Laugardagur 30.05.2015 - 23:33 - 11 ummæli

Laugardalurinn – Spennandi útivistarsvæði

Laugardalur

Laugardalnum hefur verið líkt við Central Park í New York, sagður lunga borgarinnar.

Þetta er á vissan hátt rétt en samt ekki alveg.

Laugardalurinn er ekki eina græna svæðið í borginni, meðan Central Park er nánast eina græna svæðið í NY.  Reykjavík er mjög græn og dreifð. Borgin er í raun langstærsti skógur landsins.

Reykjavík einkennist af grænum svæðum og trjágróðri. Helgunarsvæði stofnbrautanna er meira en maður sér nokkursstaðar annarsstaðar í Evrópskri borg. Því þarf að breyta.

—–

En Laugardalurinn er einstakur og sérstaða hans kemur til með að aukast á næstu árum.  Aðgengi að honum mun aukast fyrir alla borgarbúa með tilkomu samgönguáss aðalskipulagsins,  AR2010-2030,  sem samþykkt var í fyrra. Enda þjónar Laugardalurinn ekki eingöngu byggðinni í nágrenninu heldur borginni allri.

Rökrétt væri að fækka bifreiðastæðum í dalnum verulega þegar samgöngúásinn er komin í fullan rekstur með öflugum almannaflutningum frá Vesturbugt austur að Keldum eins og AR2010-2030 gerir ráð fyrir og auka græn svði til almennra nota í staðinn.

Samgönguásinn mun liggur  frá miðborginni um Hverfisgötu, Laugarveg og Suðurlandsbraut meðfram Laugardalnum alla leið að Keldum. Hún er sterkasta einstaka hugmynd hins frábæra aðalskipulags sem nú er í gildi.

Dalurinn er ekki bara útivistarsvæði. Hann skiptist í raun í tvennt.  Annarsvegar græn svæði til sérstakra nota og hinsvegar græn svæði til almennra nota.

Á svæðunum til sérstakra nota má nefna: Grasagarðinn, Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, Laugardalslaug, Laugardalsvöll, Skylmingamiðstöð, Fimleikahús, Grasvelli og gervigrasvelli, Laugardalshöll, Frjálsíþróttahöll, Skautahöll, TBR, Höfuðstöðvar ÍSÍ og ÍBR.

Þetta er afskaplega flölbreytt starfssemi sem nýtist öllum borgarbúum.

Nú stendur yfir vinna við hverfaskipulag borgarinnar og þar mun að líkindum verða gerð ítarleg grein fyrir samgönguásnum og tengslum hans við Laugardalinn öllum til gagns og mikillar ánægju.

Að ofan má sjá fallega og upplýsandi mynd af dalnum eftir Raymond Rafn Cartwright, breta sem búið hefur hér á landi í um 20 ár.

++++

Af því að samgönguásinn er nefndur birti ég hér orðrétt upp úr Skipulags- og matslýsingu Hverfaskipulags Laugardals, Borgarhluta 04, sem skilað var fyrir u.þ.b. ári.

„Hverfisskipulagið bendir á að samgönguás Sudurlandsbrautar mun í framtíðinni skapa nýja og bætta ferðamáta innan borgarinnar.  Gera má ráð fyrir að léttir rafdrifnir sporvagnar gangi eftir ásnum með öru millibili.  Með þessu má tengja Laugardal,  Árbæ,  Grafarvog og Grafarholt saman með öflugum hætti og opna leið fyrir 48-62 þúsund borgarbúa, allt eftir því hvort miðað er við upphaf eða enda timabils aðalskipulags á nýjum ferðamáta frá ibúðahverfum í efri byggðum að miðkjarna Reykjavikur“ framhjá Laugardalnum.

 

Myndirnar tvær að ofan er ekki úr matslýsingu Borgarhluta 04, en sýnir hugsanleg farartæki sem gengju efir samgönguásnum frá Vesturbugt að Keldum. Það eru framleidar margar gerðir af þessum farartækjum og af mismunandi gerðum. Allar mota þær vistvæna orku. Vagnarnir taka reiðhjól, hjólastla og barnavagna. Ef til þessa er vandað verður þetta ferðamáti sem fólk celur framygir einkabílinn.

++++

Sjá einnig: http://blog.dv.is/arkitektur/2014/05/07/hverfisskipulag-er-longu-timabaert/          

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

 • Jón Ólafsson

  Gott borgarskipulag og góðar almenningssamgöngur eru miklar kjarabætur!

 • Jóhanna

  Þetta er vissulega svæði sem varðar alla þjóðina eins og Dennis nefnir og mikilvægt fyrir fleiri en reykvíkinga.

 • „Rökrétt væri að fækka bifreiðastæðum í dalnum verulega þegar samgöngúásinn er komin í fullan rekstur“

  Mikið er ég sammála, en það þarf hugarfarsbreytingu fjöldans til að verða að raunveruleika. Eftir nánast hvern einasta landsleik eru birtar fréttir um að lögreglan hafi sektað óteljandi bíleigendur fyrir að leggja ólöglega í dalnum.

 • Orr Gunnarsson

  Sporvagnkerfi grundvallast á þéttri borgarbyggð. Vek athygli á að byggingarnar á ljósmyndinni frá Strasbourg eru frá fjórum hæðum (+ris) að átta hæðum. Því miður er engin sambærileg byggð milli Hverfisgötu og Keldna (né á landinu öllu). Alvöru samgönguás fylgir óhjákvæmilega mikil þétting byggðar. Það tvennt verður ekki aðskilið.

 • Jón Guðmundsson

  Laugardalurinn er gersemi sem stöðugt þarf að standa öflugan vörð um.

  Ólíkt Central Park þá þarf Laugardalurinn að búa við það að stöðugt er verið að gæla við byggingaáform á grænu svæðunum í dalnum.

  Nú síðast komu fram hugmyndir um nýbyggingar meðfram Suðurlandsbrautinni. Þessar nýbyggingar voru spyrtar saman við hugmyndirnar um samgönguásinn. Það er skiljanlegt að marga dreymi um að byggja í Laugardalnum. Eftirsóknarverðara byggingarland finnst varla á landinu öllu.

  Það er kominn tími til að borgayfirvöld taki af skarið og geri mönnum ljóst í eitt skipti fyrir öll að Laugardalurinn er ekki og verður ekki byggingarlóð.

 • Runólfur Ágústsson

  Við vorum einmitt í göngutúr um Laugardalinn og Grasagarðinn áðan. Dalurinn býður upp á mikla möguleika en öfugt við Central Park er hann bútaður niður í mismunandi afgirta reiti sem hver á að þjóna ákveðnu hlutverki, en mynda ekki samstæða heild.

  Hitt sem vekur athygli er það sérkennilega skipulag að hægt sé að keyra bíl inn í miðju dalsins og að besta og miðlægasta svæði hans sé undirlagt undir risavaxin bílastæði sem flæða þara út yfir allt og ekkert. Væri ekki nær að hafa þau í jörðrunum á Dalnum?

 • Helgi Gunnars

  Laugardalurinn er frábær blanda af svæði til almennra nota, íþrótta og fræðslu. Það má ekki skerða hann meira með nýbyggiongum. Og ég styð hugmyndina um að fækka bílastæðum og bæta almenningsflutninga meðfram Suðurlandsbraut.

 • Dennis Davíð

  Hinn skjólgóði og gróðursæli Laugardalur hefur ekki aðeins þýðingu fyrir Reykjavík og nágrenni heldur landið allt. Hér er Þjóðarleikvangur Íslands og yfirbyggð keppnislaug. Þangað sækir fjöldi manns af öllu landinu og frá útlöndum. Nú eru þar t.d. Smáþjóðaleikarnir 2015. Það gefur því auga leið að samgönguásinn skiptir hér miklu máli eins og Hilmar bendir réttilega á. Hér þurfa að vera góðar og umhverfisvænar samgöngur sem tengja dalinn við borgina, landið og umferðarmiðstöðina.

 • Haukur Hauksson

  Ég er sammála því að laugardalurinn er glæsilegur. Þar eru græn svæði. Stígar. Tjörn. Staður þar sem er farið yfir sögu laugardals á smekklegan hátt þegar þvottakonur komu í laugar til að þvo.
  Kaffi Flóra er svo snirtilegt kaffihús sem fellur vel að umhverfi.

  En svo er það Klambratún. Sem er nær miðbænum og er það gagnstæða við laugardalinn. Á Klambratúni er engin þjónusta 95% af svæðinu. Jú það er körfuboltavöllur þarna sem er vel gert. Menn hafa sett niður frispígólf þarna í kring. En restirn er óbplægður akur. Ég held að það er gríðarleg tækifæri í að virkja Klambratún. Eða Miklatún einsog það hét áður en Jón Gnarr breytti nafninu.

  • Klambratún hét Klambratún áður en einhver ofvirki breytti nafninu í Miklatún.

   Sem betur fer var það leiðrétt.

   Vonandi fær ,,Katrínartún“ aftur að heita sína rétta nafni áður en langt um líður.

   Afleggjum þann sovéska sið að klína nýjum nöfnum yfir önnur gamalgróin.

 • Sigurður Guðmundsson

  Frábær mynd sem sýnir svæðið. En ein spurning: Hvar getur maður séð ítarlega umfjöllun um samgönguásinn og þessa „skipulags- og matsskýrslu“.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn