Föstudagur 05.11.2010 - 12:05 - 43 ummæli

Danir teikna fangelsi á Hólmsheiði

Í Morgunblaðinu í fyrradag stóð að einhver seinkun yrði á útboði nýs fangelsis hér á landi. Ástæðan var sögð að verið væri að leggja síðustu hönd á uppdrætti. Ég taldi að þarna væri misskilningur á ferð og átt væri við að leggja síðustu hönd á þarfagreiningu.

Svo rétt í þessu var mér bent á heimasíðu dönsku arkitektastofunnar Alex Paulsen Arkitekter þar sem kynnt er ný fangelsisbygging sem rísa á í Hólmsheiði í nágrenni Reykjavíkur. Þar er að finna afstöðumyndir og grunnmyndir af byggingunni.

Staðan virðist vera sú að ríkið hefur ráðið danska arkitekta til þess að vinna vinnu sem íslenskir arkitektar bíða eftir.

Mér var nokkuð brugðið þegar ég sá þetta í ljósi þess að mikið atvinnuleysi er  hjá arkitektum. Þar er í raun hörmungarástand. Nýlega hefur verið sýnt fram á um 63% atvinnuleysi í stéttinni sem er að líkindum vanmat.

Á þessu hljóta að vera einhverjar skynsamlegar skýringar. En þær liggja ekki í augum uppi. Það er auðvitað sjálfsagður hlutur að leita ráða og umsagnar hinna færustu sérfræðinga um alla veröld þegar á þarf að halda. En sú ráðgjöf á að vera í lágmarki og vera e.k. leiðbeining eða rýni.

Sú ákvörðun að fela hönnunina erlendum arkitektum í því ástandi sem er hér á landi nú er óskiljanleg og þarf að skýra. Fyrir þessu hljóta að vera einhverjar ástæður. Ég vil skjóta því hér inn að tímavinna arkitekta hér á landi er um 10 þúsund krónur meðan í Danmörku er hún á bilinu 18.900 til 23.000. Þarna virðist mér illa farið með almannafé um leið og vinna er tekin af atvinnulausri stétt íslenskra arkitekta.

Hjálagt eru uppdrættir af nýju fangelsi. Uppdrættirnir eru fengnir af heimasíðu Alex Paulsen Arkitekter slóðin er:

http://www.alexpoulsen.dk/dk/projekter/holmsheidi

Þar má lesa að þarna er um að ræða 3600 m2 byggingu sem kosta á 71 milljón danskra króna og að verkið sé unnið á árinu 2010 fyrir dómsmála- og mannréttindaráðuneytið.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (43)

  • Snorri Þór Tryggvason

    Þykir rétt að benda á ritgerð Eyþórs Jóvinssonar (arkitekt, b.a.)
    „Hvernig þjóna fangelsin á Íslandi stefnu Fangelsismálastofnunar?“ (http://skemman.is/item/view/1946/5907;jsessionid=870485AB7EAF7EB526E8408F9E36135B) , en Fangelsismálastofnun sagði honum meira að segja frá samstarfi við þessa stofu.

    Kannski ágætis áminning í leiðinni fyrir arkitekta landsins að það getur borgað sig að fylgjast með yngri kynslóðinni 😉

  • Snorri Þór Tryggvason

    Ótrúlega lúaleg vinnubrögð. Algjört hneyksli ef rétt reynist!!!!

  • Atli Jóhann

    Þetta er svo mikil hneysa að ég á ekki orðum lýst, að segja að íslenskir arkitektar séu ekki með þekkingu til að hanna fangelsi er með ólíkindum. Niðurlægjandi að láta svona útúr sér, þegar íslenskir arkitektar hafa hannað t.d. flugsstöð Leifs Eiríkssonar, Ráðhús í Reykjavík, Perluna, Verslunarmollin stóru í rvík og kó. og fl.
    Þetta er eins og að segja við alla íslenska lögfræðinga að þeir mega ekki verja sakborning sem hefur t.d. veitt fisk umfram vikt. “Þið megið ekki verja sakborninginn þar sem þið hafið ekki þekkingu á fiskveiðilöggjöfinni, verðum að fá erlenda lögfræðinga í málið”….

    Mér finnst merkilegt að umræðan um þetta fangelsismál skuli ekki vera meira opin og meira rætt um þetta í fjölmiðlum.

  • Sigurður H.

    Af hverju hefur ráðuneytið ekki upplýst um þetta fyrr?
    Hví var leynd yfir þessu?
    Því þessi nístandi þögn þar til nú?

  • Örnólfur Hall

    Það eru ekki bara arkitektar sem eru fullir réttlátri reiði og hneykslun. Fjölda manna annarra ofbýður þetta. – Arkitektar hafa alltof oft kynnst blautum tuskum og löngutöngum yfirvalda. – Sárindin og vonbrigðin eru nú, í atvinnuleysinu, enn meira nístandi .

  • Þessi ráðstöfun yfirvalda fangelsismála er hneyksli og ljótur leikur gagnvart íslenskum arkitektum sem öðrum stéttum fremur á í verulegum vandræðum. Það stendur upp á stjórnir Arkitektafélags Íslands og Sjálfstætt starfandi arkitekta að leita skýringa hjá ráðherra Dóms- og mannréttindamála. Hvað gengur þessu fólki eiginlega til?

  • Það er með ólíkindum að hið opinbera skuli bjóða upp á svona framkomu gagnvart nokkurri stétt. Þetta hefur ekkert með góðan eða slæman arkitektúr að gera, ekkert um sérþekkingu á fangelsissviði, þetta snýst um að hunsa algerlega 70-80% arkitekta sem ganga um atvinnulausir á Íslandi. Ég er öruggur um að í Danmörku myndi sá ráðherra sem bæri ábyrgð á svona hneyksli látinn fara.

  • Eftir að hafa lesið kommentin hér og kynnt sér það sem fyrir liggur í málinu er ekki annað að sjá en að stjórnvöld séu á meðvitaðann hátt að niðurlægja heila stétt manna.

    Yfir 400 velmenntuðum einstaklingurinn er sýndur fingurinn af sjálfu mannréttindaráðuneytinu.

    Er ekki hugmynd að sleppa aðalfundi arkitekta í næstu viku og mæta í þess stað með grænar tunnur og barefli við dóms og mannréttindaráðuneytið!!

    Þetta gengur ekki lengur svona og embættismennirnir láte ekki svo lítið að svara fyrir sig.

    Í færslunni gerir höfundur ráð fyrir einhverjum skýringum á ódæðinu..

    Við krefjumst skýringa strax, hér og nú!!!

    Heyrist ekkert í verkfræðingum, landslagsarkitektum, innanhússarkitektum eða SAMTÖKUM ATVINNULÍFSINS.

    Hvar er samstaðan?

  • Baldur Ó. Svavarsson

    Við arkitektar hérlendis höfum ítrekað s.l. 2 ár gengið bognir og bugaðir fram fyrir háæruverðugt yfirvaldið og beðið um BAUNIR til að framfleita okkur og okkar fólki.
    Yfirvaldið hefur miskilið þessa bón okkar hrapalega og þess í stað sendt okkur enn og aftur – BAUNA.
    Hér er sennilega um að kenna krónískum tungumálaerfiðleikum eftir áralanga dýrkun yfirvaldsins á erlendum hönnuðum og klappliði þeirra. Þeim er hreinlega ekki fært lengur að eiga samskipti við okkur Mölbúana enda tölum við ekki útlensku.
    Það má vaflítið margt gott sækja til herraþjóðarinnar, m.a. ævintýri H.C Andersen og ævintýrið um “Nýju fötin keisarans”
    Í það minnsta kemur það ævintýri ítrekað upp í hugann þegar ég lít augum afrek erlendra kollega okkar hérlendis. Yfirvaldinu hefur a.m.k. ekki tekist að galdra fram snilli þeirra erlendu sérfræðinga úr stétt hönnuða sem hér hafa gengið um grundir og undanfarin misseri.

  • Guðmundur G.

    Nú eru mánudagsblöðin komin og þeir sem haldið hafa á fangelsismálum hafa ekki tjáð sig.

    Hvers vegna gera þeir það ekki?

    Það er augljóst.

    Það eru engar varnir til í málinu.

  • @Sigtryggur Gunnarsson
    Hvernig veist þú að ráðherrann viti ekkert um málið
    og hvaða ráðherra þá … Ragna fráfarandi eða Ögmundur núverandi?

    Ég sendi bréf til heimasíðu Ögmundar með fyrirspurn um alla þessa
    Henrik Bjelke og Margrethe Thorhilde áráttu
    … hann hefur kosið að svara henni ekki
    … amk. ekki enn, 2 sólarhringum eftir að ég sendi fyrirspurnina
    en síðan hefur hann svarað einhverrri fyrirspurn frá einhverri konu
    um gömlu skólaljóðin … þið munið í bláu plastik kápunni.

  • Páll Hjaltason

    Þetta á sér skýringar í einangrun sjónmálamanna ekki síður en embættismanna frá samfélaginu. Inn í stjórnkerfinu eru uppi gamaldags viðhorf sem byggjast á mikilli fáfræði um hið raunverulega Ísland. Þó að margir embættismenn séu starfi sínu vaxnir hefur alltaf tíðkast að koma fyrir fólki úr 4-flokkunum inn í stéttina, þarna myndast einhver „stofnanamenning“ sem er ekki í tengslum við samtímann. Þetta fólk veit að það hefur valdið og hefur gjarnan líka hrokafulla sýn á íslenska samtímamenningu, sbr. alkunnan húmor Marðar Árnasona um daginn.

    Þessu verðum við að breyta og það eina sem þetta vald óttast er opinber gagnrýni .

  • Sigtryggur Gunnarsson

    Gauti spyr: Hver er ábyrgur?

    Svar: Stefán Pétur Eggertsson er verkefnisstjórinn.

    Ráherrann veit ekkert um málin.

  • Getur einhver upplýst mig um hver ber ábyrgð á þessum skandal og hvenær samningurinn var gerður við dönsku arkitektana? Þetta skiptir máli bæði út frá faglegum forsendum en líka hinu að þarna er um að ræða nokkra tugi milljóna sem ekki streyma um íslenskt efnahagslíf heldur um danskt.

  • Örnólfur Hall

    Örnólfur Hall segir:
    07/11/2010 kl. 10:43 Ég hef áður skrifað um þá einkennilegu sértrú íslenskra yfirvalda að allt sé vænt sem vel sé danskt (útlenskt) og enn á bæta í lista dansk-hannaða bygginga hér á landi. Nú síðast var það hin dansk–hannaða „íslenska“ tónlistar-HARPA ( Reyndar slapp LSH rétt fyrir horn við að lenda hjá dönskum). Yfirvöld neyddust til að viðurkenna hæfni og getu eigin arkitekta.
    Enn dúkkar þessi árátta upp og enn og aftur á að láta danska hanna opinbera byggingu, Ríkisfangelsið, af því að þeir hafi svo góða reynslu og þekkingu á tukthúsmálum.
    Það er eins og íslenskir arkitektar hafi ekki komið að hönnun fangelsa og geti ekki bætt við við sig nýrri þekkingu erlendis frá (úr öllum upplýsingasægnum). Þetta gera þeir stöðugt þegar þeir fást við ný verk: afla sér bestu fáanlegra upplýsinga um efnið.
    Það má t.d. nefna að bestu fangelsin (endurhæfingarfangelsin)
    eru í Bandaríkunum. Þaðan hafa menn komið út betri borgarar (á sál og líkama) hafandi fengið þjálfun og menntun við hæfi t.d. í lögfræði, verkfræði og mörgum öðrum fögum. Fangelsishönnunin hefur miðast við gera þetta kleyft. Við gætum lært af þessu.
    – En nú segja íslensk yfirvöld: nú þarf sko danska til !!!

    Örnólfur Hall

    PS Það er kannski ljótt að segja þetta en það er eins og enn eimi eftir af gömlu íslensku nýlenduhugsuninni hjá stjórnvöldum að leita stöðugt til gömlu herraþjóðarinnar um alla hluti og þau séu enn oft óvilhöll og skeytingarlaus gagnvart eigin þegnum.

    PS Pistillinn hefur ekkert með gagnrýni á danskan arkitektur að gera.

    PS Ég treysti því að okkar ágæta Forysta taki á þessu af röggsemi og hörku. -NÚ ER MÆLIRINN FULLUR-

  • Hér er annað kommment frá athugasemdarkerfi Eyjufréttar um málið:

    „Útlendingurinn 6.11 2010 20:58
    Það þarf ekki sérmenntaða arkitekta til að hanna fangelsi, né spítala eða tónlistarhús. Það er hornsteinn í menntun arkitekta að nálgast viðfangsefni sín með upplýsingaöflun og greiningum. Enda eru engin tvö fangelsi eins. Að hanna mannvirki er teymisvinna en það er arkitektin sem heldur í þræðina og spinnur þeim saman í heildstæða mynd.

    Danir eru faktískt með í útboði núna samkeppni um fangelsi og það verður ansi upplýsandi hverjir verða fyrir valinu þar.

    Slæmur arkitektúr er ekki einskorðaður við þjóðerni. Skora á alla íslendinga að skoða heimasíður arkitektastofanna á íslandi. Þar er verið að gera góða hluti. Afhverju eru borgin þá svona ? Svarið er ekki að finna í menntunarskorti eða þjóðerni arkitekta. Svarið er að finna allt annarsstaðar. Og það er eflaust margþætt. Það blasir við að brask hefur breytt ásjónu borgarinnar í blandi við það að misvitrir pólítíkusar hafa verið að vasast í skipulagsmálum. Það er búið að breiða úr borginni síðustu áratugina þannig að ómögulegt er að reka almenningssamgöngur. Allir þeir sem vilja vita sjá það strax að húsabrask hefur verið eitt af því sem hefur verið hvað mest spilling í kringum. Hér er því ekki við arkitektana að sakast og þeirra vinnuumhverfi verið vægast sagt ömurlegt. Þættirnir eru miklu fleiri og ættu íslenskir arkitektar að gera átak í ímyndarmálum sínum því hún er í molum. „

  • Engin stétt er eins nídd af ríkis-valdinu í dag og arkitektar.
    Kannski vegna skyldleika okkar arkitekta við arkitektinn Dario Fo?
    „Nakinn maður og annar í kjólfötum“
    „Stjórnleysingi ferst af slysförum“
    „Við borgim ekki, við borgum ekki“
    Ekkert hræðist valda-kerfið meir en þá anarkísku hugsun
    sem býr í sköpuninni, sér í lagi þegar hún geysist nú fram á ritvöllinn
    og þá óheft af reglugerða-fargani og klíkuskap bírókratanna
    en fylkir þess í stað með Þórbergi í andanum inn á þrívíðan völl óráðs
    hinnar frjálsu sköpunar og stingur á kýlum, sem broddfluga Sókratesar.

  • Greetings from Austria. Is it not unbelievable what you architects in Island have to go through? I can send you mz deepest solidarity wishes and have to to tell zou: go after this case. Regarding to European (EU) law and awarding contracting rules a case like this would never be possible. I am quite sure that you can successfully fight against the job, if necassary in front of European court in Strassbourg. There must be total transparency with public jobs, after preparation a public and open competition should start, probably open for all over EU / EEA. And: this project of Alex Poulsen would probably go out in the first roundin the jury meeting in a fair procedure – but this we all know. And because of that it is even more hurting in the architect soul, specially because they are telling you about the difference in competence between zou icelandic and the danish colleagues. So, please make pressure on the government and go after it, if necessary in front of court. Afram!

  • Þetta er athyglisvert komment við fréttina á Eyjunni!

    Sniddan, Klippt Og Skorin 5.11 2010 16:12
    @ Lítillátur 5.11 2010 15:39

    Íslenskir arkitektar er sú stétt, að öðrum stéttum ólöstuðum, sem eru okkar mestu heimsborgarar. Þar til fyrir tæpum 10 árum þá lærðu allir íslenskir arkitektar sitt fag erlendis. Allt þetta fólk á 4 til 7 ára háskólanám að baki í erlendum Arkitektaskólum / Listaháskólum.

    Þó svo boðið sé upp á nám við arkitektúr hér heima þá hefur og er fjöldi fólks við ná erlendis í arkitektúr.

    Við skulum ekki gera lítið úr einni af best menntuðu stétt landsins.

    Eina ástæðan fyrir ásókn íslenskra embættismanna að eiga viðskipti við erlenda arkitekta er að með því þá gefst þessum embættismönnum tækifæri að fara í nokkrar ferðir til útlanda. Þar fá þeir dagpeninga og allar þessar dönsku arkitektastofur bjóða þessum íslensku viðskiptavinum sínum alltaf upp á snafs og bjór þegar þeir koma í heimsókna. Það þekkir Sniddan.

    Þessi „hlunnindi“ fá þessir íslensku embættismenn ekki þegar þeir eiga í viðskiptum við íslenskar arkitektastofur.

    Ráðuneytinu var í lófa lagið að semja við íslenska arkitektastofu um þessa vinnu. Íslensku arkitektarnir hefðu þá leitað sér gagna hjá evrópskum og bandarískum sérfræðingum í gerð fangelsa væri þess þörf.

    Skammist ykkar embættismenn dóms- og mannréttindaráðuneytisins, svo og fyrrverandi og núverandi ráðherra að leyfa embættismönnunum þessa ósvinnu.

    Ef Sniddan væri á þingi þá mundi hún leggja fram vantrausttillögu á núverandi dóms- og mannréttindamálaráðherra.

    Svona gera menn ekki í dýpstu kreppu Íslandssögunnar við þá stétt sem einna verst hefur farið út úr samdrætti liðinna missera.

    Skömm ykkur embættismenn dóm- og mannréttindaráðuneytisins.

    Sniddan vildi að hún væri í aðstöðu til að reka 70% ykkar en það er hlutfall arkitekta sem hafa misst vinnuna frá hruni.

  • Miðað við tilefnið er umræðan mjög lágstemmd.
    Hér varð eitt stykki hrun, ma. fyrir sofandahátt og meðvirkni
    íslenskrar stjórnsýslu. Ófagleg og ógagnsæ vinnubrögð framkvæmdaræðisins hafa verið gagnrýnd. Nægir þar að vísa til Rannsóknarskýrslu Alþingis.
    Sumir kjósa (á Sartre-ískan hátt) að trúa því að nú sé allt faglegt og transparent.
    Að þeir sem gagnrýni séu þá kannski bara helvíti hinna rétt-trúuðu?
    Er það eðlilegt, að afgreiða gagnrýni þannig?
    Er það málefnalegt, að afgreiða gagnrýni þannig?
    Með hliðsjón af afhjúpum Rannsóknarskýrslunnar?

  • Hilmargunn

    Þetta er skaup. Ætli það sé tímaeyðsla að ætla sér að verða arkitekt á Íslandi ?

  • @Árni Ólafsson
    Í hvaða afneitunar-heimi býrð þú eiginlega?

  • Árni Ólafsson

    Málefnalega umræðu takk !

  • Henrik Bjelke gæti svo mætt á skipi sínu í Kópavog
    og hirt rónana á Arnarhól og tugthúslimina í Stjórnarráðinu
    og siglt með þá í betrunarvist á Brimarhólmi.
    Þeir hlytu að fagna því, svo danavænir sem þeir eru.

  • @Kristján Sig Kristjánsson

    Það væri amk. við hæfi að setja rimlana þar fyrir glugga með
    ráðherra-stóðið innilokað. Þar með væri það vandamál leyst.
    Það mætti reyndar kannski notast við Jóhönnu á víbratórinn
    meðan verið væri að innsteypa rimlana.

    Rænulausa ráðuneyta-pakkið gæti svo notast við sína belgmiklu ríkis-pansjón til að rónast með Gammeldansk á bekkjunum við Arnarhól.
    Það gerði ekki verra af sér á meðan.

  • Voru það ekki Danir sem teiknuðu Stjórnarráðshúsið sem fangelsi?

  • Já það eru til íslenskir hönnuðir með slíka reynslu og það findna með þessa umræðu um vonlausa íslenska arkitekta að þeir eru flestir ef ekki allir allir menntaðir erlendis.

  • Hilmir B Auðunsson

    Mér finnst þetta vera áfellisdómur yfir íslenskum arkitektum. Ég er ekki hissa á því að menn séu að leita útfyrir landið þegar maður skoðar arkitektúr hér síðustu ár ,sem allt of mörgum þykir einn sá ljótasti í heimi.
    Enn auðvita á að láta gera þetta hérna er það ekki ? Hafa íslenkir hönnuðir reynslu af svona bygginum ? eða yrði þetta enn eitt illa hannaða lýtið á íslenskum byggingariðnaði helmingi dýrara enn það þyrfti að vera ?
    Enn hvað veit ég ? ég er bara svona iðnaðarmaður 😉

  • Og er ekki verið endalaust að telja okkur trú um að ráðmenn séu hér á fullu að halda hér uppi einhverju atvinnustigi. En ein vísbending um að ráðuneytin eru bara að þvælast, fyrir með rangar ákvarðanir eins og þessa. Þeim finnst allt betra en íslenskt.

  • Helgi Hallgrímsson

    valdimar

    Þetta er tóm vitleysa hjá þér. Dæmi um nýlegar stórar byggingar eftir erlenda hönnuði eru t.d. háskólinn í Reykjavík, Harpa og svörtu blokkirnar í skuggahverfinu. Bara allt í lagi að hafa helstu staðreyndir á hreinu ef maður ætlar að fara að drulla yfir heila stétt.

    Varðandi þetta fangelsismál þá á ég mjög erfitt með að ímynda mér neina skýringu sem gæti réttlætt þetta. Þetta er ekkert annað en skandall.

  • @valdimar
    Hver ætti þá stjórnsýslan að vera? Og allar opinberar stofnanir með mönnum og músum? Danskar? Danir eru ágætir, en gættu … valdimar … að, áður en í knérunn þinn yrði þá fyrr en síðar vegið.

  • Jóhannes Þórðarson

    Þessi ótrúlega frétt er ekki síður sérstök fyrir þær sakir að í júlí 2003 var íslensku arkitektastéttinni og íslenskum verktökum att út í endalausa vinnu við að útbúa umsóknir til að fá að taka þátt í alútboði um byggingu á nýju fangelsi á Hólmsheiði í Reykjavík. Milligönguaðili í því forvali (forval nr. 13308) var Framkvæmdasýsla ríkisins!! Eftir það forval voru nokkrir aðilar valdir til þátttöku. Síðan hefur ekkert gerst þar til nú að pukrið er opinberað.

  • Nú verða íslenskir arkitektar að spyrna hressilega við.
    Þetta helvíti íslenskra vald-herra gengur ekki lengur.
    Nýlega fór fram eitthvað kjaftæði á vegum Ríkiskaupa
    … örútboð, þar sem einhverjir arkitektar voru svo desperat
    að bjóða í smælki, sem ekki er til …
    með kynningu á glærum, merktum Sjóvá(?)
    Nú kemur svo eitt stykki djeilhás … og þá bara utan og ofan við allt.
    Hvað er eiginlega í gangi?
    Verður fjárfestirinn kannski Saga Capital í boði Das Capital
    Steingríms Þistilfirðings, með nokkra „blámenn“ danska að teikna?

  • Íslendingar ættu einmitt að nota erlenda arkítekta eingöngu til að forðast ljót byggingarslys eins og Borgarleikhúsið eða t.d. tónlistarhúsið Hörpu.
    Þjóðmenningarhúsið byggt 1907 var síðasta stóra húsið sem teiknað var af dana. Glæsileg bygging á evrópska vísu, íslenskir arkítektar nei takk.

  • Hallgerður

    Hvet menn til að skoða heimasíðu þessara dönsku arkitekta, það sem þar má augum líta er ekki upp á marga fiska. Afsakið ókurteisina.

  • Gunnar Jónsson

    Hvernig er hægt að veita þessari óheillaþróun viðspyrnu? Væri ekki við hæfi að AI krefðist skýringa ráðuneytisins á þessari ákvörðun?

  • Þetta er ekki gott. Reyndar ótrúleg skammsýni í ráðuneyti dómsmála. Eða hvar það nú er sem þessi ákvörðun er tekin.

  • Hér er frétt frá 1.7.2010
    http://www.domsmalaraduneyti.is/frettir/nr/7619
    Þar segir: Vinna við forathugun hinnar nýju fangelsisbyggingar er að mestu lokið. Nú er hafin vinna við gerð frumáætlunar og uppdráttar að fangelsinu

  • Furðulegt að okkar „vel menntaða þjóð“ vinni þetta ekki sjálf. Margir vel menntaðir eru nú þegar burtfluttir vegna atvinnumála. Ætli Alex Paulsen Arkitekta vanti starfsmenn?

  • Já og nota bene, þessi frétt er frá því fyrir 2 dögum síðan
    http://www.mbl.is/mm/frettir/forsida/2010/11/03/thrju_sveitarfelog_berjast_um_byggingu_nys_fangelsi/

    Spes

  • Þetta var ekki boðið út

  • Steinarr Kr.

    Líklega hefur þurft að bjóða þetta út á ESS svæðinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn