Miðvikudagur 08.06.2016 - 23:37 - 17 ummæli

Deiliskipulag – Reynslusaga

fr_20160407_036298-640x360

 

Lesandi síðunnar sendi mér þrjár myndir af deiliskipulagi á svokölluðum Naustareit hér í Reykjavík sem afmarkast Grófinni, Vesturgötu, Norðurstíg og Tryggvagötu.

Myndirnar sýna hvernig deiliskipulag getur þróast á tiltölulega mjög stuttum tíma, aðeins 5 árum. Þetta voru mikar breytingar. Draga má þá ályktun að forsendur skipulags séu oft veikar og að niðurstaðan sé stundum byggð á veikum grunni. Einkum þegar svo miklar breytingar eiga sér stað eins og hér á svo stuttum tíma.

Hér er ekki verið að segja að þróunin í þessu tilfelli hafi stefnt í óheppilega átt heldur er verið að benda á þetta hér til þess að vekja umræður og upplýsa lesendur um að hætta er á, eða möguleiki er á, að gjörbylta borgarhlutum á mjög stuttum tíma. Líklega vegna þess að skipulagið byggist hugsanlega á ótraustum tíðarandanum og auðvitað líka á einhverjum fjárhagslegum hagsmunum einkaaðila, því sem þjóðverjar kalla „Investoren – Architektur“.

+++++

Árið 2003 lá fyrir deiliskipulag af reitnum í heild sinni sem unnið var fyrir borgina af Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts. Deiliskipulagið er varfærnislegt og er það lögð áhersla á staðsetningu þess í borgarlandslaginu og staðaranda og andrými nærliggjandi reita. Þetta var vönduð vinna sem ætla mætti að geta staðist áreiti tíðarandans o.fl.

Tveim árum síðar  árið 2005 var gerð breyting á hluta svæðisins og skapaðir skilmálar fyrir nýbyggingu við Tryggvagötu norðan Naustsins sem reiturinn er nefndur eftir.

Svo árið 2008 var enn gerð breyting á deiliskipulaginu vestast á reitnum meðfram Norðurstíg þar sem öllu var gjörbyllt og byggingamagn aukið úr 2711 m2 í skipulagi Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts í 6767 m2 eða næstum þrefaldað.

+++++

Það má halda því fram að ekkert standi eftir af ágætu deiliskipulagi Guðrúnar aðeins 7 árum eftir að það var samþykkt.

Hvernig ætli geti staðið á því?

Hér að neðan er stuttlega farið yfir málið með skýringum við hvern skipulagsuppdrátt fyrir sig.

Breyting. 11.06.2016 – kl 10:00: Hjálmar Sveinsson, formaður skipulagsráðs, benti á það í athugasemdarkerfinu að síðasta breytingin á deiliskipulaginu var ekki gerð árið 2010 eins og í frumtexta færslunnar heldur árið 2008. Þetta hefur nú verið leiðrétt. Þessar breytingar voru því gerðar á síðustu 5 árunum fyrir Hrun en ekki 7.  Þetta  voru „skrýtnir tímar“.

 

Naustareitur_07_10_2003-small

Hér að ofan er deiliskipulag Guðrúnar Jónsdóttur af svokölluðum Naustareit. Reiturinn hefur sérstöðu í byggingarsögulegu tilliti segir í greinargerð Guðrúnar og sagt að “timburhús séu áberandi á þessu svæði og eru þar nokkur af elstu tmburhúsum borgarinnar”.

Forvinna og rannsókn Guðrúnar gengur allt til upphafsins þegar þarna var Hlíðarhúsaland um aldamótin 1500 og fjaran náði allt að húsaröðinni við Vesturgötu. Þess vegna voru þarna naust og reiturinn nefndur Naustareitur. Guðrún skoðaði ítarlega sögulegar forsendur, hún skoðaði byggingalistarleg einkenni staðarins í samhengi við umhverfið og vann sína tillögu á þeim trausta faglega grundvelli. Ég vek athygli á niðirbroti byggningarinnar við Tryggvagöti neðst til hægri á myndinni að ofan. Húsið er brotið niður í mælikvarða sem er í samræmi við umhverfið bæði hvað hæð snertir og allt uppbrot. Deiliskipulagið var samþykkt árið 2003

 

Naustareitur_18_05_2005 HÞB - small

Árið 2005 er hluti svæðisins deiliskipulagt að nýju. Hér eru ekki talin mikilvæg sjónarmið Guðrúnar um form og hlutföll.

Það sem vekur athygli mína er ekki sjálft deiliskipulagið, heldur meðferð þess í kerfinu.  Á uppdrættinum stendur: “Breytingin var ekki grenndarkynnt þar sem hún varðaði ekki hagsmuni annarra en umækjenda og Reyjavíkurborgar”. Þarna má sjá að borgin hefur sneitt hjá kröfunni um grenndarkynningu á þeim grundvelli að breytingin sé svo lítil og komi jafnvel engum við.  Og þá er spurt hver gætir hagsmuna Reykvíkinga í þessu tilfelli? Eru það embættismenn eða eru að stjórnmálamenn?

Maður veltir fyrir sé af hverju borgin skaut sér undan grenndarkynningu jafnvel þó breytingin sé lítil. Það læðist að manni sá grunur að stjórnsýslunni þyki allt þetta kynningar- og samráðsferli hið verst mál og hafi þarna leitað leiða til þess að komast hjá umræðu og veseni.

Ég hef funið fyrir þessu óþoli borgarinnar varðandi andmæli, samráð og leiðbeiningar borgaranna í skipulagsmálum. Ég hef tvisvar gert athugasemd við deiliskipulag í Reykjavíkurborg. Annarsvegar vegna Landspítalans og hinsvegar vegna deiliskipulags við Austurhöfn. Ég lagði mikla vinnu í báðar þessar athugasemdir sem voru lausnamiðaðar ábendingar um atriði sem gætu verið til bóta.

Í tilfell Landspítalans komu á níunda hundrað athugasemdir og ábendingar án þess að tillit hafi verið tekið til þeirra af hálfu borgarinnar.

Hinsvegar gerði ég ábendingu við deiliskipulag við Austurhöfn ásamt mörgum fleirum. Í athugasemdinni vegna deiliskipulags Austurhafnar var það einkum tvennt sem ég taldi vanreyfað í deiliskipulaginu. Annarsvegar var ekki gert ráð fyrir samgönguásnum sem á að ganga þarna um frá Vesturbugt og hinsvegar þótti mér skipulagsskilmálar vanreifaðir varðandi húsagerð hæðir, þakhalla og öll hlutföll og vísaði í greiningu Guðna Pálssonar og Dagnýjar Helgadóttir arkitekta í Kvosarskipulaginu frá 1986. Athugasemdir af svipuðum toga komu frá fleiri aðilum.

Borgin tók ekki tillit til athugasemda minna og annarra um aðlögun húsa á hafnarsvæðinu að Kvosararkitektúrnum í heild sinni. Líklegt er að sá vandræðagangur og almenn óánægja með útkomuna við Hafnartorg eigi rætur að rekja til þessa.

Eftir þessa reynslu hef ég ákveðið að gera ekki athugasemdir við skipulagáætlanir framar. Það hefur enga þýðingu samanber mína reynslu. Manni er ekki einu sinni þakkað fyrir.

Ég sé nú að deiliskipulagið var líka vanreifað svona sögulega séð þegar steingarðinum fræga var ekki gerð skil í skipulaginu. Þessi galli á eftir að kosta skattborgarana miklar fjárhæðir er fram heldur sem horfir.

 

TRYGGVAGOTUR.2051290. mars 2008

 

Að lokum er hér síðasta útgáfan á deiliskipulagi á þessum reit sem samþykkt var árið 2008. Þar er tekin fyrir vestasti hluti reitsins þar sem stóðu gömul hús sem nú hafa öll verið rifin. Á skipulagi Guðrúnar var gert ráð fyrir alls 2711 m2 byggingum á lóðunum en skipulagið að ofan gerir ráð fyrir 6767 m2 eða nákvæmlega 2,5 sinnum meira en fyrra skipulag.

Ef tvísmellt er á myndina má sjá þetta betur. Athygli vekur að gert er ráð fyrir kjallara í húsunum sem nær allt að fjórum hæðum niður í klöppina.

++++

Lesandinn sem sendi mér myndirnar spyr hver voru hin borgarskipulagslegu rök fyrir breytingunum á skipulagi Guðrúnar Jónssdóttur sem hún vann fyrir borgina? Breytingarnar sem gerðar voru eru að sögn til komnar af frumkvæði lóðarhafa.

++++++++++

Hér er slóð að tveim færslum um reitinn.:

http://blog.dv.is/arkitektur/2016/04/07/110-ara-gamalt-hus-rifid-i-midborg-reykjavikur/

http://blog.dv.is/arkitektur/2016/04/16/tryggvagata-hvad-kemur-i-stadinn-fyrir-thad-sem-var-rifid/

+++++++

Efst í færslunn er ljósmynd af svæðinu sem deiliskipulagið frá 2008 nær yfir og neðst er svo skondin mynd eftir listamanninn Haldór Baldursson og lýsir því hvernig hann sér miðborg Reykjavíkur í framtíðinni.

13339614_1791736311059728_4493487944751756879_n

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

 • Örnólfur Hall

  AUÐJÖFRA – OG LÚXUSHÓTEL HÖRPU & STÓRMENNSKULEGT BLAÐRIÐ ÞAR UM:

  I- Undirritaður, ásamt kollega, bað nýlega fulltrúa Byggingafulltrúaembættis um að fá að sjá teikningar af lúxushótelinu við Hörpu. – Nei, því miður engar teikningar eru enn til sagði fulltrúi; Það er enn verið að hanna ! 🙁 + 😉

  II- Stórkarlaleg tilkynning 17/4/ 2015:
  Við glasaglaum í Hörpu (þ.17/4/ 2015) með Borgarstjóra og Marriott/CarpenterCompany (hótelkeðja+USA-verktakar) var fullyrt að hafist yrði handa í byrjun sept.sl. og ljúka ætti hóteli 2017 (NB).
  Það frestaðist svo til 13/1/2016 með að hefjast handa og enn er verið að grafa (teikningalaust/lúshægur gangur).:(

  III-Nýjar fréttir í dag (17/5) um frestun til 2018 á lúkningu hótels (NB: enn ein frestun) og enn einn auðjöfur (Bill Gates) nefndur til sögu (alveg óstaðfest). 😉
  NB: Gates er löngu hættur öllum slíkum fjármálaæfintýrum. Þau snúast einungis um stuðning við börn, fátæka og sjúka í heiminum. – Ekki auðkýfinga ! 😉

  IV- Alvarlegur ágreiningur hótelforkólfa við Reykjavíkurhöfn: 🙁
  Höfnin (Austurbakki) á 30 metra breiða bryggju meðfram Austurbakka sem hún ætlar að nota fyrir smærri skemmtiferðaskip. – En hafnarstjóri sagði undirrituðum að hótelforkólfar ætluðu sér 16 metra þar af í algeru heimildarleysi. – Þetta á eftir að kosta mikil og ófyrirsjánleg átök !!!

  V- Spaugileg saga hóteláætlanna:
  – Hingað til hafa allir stóru erlendu Hótel-forkólfarnir horfið frá eða gefist upp.- T.d. Aurum-Investment, Marriott-hótelkeðjan vildi áður ekki vera með og sagði dæmið allt of „risky“? – Marion-hótelkeðjunni heimsþekktu leist þá ekki heldur á \’æfintýrið\’ og hvarf frá. En nú ætlar Marriott-hótelkeðjan að reyna aftur.
  -Samkvæmt fyrri fréttum 2014 átti að byrja á hóteli við Hörpu þá sl. vor 2015 og klára í byrjun árs 2017.-Indverskur hótelforkólfur (Hotel-BigShot) o.fl. ætluðu að byggja. Þeir hættu við (of „risky“?).

 • Guðrún Gunnarsdóttir

  Það er ánægjulegt að sjá að kjörnir fulltrúar fylgjast með þessu bloggi. Ég vildi að fleiri þeirra leggðu inn komment. Til dæmis um þetta samráðsferli. Hvernig er það eiginlega hugsað hjá borginni. Nú á að fara að byggja gríðarstórt hótel við Austurbakkann í Reykjavík. Hvernig á það að líta út? Það hefur aldrei verið kynnt. Kemur okkur kannski ekki við hvernig það lítur út?

 • Hér er drepið á mikilvægum málim. Kynningarferlinu og yfirgangi fjáraflamanna í skipulagsmálum.

 • Jón Sveinsson

  Skipulagsharmleikur i aðdraganda Hrunsins.

 • Hrafn Hallgrímsson

  Þakka ér pistilinn, Hilmar
  frábær gegnumgangur og nauðsynlegur.

 • Dennis Davíð Jóhannesson

  Guðrún Jónsdóttir er einn merkasti skipulagsarkitekt sem komið hefur að skipulagsmálum Reykajvíkurborgar eins og skipulag hennar á Naustareit og víðar sýna. Hún varað mörgu leyti langt á undan sinni samtíð. Hún bar mikla virðingu fyrir eldri byggð og fínlegum mælikvarða Borgarinnar sem hún skynjaði og skildi betur em margir samtímamenn hennar gerðu. Því miður var valtað yfir margar skipulagshugmyndir hennar og minnist ég sérstaklega skipulags hennar í Skugghverfinu þar sem hún vildi varðveita það besta á svæðinu en með hæfilegri uppbyggingu í anda staðarins.

 • „The very famous colorful bárujárnshús“ í mynd Halldórs hér að ofan, verður að veruleika við Vesturgötu ef þessar framkvæmdir á Naustareit ná fram að ganga.

  Þetta bárujárnshús er við gatnamót Garðastrætis. „Svarta Perlan“ múraði gömlu Naustshúsin inni og nú á að endurtaka leikinn, þarna rétt ofar í götunni. Sorglegt.

 • Eystein J.

  5 ár! Og öllu breytt fyrir Mammon.
  Það verður lærdómsríkt að fylgjast með þessu lögreglumáli.

 • Hjálmar Sveinsson

  Ég er algjörlega sammála því að skipulag Guðrúnar Jónsdóttur á Naustareitnum er mjög gott. Það fléttar sig á fallegan hátt inn í fíngerðan skala gömlu Reykjavíkurbyggðarinnar. En deiliskipulagið sem valtaði yfir skipulag Guðrúnar með miklu meira byggingarmagni og mun grófara inngripi er ekki frá 2010, eins og þú segir Hilmar Þór, heldur frá árunum 2007 og 2008. Ef tvísmellt er á uppdráttinn sem fylgir deiliskipulagsbreytingunni sést að þetta skipulag er samþykkt í mars 2008 í skipulagsráði og í borgarráði. Þá var lóðarhafa færð veruleg uppbyggingarheimild. Þetta voru skrýtnir tímar. Meirihluti síðasta kjörtímabils sat uppi með þessar heimildir og það gerir núverandi meirihluti líka. Sem betur fer hefur tekist að fá núverandi lóðarhafa til að minnka bílakjallarann verulega og laga ný hús svolítið betur að nærliggjandi byggð. Borgin hefur auk þess gert þá ófrávíkjanlegu kröfu að Exeter-húsið verði endurbyggt sem bindingsverkshús eins og það var. Þar verður sem sagt engin stálgrind eða límtrésbitar í burðarverkinu. En niðurrif hússins er og verður lögreglumál.

  • Hilmar Þór

   Þakka er athugasemdina Hjálmar. Ég leiðrétti þessa yfirsjón mína strax í textanum. Þessi dagsetnig segir okkur að skipulæagi Guðrúnar var ekki gjörbreytt á 7 árum heldur bara 5.

   Þetta voru vissulega “skrýtnir tímar” og óvenjulegir sem gerir það að verkum að menn þurfa að stíga varlega til jarðar þegar óskað er eftir gagngerum breytingum á skipulagi.

   Það er ánægjulegt til þess að vita að borgin tekur af fullri hörku á þessu niðurrismáli og setur málið í hendur lögreglunnar. Vonandi liggur fyrir nákvæm mæling og skráning á Exeterhúsinu með teikningum, ljósmyndum og skriflegum úttektum.

   Annars verður erfitt að endurbyggja þetta hús.

 • Ef borgarbúar vilja eiga kost á að búa í alvöru borg þá þarf vissan þèttleika. Til þess að kaupmaðurinn á horninu geti borið sig þarf fólk sem býr í göngufjarlægð. Þess vegna þarf að þétta byggðina. Pistillinn á algerlega rétt á sér þrátt fyrir það. Skipulagið á að vera framsýnna og ekki stjórnast af fjáraflamönnum eða/og „investoren architekten“.

 • Borgin er í stöðugri framþróun sem betur fer og því fylgir betri nýting lóða. Þetta sjáum við allsstaðar í heiminum. Staðsetning gerir það að að verkum að lóðaverð ríkur upp og gömul hús bera ekki þann kostnað sem lagður er á vegna þessa. Borgin er á hraðri og góðri þeið fram á veg og gaman að fylgjast með.

  • Hilmar Þór

   Rétt hjá þér Magnús Þórðarson.

   Borgin er í sífelldri þróun og hefur aldrei verið skemmtilegri en nú. Í heildina er stefnan í skipulagsmálum að feta skynsamlega braut nú um stndir.

   Þessi pistill er hinvegar að vekja athygli á tvennu.:

   Annarsvegar því að maður þarf að vinna vel að skipulagsmálum og þannig að borgarbúar og hagsmunaaðilar þurfa að vita á hverju þeir eiga von næstu áratugi eða svo. Það að gjörbreyta deiliskipulagi á aðeins sjö árum er áhyggjuefni burtséð hvort breytingin er til góða eða ekki.

   Hitt sem pistillinn fjallar um (samt í svona framhjáhlaupi) er viðhorf skipulagsyfirvalda til kynningarferilsins og samráðsins við borgarana og úrvinnsla úr þeim upplýsingum sem þar geta komið fram frá almenningi. Sú úrvinnsla er ekki eins og best væri á kosið. Borgin ætti að virkja borgarana og fagna öllum athugasemdum og svara þeim af metnaði.

  • Þetta sjónarmið þitt Magnús eða trend á sér stað allstaðar í öllum borgum og bæjum, líka í smábæjum. Málið er bara að ábyrg stjórnvöld allstaðar stinga niður fæti og hafa kjark og getur til þess að spyrna við fótum nema í Reykjavík.

   Þakka pistilinn sem er örugglega ekki allra.

 • Sveinn Jónsson

  Og ég sem hélt að deiliskipulag væri hugsað til langrar framtíðar og það væri bundið stórri heildarmynd borgarinnar! En svo er ekki. Er skipulag virkilega hugsað til svo skmms tíma? Kannski bara eins kjörtímabils? Er það nema von að við séum í þessum sporum sem blasa við og stefnan liggur í átt að framtíðarsýn Halldórs.

  Ég hélt að við værum komin á góða leið með að skapa góða borg með sögu. En það er sennilega bara óskhyggja.

 • Virginía

  „Eftir þessa reynslu hef ég ákveðið að gera ekki athugasemdir við skipulagáætlanir framar. Það hefur enga þýðingu samanber mína reynslu.“
  Finnst þetta vera lykilsetning og upplifun margra sem sent hafa inn málefnalegar athugasemdir um skipulagsmál, umhverfismat o.þl.

 • guðjón

  Reynslusaga eða harmasaga?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn