Þriðjudagur 29.05.2018 - 13:58 - 7 ummæli

Le Corbusier – snillingur og fræðimaður

Le Corbusier (1887-1965) var ein af aðalhetjum okkar unga fólksins þegar ég stundaði nám í byggingalist við Det Kongelige Danske Akademi for de Skönne Kunster í Kaupmannahöfn á árunum kringum 1970. Aðrar alþjólegu hetjurnar og fyrirmyndirnar voru Grobíus, Mies van der Rohe, og Alvar Aalto ásamt fl. Mér skilst að stjarna L-C hafi heldur dalað í samfélagi arkitekta síðan þá. Enda komu fram nýjar hugmyndir um hvernig ætti að byggja og skipulaggja á þessum árum. Þessar breytingar má rekja til stúdentabyltingarinnar og aukna meðvitund stúdenta um félagslega þætti, mengun, neyslu og útþennslu byggðar. Einkabíllinn fékk mikla andstöðu og almenningssamgöngur fengu mikinn meðbyr. Hugmyndafræði Jane Jacobs var 15 ár á leiðinni frá NY til Kaupmannahafnar meðan stúdentabyltingin var aðeins eitt ár á leiðinni frá París til Danmerkur.

Menn dásama enn hönnun og hugmyndir L-C hvað varðar hús og húsagerð, funktionalismann og rýmismyndanir sem eru stórkostlegar, fagurfræðilegar hugmyndir og myndlist hans. Hinsvegar eru flestir því sammála að hugmyndir hans um borgarskipulag voru ekki góðar. Reyndar segja sumir að þessar hugmyndir hafi verið e.k. „case studies“ frá hans hendi og að hann hafi aldrei trúað þessu sjálfur.

Ég var og er enn mikill aðdáandi L-C  og birti nokkrar myndir sem ég hef fundið hér og þar af meistaranum við ýmsar aðstæður.

Efst er mynd af honum á forsíðu Time Magasin sem, sýnir hvað hann var stór alþjóðlega árið 1961 þegar blaðið kom út. En Time var þá langstærsta og virtasta alþjóðlega tímaritið í heiminum.

Weissenhofsiedlung sýningin í Stúttgart í Þýskalandi árið 1927 markaði tímamót í byggingalistinni á síðustu öld. Hér er framlag Le Corbusiere. Þetta var stefnumótandi sýning sem setti bæði Mies og L-C á kortið sem framúrskarandi og stefnumarkandi arkitekta. Tveim árum síðar opnaði Barcelonaskálinn eftir Mies  á Spáni. Það hús breytti alþjóðlegum arkitektúr meira en nokkur önnur bygging í víðri veröld eins og menn vita. (þetta gæti verið eigikona L-C á myndinni við ofurrennireiðina)

Hér eru listamennirnir Pablo Picasso og Le Corbusiere að velta fyrir sér Unite d´habitation i Marselle 1949.

Walter Gropius forsprakki Bauhaus og  L-C á spjalli árið 1955.

Snillingarnir L-C og Albert Einstein hittust í Princeton 1946. Sagt er að L-C hafi verið spurður hvað honum finnist um skýjakljúfana í New York þegar hann kom þangað fyrst. L-C svaraði því til að honum finnist þeir ættu að vera færri og miklu hærri!

Tveir þeirra skörpustu í byggingarlistinni á síðustu öld, L-C og Mies van der Rohe.

Le Courbusiere hellir uppá. Annars drakk hann mest rauðvín og setti að sögn alltaf tappann í milli glasa!

Hér mynd af Le Courbusiere ásamt starfsfólki á vinnustofu þeirra á Rue de Sevre í Paris 1953.

Hér stendur L-C fyrir verk sitt sem málað er á vegginn á vinnustofu hans og heitir Tendress.  Vinnustofan var á 11 Rue de Sevre rétt sunnan við Boulevard St Germain í Latínuhverfinu í París. Gaman væri að vita hvort þetta mikla málverk er enn þarna á veggnum.

Að ofan er eitt málverk eftir Le Corbusier sem selt var árið 2016 á uppboði hjá Christies fyrir 3,5 milljónir dollara. Það heitir „Famme grise, homme rouge et os devant porte“ (Grá kona, rauður karlmaður framan við dyr) og er 146 cm x 114 cm á stærð olía á striga árið 1931. Þetta sýnir að meistarinn er afskaplega virtur og mikilsmetinn myndlistarmaður.

  Dæmigerð mynd eftir L-C. Hann var líka flinkur skúlptúristi.

Að ofan eru skissur frá árinu 1928 og að neðan situr Charlotte Perriant í þessum heimsþekkta stól sem enn selst i þúsundatali. Stólinn teiknaði Charlotte í samvinnu við L-C. Hún átti líka þátt í öðrum húsgögnum sem kennd eru við L-C. Ef teikningin er skoðuð og að því tilskyldu að maður þekki strik L-C þá sér maður að þessar skissur eru ekki af hans hendi. Líklegra er að Charlotte hafi þarna haldið á skriffærinu.

 

L-C með eiginkonu sinni Yvonne Gallis sem var tískufyrirsæta frá Monaco. Hann kallaði hana „Vovon“ og hún hann „Doudou“

       Stöðugt skapandi.

Í bók sinni „Vers une architecture“ frá 1923 sagði hann að hús væri vél til þess að búa í. Þetta hefur verið affært og mistúlkað allar götur síðan. Sannleikur inn er sá að hann ber húsahönnun saman við hönnun mismunandi véla. Bíla, flugvéla, skipa og fl og segir að það sé ekkert gagmn af hönnun flugvélar ef hún getur svo ekki flogið. Að sama skapi sé ekkert gagn af húsahönnun ef ekki er hægt að búa í húsunum. Einn prófessoranna á Akademíunni í Kaupmannahöfn, Ejnar Borg,  vann hjá L-C um árabil og þekkti meistarann.  Borg var sífellt að leiðrétta alþekktan misskilning á þessum orðum L-C. Það sem hann átti við var að hús ættu að funkera, hann notaði myndlíkinguna til þess að skýra hugmyndafræðina út.

 

   Myndlist á morgnana og byggingalist eftir hádegið!    

L-C „lækar“ eitthvað!

  

Sagt er að L-C hafi haft þann draum að vera myndlistamaður fyrir hádegið og arkitekt eftir hádegið.

 

This open hand – a sign of peace and reconciliation – which has preoccupied me subconsciously for several years, must exist as a testimony of harmony. Works of war must be eliminated. We must invent; we must demand works of peace. (Le Corbusier, 1951)

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

 • Þorarinn Kristjánsson

  Voru þessar Parísarhugmyndir L-C í skipulagsmálum ekki bara tilgáta eins og þessi endemisvitleysa núna rétt fyrir kosningar um Milubraut í stokk?

  • Hilmar Þór

   Jú ætli það ekki bara Þórarinn. Vegna umferðaflæðis ti Landspítalans, HR, HÍ miðborgarinnar og Vesturbæjar og Seltjarnarness er varla hægt að hefja framkvæmdir við Miklubraut í stokk fyrr en Sundabraut er komin, Holtsgöng, Öskjuhlíðargöng og brú yfir Skerjafjörð. Þetta Miklubrautar mál er spennandi eftir að búið er að leysa öll vandamálin. Ég held reyndar að Kringlan muni varla vera starfhæf meðan á framkvæmdum stendur vegna þess að bæði Kringlumýrarbraut og Miklabraut verða nánast lokaðar meðan á framkvæmdum stendur.

 • Charlotte er af mörgum tainn höfundur allra eða flestra húsgagnanna sem kennd eru við Le Courbusier. Hún hefur lifað í skugga stórstjörnunnar í hartnær eina öld. Þarf ekki að fara að breuta því?

 • Sigrún Sigurðardóttir

  Gaman af þessum myndum og þessari sögu.

 • Dennis Davíð Jóhannesson

  Ég heimsótti Villa La Roche í París nýlega. Þar kynnti Le Corbusier til sögunnar hugarfóstur sín í húsahönnun, sem hann nefndi „hin 5 grundvallaratriði nútímaarkitektúrs“ og áttu eftir að hafa mikil áhrif á módernismann. Held mikið upp á þetta hús sem var byggt árið 1925.

 • Hilmar Þór

  Villa la Roche í 16 hverfi er heillar Parísarheimsóknar virði. Þar kemur einmitt fram sterk tilfinning L-C fyrir rýminu og flæði rýmanna og tengsl þeirra og samspil ljóss og rýmis og ekki síður einstakt litaval vel fram.

 • Guðmundur

  Þessir menn voru hetjur sem við getum aldrei þakkað til fulls. Aalto, Mies, L-C, Gropius, Jacobsen, Asplund, Sverre Fehn, Saarinen og fl. Gaman væri að fá svona stutta myndskreytta pistla um þessa menn hér á þessu ágæta bloggi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur