Sunnudagur 12.06.2016 - 12:51 - 4 ummæli

Dagsbirtan – Mikilvægasta byggingarefnið?

Mig minnir að það hafi verið Frank Lloyd Wright sem sagði að „dagsljósið væri mikilvægasta byggingarefnið“

Hvort sem það var FLW sem lét þessi orð falla eða einhver annar er það öllum ljóst sem kunna að upplifa arkitektúr að dagsbirtan er mikilvægust allra efna ef það er á annað borð skilgreint sem efni.  Professor Steen Ejler Rasmussen skilgreindi líka hljóðvistina sem byggingarefni og talaði um að heyra byggingalistina. Í Frakklandi er mikið talað um „son et lumiére“ þegar arkitektúr er annarsvegar.

Finnbogi Pétursson hefur einmitt unnið mikið með þessi tvö byggingarefni í list sinni, ljós og hljóð.

Á myndbandinu hér að ofan er sýnt óvenjulegt verk þar sem Finnboga hefur tekist að fanga dagbirtuna á  sterkan hátt. Maður er varla sami maðurinn (arkitektinn) eftir að hafa skoðað þetta rúmlega tveggja mínútna myndband.

Finnbogi Pétursson er sérstæður listamaður, jafnvel einstakur. Hann er fæddur 1959 og hóf nám við Myndlista – og handíðaskóla Íslands árið 1979 og innritaðist í Grafíkdeild vegna þess að hugur hans stóð til teikningar.  Hann gerði sér hins vegar fljótt grein fyrir að teikningar hans yrðu ekki framkvæmdar með blýi eða hefðbundnum grafískum aðferðum á sléttan flöt heldur með hljóði í rými. Þessi hljóðverk hans eru þekkt. Hér hinsvegar vinnur hann með dagsbirtuna þannig að áhorfandinn heillast. Líklega skiptir öldugjáfrið líka máli í verkinu.

Ég hef haldið því fram í pistlum mínum að Ólafur Elíasson vinni með sömu verkfærum og arkitektar og með hugmyndir sem tengjast arkitektúr meira en hefðbundinni myndlist, Sama má segja um verk Finnboga.

Að neðan koma nokkrar ljósmyndir af verkum Finnboga þar sem hljóð er megintemað.

 

 

10749213_10152535605797017_1227570430_nHljóðið gárar vatnið.

H2-160318625

TessleTune-2007-Photo-Finnbogi-Petursson

“Your House” eftir Ólaf Eliasson

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Þórður Jónsson

    Frábær setning: „það er öllum ljóst sem kunna að upplifa arkitektúr“. Við íslndingar kunnum varla að upplifa arkitekitúr. Það er svo stutt síðan við skriðum út ur moldarkofunum og hér eru engar hallir eða fornar byggingar sem lifað hafa með þjóðinni. Það er alger eyða í arkitektúrmenningnni hjá þjóðinni. Ekkert er fjallað um arkitektúr í grunnskólum eða framhaldsskólum. Við erum eins og heimskir heimalningar þegar arkitektúr er annarsvegar. Við erum genetiskir analfabetar þegar kemur að skipulagi og arkitektúr. Og hananú. Takk fyrir pistlana.

  • Dagsbirtan er ekki í miklu uppáhaldi hjá íslenskum arkitektum. Borulegir gluggar eru alls ráðandi nema í nýjustu húsunum. Íslenskir arkitektar teikna yfirleitt ljótar blokkir með svalir út á bílastæði. Ekkert frumlegt, fallegt eða skemmtilegt.

  • Á einni myndinni gerir Finnbogi hljóðið sýnilegt með því að láta það gára vatnið og láta hljóðið hreyfa vatnið sem speglast svo í fallegri geometríu á veggina. Stórkostlegt!

  • Jón Sveinsson

    Þetta er ekki bara frábært listaverk. Það kennir manni að sjá ljósið í bókstaflegri merkingu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn