Fimmtudagur 07.03.2019 - 09:40 - Rita ummæli

Hafnartorg og Austurhöfn – deiliskipulag

Ég var á Rótarýfundi í hádeginu í gær þar sem uppbygging við Austurhöfn var til umræðu. Það var H. Águst Jóhannesson formaður félags endurskoðenda sem hafði framsögu. Þar sem ég sat og hlýddi á ágætt erindi frummælandans fór ég að enn einu sinni að velta fyrir mér deiliskipulaginu þarna og hvað deiliskipulag skiptir miklu máli. Hvað væri þarna gott og hvað mætti betur fara.

Í mínum huga ætti Lækjargatan og Kalkofnsvegur arkitekttóniskt og skipulagslega séð að vera sama gatan. Sama á við um Kvosina, sem fjallað var um í síðasta pistli. Kvosin ætti að hafa svipaðann karakter frá Tjörninni að höfninni.  Sömu arkitektónisku einkennin ættu að ráða á öllu svæðinu. Undantekningar ættu bara að vera byggingar sem hafa algera sérstöðu. Byggingar á borð við Ráðhúsið og Hörpu svo dæmi séu tekin.

En svo er ekki.

+++

Svæðið skiptir algerlega um öll einkenni við Tryggvagötu. Líklega munu margir telja það arkitektónisk og/eða skipulagsleg mistök.

Það var og er almenn sátt um staðarandagreiningu arkitektanna Dagnýjar Helgadóttur og Guðna Pálssonar í deiliskipulagi þeirra í Kvosinni sem staðfest var 1988.  Þar voru húsagerðir skilgreindar og öll Kvosin gerð að göngusvæði í anda Jan Gehls. Skipulagið var staðfest af ráðherra og er enn að mestu í fullu gildi.

Helstu gallana varðandi Austurhöfnina má rekja til deiliskipulagsins sem var afskaplega lítið unnið. Það er eins og höfundarnir og hönnuðir húsanna þarna hafi litið á svæðið sem eyland sem ekki væri í tengslum við umhverfi sitt. Og Þarna er ég að tala um að svæðið sé bæði skipulagslegt og arkitektóniskt eyland.

Það hefði verið ánægjulegt ef höfundar deiliskipulagsins við Austurhöfn, Hafnartorg, hefðu tekið mið af greiningu Dagnýjar og Guðna á staðaranda Kvosarinnar og fært þær hugmyndir á svæðið alla leið að Hörpu.

Deiliskipulagið er gallað í meginatriðum. Ekki er gert ráð fyrir Borgarlínunni deiliskipulaginu þó liklegt sé að þarna verði ein mikilvægasta stoppistöð Borgarlínukerfisins. Ekki var í forsendum eða úrvinnslu tekið tillit til menningarminja sem þarna voru. Ég nefni vegghleðslurnar tvær sem þurfti að taka niður. Sama á við um steinbryggjuna í Póstússtræti sem kom í ljós við jarðvinnuna. Ekki var tekið tillit til mikilvægra sjónása frá Arnarhól og að honum eftir Geirsgötu.

Hnika hefði þurft Geirsgötunnni um svona 3-5 gráður austan Tollhússins til þess að fá stefnu á styttu Ingólfs á Arnarhóli með senuturni Þjóðleikhússins í bakgrunni. Opna hefði þurft sjónlínu frá styttu Ingólfs Arnarsonar að Faxagarði, höfninni og út á sjó. Vegna mikilvægi Hörpu sem byggingalistaverk, kennileiti og menningarmiðstöð, hefðu húsin í grenndinni þurft að vera lágstemmdari og meira í anda staðarvalsgreiningar Kvosarskipulagsins.

Deiliskipulagið virðist hafa tekið tillit til viðurkenndra skipulagsmistaka á borð við Tollstöðina í skipulagsgerðinni og haldið áfram þaðan í stað þess að nota tækifærið og  draga úr áhrifum þessarra stóru mistaka og draga fram kosti svæðisins eins og frekast er unnt. Harpa fær ekki sinn verðskuldaða sess vegna þess að stærð, áferð og formmál nýbygginganna frá Hanfarstræti er þannig að það hallar á Hörpu og dregur úr sérstöðu og jákvæðum áhrifum hennar og yfirburðum sem byggingalistaverk og menningarmiðstöð.

Manni sýnist að tekið hafi verið mið af Tollhúsinu og Hafnarhúsinu þegar stærðarhlutföll voru ákveðin. Tollhúsið er viðurkennd sem skipulagsmistök. Þetta átti auðvitað ekki að vera viðmiðið í deiliskipulagsgerðinni. Heldur hefði átt að nota deiliskipulagið til þess að draga úr neikvæðum áhrifum Tollhússins á umhverfið og draga fram kosti Kvosarskipulagsins og færa það áfram í átt að höfninni og Hörpu. Búa til heildstæða og harmoniska miðborg allra landsmanna.

+++

Á deiliskipulaginu við Austurhöfn er hið svokallaða Hafnartorg með verslunum, íbúðum og skrifstofum. Þar fyrir norðan er verið að byggja íbúðir og fimm stjörnu hótel ásamt nýjar aðalstöðvar Landsbankans og nyrst er tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa. Undir öllu er svo bifreiðageymsla fyrir um 1100 bíla.

Samkvæmt endurskoðuðu deiliskipulagi frá því 2015 er gert ráð fyrir um 118 þúsund fermetrum af nýbyggingum án bílakjallara og alls  um 214 þúsund fermetrum með honum. Þetta er gríðalegt magn þegar borði er saman við deiliskipulag kvosarinnar þar sem gert var ráð fyrir aukningu bygginga um 40 þúsund fermetrum úr um 140 þúsund upp í um 180 þúsund.

+++

Efst er deiliskipulagsuppdráttur Austurhafnarinnar. Það vakti strax athygli að fótspor bygginganna var í allt öðrum mælikvarða en almennt gerist í Reykjavík. Deiliskipulagið virðist taka mið af stærstu byggingunum í nágrenninu sem eru viðurkennd skipulagsmisstök í stað þess að nota tækifærið og deiliskipuleggja þannig að þessi mistök væru ekki eins áberandi. Þetta sést greinilega þegar byggingareitirnir norðan Tryggvagötu eru bornir saman við fótspor húsanna sunnan götunnar í horni uppdráttarins til vinstri.

Á myndununum hér að ofan sést að Hönnuðir húsanna hafa séð hversu mikilvægir sjónásarnir eru og láta styttu Ingólfs Arnarssona á Arnarhól og sviðsturn Þjóleikhúsins blasa við enda bæði Tryggvagötu (efri myndin) og Geirsgötu (neðri myndin). En sannleikurinn er sá að þetta er ekki svona í reynd. Hvorki styttan né sviðsturnin sjást úr götunum tveim frá þessu sjónarhorni. En auðvitað ber að hafa í huga að þetta eru söluteikningar sem líklega eru á ábyrgð auglýsingateknara. Arkitektar gera ekki svona. Auðvitað gefur það mikilvæg skilaboð til væntanlegra kaupenda eða leigjenda að ganga úr verslunum beggja vegna Tryggvagötu og Geirsgötu og sjá helstu kennileiti borgarinnar blasa við þegar komið er út á gangstétt. Líkt og þegar Sigurboginn i París mætir auganu á Champs Elysees og Hallgrímskirkja á Skólavörðustíg. En svoleiðis verður þetta ekki þó það hafi verið sterklega gefið í skyn á hjálögðum myndum sem ég fann á netinu.

Hér að neðan eru svo myndir teknar á svipuðum stað í gær sem sýna muninn. Ingólfur og senuturninn sjást ekki í raunveruleikanum.

 

Að ofan eru teiknaðir inn á deiliskipulagið mikilvægir sjónásar. Aðeins hefði þurft að hliðra Geirsgötu 3-5 gráður við Tollhúsið til þess að hún tæki stefnu á Arnarhól og sviðsturn Þjóðleikhússins. Ekki er augljóst hvernig hefði verið hægt að gera það sama vegna Tryggvagötu þó höfundar tölvumyndanna hafi freistast til þess að láta það líta þannig út.  Faxagarður er ein af gömlu bryggjum Reykjavíkurhafnar. Sjálfsagt hefði verið að taka meira mið af honum og opna útsýni til hafnarinnar og hafs frá Arnarholnu séð. En það var ekki gert og hljóta að ligga sterk rök fyrir því. Og hvergi bólar á Borgarlínunni á skipulagsuppdrættinum.

Þegar framkvæmdir hófust komu í ljós merkilegar gamlar menningarminjar sem við eigum ekki mikið af hér í Reykjavík. Þessi merkilegu mannvirki hefðu átt að vera í skipulagsforsendum þannig að hægt hefði verið að taka upplýsta afstöðu til þeirra í skipulaginu.  Þarna er um að ræða tvo gamla hlaðna hafnargarða og gömlu steinbryggjuna sem kom í framhaldi af Pósthússtræti. Myndirnar að ofan er af öðrum hafnargarðinum áður enn hann var rifinn og hin er af því sem eftir er af steinbryggjunni og fyrirhugað er að vernda. Þetta er allt hið vandræðalegasta mál. Hafnargörðunum var rutt um koll en hluta gömlu steinbryggjunnar á að vernda þó hún hafi fyrir slysni ekki komið í gangstéttarhæð. Á myndinni hér að neðan sést steinbrygggjan þar sem margt fyrirmanna gekk á land í Reykjavík og annar hafnargarðanna sem var tekinn upp.

Á tölvumyndinni að ofan virðist húsið til vinstri, Hafnarstræti 22 vera álíka hátt og nýbyggingarnar við Hafnartorg.  Illa virðist ganga að selja íbúðir þarna og legja út verslunarrými þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir um 1100 bílastæðakjallara þarna undir. Fyrsta verslunin á svæðinu opnaði í byrjun okróber á síðasta ári og reiknaði fólk með að ný verslun mundi opna vikulega fram að jólum þegar mikil og eftirsótt velta er almennt í verslunum. En það gerðist ekki.  Engin önnur verslun hefur opnað þarna til viðbótar í tæpt hálft ár. Rétt að benda á að eina verslunin sem hefur opnað þarna helgar sér meira en 150 metra sýningargluggapláss á jarðhæð og á annarri hæð. Þetta fyrirkomulag er líklega hvergi á jarðarkringlunni leyft í miðborgum enda dregur þetta úr gæðum gatnanna fyrir fótgangandi.

Að ofan er fyrirhuguð bygging Landsbankanns við Kalkofnsveg. Þetta er ágætis bygging eins og flestar byggingar á svæðinu en ber einkenni húsa sem standa við umferðagötur þar sem byggingin þarf að upplifast á 60 km hraða. Þetta er svona „skulptúrarkitektúr“ og kennileiti fyrir þá starfssemi sem þarna á að vera. Þessi bygging ásamt Hafnartorgi og Mariott hótelinu mun draga úr sérkennnum og sérstöku Hörpu og dregur úr gæðum svæðisins sem gönhusvæði. Þetta er ekki dæmigerð bygging í göngugötum eða á göngusvæði.

Íbúðahúsin við Austurbakka er eina húsið sem tekur mið af skilgreiningu Kvosarskipulagsins á staðarandanum frá 1986. Þessi bygging er dæmigerð miðborgarbygging, borgrhús, þar sem höfunda hafa gangandi vegfarendur í huga. Lögð var áhersla á lóðrétt form í húsagerð þar sem hús og húshlutar eru frekar stuttir og stuðlað að litlum einingum þar sem breiðari einingar draga úr tilbreytingu götunnar eins og stefnt er að í grendinni. Þetta þykir sérstaklega mikilvægt á göngusvæðum í  miðborgum. Þetta þekkja allir sem kynnt hafa sér kenningar Jan Gehl hugsuðar og borgararkitekts sem er færasti sérfræðingur veraldar í göngugötum og göngusvæðum. Ef húsin hefðu verið 4 hæðir og ris eins og stefnt var að í Kvosarskipulaginu hefði þetta hús eða húsaröð verið nánast fullkomin. En húsahönnuðirnir réðu ekki ferðinni hér nema að takmörkuði leiti og það notfærðu þeir sér vel.

Að ofan er mynd af Marriott hótelinu sem þarna er að rísa og mun opna fljótlega. Harpan sést til vinstri.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn