Miðvikudagur 27.05.2015 - 16:35 - 6 ummæli

Endurgerð eyðibýla

 

Eitthvað það áhugaverðasta sem verður á vegi manns í byggingalistinni er þegar maður sér vel endurbyggðar gamlar byggingar. Við þekkjum mörg dæmi um slíkt hér á landi og víða um heim.

Menn nálgast viðfangsefnið með mismunandi hætti eftir því sem við á. Stundum velja menn að endurgera húsin nákvæmlega í sömu mynd sem þau voru á blómaskeiði þeirra. Og í öðrum tilfellum velja menn að gefa þeim andrúm nútímans án þess að skerða sögu þá sem byggingin hefur að segja.

Byggingar segja nefnilega sögu. Menn þurfa bara að skilja tungumálið og geta „lesið“ húsin eins og sagt er.

Nú er fyrirsjáanlegt að mörg eldri hús munu verða endurnýjuð á komandi árum. Bæði í þéttbýli og dreifbýli.

Það er ört vaxandi áhugi fyrir endurgerð eyðibýla sem er sérlega áhugavert verkefni.  Þá er ekki einungis verið að tala um íbúðahúsin sjálf heldur einnig gripahúsin sem menn hafa breytt í íbúðahús, stundum gistihús.

Ég hef séð nokkur slík.

Sammerkt með þeim mörgum er að menn hafa á einhvern hátt klætt gömlu húsin inn í bárujárn eða einhverjar plötur að utanverðu og svo múrað eða klætt að innan með þar til gerðum plötum. Gamla húsið hefur horfið og nýtt kemur í ljós. Sagan og sjarminn er nánast horfin. Ekkert er eftir nema formið og staðurinn.

Skemmtilegra er að nálgast verkefnið þannig að gamla húsið minni stöðugt á sig, hvarvetna. Þarna er verið að tala um bæði form, efni, áferð og ekki síður söguna, handverkið og gömlu mennina sem nú eru gengnir og lögðu hönd að verki.

Stoðkerfið er látið halda sér þannig að burðarvirkið og handverkið sést. Veggir eru rykbundnir með glæru lakki.

Þetta þekkja þeir sem hafa komið í Saltkjallarann i Flatey á Breiðafirði sem er skemmtilegasti bar landsins.

Engum nútíma þægindum er sleppt meðan saga staðarins blasir við allstaðar. Öll hlutföll rýmanna fá aðra merkingu en áður og gluggasetning og op fá sérstakan sjarma vegna þess að að þau voru áður hugsuð fyrir aðra starfssemi. Gluggarnir lenda kannski ekki á bestu stöðum eins og sjá má á myndunum sem fylgja.

Ég birti hér nokkrar ljósmyndir af húsum sem hafa verið endurnýjuð þannig að augljóst er hvað er gamalt og hvað er nýtt. Þetta er í anda þess sem daninn Jóhannes Exner arkitekt sem lést í vikunni (1926-2015) gerði við Kolding Hus í Danmörku og ítalinn Carlo Scarpa gerði þar í landi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Orri Ólafur Magnússon

    Kristján, athyglisverð hugmynd þetta með gömlu fjósin og fjáhúsin sem ekki hefur verið breytt í frumlega og „smart“ sumarbústaði hvíldarþurfa borgarbúa. Svona fljótt á litið gæti ég ímyndað mér að ein meginástæðan fyrir þessu sé einfaldlega sú að fjárhús þau og fjós sem standa nú auð og yfirgefin á Fróni séu alls ekki svo eldgömul og heillandi einsog danska húsið í myndasyrpunni – flest byggð upp úr 1920 / 1930 og jafnvel seinna. Þessar íslensku „rústir“ höfða því ekki svo mjög til okkar sem „sögulegar“ minjar . Þar að auki voru þessi ísl. fjós og hlöður byggð af miklum vanefnum ; steypan léleg og sprungin og afgangurinn billegt bárujárn og – því megum við ekki gleyma – asbest ( ! ) í hólf og gólf. ( Sigurður Pálsson rithöfundur hefur einmitt fengið að kenna á þessu : „asbest -arfleifðin“ úr sveitinni frá bernskudögunum veldur krabbameini ) Að lokum má svo velta því fyrir sér, hvort venjulegt fólk , fólk sem ekki eru beinlínis með „masókistiskar“ tilhneigingar – kæri sig um & ráði við það að koma eyðibýli á útkjálkum þessarar eyju okkar í viðunandi horf þar sem ekkert er vegasambandið við siðmenninguna og heldur ekkert rafmagt ?

  • Orri Ólafur Magnússon

    Kristján, athyglisverð hugmynd þetta með gömlu fjósin og fjáhúsin sem ekki hefur verið breytt í frumlega og „smart“ sumarbústaði hvíldarþurfa borgarbúa. Svona fljótt á litið gæti ég ímyndað mér að ein meginástæðan fyrir þessu sé einfaldlega sú að fjárhús þau og fjós sem standa nú auð og yfirgefin á Fróni séu alls ekki svo eldgömul og heillandi einsog danska húsið í myndasyrpunni – flest byggð upp úr 1920 / 1930 og jafnvel seinna. Þessar íslensku „rústir“ höfða því ekki svo mjög til okkar sem „sögulegar“ minjar . Þar að auki voru þessi ísl. fjós og hlöður byggð af miklum vanefnum ; steypan léleg og sprungin og afgangurinn billegt bárujárn og – því megum við ekki gleyma – asbest ( ! ) í hólf og gólf. ( Sigurður Pálsson rithöfundur hefur einmitt fengið að kenna á þessu : „asbest -arfleifðin“ úr sveitinni frá bernskudögunum veldur krabbameini ) Að lokum má svo velta því fyrir sér, hvort venjulegt fólk , fólk semékki eru beinlínist með „masókistiskar“ tilhneigingar – kæri sig um & ráði við það að koma eyðibýli á útkjálkum þessarar eyju okkar í viðunandi horf þar sem ekkert er vegasambandið við siðmenninguna og heldur ekkert rafmagt ?

  • Kristján Gunnarsson

    Af hverju eru gömlu fjósin, hlöðurnar og fjárhúsin ekki fyrir löngu orðin að sumarbústöðum og óðölum þétbýlisfólks eftir að verksmiðjubúskapurnn með tölvustýrðum lausagöngufjósum oh heyböggum tóku við. Þá gæti fólk átt sumarbústaði sem eru orginal og í snertingu við virka landbúnaðarstarfssemi í stað þessarra hundleiðinleg bústaða á hálfum hektara í miðri steindauðri sumarbústaðabyggð þar sem menn hanga allan liðlangann daginn og drekka sig sætkennda meðan þeir bera á pallinn og allt tréverkið!

    Fín grein.

  • K. Guðmundsdóttir

    Afskaplega er þetta fallegt. Þetta er svo rökrétt og einfalt og virkar ódýrt. En það þarf kjark til þess að gera svona og ekki víst að öllum líki.

  • Mörg hús hafa lent í glatkistunni vegna virðingaleysis fyrir gömlu handverki.

  • Eysteinn Guðmundsson

    Er þetta íslenskt hús?
    Hvar á landinu er þetta?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn