Framkvæmd skipulags V
Hér kemur færsla Sigurðar Thoroddsen nr. 5 sem fjallar um endurgerð deiliskipulags í eldri hverfum.
Miðað við deiliskipulag nýrra svæða, er endurgerð deiliskipulags í eldri hverfum miklu flóknara mál. Inn í myndina eru komnir allskonar hagsmunaaðilar, svo sem lóðahafar, fasteignaeigendur og fleiri, sem taka þarf tillit til. Mörg dæmi eru um að eldri hverfi hafi verið endurskipulögð og ber þar Reykjavík hæst, enda fjöldi eldri bygginga þar mestur. Önnur sveitarfélög hafa einnig látið látið vinna deiliskipulag í eldri hverfum, svo sem: Akureyri, Ísafjörður, Stykkishólmur, Akranes, Hafnarfjörður, Keflavík, Fáskrúðsfjörður og Seyðisfjörður.
Ástæður fyrir því að farið er út í endurgerð deiliskipulags eldri hverfa geta verið margar. Um getur verið að ræða eldri byggingar sem þarfnast viðhalds og fullnægja ekki lengur kröfum tímans, dæmi um það eru: Ísafjörður, Stykkishólmur og Seyðisfjörður. Svo eru dæmi um að skipulagsyfirvöld telji rétt að breyta skipulagi viðkomandi svæðis, s.s. að rífa tiltekin eldri hús og byggja ný og stærri innan um, og/eða allt þar á milli. Dæmi um það er Reykjavík, Hafnarfjörður og að sumu leyti Akureyri. Þegar um er að ræða blöndun nýrri og eldri byggðar, tel ég að öðrum bæjum ólöstuðum, endurgerð deiliskipulags Miðbæjar Hafnarfjarðar og framkvæmd þess velheppnað. Þar hefur tekist á smekklegan og yfirvegaðan hátt að blanda saman nýjum og eldri byggingum, þannig að skapast hefur heildrænt og aðlaðandi yfirbragð.
Þegar deiliskipulag í eldri hverfum er unnið að nýju, eru útlínur endurbyggingarsvæðisins fyrst skilgreindar, svæðið kannað sérstaklega og lagt mat á hvernig haga skuli endurbyggingunni. Önnur sérstaða er að gatnakerfi, lagnir og ýmsar þjónustustofnanir eru þegar komnar, þannig að kostnaður sveitarfélagsins er óverulegur. Oftast er lóðarhöfum gefinn kostur á að bæta, breyta og/eða stækka byggingar á viðkomandi lóðum , að undangenginni húsakönnun. Svo eru sumar byggingar sem talið er rétt að friða og engar breytingar heimilaðar. Vandamálið er hinsvegar að lóðahafar og/eða eigendur eru ólíkir eins og gengur. Sumir hafa fjármagn og eru fullir áhuga að fara út í framkvæmdir, en aðrir ekki. Þar af leiðandi er misjafnt hvernig til tekst. Framkvæmd og útfærsla tillagnanna verður í mörgum tilfellum samræmislaus og brotakennd og málin ekki kláruð. Í Reykjavík, eru dæmi um slíkt s.s. við Laugaveg, Grettisgötu, Lækjargötu, Borgartún, og svæði sunnan tónlistarhússins Hörpu. Oft eru nýbyggingar verulega stærri en þær sem fyrir eru, og þá sem partur af stórhuga eldra deiliskipulagi sem einungis var framkvæmt að hluta.
Mér er ekki kunnugt um að sveitarstjórnir hafi reynt að finna heilsteyptar og markvissar leiðir að því marki að framkvæma endurskipulagningu eldri hverfa. Kannski er Hafnarfjörður undantekning. Málið er að hið byggða umhverfi, hvort sem það er nýtt eða gamalt, er ekki einkamál einstakra lóðahafa, sbr. skýr ákvæði þar um í skipulagslögum. Hið byggða umhverfi er málefni sem varða heildina. Mér finnst koma til greina að ríki og sveitarfélög styrki uppbyggingu í eldri hverfum t.d. með tíma- og skilyrðisbundinni eftirgjöf skatta og ýmissa gjalda. Að vísu hafa verið veittir einstaka styrkir frá hinu opinbera til endurbyggingar, en meira þarf ef duga skal.
Víða erlendis hafa yfirvöld gert sér grein fyrir þessum vanda, jafnvel í Bandaríkjunum, landi hins frjálsa framtaks. Fyrir mörgum árum var ég á ferð í Baltimore, en þá stóð þar yfir endurbygging elsta hluta borgarinnar. Á tilteknu svæði frá fyrri hluta 19. aldar voru raðhús sem borgaryfirvöld töldu rétt að vernda. Fólki stóð til boða að kaupa raðhúsin, hvert um sig fyrir einn dollar, og með í kaupunum fylgdi teikning sem kaupendur skuldbundu sig að fara eftir og framkvæmdalán á hagstæðum kjörum. Á Norðurlöndum víða hafa verið farnar svipaðar leiðir, á þann veg að hið opinbera tekur þátt í uppbyggingu eldri hverfa með einum eða öðrum hætti.
Á Íslandi eru farnar aðrar leiðir. Unnið er deiliskipulag i eldri hverfum og víða er gert ráð fyrir breytingum, einkum auknu byggingarmagni/viðbyggingum eða niðurrifi húsa og nýbyggingum. en síðan er engin hvati til lóðarhafa að hefjast handa við endurbyggingu, breytingu eða stækkun húsa. Lóðarhöfum er í sjálfsvald sett hvort eða hvenær þeir nýta sér þá möguleika sem hið nýja skipulag veitir. Sumir framkvæma og aðrir ekki, þannig að smám saman verður byggðin samhengislaus. Víða erlendis hefur komið í ljós, eins og áður sagði, að endurskipulag eldri hverfa er erfið í framkvæmd án aðkomu hins opinbera. Dæmi eru um niðurfellingu gjalda, eða að viðkomandi sveitarfélög hreinlega kaupi upp svæði eða byggingar, endurbyggi síðan og leigi út eða selji fasteignirnar.
Á morgun, laugardag kemur síðasti hlutinn frá Sigurði Thoroddsen arkitekt að þessu sinni. Þar fjallar hann um þá ímynduðu verðmætaaukningu sem skipulag kallar fram. Þar er um mjög áhugaverðar hugleiðingar að ræða sem ég mæli með að fólk kynni sér.
ESB styrkir mjög myndarlega endurnýjun eldri hverfa.
Á ekki að breyta framkomu skipulagsyfiralda við eldri hverfi samkvæmt nýja aðalskipulaginu? Framkoman hingað til hefur verið fráleit og til skammar fyrir borgina. Gott að nýtt fólk með aðra sýn á hlutina sé komið að málunum.
Rétt hjá þér Lára Kristín. Þessi framkoma kemur fram í Landspítaladeiliskipulaginu gagnvart Þingholtum og Skólavörðuholti sem er innan Hringbrautar sem nýja ákvæðið nær víst til. Þessi nýja stefna kemur í veg fyrir svoleiðis yfirgang.
Hvernig væri að fylla uppí þessa tjörn þó ekki væri nema bara að litlu leyti og byggja þar hús?
„………….að öðrum bæjum ólöstuðum, endurgerð deiliskipulags Miðbæjar Hafnarfjarðar og framkvæmd þess velheppnað“.
Staðsetningin í Hf er kannski ílagi (m.v. Akureyri(Glerártorg) og Sauðárkrókur) skipulagslega. Verslunin var ekki flutt úr miðbænum. En útlitslega er vart hægt að tala um að þetta sé velheppnað skipulag í Hf.