist ekki þora að tjá sig opinberlega um málið … „Er eitthvað að óttast?“

      Og ef svo er, þá spyr maður sig í hvers konar samfélagi við búum og hvort það sé æskilegt að óttinn ráði för, hvort heldur um skipulags- og byggingarmál er að ræða eða önnur mál er varða samfélagslega þætti.

      Er yfirbyggingin kannski orðin svo hátimbruð að móavitið og hin heilbrigða skynsemi eigi í vök að verjast?

  • Þórhallur

    Þetta er skynsamlegt útspil hjá Páli Mattíassyni forstjóra. (óþarfi að kalla allar aðrar lausnir „skítamix“)

    Spítalhugmyndirnar áttu að koma til framkvæmda fyrir bráðum 3 árum en ekkert hefur gerst enda eru þær of stórar og það er ekki sátt um þær. Þjóðin getur ekki látið hugmyndir sem eru samfélaginu ofvaxnar vera valdandi því að hún fær ekki þá heilbrygðisþjónustu sem hún á heimtingu á.

    Það er aðdáunarvert að hugsjónamenn eins og Magnús og Páll Torfi skuli halda vöku sinni og þjóðarinnar á þessu máli.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn