Sunnudagur 03.06.2018 - 17:27 - 1 ummæli

„Fyrst borgin, svo húsið“ segir Jórunn Ragnarsdóttir í viðtali við HA.

 

Það er viðtal við Jórunni Ragnarsdóttur arkitekt í nýjasta tölublaði HA  sem kom út á dögunum. Tímaritið HA fjallar um íslenska hönnun og arkitektúr.

Þetta er mjög skemmtilegt og fræðandi viðtal þar sem Jórunn fjallar um það hvernig teiknistofa hennar nálgast viðfangsefnin hverju sinni. Hún er meðvituð um staðarandann og að það þurfi að flétta nýbyggingar inn í borgarvefinn eins og mikil áhersla hefur verið lögð á þessum vef frá fyrstu tíð. Bæði í fjölda innsendra greina og í skrifum síðuhaldara.

Jórunn vitar í áhrifavalda sína sem eru flestir þeir sömu og höfðu áhrif á arktekta okkar kynslóðar. Hún segir að áhrifavaldarnir hafi kennt sér að arkitektúr þarfnast ekki nýrra uppfinninga heldur skilnings og nýrra uppgötvanna. Hún segir að henni líki póltískt þenkjandi arkitekta enda tengir byggingarlist fagurfræðileg gildi,umhverfisvernd, vistfræði, hagfræði og stjórnmál.

Erst die stadt, dann das Haus.

Hugmyndafræði stofunnar hennar sem hún rekur með eiginmanni sínum er: „Erst die Stadt, dann das Haus“ eða „Fyrst borgin, síðan húsið“ og segir að til þess að skilja og meta byggingarlist er mikilvægt að gera sér grein fyrir samfélagslegri ábyrgð arkitekta sem móta umhverfi og sameign allra borgarbúa og hafa marktæk áhrif á velferð og vellíðan samfélagsins í heild. Öll höfum við jafnan rétt á vönduðum opinberum rýmum, mótuðum af byggingum sem falla vel að umhverfi sínu, menningarsögu og hefðum. Hún segir að það sé ekki byggingin sjálf sem skiptir höfuðmáli. Uppbygging borgarinnar í gegnum ár og aldir er grundvöllur allra breytinga því hún sé eins og sögubók sem sem upplýsir okkur um líf, menningu og störf genginna kynslóða. Þess vegna er mikilvægt að leita eftir tengingum og táknum til að skrifa sögu borgarinnar áfram og styrkja heildarmyndina.

Útveggir bygginga eru innveggir borga.

Saga byggingarlistarinnar kennir okkur að það er ekki nauðsynlegt að fara ótroðnar slóðir til að skapa eitthvað sem uppfyllir þarfir og drauma nútímasamfélags, segir Jórunn í viðtalinu. Að það hvort eitthvað sé gamalt eða nýtt skiptir ekki máli þegar hugvit og þekking er lögð til grundvallar.

Þegar vel tekst til segir Jórunn í viðtalinu við HA, er eins og byggingarnar hafi alltaf verið á sínum stað. Heildin skiptir mestu máli. Borgin er miklu meira en samansafn bygginga. Það er mikilvægt að styrkja vef borgarinnar og á vissan hátt má segja að útveggir bygginganna séu innveggir hverrar borgar.

+++

Ég mæli með þessu viðtali í HA tímaritinu sem kom út á dögunum og fæst í öllum betri bókabúðum.

+++

Hjálagt eru nokkrar myndir af einu verki hjónanna Arno Lederer (1947-) og Jórunnar Ragnarsdóttir (1957-) Um er að ræða byggingar biskupsins í Rottenburg og skjalasafn þar. Ef horft er á myndina efst í færslunni sést að þetta er afskaplega flókið umhverfi sem er jafnvel að vissu marki sundurtætt. Nýbyging Lederer Ragnasrdottir Oei bindur þetta saman í fullkomnu samræmi við hugmyndafræði stofunnar sem Jórun nefnir í viðtalinu. Þarna er borin mikil virðing fyrir staðarandanum og nýbyggingarnar fléttaðar þannig inn í borgarvefinn að skrifaður er nýr kafli í söguna sem styrkir þá heildarmynd sem fyrir er.

+++

Þessi hugmyndafræði er af sama toga og Gunnlaugur Stefán Baldursson sem einnig er starfandi arkitekt í Þýskalandi hefur skrifað um hér á þessum vef. Manni finnst eins og íslenskir arkitektar og stjórnmálamenn í skipulags- og bygginganefndum sveitarflaga ættu að kynna sér og jafnvel innleiða þessa nálgun hér á landi. Við eigum svo takmarkaða sögu að við verðum að stíga afskaplega varlega til jarðar þegar byggt er í eldri hverfum Reykjavíkur og annarra þéttbýlisstaða. Við höfum farið allt og geyst í þessum efnum undanfarið að mínu mati.

Það má segja að hér hafi umhverfið ráðið útliti húsanna öðru fremur. Arkitektarnir nálgast verkið af auðmýkt og mikilli virðingu fyrir verkum genginna kynslóða.

Athygli vekur þegar horft er á yfirlitsmyndina efst í færslunni að allir gluggar eru í háformati. Þarna er engin gluggabönd að finna eða glugga í lágformati. Þetta virðist smáatriði en er það ekki þegar verið er að hugsa um heildarmyndina. Sama má segja um þakhallann sem arkitektarnir leysa með snilldarlegum hætti í nýbyggingunni sem er miklu dýpra hús en húsin í grenndinni.


 

 

 

 

 

Hér að neðan kemur svo þriggja ára viðtal við arkitektana og hjónin Jórunni Ragnarsdóttur og Arno Lederer sem viðtalið í HA virðist að mestu byggt á. Óhætt er að mæla með þessu eintaki af HA og viðtalinu sem hér er vísað á, en þar er talað um modernismann og fl. með skynsömum og upplýsandi hætti.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Hilmar Þór

    Af einhverjum ástæðum datt þessi færsla út af netinu mestan part gærdagsins og svo þegar hún kom inn aftur voru öll kommentin horfin og sama á við um lækin.

    Það var synd vegna þess að kommentin voru flest bara alveg ágæt.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur