Mánudagur 19.09.2011 - 11:46 - 17 ummæli

Demanturinn á Hótel Loftleiðum

 

Flest hús hafa eitthvað í sér sem er einstakt. Það er demanturinn í húsinu. Stundum er hann stór og stundum er hann svo lítill að enginn tekur eftir honum. Þetta er eins og með fólk. Allir hafa eitthvað til brunns að bera þó þeir finni ekki alltaf fjölina sína.

Á Hótel Loftleiðum,  þar sem Hotel Reykjavík Natúra er til húsa er að  finna sérlega fallegan stiga. Stiginn er demanturinn í þessu húsi. Hann er ekki bara fallegur heldur er hann líka sérstakur hvað burðarvirki varðar o. fl. Þarna er fagurlega formaður steinsteyptur kjálki með léttilegum tréþrepum. Allt mikið augnayndi.

Ég hef trú á því að reglugerðarriddarar nútímans hefðu komið í veg fyrir svona hönnun í dag, því miður. 

Stiginn ber af öllu sem fyrir augu ber í húsinu og engu breytir hversu mörg  „facelifts“  eru gerð í anddyrinu, alltaf stendur stiginn uppi sem demanturinn.

Hótel Loftleiðir var teiknað á Teiknistofunni Tómasarhaga 31, sem var fyrirrennari núverandi TARK arkitekta. Í þá daga voru eigendurnir, þeir Gísli Halldórsson, Jósep Reynis og Ólafur Júlíusson. Ég man þegar Ólafur sýndi mér, táningnum, húsið  hafði hann mörg orð um stigann. Ólafur sá um bygginguna fyrir hönd teiknistofunnar og var stoltur af verki sínu. Hótelið sem var hannað og byggt á rúmlega einu og hálfu ári var opnað 1, maí 1966. Allt gekk vel þó engin væri gæðahandókin, tölvan eða BIM.

Ólafur Júlíusson var afar fær í sínu fagi, kátur, skemmtilegur og hvers manns hugljúfi.

Hann fóst í flugslysi á leið úr eftirlitsferð vegna byggingar flugstöðvarinnar á Akureyri, tæplega fimmtugur að aldri.  Auk Ólafs voru í vélinni þeir Björn Pálsson sjúkraflugmaður, Haukur Claessen starfsmaður hjá flugumferðastjórn og Knútur Óskarsson flugmaður. Þeir létust allir.

Ég kýs að kalla húsið Hótel Loftleiðir þó svo að nú um stundir sé þar rekið hótel undir öðru nafni samanber að hús Nathan & Olsen hefur alltaf heitið svo þó þar hafi verið til húsa margvísleg starfssemi ótengd byggjandanum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Stefán Benediktsson

    Gísli hefur minnt á það einhversstaðar að þetta er fyrsta hús hérlendis með „kassettuloftum“. Til að auka styrk loftplötu um leið og dregið var úr steypumagni, var þykkt plötunnar aukin en massinn minnkaður með því að „vaskafötum“ var raðað á undirsláttinn þannig að loftin voru með vöfflumynstri að neðan. Mig minnir að Björn Marteinsson hafi unnið hjá Gísla á þessum tíma og verið viðriðin þessa byggingu.

  • Hilmar Gunnars

    Ósammála nafna mínum varðandi staðsetninguna á hótelinu. Staðsetningin er sérlega góð, en ég sakna gamla nafnsins; Hótel Loftleiðir, sem var skemmtileg tenging við sögu þess og flugvöllinn. Hef grun um að byggingin lifi flugvöllinn.

    Stiginn er osom enda var hann látinn standa óbreyttur í síðustu endurbótum. Hann er skúlptúr sem blasir við manni þegar maður gengur inn aðalinnganginn og þaðan horfir maður út í gegnum bygginguna og út á flugvöllinn – flott moment.

    Einhver hérna að ofan setti fram athugasemd um að húsið væri illa byggt. Ég vísa til þess sem Sveinn segir hérna að ofan. Húsið er einfalt í uppbyggingu og auðvelt við að eiga í endurbótum – sveigjanlegt, sem er ótvíræður kostur.

  • Pétur Örn Björnsson

    Þorgeir minnist á Formica og þá dettur mér óvart í hug auglýsing frá svipuðum tíma … Jón Múli drynjandi úr „gufunni“
    „hún fer vel með silfrið sitt, hún notar goddards silfurfægilög á silfrið sitt“ í aðdraganda jólanna, ár hvert, ár hvert, ár hvert.

  • Pétur Örn Björnsson

    Takk fyrir skemmtilega gráglettinn pistil Hilmar, þegar kemur að musterisriddurum reglugerðanna. Hvað eru þeir annars að verja?

  • Pétur Örn Björnsson

    Virkilega flottur og inspírerandi stigi.

  • Ég er verkfræðingur og átti leið þarna um í kvöld og gerði mér erindi til að skoða stigann. með félaga mínum Það er alveg rétt að þetta er forkunnarfagur stigi. Sérstaklega þegar hugsað er um húsið í heild sem virðist byggt á ódýrann og hagkvæmann hátt. Álútveggir og burður með súlum og bitum. Allt eins rationelt og hægt er. Svo kemur allt í einu þessi gullmoli.

    ‘Eg held að arkitektar séu hættir að teikna fallega stiga. Ég man allavega ekki eftir neinum síðustu áratugina. Það er fallegur stigi í Þjóðmenningarhúsinu, í Þjóðminjasafninu og þarna á Hótel Loftleiðum annarstaðar ekki svo ég muni. Jú í Esjubergi ef ég man rétt.

  • Björn Ingi

    Ég er frekar ósammála því að þetta sé staðsetning sem er ekki hentug fyrir hótel í dag. Síður en svo gallalaus staðsetning en ágætis kostur fyrir þá sem kjósa ekki þessa týpísku miðborgarstemmningu og eru frekar að leita að öðrum valkosti í höfuðborginni. Ekki svo langt í miðborgina (20 mín. labb) og það eru nokkrar „perlur“ þarna í nágrenninu, Öskjuhlíðin og Nauthólsvík og kannski ekki að ástæðalausu að nafninu var breytt í Hótel Natura.

  • Einhver sagði mér að Loftleiðahótelið hafi verið byggt af einhverju svissnesku verktakafyrirtæki. Og að það sé illa byggt. Það hefur alltaf orkað á mig sem illa byggt.

    Stiginn er mjög svipmikill og flottur (það eina flotta í þessu húsi að mínu mati).

    Ég þori ekki alveg að fullyrða um þetta en ég held að nú á dögum séu gerðar kröfur um að stigar í opinberum byggingum séu með stigapöllum. Upp á það að þegar og ef fólk missir fótanna og dettur þá kútveltist það ekki niður marga marga metra áður en það skellur á sléttu.

  • Takk fyrir svörin. Sennilega er viðurinn „formica“, eins og í auglýsingunni góðu sem allir á minum aldri muna og elska.

  • Hilmar Þór

    Ég stundum kannski svordið fljótur á mér, en mér sýndist handriðið kannski lágt og bilið milli pílárana og breitt. Svo grunar mig að það yrði vesen að fá svona stigaþrep úr tré samþykkt í dag vegna brunamála. Einkum þar sem um hótel er að ræða. Annars minnir mig að viðurinn hafi verið brunavarinn á einhvern hátt í þessum stiga.

    En hitt veit ég að eftirlitskerfið hér á landi er gjörsamlega óútreiknanlegt. það er kannski aðalástæðan fyrir þessari „frjálslegu staðhæfingu“ í þetta sinn.

  • Samúel Torfi Pétursson

    Skemmtilegur pistill um athyglisvert hús.

    Þú slengir fram heldur frjálslega þeirri staðhæfingu að svona stiga megi ekki byggja í dag. Geturðu farið aðeins dýpra í það?

  • Hilmar Þór

    Það er rétt athugað hjá Þorgeir, það er auðvitað arfavitlaust að byggja hótel þarna. En þetta á sér skýringu.

    Þannig var að Loftleiðir uxu hratt og þurftu á flugstöð að halda á Reykjavikurflugvelli ásamt skrifstofubyggingu vegna starfsseminnar. Þeir réðust í framkvæmdina í egin reikning og voru komnir nokkuð áleiðis með bygginguna. Búið var að steypa upp kjallara flugstöðvarinnar vorið 1964 þegar ákveðið var að flytja flugið til Keflavíkur og forsendur fyrir flugstöð því brostnar. Í framhaldinu var spurning hvað ætti að gera við það sem búið var að byggja. Niðurstaðan var að byggja hótel ofaná flugstöðvarkjallarann. Það má því segja að atburðarrásin hafi tekið völdin þarna eins og oft í skipulagssögu Reykjavíkur, þeirri harmasögu sem hún segir okkur.

  • Steinarr Kr.

    Var þetta ekki byggt af flugfélagi sem flugvallarhótel? Þau þekkjast víða. Kanski hafa menn haft aðrar hugmyndir um nýtingu Reykjavíkurflugvallar upp úr 1960 en í dag.

  • Fallegur stigi, víst um það. En þar sem blogg þetta fjallar líka um skipulag þá verð ég að spyrja:

    Hverjum fannst góð hugmynd að hafa hótel þarna og af hverju.

    og kannski í framhaldinu:

    Hvað ætli útlendum túristum sem er selt gistirými þarna finnist um að vera svona dýrðlega út úr öllu? Því geómetrískt séð er þetta vissulega „miðsvæðis“

  • H.T. Bjarnason

    Það eina sem fer í taugarnar á mér í sambandi við þetta hús er þessi blá-græni litur að utanverðu. Vildi gjarnan sjá dökkbláan lit í staðinn.

  • Steinarr Kr.

    Kalli, gullinsnið hefur oft verið notað í arkítektúr, en það er það sem þú færð út ef þú mælir kuðung.

    Hótel Loftleiðir – mun líklega aldrei heita annað í hugum fólks – er falleg og praktísk bygging. Hefði verið synd að eyðileggja hana með því að byggja þar samgöngumiðstöð eins og stóð til um tíma.

  • Það er nú ekkert, það var eitt sinn arkitekt á hippatímabilinu sem hannaði húsið sitt eins og kuðung, klóið var alveg innst inni 😉

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn