Miðvikudagur 23.05.2018 - 11:06 - 4 ummæli

Deiliskipulag Skuggahverfisins – Sjónásar og fl.

“ Hafa ekki allir sem ganga um Laugaveginn fundið hve skemmtilegt er þegar þvergöturnar opna skyndilega sýn niður að sjó og í sneið af Esjunni?“ skrifaði Ormar Þór Guðmundsson arkitekt í grein í Lesbók Morgunblaðsins vorið 1984. Greinina skrifaði Ormar í tilefni af því að fyrstu tillögur að nýju skipulagi fyrir Skuggahverfið voru að gera vart við sig.

Þetta var rétt hjá Ormari og skipulagshöfundar sem komu að verkinu voru meðvitaðir um þetta mikilvæga atriði og fleiri önnur. Af þesssari ástæðu var gert ráð fyrir að húsin í nýja skipulaginu væru lægst við þvergöturnar og hæst á milli þeirra til þess að standa vörð um þessar mikilvægu sjónlínur.

Svo virðist sem í hita og þunga líðandi stundar hafi menn gleymt þessum sjónarmiðum og markmiðum. Fótspor húsanna samkvæmt samþykktu deiliskipulagi sviðsins voru stækkuð og húsin hækkuð og ekki nóg með það heldur voru þau hækkuð verulega og nánast byggð út í götuna eins og blasir við á myndinni efst í færslunni.

Mörgum finnst  óskiljanlegt hvernig megin markmið skipulagshugmynda geta gleymst í ferlinu.

Það sjá margir eftir þeim húsum sem voru látin víkja fyrir þessu skipulagi og sérstaklega meðferð fyrsta deiliskipulagsins á síðari stigum.  Ágæt hús á borð við Kveldúlfsskálana, hús Sláturfélags Suðurlands, Völundar og mörg voru látin víkja. Nú um 30 árum seinna tala menn um þessu hús með söknuði og segja að það hafi verið mistök að farga þeim. Þrátt fyrir þetta er enn verið að rífa ágæt hús á þessu svæði sem vel var hægt að láta standa.

Í stað þeirra sem viku hafa verið byggð og áformað er að byggja gríðarðega stórar byggingar og háhýsi sem eru ekki í samræmi við fígert yfirbragð Reykjavíkur innan Hringbrautar. Arkitektinn og fræðimaðurinn Jan Gehl sagði einhverntíma að háhýsi þjónaði lötum arkitektum og gráðugum fjárfestu. Ekki veit ég kvort það á við hér.

++++

Að neðan koma skipulagsuppdrættti með stuttum skýringum. Og neðst gömul ljósmynd af skugghverfinu um það bil sem skipulagsvinnan var að hefjast.

Deiliskipulag frá 1986 þar sem sjá má að „fótspor“ bygginganna var í hlutfalli við það sem fyrir er og hvernig þess var gætt að trufla ekki sjónlínur um þvergöturnar niður að sjó og að Esjunni. Í skipulaginu voru húsin lægst við þvergöturnar, Klapparstíg, Vatnsstíg, Frakkastíg og Vitastíg og dregin til baka. Þetta var gert til þess að minnka áhrifin og varðveita sjónlínurnar. Frá þessu var, af einhverjum ástæðum, horfið við endurskoðun deiliskipulagsins á síðari stigum. Ekki veit ég hver ber ábyrgð á því. En það einkennir oft skipuagsákvarðanir að ábyrgðin er oftast svo dreifð að engin ber raunverulega ábyrgð þegar upp er staðið.

Deiliskipulag frá árinu 2006 þar sem sjá má að húsin hafa öll hækkað og bólgnað út og eru ekki í samræmi við fyrsta samþykkta deiliskipulagið frá 1986 sem vissulega var ekki óumdeilt. Húsin hafa veri’ð hækku, fótspor þeirra stækkuð og færð út í sjónlínurnar. Þarna hafa hagsmunir lóðarhafa ráðið ferðinni umfram hagsmuni almennra vegfarenda, borgaranna,  að því er virðist.

Dæmi um skipulagsvinnuna þar sem ferillinn virðist hrekjast af sporinu. Fótspor bygginganna og húsahæðir eru ekki i samræmi við önnur hús á reitnummilli Hverfisgötu, Vatnsstígs, Lindargötu og Frakkastígs. Í skipulaginu sem er frá 2004 eru ein 14 gömul lítil hús sem eru skástrikuð og sagt að lagt sé til að verði „endurnýjuð og/eða rifin“. Þau eru nú öll horfin.

Mynd af Skuggahverfinu frá því að verið var að huga að endurskipulagi svæðisins. Þarna sést að mikil tækifæri voru til uppbygginar á auðum lóðum.  Á svæði þar sem áður var notað fyrir saltfiskþurrkun austan Kveldúlfsskálanna. Það eru líka tækifæri á svæði austan við Fiskifélagshúsið. Gæfulegt hefði verið ef restin hefði verið „infill“ þar sem nýbyggingar fléttuðust inn í borgarvefinn. Guðrún Jónsdóttir arkitekt gerði slíka tillögu fyrir borgina á þessum árum.  Í staðinn fengum við nýjan borgarhluta sem hefur verið umdeildur allar götur síðan. Það einkennilega er að þó menn sakni þessarra gömlu húsasem þarna voru  þá eru enn haldið áfram að rífa. Bestu húsin eru vissulega horfin sem gerir það að verkum að þau sem eftir eru verða verðmætari sögulega séð þó ekki séu þau eins merkileg arkitektosnist séð. En nú er verið að rífa þau. Húsin lengst til vinstri á horni Vitastígs og Skúlagötu er verið að rífa einminnt þessa dagana.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Langbest að láta Hjálmar Sveinsson skipulagsfræðing um þetta.

    Dýrðarverk hans blasa við í miðborginni og munu halda nafni þessa snillings og mannvinar á lofti um ókomin ár.

    Og bestu vinir hans eru allir jafn frábærir.

  • Sigrún Guðmundsdóttir

    „En það einkennir oft skipuagsákvarðanir að ábyrgðin er oftast svo dreifð að engin ber raunverulega ábyrgð þegar upp er staðið.“

  • Þórhildur

    Skipulagsfræðingarnir, fjárfestarnir og sjórnmálamennirnir bera ábyrgð á þessu svo talað sé skýrt. Það voru Eimskip sem öfluðu fjármagn og settu þetta af stað, ef ég man rétt og Hornsteinar sem breyttu skipulaginu og stjórnmálamennirnir eru að mestu þeir sömu sem enn eru í meirihluta.

  • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

    Frábært að sjá þessa grein!

    Eftir lestur síðustu greinar frá þér, og grein Sigmundar Davíðs sem var rituð um svipað leiti um sama efni, þá hugsaði ég einmitt um það að þetta var það sem þyrfti að gera. Þ.e.a.s. að grúska í skjalasafninu og skoða söguna og hvenær hver og ein ákvörðun var tekin.

    Þetta er vinna sem blaðamenn ættu að sinna á launum, en það er mjög göfugt af þér að sinna henni í sjálfboðavinnu.

    Það væri áhugavert að skoða þetta fyrir alla deiliskipulagsreitina innan Hringbrautarinnar, og sjá hver þróunin er í ákvörðunum borgarinnar. Ég get þó að sjálfsögðu ekki farið fram á að þú verjir tugum klukkustunda í þá vinnu.

    Mín tilfinning var að núverandi meirihluti væri frekar verndarsinnaðari heldur en hitt, og ég hélt því að niðurrif og of stórar byggingar væru að einhverju leiti syndir fortíðar sem erfitt sé að vinda ofan af án þess að semja sérstaklega um það við lóðarhafa. Maður hefur heyrt að það hafi verið gert bæði á Kexreitnum og Hljómalindarreitnum. Þetta byggist þó allt á tilfinningu og því sem maður hefur heyrt fleygt fram, það væri hægt að sannreyna með rannsóknarvinnu eins og þessari.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn