Föstudagur 01.03.2019 - 16:00 - Rita ummæli

Deiliskipulag Kvosarinnar í Reykjavík.

það hefur ýmislegt gerst í skipulagsmálum Kvosarinnar síðustu 60 árin. Aðalskipulagið 1962-84 var auðvitað slæmt þá og enn verra þegar við skoðum það núna. Skipulagið stefndi að því að gera borgina að einkabílaborg samkvæmt bandariskum hugmyndum. Öll hugsun að baki skipulagsins var strax úrelt. Þarna átti að koma hraðbraut í gegnum Grjótaþorpið og Geirsgata átti að vera á öðru plani eins og sjá má á Tollstöðinni. Skólastræti og Kirkjustræti átti að vera fjórar akreinar framhjá Dómkirkjunni og Alþingishúsinu við Austurvöll. Það merkilega er að þegar þetta skipulag var samþykkt hér á landi var grasrótin vestanhafs og austan að hafna þessum hugmyndum samanber Jane Jacobs sem margir þekkja.

Næst kom skipulag Gests Ólafssonar frá árinu 1977 sem náði til eldri hverfa borgarinnar. Þar var briddað á mörgum nýjungum, einkum varðandi bílaumferð og landnotkun. Þar m.a. var lagt til að Laugavegur yrði göngugata, sem auðvitað var umdeilt. Þetta var gott skipulag sem ekki náðist að staðfesta.

Deiliskipulagið frá 1988

Svo kom merkilegt og stórgott deiliskipulag Kvosarinnar frá hendi Dagnýjar Helgadóttur og Guðna Pálssonar arkitekta. Þar var í raun brotið blað í skipulagi Kvosarinnar vegna þess að það byggði á greiningu á staðarandanum (Genius Reykiavicensis) og því að setja manneskjuna í forgrunninn.

Ég held að það hafi verið nokkuð breið sátt um þetta skipulag almennt séð og meginhugmyndirnar hafa haldið þau rúm 30 ár sem liðin eru síðan það var staðfest sanna það. Ástæðan fyrir þessari sátt er fyrst og fremst sú að skipulagið byggir á þeirri hugmynd að skilgreina staðarandann þarna og byggja skipulagið á þeirri skilgreiningu ásamt því að setja manneskjuna og lífið milli húsanna í fyrsta sæti og lífið í húsunum í annað sæti og síðast en ekki síst einkabílinn í fjórða sæti. Þetta var nýlunda hér á landi. Skipulagið var unnið af næmleika fyrir umhverfinu með það að markmiði að styrkja kosti þess umhverfis sem fyrir var og draga úr veikleikum þess.

Deiliskipulagið var unnið af djúpri tilfinningu fyrir þeim gæðum sem fyrir voru. Lagt var til að allnokkur hús yrðu rifin. Reyndar allt of mörg eins og síðar kom á daginn sem betur fer. Þetta var líkast til nauðsynlegt til þess að hugmyndirnar hlytu brautargengi. Það sýndi sig fljótlega að það þurfti ekki að rífa þau hús sem heimilað var að rífa og voru þau í þess stað gerð upp. Ég nefni öll húsin vestan við Alþingishúsið við Kirkjustræti. Önnur voru byggð upp í takti við eldri hús eins og sjá má við sunnanvert Aðalstræti og upp Túngötu. Má því segja að tíminn og tíðarandinn hafi unnið með hugmyndum þeirra Dagnýjar og Guðna.

Höfundarnir töldu nauðsynlegt að fastmóta nýbyggingar á svæðinu þannig að sem heillegust bæjarmynd næðist. Reyt var að ná fram sterku og aðlaðandi svipmóti með hliðsjón af sérkennum og hlutföllum núverandi byggðar sem fólki þótti vænt um.

Lögð var áhersla á lóðrétt form í húsagerð þar sem götur eru frekar stuttar og stuðlað að litlum einingum þar sem breiðari einingar draga úr tilbreytingu götunnar eins og nú má sjá við Hafnartorg. Þetta þykir sérstaklega mikilvægt á göngusvæðum í  miðborgum. Þetta þekkja allir sem kynnt hafa sér kenningar Jan Gehl hugsuðar og borgararkitekts sem er færasti sérfræðingur veraldar í göngugötum og göngusvæðum.

Þök áttu að vera mænisþök samsíða götu með góðum þakhalla. Gert var ráð fyrir mismunandi hæðum en ekki meira en 4 1/2 hæða húsum.

Skilgreinimg landnotkunar var líka öðruvísi á áður mátti venjast og lík hugmyndum Gests Ólafssonar sem áður er getið. Gert var ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð. Skrifstofum á annarri og þriðju hæð og íbúðum þar fyrir ofan. Í skipulaginu var gert ráð fyrir að auka byggingamagnið á svæðinu úr 140 þúsund fermetrum í um 180 þúsund eða um 40 þúsund fermetra. Það var og er mikið.

Varðandi mennigarminjar stendur í greinargerð deiliskipulagsins frá 1986 „þar sem telja má víst að fornminjar sé að finna á mörgum stöðum í Kvosinni, er æskilegt að tekið sé tillit til þeirra“. Þarna var létt sloppið en viss trygging sett inn í greinagerðina líklega vegna þess að þetta var ekki skoðað ítarlega. Ekki var gerð grein fyrir neinum sérstökum menningarminjum í deiliskipulaginu og því var Víkurkirkjugarður ekki nefndur. Þetta er líklega aðalástæðan fyrir því að Víkurkirkjugarður gleymdist með þeim afleiðingu sem við þurfum að horfa uppá í dag  sem er auðvitað hörmulegt.

Það trúa því eflaust ekki margir, en þegar árið 1988 var samþykkt að miðborg Reykjavíkur yrði nánast bíllaus. Þetta skipulag með öllu þessu göngusvæði var staðfest af ráðherra og er því enn í fulli gildi.

+++++

Efst í færslunni er mynd af staðfestum deiliskipulagsuppdrættinum frá 1988. Þarna má sjá hvernig fótspor bygginganna eru í samræmi við það sem fyrir var og hvernig lögð er áhersla á gangandi vegfarendur.  Ég vek athygli á gönguleiðum að baki húsanna. Til dæmis frá Austurstræti alla leið niður að Tjörn. Þetta gerir það að verkum  að verslanir og veitingahús hafa aðgengi frá tveim hliðum eins og milli Austurvallar og Austurstrætis nú.

Að neðan koma svo allmargar myndir úr skipulaginu með skýringum.

Séð norður Aðalstræti. Gólf gatnanna nær frá húsvegg að húsvegg. Líklega er þarna nokkuð um PPS götur þó hugtakið hafi ekki verið til 1988! (PPS=Pedestrian Priority Streeet)

Þarna er Víkurkirkjugarður nefndur „Garður Skúla Fógeta“.

Þarna hefur verið byggt samkvæmt skipulaginu. Gamli Kvennaskólinn stendur enn og mun ekki vera látinn víkja eins og deiliskipulagið heimilaði.

Áður var nánast hvergi hægt að ganga að Tjörninni. Fyrirstaðan voru háir bakkar og trjágróður sem skildi milli fótgangandi og Tjarnarinnar.  Nú var lagt til að hægt væri að nálgast Tjörnina og gönguleiðir lagðar með vatnsbrúninni. Þessi framkvæmd ásamt endurgerð Vonarstrætis og Tjarnargötu voru gerðar í tengslum við byggingu Ráðhússins og voru gjaldfærð þar að sögn þeirra sem til þekkja.

Eins og sjá má á yfirlitsmyndinni efst í færslunni var Kvosin öll gerð að vettvangi gangandi.  Bara það að fá þetta samþykkt var kraftaverk á sínum tíma og eflaust kostað margar málamiðlanir. Hér sést hvernig Austurvöllur var endurhannaður. Þetta er framkvæmd sem ráðast þyrfti í sem allra fyrst og áður en næsta búsáhaldabylting ríður yfir.

Gríðarlega vandað og fallegt líkan í mælikvarðanum 1:200 var gert af allri Kvosinni. Líkanið var svo nákvæmt að sjá mátti alla glugga í flestum húsum sem skiptu máli og í öllum nýbyggingum. Þetta líkan og þessi vinna sannaði hversu mikla alúð menn lögðu í þetta verk. Staðarandinn var meginstoðin sem skipulagið stendur á. Þetta skildu menn og svona vildu þeir hafa það. Undan farin örfá misseri virðast menn hafa misst sjónar af þessu grundvallaratriði í skipulagi og byggingalist. Myndin að ofan er tekin frá Tjörninni og suðureftir Kvosinni. Hér sést vel hvernig aðgengi að Tjörninni var rýmkað.

Hér er litið austur Hafnarstræti og Austurstræti.

Efst í horninu til vinstri má sjá stórt bílastæðahús þar sem einnig var að finna samgöngumiðstöð borgarinnar. Þar átti að vera strætó, langferðabílar og flugvallarrútan. Þetta þótti rétti staðurinn vegna þess að þaðan var nánast allt í göngufæri og góðar tengingar milli margra langferðabíla og leigubíla. Það markmið að hægt væri nánast að ganga innandyra frá samgöngumiðstöðinni á Landspítalann var ekki forsenda fyrir staðarvali eins og nú.

++++

Á morgun klukkan 15:00 verður rætt um Kvosarskipulagið  frá 1988 í þætti Lísu Pálsdóttur á Rás 1 á RUV.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn